Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 13:53:07 (6497)

1998-05-12 13:53:07# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[13:53]

Steingrímur J. Sigfússon (frh.):

Herra forseti. Ég held þá áfram máli mínu, með góðfúslegu leyfi forseta. Ég var kominn þar í sögunni að ég var að fræða hæstv. iðnrh. á því að sú tilhögun sem lögð er til í stjórnarfrv. um jarðhitann gangi engan veginn upp. Ég vona að ég þurfi ekki að rifja það allt upp sem ég sagði fyrr í ræðu minni, herra forseti, því ég treysti því að hæstv. iðnrh. nái svona almennt að halda þræði og geti fylgst með hlutunum. Það er mjög mikilvægt. Ég treysti því að hæstv. ráðherra sé sérstaklega vel vaknaður núna um miðjan dag og skýr í hugsun, jafnvel fremur en endranær svona um miðjan daginn, þannig að ekki skorti neitt á það.

Þetta frv., herra forseti, vekur þeim mun meiri undrun sem maður skoðar það betur og þetta algjöra afsal á réttindum til landeigenda á öllu sem auðlindir geta talist eða orka. Það er með miklum endemum því að eins og ég fór yfir fyrr í ræðu minni og margir aðrir hv. ræðumenn hafa gert, þá eru í sjálfu sér engin knýjandi rök fyrir því af einu eða neinu tagi, þau eru hvorki réttarfarslegs eðlis né tæknileg eða pólitísk. Í raun er það þannig að stjórnarflokkarnir hafa ákveðið að gera þetta af því bara, þeir ætla að afhenda landeigendum þessi réttindi og þeir hafa ekki einu sinni fyrir því að rökstyðja það.

Auðvitað verða menn að bera ábyrgð á sinni pólitík og ef þessir hv. stjórnarliðar vilja fara niður á spjöld sögunnar fyrir að brjóta algjörlega í blað hvað það varðar að afsala almannaeigum til fámennra hópa í samfélaginu þá verða þeir að gera það. Og það má þess vegna letra það á legsteinana: Þetta er liðið sem gaf auðlindirnar örfáum einkaaðilum, t.d. þingmenn Sunnlendinga. Þeir mega mín vegna fara með það í gröfina sem sérstök eftirmæli eða reisa sér með því bautastein.

Herra forseti. En jafnvel þó svo að menn geti deilt um þessa pólitík er ástæða til að velta því fyrir sér hvort hlutirnir gangi yfirleitt upp með þeim hætti sem hér er lagt til. Og þar var ég einmitt kominn í sögunni hvað varðar jarðhitann að ég ætlaði að fara að ræða það aðeins nánar, herra forseti, hvernig það gangi að framlengja landamæri á yfirborði jarðar niður í iður jarðar og niður í jarðhitageyma --- og ég býð alveg sérstaklega velkominn hv. þm. Árna Johnsen, sem ætlar nú að fara að leggja jarðgöng til Vestmannaeyja, og er nú von að hv. þm. sé mættur hér til að fylgja slíkum stórmálum eftir. Og þá er kannski ástæða til fyrir menn að átta sig svolítið á þessu með jarðhitann og misgengin og sprungurnar. Það skyldi nú ekki eiga eftir að reynast pínulítill handleggur að glíma við þau mál öllsömul á Vestmannaeyjasundi eða hvað það nú heitir, spölurinn þarna milli lands og Eyja.

En aðeins um jarðhitann, herra forseti. Ég var að byrja að útskýra fyrir hæstv. iðnrh. hugtakið ,,skáborun`` af því að ég veit ekki hvort að iðnrh. hefur það fullkomlega á valdi sínu hvernig tækninni hefur fleygt fram í þeim efnum. Þetta er atriði sem skiptir miklu máli þegar kemur að þeim fáránleika, því ,,absúrdíteti`` að ætla að framlengja landamæri og einkaeignarrétt niður í iður jarðar, t.d. í jarðhitageymum.

Það er þannig, herra forseti, að menn leggja af stað með borholurnar yfirleitt lóðrétt niður, eins og skiljanlegt er. En síðan komust menn upp á lag með það að fleyga borinn til hliðar, þannig að hann breyti smátt og smátt um stefnu og leggi af stað út frá upphafspunktinum og í staðinn fyrir að fara lóðrétt niður, stefna inn á miðju jarðar, fer hann að beygja og endar jafnvel með því, ef vel er að verki staðið, að hann er lagstur lárétt. (Gripið fram í.) Í olíuiðnaðinum er það þannig, þó að ég viti að hv. þm. Árni Johnsen hafi aldrei heyrt um þetta, að menn bora hiklaust lárétt eftir jarðlögum svo nemur jafnvel þúsundum metra. Þetta skiptir heilmiklu máli. Þetta breytir því að menn eru ekkert bundnir af þeim yfirborðsstað sem þeir eru staddir á þegar þeir leggja af stað. Og eins og ég var t.d. að útskýra, ef maður hugsaði sér að olía fyndist í setlögum á Skjálfandaflóa þá gætu menn notað Flatey sem borpall en borað í allar áttir út frá henni þannig að þegar upp væri staðið væri nokkurra ferkílómetra svæði undir út frá þeim eina bletti.

En segjum nú svo að þetta séu ekki olíulinsur eða -jarðlög sem menn eru að reyna að bora í heldur jarðhitageymir. Og segjum sem svo að eigandi landsins á einum bletti --- við skulum segja Svartsengi --- hann leyfi borun á sínu landi og hann telst samkvæmt frv. ríkisstjórnarinnar eigandi að jarðhitanum undir landinu og alveg niður í iður jarðar. Síðan fara menn að beita þessari skáborunartækni þar, bora út undir aðliggjandi landsvæði og hefja svo að nýta geyminn. Þá er að tvennu að hyggja alveg sérstaklega í því sambandi. Það fyrra er að jafnvel þó að menn boruðu beint niður, þá er jarðhitageymirinn ekki stöðugt fyrirbæri, hann er ekki föst náma. Menn taka til við að dæla upp vatni eða gufu sem fer að streyma í staðinn inn í geyminn, í áttina inn að holunni til að fylla upp í það sem af er tekið. Það eyðist nefnilega sem af er tekið og eitthvað annað verður þá að koma í staðinn.

[14:00]

Það sem oftast gerist er að vatnsyfirborðið dregst niður, jafnvel svo skiptir hundruðum metra, og menn sökkva dælum ofan í holurnar og slaka þeim niður eftir þörfum til þess að ná til vatnsins. Þegar upp er staðið er kannski búið að draga niður vatnsyfirborðið svo nemur hundruðum metra. Dæmi eru þekkt um slíkt hér, að vísu kannski oftar í lághitageymum en háhita. Þá fer að streyma í auknum mæli vatn inn á svæðið og hvað gerist? Þá hefur vinnslan áhrif á geyminn, hann er ekki stöðugur, hann bregst við. Þau áhrif geta varðað fleiri en landeigandann sjálfan. --- Hæstv. forseti. Hvar er hæstv. iðnrh.?

(Forseti (StB): Hæstv. iðnrh. er í húsinu.)

Já. Ég hafði vonast til að hæstv. iðnrh. gæti fylgst með umræðunni því að ég er ekki viss um nema hann hefði bara gott af því. Ég gæti vel trúað að honum veitti ekkert af því. Hv. þm. Árni Johnsen staldraði stutt við en það var gott á meðan á því stóð. (Gripið fram í.) Ja, hv. þm. gjammaði nánast samfellt fram í á meðan hann var hér. Það er það mesta sem hann hefur lagt til málanna vikum saman.

Herra forseti. Ég tel mig geta sýnt fram á það, herra forseti, að þetta sé ekki alveg eins einfalt og aðstandendur frv. halda. Hæstv. iðnrh. gæti átt eftir að átta sig á því að nálgunin í frv. er ekki bara ósanngjörn eða fráleit hvað varðar þetta stórfellda réttindaafsal, það skortir ekki bara öll rök fyrir henni, hún mun skapa bullandi erfiðleika í framkvæmd. Í kjölfar þess að mönnum verður helgaður einkaeignarréttur af þessu tagi til jarðhita og háhita langt niður í iður jarðar munu menn gera kröfur sem menn hafa jafnvel ekki gert í dag af því að þeir hafa ekki endilega verið með það á hreinu að þeir ættu þennan rétt, jafnvel bara alls ekki talið sig eiga hann.

Ég ætla að nefna raunveruleg dæmi, og ég óska nú eftir því að hæstv. iðnrh. verði kallaður í salinn. Ég get út af fyrir sig gert aftur hlé á ræðu minni, herra forseti, ef það er nauðsynlegt. Ég er orðinn þjálfaður í því. Auk þess væri gaman fyrir hv. þm. Suðurnesja eða Reykn. að fylgjast með. Ég sé að hér eru tveir slíkir viðstaddir. En þau dæmi sem ég ætla að taka eru sum úr því ágæta kjördæmi.

Þetta er sem sagt þannig að menn bora alveg hiklaust, herra forseti, í dag til að nýta jarðhita allt niður á þrjú þúsund metra dýpi. Menn geta þar með skáborað svo nemur verulegum vegalendum til hliðar út frá upphafsstaðnum. Síðan taka menn til við að vinna úr þessum holum og reyndar er ástæða til að hafa það í huga að vatnið flytur yfirleitt varmann þegar um vinnslu á jarðhita er að ræða því að það er erfitt að ná varmanum út eða upp ef um þurrt berg er að ræða. Þau vandamál eru svo sem þekkt eins og í Kröflu blessaðri. En ef vatn er fyrir hendi þá kemur það yfirleitt einhvers staðar að. Staðreyndin er sú að vatnið sem verið er að vinna er oft langt að komið og ekki bara það heldur líka hundgamalt. Það féll á landið kannski einhvern tíma á Sturlungaöld eða guð má vita hvað. Það má auðvitað spyrja hver sé réttur þeirra sem áttu landið sem vatnið féll á? Einhvern tíma var kennt að vatnið sem væri verið að draga upp í Hitaveitu Reykjavíkur væri jafnvel að hluta til ættað alla leið frá Langjökli. Nú eru að vísu nýjar kenningar um að það sé kannski ekki að öllu leyti svo, að sumu leyti sé það ættað úr suðvestri ekkert síður en norðaustri. En hvað sem því líður er það ekki þannig að þetta sé uppspretta sem er að öllu leyti orðin til undir þeim bletti sem verið er að nýta hana á, það er ekki þannig. Þetta er ekki stöðug náma. Þetta er ekki föst náma og hún er ekki endilega endurnýjanleg. Hún bregst við nýtingunni og þá koma fram breytingar sem geta varðað miklu fleiri en þann eða þá sem eru að ástunda nýtingu á einum tilteknum bletti.

Við skulum taka eitt nýlegt og þekkt dæmi og það er vinnslan í Svartsengi. Svartsengi er þrátt fyrir allt ekki einangrað fyrirbæri heldur eitt af nokkrum háhitasvæðum eða afmörkuðum blettum á röð háhitasvæða sem liggja á Reykjanesskaganum. Næstu svæði við, t.d. Eldvörpin, eru í um fimm kílómetra fjarlægð frá Svartsenginu. Hvað hefur komið í ljós? Vinnslan í Svartsengi hefur heilmikil áhrif á Eldvörpin.

Segjum sem svo að þarna væri --- sem ég veit nú ekki reyndar hvort er að öllu leyti, það gæti verið --- ekki um sömu eigendur að ræða. Það er kannski þannig í þessu tilviki að Hitaveita Suðurnesja, eða hver það er sem á þetta, eigi þetta hvorttveggja en það skiptir ekki öllu máli. Jarðfræðilega er dæmið jafngilt fyrir því. Það hefur sem sé komið í ljós að vinnslan í Svartsengi hefur áhrif á geyminn í Eldvörpum. Það dregur eðlilega niður í holunum í Eldvörpum þegar dælt er upp í Svartsengi vegna þess að þarna er samgangur á milli og þegar vatnsflöturinn er dreginn niður með vinnslu og vatnsstreymi eykst inn í geyminn undir Svartsengi þá hefur það áhrif í kring.

Segjum sem svo að á þessum tveimur svæðum væru sitt hvor aðilinn á grundvelli leyfa eða samninga við sitt hvorn landeigandann að stunda nýtingu. Annar er kannski frekari til fjörsins en hinn og dælir hraðar upp úr svæði sínu, slakar dælunum niður, dregur vatnið meira niður og gengur á hlut hins, dregur til sín varmann úr geymi hins. Og jafnvel það sem verra væri, hann gæti farið að draga kalt vatn inn í æðarnar vegna þess að hann tæki meira upp úr svæðinu en næmi varmaskiptunum og endurnýjuninni að neðan. Þá smákælist geymirinn niður og verður minna virði en áður var.

Dettur hæstv. iðnrh. ekki í hug eitt augnablik að þetta gæti skapað vandamál? Ef menn fara út í þann fáránleika á annað borð að ætla að framlengja frá yfirborði jarðarinnar og niður í jörðina einhver mörk, einkaeignarréttarlegs eðlis? Það er algjör þvæla.

Ég held að eina lausnin í þessu sé sú að draga þetta þannig að eingöngu sé um hófsamlegan nýtingarrétt í yfirborðinu að ræða, sem tengist einkaeign eða landareigin, en ríkið eigi síðan allt þar fyrir neðan. Þá er engin deila, þá er ekkert vandamál ef eigandinn er sá sami á alla orkuna eftir að niður í hina eiginlegu háhitageyma er komið.

Það er annað ágætt dæmi sem mér var líka sagt af. Það varðar nýtingu Hitaveitu Reykjavíkur á Reykjum. Það furðanlega hefur komið í ljós með vinnsluna í Mosfellssveit að hún hefur áhrif á holur uppi Kjós í 10 km fjarlægð. Menn urðu mjög hissa þegar þeir fóru að skoða í holu á Fremra-Hálsi í Kjós og það undarlega kom í ljós að vatnsborðið í holunni var þar niður við sjávarmál eða undir sjávarmáli. Svo fóru menn að fylgjast með þessu og mæla þetta og keyra þetta saman við aðra hluti úr umhverfinu og hvað kom í ljós? Vinnslan í Mosfellssveitinni hafði sýnileg áhrif á stöðuna í holunni í Kjós. Auðvitað mætti taka dæmin af þessum toga víða að.

Niðurstaðan er sem sagt sú, herra forseti, að þetta er ekki staðbundin auðlind. Hún er dýnamísk, hún bregst við nýtingunni og hún er þannig í eðli sínu að ekki er raun hægt að afmarka hana með neinum skynsamlegum eða vitrænum hætti. Ég held því að þessi nálgun sé öllsömul tómt rugl.

Ef eigandinn væri einn og hinn sami, sem er auðvitað langeðlilegasta fyrirbærið út frá mörgum fleiri sjónarmiðum en þessu einu, því tæknilega sem við getum kallað þetta eða jarðeðlisfræðilega þá skapar það engin vandamál. Þá er verkefnið það að leysa úr því hver er eðlilegur réttur þess sem á landið á yfirborðinu, hvernig á að tryggja stöðu hans innan eðlilegra og hófsamlegra marka. Það er gert með því að hann fái bætur fyrir jarðrask og óþægindi ef um slíkt er að ræða, með því að hann fái sanngjarnan og hófsamlegan nýtingarrétt sjálfur. Það held ég að sé bara eðlilegt sanngirnismál sem allir mundu taka undir. Hugsanlega, ef menn vilja ganga svo langt að segja að það geti verið eðlilegt að hann fái einhverjar tekjur af þessari nýtingu. En umfram skýrt afmarkaðan rétt, sem tengist eignarhaldinu á yfirborðinu, eigi ríkið afganginn.

Ég held reyndar að þróunin hafi í raun og veru verið sú að menn hafi verið að nálgast þetta án þess að nokkra leiðsögn væri að finna í lögum hér á landi á þessum nótum. Ég nefni þar til sögunnar fyrsta samninginn af þessum toga sem gerður var um nýtingu á jarðhita, eða a.m.k. einn af þeim allra fyrstu sem ég þekki til, á landi í einkaeigu. Það var þegar Hitaveita Reykjavíkur samdi um nýtingarrétt á Reykjum í Mosfellssveit. Hvernig var þá samið? Jú, það var akkúrat nákvæmlega með þessum hætti, að hitaveitan tryggði landeigendunum alveg skaðleysi gagnvart raski eða óþægindum sem þeir yrðu fyrir plús það að hitaveitan sá landeigendum sjálfum fyrir fullnægjandi vatni til eigin nota. Það var sanngjarnt og eðlilegt. En síðan virkjaði hún að öðru leyti réttinn og um þetta var einfaldlega gerður samningur. (Iðnrh.: Hitaveitan er ekki ríkið.) Þarna held ég að menn hafi gert mjög skynsamlegan samning, herra forseti. Hitaveitan er ekki ríkið, nei, mér er það ljóst. Hitaveitan er notandinn í þessu tilviki og það er væntanlega alltaf einhver notandi og einhver virkjunaraðili. Ég er ekki að tala fyrir því að það eigi að vera ríkið. Hæstv. iðnrh. má ekki misskilja þetta viljandi.

Það sem ég er að tala fyrir er að eigandi geymisins sé ríkið og að réttindi landeigandans á yfirborði séu afmörkuð vegna þess að allt annað er í raun og veru fáránlegt. Allt annað er della, steypa, eins og sagt er í dag. Auðvitað er það steypa að framlengja þúsundir kílómetra ofan í jörðina, línur á yfirborði jarðar langt inn í möttulinn. Það er algjör steypa. Ég skil ekki að mönnum skuli detta þetta í hug. Og að nálgast þetta ekki a.m.k. þannig að það sé einhver afmörkun þarna sett er aldeilis ótrúleg niðurstaða finnst mér.

Ég vísa t.d. til þess í þessu sambandi sem kom fram í máli hv. þm. Ragnars Arnalds í gær um að nánast alls staðar þar sem menn þekkja til, kannski með undantekningunni Frakklandi, í Evrópu a.m.k., þá eru einhver veruleg takmörk sett á réttindi landeigendanna á yfirborði. Það er bara svo eðlilegur hlutur sem nokkuð getur verið. Menn eru komnir langt út í skóg, langt út í mýri, ef þeir fara að blanda eignarréttarákvæðum og helgi einkaréttarins samanber stjórnarskrá saman við að menn geti ekki bara slegið eign sinni á einhverjar stórar spildur af þurrlendisyfirborði jarðarinnar heldur geti menn tekið sér sneið, fleyg, alveg bara inn að miðju. Það er gott á meðan þeir koma ekki út hinum megin, segi ég bara, þessir snillingar iðnrn. Að þetta sé sívalningur sem gangi í gegnum jörðina en ekki bara sneið niður í kjarna.

Nei, herra forseti, ég held að þetta sé ósköp einfaldlega þannig að það sé ákaflega óskynsamlegt út frá öllum efnisþáttum málsins að nálgast þetta svona, t.d. hvað varðar jarðhitageymana og háhitann. Ég get fært mörg fleiri rök fyrir þessu. Það liggur fyrir að hluti háhitasvæðanna í landinu er í hreinni og klárri einkaeigu, tilheyrir einstökum jörðum, einstaklingum, fjölskyldum eða jafnvel fyrirtækjum sem hafa keypt jarðir á svæðum þar sem eignarhaldið getur orðið nokkuð flókið og samsett, sem er auðveldlega hægt að hugsa sér. Það á væntanlega við að hluta til á Reykjanesinu, þar sem háhitasvæðin liggja í röð, hvert á fætur öðru, og landeigendur eru ýmsir. Mig minnir t.d. að það eigi við um Reykjanestána, sjálft Reykjanessvæðið og Eldvörpin. Nú, Krýsuvík, það er gott ef það er ekki eitthvað skrautlegt í kringum Krýsuvík. Kannski er ástæða til þess, herra forseti, að fara aðeins yfir það fyrir hv. þm. og hæstv. iðnrh. hvar þessi meintu háhitasvæði eru í landinu. Mönnum er tamt að tala um að þau séu öll uppi á öræfum og að mestu leyti í eigu ríkisins og þar af leiðandi skipti þetta engu máli. En það er nú ekki svo því að háhitasvæðin bæði sunnan til í gosbeltinu og nyrst í gosbeltinu eru niður í sveitum ef svo má að orði komast, niður í byggð.

[14:15]

Eins og ég geri ráð fyrir að hv. þm. viti er jarðhitinn aðallega bundinn við gosbeltin, virku gosbeltin sem eru Snæfellsnesið, Reykjanesskaginn og inn að Langjökli og megingosbelti frá Vestmannaeyjum í suðri og norður um til Öxarfjarðar og út á Melrakkasléttu í norðri. Reyndar má bæta við hliðrunarbeltinu norðan við Tjörnes, svæðinu frá Mánáreyjum og norður um til Kolbeinseyjar. Á þessum svæðum er hitinn, háhitinn og aðaljarðhitinn fyrst og fremst. Þetta eru helstu svæðin sem ýmist eru sannanlega háhitasvæði eða þá meint háhitasvæði eins og í sumum tilvikum á við undir jöklunum þar sem kannski er erfitt að sanna það beinlínis. Syðst er sjálft Reykjanessvæðið, þá koma Eldvörpin, síðan Svartsengi, svo Krýsuvík, síðan Brennisteinsfjöll. Hengillinn er í raun veru stórt svæði með nokkrum útsvæðum eða svo mætti segja ef t.d. það er skoðað að jarðhitans verður vart í Hveragerði, við Kolviðarhól, á Nesjavöllum og víðar. Geysir er háhitasvæði. Prestahnjúkur er háhitasvæði. Kerlingarfjöllin eru þekkt svæði. Í Hofsjökli eru talin háhitasvæði. Á Hveravöllum er frægt svæði sem allir þekkja. Í Mýrdalsjökli er óumdeilanlega mikill jarðhiti eins og vart verður við og menn þekkja lyktina af Jökulsá á Sólheimasandi eða öðru nafni Fúlalæk í því sambandi. Tindfjallajökull og Torfajökull eru hvor tveggja háhitasvæði. Við Blautukvísl er svæði, í Þórðarhyrnu. Grímsvötn eru þekkt hitasvæði. Köldukvíslarbotnar og Vonarskarð eru háhitasvæði, Kverkfjöll, Askja, Hrúthálsar, Fremri-Námur, Námafjall, Krafla og síðan þrjú svæði í Kelduhverfi og Öxarfirði, þ.e. Gjástykki, Þeistareykir og Öxarfjörður. Enn má telja líklegt að Kolbeinsey sé a.m.k. verulegt jarðhitasvæði og reyndar hafa verið að koma fram auknar upplýsingar um mikinn jarðhita á hafsbotni sums staðar fyrir norðan land.

Nokkur af þessum svæðum eru a.m.k. þannig í sveit sett, herra forseti, að eignarhald á landi á þeim eða í kringum þau er verulega samsett. Það mun eiga við um Reykjanesið og mun væntanlega eiga við um Geysi og reyndar er það vel þekkt. Gott ef þar hafa ekki geisað miklar deilur um eignarhald. Síðan gæti væntanlega sama átt við um háhitasvæðin fyrir norðan, ekki síst hið nýlega uppgötvaða háhitasvæði fyrir botni Öxarfjarðar. Það duldist mönnum lengi, falið í þykkum setlögum, en er ábyggilega það stórt að allmargar jarðir fyrir botni Öxarfjarðarins gætu átt þar hlut að máli.

Herra forseti. Þessi upptalning ætti að sýna mönnum að hér er af þó nokkru að taka. Það er ekki eins og verið sé að ráðstafa smámunum þar sem eru öll þessi svæði og orkan sem í þeim er fólgin og drjúgur hluti af óvirkjuðum orkuforða landsmanna. Einhvern tíma var slegið á það máli hversu mikil þessi orka væri og jafnvel hversu mikið heildarorkustreymið upp undir Ísland væri. Ég hef þær tölur ekki í höndunum en það er alveg ljóst, ef minni mitt svíkur ekki, að jarðvarmaorkan er stór hluti af hinum óvirkjaða forða landsmanna og kannski stærri hluti nú en áður var talið vegna þess að búast má við vaxandi andstöðu við ýmsar stórvirkjanir á vatnsföllum. Ólíklegt er að þær virkjanir sem áður voru á teikniborðinu verði nokkurn tíma samþykktar eins og þróun mála er í viðhorfum til umhverfismála hér á landi, að slepptum Framsfl. að vísu sem er handhafi forneskjunnar í þeim málum eins og kunnugt er. Þannig að háhitasvæðin eru þarna gífurlega mikilvæg.

Ég, herra forseti, ætla að nefna einn þátt enn til sögunnar. Hann varðar spurninguna um eignarhaldið. Það er spurningin um aðgang opinberra aðila að þessum málum. Menn hafa nefnilega fyrir sér dæmin um hvort tveggja. Menn hafa dæmin um að ríkið annist þetta, veiti leyfin og hafi yfirumsjón með þessum málum þar sem réttur landeigendanna er annaðhvort mjög takmarkaður eða ekki fyrir hendi. Þannig er það eins í mjög mörgum löndum. Hins vegar höfum við dæmi um að einkaaðilar hafi náð þessu í sínar hendur. Niðurstaðan af því er sú, segja mér t.d. menn sem eru vel að sér um framþróun vísinda á þessu sviði, að einkaeignarrétturinn verkar hamlandi í þessu sambandi, hann verkar letjandi. Hann dregur úr líkunum á því að orkan sé nýtt. Hann veldur því t.d. að að mörgu leyti er torveldara fyrir yfirvöld og fyrir vísindamenn að komast að upplýsingum um þessi mál.

Í Nýja-Sjálandi er kvartað undan því varðandi þau svæði sem einkaaðilum hafa verið fengin til afnota, enda hafa nánast allir skapaðir hlutir verið einkavæddir þar með miklum hörmungum, að nú komist menn ekki að upplýsingum um þau. Einkaaðilarnir læsa þær niðri hjá sér þannig að jarðhitarannsóknir í því landi eru farnar að líða fyrir þetta ástand.

Það er dálítið merkilegt að í guðs eigin landi, Bandaríkjunum, hafa menn valið að hafa þetta öðruvísi. Þar hafa menn einmitt haft stöðu ríkisins sterka til þess að ríkið hefði í höndunum þau tæki sem nauðsynleg væru til að ýta undir nýtinguna. Þannig getur ríkið tekið af skarið ef á þarf að halda gagnvart því að einkaaðilar lokuðu ekki á eða t.d. ætluðust til slíkra gífurlegra tekna af svæðunum að það verkaði hamlandi á mögulega framþróun og nýtingu á þessu sviði. Ég held að menn séu einnig á leið út í mýri með þessu frv. hæstv. iðnrh. þar sem staða ríkisins eða almannahagsmunanna er gerð allt of veik þarna. Einkaeigendur hafa út á þessi afdráttarlausu og fortakslausu réttindi sín, sem frv. gerir ráð fyrir, allt of mikið vald.

Það er reyndar athyglisvert, herra forseti, að í þessu ræfilslega frv., sem ekki er nú mikið að vöxtum er þó greinargerðin einna aumingjalegust, að í svona stóru máli að hún skuli ekki ná þremur blaðsíðum. Það vottar ekki fyrir því að menn reyni að rökstyðja málið, fara yfir lagalegar hliðar þess, réttarstöðuna eða annað slíkt.

Þar er þó ein athyglisverð málsgrein neðst á bls. 9, sem ég held að sé ástæða til að staldra aðeins við í þessu sambandi. Þar er talað um, reyndar með afar sérkennilegum hætti að mínu mati, að það verði að telja hæpið að staðist fái að aðskilja eignarrétt á tilteknum auðlindum frá eignarlandinu, og síðan segir: ,, ... einkum þegar litið er til þeirra viðhorfa sem mótast hafa til eignarréttinda hér á landi og fylgt hefur verið við mótun löggjafar og í framkvæmd ...`` Þetta tel ég að ýmsir hafi hrakið. Þar á meðal eru löglærðir menn í hópi alþingismanna sem hér fluttu merkar ræður í gær, þingmenn eins og hv. þm. Ragnar Arnalds og Bryndís Hlöðversdóttir.

Hér neðar í þessari umfjöllun segir:

,,Sem rök fyrir því að ætla ríkinu eignarráð háhita hefur það sjónarmið verið uppi að vinnsla slíks jarðhita væri kostnaðarsamari en svo að það væri almennt á færi einkaaðila að leggja út í slíka vinnslu. Þó að vissulega megi telja að slíkt kunni að eiga við í ýmsum tilvikum er þó ekki ástæða til annars en ætla að fyrirtæki á sviði stóriðnaðar og aðrir fjársterkir aðilar væru í hliðstæðri aðstöðu til að virkja slík háhitasvæði og þá á grundvelli samninga við viðkomandi rétthafa.``

Hér er mjög merkilegur boðskapur á ferð ef lesið er út úr því það sem ég held að óhjákvæmilegt sé að gera. Hæstv. iðnrh., Framsfl., er sem sagt þeirrar skoðunar að það sé í raun og veru best að einkavæða algjörlega þessa orkuöflun. Annars vegar skal afhenda einstaklingum eða einkaaðilum réttindin og hins vegar fela einkaafyrirtækjum, fjármagnsfyrirtækjum, að sjá um virkjanirnar. Þar með séu ekki lengur fyrir hendi eða brostnar röksemdir fyrir því að ríkið þurfi yfirleitt að eiga aðild að þessum málum. Ég get ómögulega lesið þetta öðruvísi. (Gripið fram í.) Ja, hvað er þá verið að segja þarna, hæstv. iðnrh.? Ég óska eftir því að það sé útskýrt. Það er verið að hafna því sem röksemd, sem kunni að hafa verið gild áður en sé það ekki lengur, að ríkið eigi að vera aðili að þessum málum og eiga réttindin vegna þess að það eitt hafi bolmagn til að virkja þau. Þar á móti er nefnt að það eigi ekkert að vera því til fyrirstöðu að fyrirtæki á sviði stóriðnaðar --- gæti það t.d. verið Norsk Hydro? --- og aðrir fjársterkir aðilar væru í hliðstæðri aðstöðu til að virkja slík háhitasvæði.

Mér sýnist það í raun og veru sú framtíðarsýn sem hér er boðuð. Ég tek það að vísu skýrt fram, herra forseti, að rökin fyrir því að ríkið eigi þessi réttindi eru að mínu mati miklu víðtækari en þetta og mörg önnur sem vega jafnvel þyngra en svo.

Út af fyrir sig geta stórir og sterkir iðnaðarrisar eða auðhringar auðvitað haft bolmagn til að gera þetta. Við vitum að þeir hafa það auðvitað. Spurningin snýst ekki um það heldur hvernig við viljum standa að þessu. Ættum við ekki að stefna að því að almenningur í landinu njóti arðsins? Hvernig ætla menn að ná utan um það mál ef öll réttindin hafa verið afhent einkaaðilum, landeigendum, og nýtingarrétturinn er svo seldur í hendur stórfyrirtækjum, iðnaðarfyrirtækjum, sem gera samninga beint og milliliðalaust við landeigandann? Hér er verið að segja að þetta muni ganga fyrir sig án nokkurrar aðildar opinberra aðila. Það er það sem hér er sagt, nema að nafninu til eitthvert leyfi sem liggur væntanlega á lausu í iðnrn. ef maður þekkir þá rétt á þeim bæ.

Herra forseti. Að mínu mati eru þetta nokkuð áhugaverðir hlutir sem ástæða væri til að fara aðeins betur ofan í. Er það þá kannski þannig þegar upp er staðið að einn anginn af þessari málafylgju hjá hæstv. ríkisstjórn sé hin blinda stóriðjueinkavæðingaráhersla ríkisstjórnarinnar? Það skyldi nú ekki vera, að á bak við þetta orðalag leyndist sú hugsun að næsta stórverkefni eða þar næsta að verði að fá erlendan auðhring til þess að semja um nýtingarréttinn á einu háhitasvæðinu? Eitt stykki háhitasvæði. Er verið að ganga þannig frá málum að það sé í höndum landeigandans að gera þá samninga sem til þurfi að fenginni uppáskrift frá iðnrn. og basta? Allt sem heitir aðild almannahagsmuna ríkisins eða tekjur af henni í gegnum eignarráð ríkisins á auðlindinni er þá farið veg allrar veraldar.

[14:30]

Herra forseti. Það kann vel að vera að röksemdafærsla af þessu tagi eða yfirferð eins og mín hér í sambandi við jarðhitamálin skipti engu máli, að það sé alveg sama hvaða rökum er haldið fram og upplýsingar eru hér færðar, að málið liggi ekki þannig að það standi til að taka mark á því og ég óttast reyndar að svo sé. Hæstv. iðnrh. hefur því miður forherst talsvert í sínum störfum á undanförnum missirum. Ég held því miður að hæstv. iðnrh. hafi ekki alveg ráðið við það að eitt eða tvö álver komu allt í einu upp í fangið á honum. Annað var nú reyndar að mestu leyti frágengið og umsamið af krötum áður en hæstv. ráðherra tók við embætti (Iðnrh.: Það var Keilisnesið.) Var það ekki í Straumsvík? Er ekki verið að stækka eitthvað þar, hæstv. iðnrh.? (Gripið fram í: Búið.) Það fór einhvern veginn þannig með hæstv. iðnrh. að hann hefur ekki verið í almennilegu jafnvægi eiginlega síðan. Hann fór nánast á stóriðjufyllerí ef svo má að orði komast og það var bara raðað upp listunum af stóriðjum. Farið var fram og til baka um landið. Það var olíuhreinsunarstöð hér og álver þar og alls konar fabrikkur út og suður. Mér sýnist að einhvern veginn sé það þannig að við þetta hafi hæstv. ráðherra dálítið forherst og að erfitt sé orðið að fá hann niður á jörðina aftur til þess að taka við rökum. Fyrir nú utan það að við vitum hvernig ástatt er með hæstv. ríkisstjórnina og höfuðið eða höfuðin og það er víst ábyggilegt að óvenjuvel á við það fornkveðna nú um stundir að eftir höfðinu dansi limirnir. Það er ekki í tísku að því er virðist að nálgast málin út frá þeim sjónarhóli hjá hæstv. ríkisstjórn að það sé einhvers virði að ná fram um þau samkomulagi og að ástæða sé til að hlusta mikið á önnur sjónarmið en þau sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að séu rétt í þessum efnum. Ég satt best að segja óttast að svo sé um þetta mál. En það verður þá auðvitað bara að koma í ljós og hafa sinn gang. Það breytir ekki hinu að ég tel að okkur þingmönnum sem höfum önnur sjónarmið í þessum efnum sé ekki bara rétt heldur beinlínis skylt að láta þau koma fram og láta þau liggja fyrir og reyna að gera þá eins vel grein fyrir þeim mun sem þarna er á og okkur er kostur þannig að það liggi þá a.m.k. fyrir.

Ég tók eftir því hvernig hv. þm. Ragnar Arnalds hagaði orðum sínum í gær. Sumpart færði hann það fram sem rök fyrir sínum málflutningi að hann teldi að þessa hluti þyrfti að taka saman og láta þá liggja fyrir á einum stað og koma þeim skýrt og skilmerkilega skráðum niður á blað. Og þar sem það hefði ekki verið gert af hálfu aðstandenda frv. þá tók hv. þm. það að sér hvað varðaði sem sagt hina lögformlegu eða réttarfarslegu hlið málsins. Ég er mjög sama sinnis og hv. þm., að það er þó alltént til bóta að þessir hlutir hafi legið fyrir. Ég vil a.m.k. að sú fjarstæða sem ég tel vera hér á ferðinni hvað varðar námur djúpt í jörðu og jarðhitann, að það liggi algerlega skýrt fyrir af minni hálfu að ég hafi varað við þessari vitleysu og í raun þeirri ósvinnu sem ég tel þarna vera að gerast. Sérstaklega er ég nú að hugsa um framtíðina í landinu, barnanna og barnabarnanna okkar og komandi kynslóða og þess ókomna og þess óuppgötvaða, af því að þetta frv. er ekki bara merkilegt vegna þess hvernig það er sem slíkt í núinu, afdráttarlaust að öllu leyti. Það er kannski enn þá merkilegra vegna þess að þessir herrar, snillingar, ætla að ganga frá þessu um aldur og ævi. Um ókomin ár skal það vera svo að sú skipan sem Framsfl. og Sjálfstfl. með sínu handjárnaða liði á Alþingi ætlar að þröngva í gegn á vordögum 1998 skal gilda fyrir land og þjóð, aldir og árþúsund fram í tímann fari svo að þjóð lifi í þessu landi svo lengi. Og menn eru nú ekki litlir karlar að ganga svoleiðis frá þessu. Þetta gera menn m.a. með því að setja undir allan leka hvað varðar hluti sem kunna að koma í ljós síðar, jarðefni sem kunna að finnast síðar og reynast verðmæt eða orkuform sem kynnu að reynast vinnanleg úr jörðu. Það er hugsanlegt t.d. að jarðlög gætu orðið orkugeymar eins og sumir hafa látið sér detta í hug. Það voru uppi miklar pælingar á árum áður um það hvort hugsanlega væri hægt að geyma orku í formi segulmagns eða rafmagns í einhvers konar jarðvegsrafhlöðum, berglaga rafhlöðum, með því að hlaða upp einangraðar en stórar spildur niðri í jörðunni og nota þetta sem orkuforða, orkugeymi, orkujafnara.

Enginn veit á þessu stigi málsins hvert tækni og vísindi eiga eftir að bera komandi kynslóðir og hvernig jörðin, yfirborð jarðarinnar og þaðan af síður það sem undir er, á eftir að spila inn í þá hluti. Það væri fjarstæðukennt að halda því fram að menn sæju slíka hluti fyrir í dag. Bara með því að líta til þróunar vísindanna sl. 10--100 ár sjáum við hversu óralangt menn voru frá því þá að átta sig á öllu því sem getur gilt í dag. En það veldur þeim nú ekki áhyggjum hér, höfðingjunum sem eru að negla þetta niður um aldur og ævi að því er best verður séð með þessari löggjöf eins og hún er úr garði gerð að allt skuli tilheyra landeigandanum, þeim sem á yfirborð jarðarinnar, sem af hvaða tagi það er, í hvaða formi það er, hversu langt niðri í jörðunni það er o.s.frv. Þetta, herra forseti, er nú nokkuð merkilegt.

Ég hef, herra forseti, kannski ekki farið mjög mikið út í lagalega hlið málsins enda, eins og ég sagði, aðrir búnir að gera það mjög rækilega á undan mér og vel og ég tel að þessi umræða hafi verið stórmerk að ýmsu leyti hvað það varðar að það hefur verið lögð mikil vinna í ræður. Það heyrir maður. Menn hafa verið í gagnasöfnun, heimildarýni, vitna hér fram og til baka í ýmsar heimildir, bæði innlendar og erlendar og ég verð að segja alveg eins og er að ég hef gaman af því. Mér finnst vænt um það þegar umræðan af og til reisir sig þannig á efnislegum forsendum að fluttir eru inn í hana hlutir sem eru fræðandi og upplýsandi og eiga fullt erindi. Auðvitað gerist hitt stundum að hún er kannski ekki á eins háu plani og endranær, ef svo má orða það, svo notuð séu nú ummæli nýlega látins höfðingja.

Í staðinn fyrir lögfræðina, herra forseti, langar mig að fara nokkrum orðum um pólitíkina í málinu, um spurninguna um grundvallaratriðin. þ.e. um spurninguna um einkaeignarréttinn versus almannahagsmunina. Við erum auðvitað að tala um hluti sem koma inn á það. Ég verð að segja að mér finnst röksemdafærslan í greinargerðinni að þessu leyti vera ótrúlega blind, ótrúlega þröng, þegar gengið er svo langt að líta á einkaeignarréttinn með vísan til stjórnarskrárinnar um vernd hans eins og algjörlega heilagt, ósnertanlegt fyrirbæri sem sé öllu öðru æðra. Það er í raun og veru það sem þetta byggir á. Nú er þetta auðvitað lögfræði sem ekki stenst. Það vitum við vegna þess að hið gagnstæða er auðvitað svo rækilega staðfest á ýmsan hátt að einkaeignarréttinum eru settar skorður. Hann er ekki altækur. Hann ryður ekki öllu öðru sjálfkrafa til hliðar. Þannig er um öll einstaklingsbundin eða persónubundin réttindi að þó að þau séu helg og vernduð í stjórnarskrá sem slík, hvort heldur í íslensku stjórnarskránni, þeirri amerísku eða einhverjum öðrum, þá er án undantekninga líka ákvæði um það hvernig almannahagsmunir, hvernig í almannaþágu, megi setja slíkum einstaklingsbundnum eða persónubundnum réttindum skorður, enda er ekki annað hægt. Hið siðaða samfélag stenst ekki nema almannarétturinn sé sterkur og geti sett einkaréttinum skorður. Það er augljóst mál. Ef þetta væri öfugt, ef þetta væri eins og höfundar greinargerðar frv. virðast halda að þetta sé, þá værum við bara í frumskóginum, þá væri það bara frumskógarlögmálið sem gilti. Nei, það er auðvitað þannig, herra forseti, að jafnvel helgustu persónubundnum eða einstaklingsbundnum réttindum eru líka settar skorður því annars gerist það að einn nýtir sín réttindi á kostnað annars og gengur þá á rétt hans og takmarkar hann. Það að miðla málum milli þessara hluta er auðvitað hið vandasama verkefni að tryggja helgi persónubundinna eða einstaklingsbundinna réttinda, þar með talið auðvitað einkaeignarréttsins, en um leið ganga þannig frá hlutunum að almannarétturinn, almannahagsmunir séu ekki fyrir borð bornir og það þýðir auðvitað að setja verður þessum réttindum einstaklinganna ákveðnar, tilteknar skorður. Þau eru afmörkuð.

Við getum tekið tjáningarfrelsið sem dæmi. Einhver allra heilagasti réttur sem um getur er að fá að tjá hugsun sína í orðum eða skrifum. En jafnvel ekki þessi heilagi réttur er ótakmarkaður því þá værum við farin að ganga á réttindi annarra, t.d. farin að brjótast inn á friðhelgi þeirra einkalífs og því eru tjáningarfrelsinu settar skorður þó það sé auðvitað afar vandasamt verk og menn reyni að fara þar mjög varlega til að það snúist ekki upp í andhverfu sína og verði að kúgunartæki.

Þetta finnst mér nú, herra forseti, vera svo augljóst að ekki ætti að þurfa að birtast á borðum þingmanna stjórnarfrv. sem er í raun eins barnalegt hvað röksemdafærslu snertir og ég tel að þessi fátæklega umfjöllun um eignarréttinn að auðlindum í jörðu í eignarlandi á bls. 9 sé. Ég kalla þetta barnalega röksemdafærslu, fyrir nú utan hvað hún er aumingjaleg og lítil, að það skuli vera látið nægja að afgreiða þetta stórmál í nokkrum línum í staðinn fyrir að þarna sé færð fram almennileg, heildstæð reifun og úttekt á málinu og sjónarmið og gagnsjónarmið leidd fram. Það væri meiri manndómsbragur að því.

Ég hef áður, herra forseti, lýst forundran minni á því hversu ræfilslega þetta frv. er úr garði gert og lítil vinna, að því er best verður séð, virðist liggja þar á bak við, auðvitað fyrst og fremst af aðstandendum frv. Ég verð að segja einnig að að mínu mati hefði meiri hlutinn í hv. þingnefnd mátt standa sig betur í því að reyna að draga þessi sjónarmið fram þótt úr því hafi verið verulega bætt í málflutningi margra þingmanna stjórnarandstöðunnar sem hafa komið með mjög gagnleg erindi um þetta efni.

Herra forseti. Það er líka stutt í grundvallarmálin þegar menn velta því fyrir sér, burt séð frá þessum lagalegu eða réttarfarslegu hliðum, hreint pólitískt, hvernig menn vilja hafa þetta. Hvaða pólitísku stefnu vilja menn hafa í þessu máli? Það er hlutur sem menn mega ekki alveg missa fyrir borð. Við getum haft skoðun á því, burt séð frá öllum lögformlegum atriðum, hvernig við vildum að þetta væri. Hvernig vildu hv. þm. hafa þetta ef þeir t.d. kæmu að landinu ónumdu og það væri enginn réttur og við þingmenn stæðum yfir því verkefni á Alþingi þessa dagana að móta réttinn frá grunni? (PHB: Séreignarrétt.) Mundu menn þá vilja, eins og hv. þm. Pétur Blöndal er svo vinsamlegur að kalla fram í, hafa þetta séreignarrétt? (PHB: Að sjálfsögðu.) Láta þá einhverja einstaklinga, kannski þá sem fyrstir komu eða þá sem væru frekastir og hefðu troðið sér á olnbogunum fram úr hinum, eiga háhitann, og ekki bara á yfirborðinu heldur niður í iður jarðar. Er það virkilega svo að menn trúi því að það sé gáfulegasta fyrirkomulagið? Telja menn þá að jafnvel ekkert eigi að vera í sameign, að engar almannaeignir eigi að vera til, það eigi að skipta þessu öllu upp og þess vegna misjafnt, þannig að sumir hafi mikið en aðrir lítið? Eða sumir eigi allt og aðrir ekki neitt? Ég verð að segja alveg eins og er að þegar kemur að þeim undirstöðuþáttum samfélagsins sem það byggir á, eins og landinu og lífríkinu og auðlindunum, þá skil ég ekki slíkan hugsunarhátt. Mér er hann algjörlega óskiljanlegur, þ.e. að það skuli geta verið eðlileg hugsun út frá grundvallarviðhorfum um dvöl mannkynsins á jörðunni og sem hluta af náttúrunni að þetta eigi að skiptast upp og menn eigi að geta slegið eign sinni á þessa hluti. Mér finnst það alveg ótrúlegt, herra forseti.

[14:45]

Ég hlýt að taka þessu frv. þannig að það sé pólitískur vilji stjórnarflokkanna að hafa þessa einkaeign því ég held þetta sé engin tilviljun, slys eða einhver vanhugsun. Það er auðvitað eðlilegt að Sjálfstfl. sé ánægður með þetta mál í því ljósi, ég tala nú ekki um hv. þm. Pétur Blöndal sem er alveg sérstaklega heiðarlegur og hreinskiptinn hvað það snertir að hann gengst svo skemmtilega við grundvallarviðhorfum sínum í þessum efnum. Það er auðvitað til fyrirmyndar þegar menn ræða málin að þeir komi til dyranna eins og þeir eru klæddir en séu ekki að dulbúa afstöðu sína eða hnýta einhverjar slaufur utan um hana. En þetta er dálítið merkilegra þegar kemur að Framsfl. --- og þó veit ég það nú ekki, því ég held það hafi nú stundum verið meira í nösunum á þeim en í alvöru að þeir hafi verið svona miklir samvinnumenn eða félagslega þenkjandi, enda er það lítið notað nú til dags í Framsfl. satt best að segja, slík termínólógía. Það er algerlega hætt að heyrast að Framsfl. sé til vinstri, vinstra megin við miðju eða eitthvað því um líkt, og allt er betra en íhaldið, ég hef ekki heyrt það í mörg, mörg ár. Ekki frá framsóknarmönnum. Samvinnuhugsjón og samvinna manna um hlutina, það er voðalega sjaldan núorðið sem það heyrist frá Framsókn. Nei, nú er það einkavæðing, erlend stóriðja og hlutir af því tagi þar sem Framsfl. veður í flórinn til að moka hann fyrir íhaldið og þeir sitja glottandi uppi á bitunum í fjósinu og fitna. Þannig er það. Og framsóknarráðherrarnir eru í hverju málinu á fætur öðru að láta drauma Sjálfstfl. rætast. Hvað er hæstv. félmrh., blessaður karlinn að gera í húsnæðismálunum annað en láta áratugadrauma Sjálfstfl. um að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið rætast? Og nákvæmlega það sama er á ferðinni hér hjá hæstv. iðnrh. að auðvitað eru óskir, mér liggur við að segja öfgafyllstu séreignarsinnanna í Sjálfstfl. að rætast í þessu máli. Það er alveg ljóst því verið er að geirnegla það gersamlega að einkaeignin á þessum auðlindum og netlögum og hvað það nú er verði eins sterk og hugsast getur, eins og nokkur leið er að ganga frá henni í löggjöf. Það er út af fyrir sig heilmikið grundvallarmál og tíðindi, herra forseti. Ég held að hin ólíku grundvallarviðhorf kristallist nokkuð vel í þessum málum, annars vegar í þessu stjórnarfrv. og hins vegar t.d. í þeim þingmálum um sama efni sem við þingmenn Alþb. og óháðra höfum flutt og einnig að nokkru leyti í frv. sem þingmenn Alþfl. eða jafnaðarmanna hafa flutt. Þá er lærdómurinn einfaldlega sá, herra forseti, að Framsfl. er bara skúffa í Sjálfstfl. Hann er bara ómerkileg skúffa í Sjálfstfl. í þessum málum, einhvers staðar bara inni í miðri kommóðunni og skiptir því litlu máli hvað þú dregur út. Það er enginn greinarmunur á nálgun Framsóknar í hverju málinu á fætur öðru sem menn hefðu þó haft tilhneigingu til að leita eftir, a.m.k. einhvern tímann fyrr á öldinni. Framsfl. og fólkið í fyrirrúmi --- það þarf nú að fara að rifja það upp aftur fljótlega hvernig þeir hlutir hafa gengið fyrir sig hjá blessaðri Framsókninni. (Gripið fram í: 12 þúsund störfin.) 12 þúsund störfin sem Framsókn hefur búið til eigin hendi. Lengi vel lá fyrir að ríkisstjórnin hafði búið til eitt prestsembætti, það var nú aðalstarfið sem hægt var að rekja beint til hæstv. ríkisstjórnar. Búið var til sendiprestsembætti í Evrópu, ef ég man rétt. Það var sannanlega starf sem ríkisstjórnin bjó til, það er ljóst. En það var bara eitt starf, ekki 12 þúsund þó að góðæri í efnahagsmálum og gott árferði í sjávarútveginum hafi skilað okkur batnandi hag á nýjan leik sem betur fer eftir langt erfiðleikaskeið og því hafi fylgt vaxandi fjöldi starfa. Ég segi nú bara, skárra væri það nú.

Það er ekkert verið að rífast um það að Íslendingar hafa verið blessaðir af ágætis góðæri að ýmsu leyti. (Gripið fram í.) Nei, hún er ekki mjög góð, satt að segja, (Gripið fram í: Fólk í fyrirrúmi.) Hvaða fólk er í fyrirrúmi? Við skulum aðeins huga að því. (Gripið fram í.) Ég held að það sé t.d. ekki fólkið í félagslega húsnæðiskerfinu og ég held ekki almenningur í landinu gagnvart því að hagsmuna hans sé gætt t.d. í máli af þessu tagi. Hverra hagsmuna er hér verið að gæta? Er það allur almenningur í landinu? Er hægt að segja að fólkið sé almennt í fyrirrúmi þegar á að afhenda einkaaðilum og fáeinum aðilum sem eiga yfirborð landsins allan háhitann á Íslandi? Það er auðvitað svoleiðis úti í hafsauga að kalla það nálgun af því tagi að þar sé fólkið eða almannahagur hafður að leiðarljósi. Auðvitað hefur þessi ríkisstjórn ekkert annað að grobba sig af en þetta góðæri sem er að mestu leyti ytra góðæri og í sjálfu sér ákaflega barnalegt að skrifa það sérstaklega á reikning þessarar ríkisstjórnar. Það má segja að ýmislegt hafi tekist betur í efnahagsstjórninni frá og með því að það þrekvirki var unnið að ráða niðurlögum verðbólgunnar og innleiða efnahagslegan stöðugleika sem voru óumdeilanlega hin stóru tímamót í þessum efnum og verður minnst á spjöldum sögunnar sem slíkra þannig að það sem á eftir kemur verður talið skipta miklu minna máli en þau stóru vatnaskil í efnahagsstjórninni sem þá urðu. (Iðnrh.: Atvinnuleysið jókst.) Það var nú aðallega á síðasta kjörtímabili sem atvinnuleysi jókst, hæstv. iðnrh. Það vill svo ótrúlega til að Framsókn var þá í stjórnarandstöðu um skeið en það er líka eina stjórnarandstaðan sem Framsókn hefur verið í í minni núlifandi manna í þingflokknum og er því ekki af miklu að stæra sig. Ætli Framsókn verði þá ekki líka að líta á ábyrgð sína á því þegar þessir hlutir fóru niður og allt var á leið til fjandans? Það er nú svo, herra forseti.

Að síðustu langar mig aðeins að velta því fyrir mér, herra forseti, af hverju það gerist hérna í hverju stórmálinu á fætur öðru að þau eru til umfjöllunar og afgreiðslu í því andrúmslofti sem raun ber vitni. Það er um þau grenjandi ósamkomulag. Það er ekki andrúmsloft til að vinna sameiginlega að því að lagfæra málin og ná fram einhverri samstöðu heldur er þannig hugsunarháttur ríkjandi hjá þeim sem með völdin fara að þá skiptir engu máli, að því er virðist, þótt svona stórmálum sé þröngvað í gegn við slíkar aðstæður. Það virðist ekki skipta hæstv. ríkisstjórn neinu máli. Valdhroki hennar er orðinn slíkur, stjórnlyndi og einræðistilhneigingar að það virðist ekki skipta hæstv. ríkisstjórn máli í raun og veru hvort andstaðan er meiri eða minni, hversu hörð hún er, innan þings eða utan. Ef hæstv. ríkisstjórn og þá sérstaklega höfuð hennar hefur ákveðið að eitthvað skuli afgreitt, þá er það afgreitt. Ef hæstv. ríkisstjórn ákveður að einhverjum stjórnarfrv. hversu vitlaus sem þau eru skuli ekki breytt, þá er þeim ekki breytt. Og það breytir engu með hversu gildum rökum sýnt er fram á fáránleikann, þau skulu fara óbreytt í gegn. Stjórnarliðar sjálfir hafa meira að segja vitnað um það þegar menn hafa verið komnir út í hluti af því tagi, að það var fáránleikinn sjálfur. Það breytir engu. Mjög athyglisvert dæmi um þennan valdhroka var á ferðinni fyrir síðustu helgi í umræðu um frv. um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum. Einn af fyrstu mönnum sem talaði í 1. umr. um það mál var hv. 1. þm. Vestf., Einar K. Guðfinnsson. Hvað hafði hann fram að færa í ræðustóli? Hann óskapaðist yfir því hvað þetta frv. væri vitlaust og hvers vegna í ósköpunum menn væru að leggja þessa hluti til og í þingnefnd var alveg ljóst að þetta var meingallað mál. Og ef ekki hefði verið skynsamlegast að fella það bara eins og það lagði sig og gera ekkert, hefði í öllu falli verið alveg bráðnauðsynlegt að gera á því miklar breytingar. En skilaboðin bárust frá æðstu stöðum: Höfuð ríkisstjórnarinnar höfðu ákveðið að engar breytingar yrðu gerðar á þessu máli. Þá sigu skottin öll niður og við það sat. Og svona, herra forseti, virðist mér þetta ætla að verða í hverju málinu á fætur öðru. Þetta er auðvitað ákaflega dapurlegt. Eitt er að gera hér upp pólitískan ágreining sem auðvitað getur þurft að gera alltaf af og til og útkljá þau mál á eðlilegan hátt, enda hafi menn sæmilega sannfæringu fyrir því að hlutirnir hafi verið skoðaðir í botn og ekkert annað sé eftir en ganga frá einhverjum álitamálum pólitísks eðlis sem ekki hafi náðst samkomulag um. En það er víðsfjarri því í mörgum tilvikum hvað varðar frv. hæstv. ríkisstjórnar, sem hér eru til umfjöllunar nú, að svo sé. Ég fullyrði að það er margt t.d. í þessu máli sem er hreint tæknilegs eðlis eða praktískt sem alls ekki hefur fengið þá skoðun sem það þyrfti að fá og sem í raun og veru væri tiltölulega auðvelt að lagfæra ef vilji væri fyrir hendi um að vinna málin með þeim hætti.

Herra forseti. Mér finnst það ansi dapurlegt þegar í hlut eiga söguleg stórmál af þessu tagi eins og ég leyfi mér að kalla þetta frv. því að viðfangsefni náskyld þessu hafa orðið mönnum tilefni til mikillar umfjöllunar og umræðna af og til alla þessa öld eins og hér hefur verið rifjað ágætlega upp. Það er nú ekki eins og hjá öðrum þjóðum þyki þetta lítið mál. Í Noregi til að mynda tók áratugi að vinna grundvallarvinnuna sem laut að því að draga mörkin milli einkaeignar á landi og ýmsum tengdum réttindum og því sem skyldi teljast eign ríkisins eða konungsins eða vera almenningar o.s.frv. Sú vinna tók marga áratugi í Noregi og henni lauk með nefndarstarfi í Finnmörku á sjötta og sjöunda áratugnum, ef ég man rétt, en hún hófst í byrjun aldarinnar og þá á svæðum sunnar í Noregi. Þar nálguðust menn þetta mál þannig að þetta væri vandasamt stórmál sem skipti miklu fyrir þjóðina að ná sæmilegu samkomulagi um, menn yrðu þar af leiðandi að vanda sig og reyna að laða fram samstöðu umfram allt og ganga síðan frá málinu á sérlega vandaðan og yfirvegaðan hátt.

Ég lít á þetta mál af svipuðum toga. Ég lít á þetta sem mikilvægt grundvallarmál sem sé meira í ætt við grundvallarleikreglurnar í samfélaginu en einhver venjuleg praktísk álitamál sem við erum hér að afgreiða. Fyrir mér er þetta mál í rauninni skyldara hlutum eins og kosningalöggjöfinni, stjórnarskránni og ýmsum slíkum grundvallarþáttum þegar farið er að ganga frá því hvernig með land og auðlindir og annað slíkt skuli farið. Þetta eru því hlutir, herra forseti, sem mér finnst ekki sæmandi að afgreiða á þennan hátt. Mér finnst hæstv. ríkisstjórn, og hæstv. iðnrh. setja stórkostlega niður við að standa berskjaldaður með það frammi fyrir þjóðinni að hann ætli að lemja svona mál í gegn þrátt fyrir þá víðtæku andstöðu og þær skiptu skoðanir sem uppi eru um það og þrátt fyrir það hversu málið er hrátt og illa unnið. Mér finnst það mjög dapurlegt og einhver lélegustu eftirmæli sem menn geta gefið sjálfum sér.

[15:00]

Berum það nú saman við hitt að hæstv. ráðherra hefði unnið að þessu máli á þeim nótum sem hér var gert yfirleitt, ég hygg bara nær án undantekninga, fyrr á öldinni. Þá voru kallaðir til færustu sérfræðingar þjóðarinnar. Það áttu allir aðild að því starfi sem lá til undirbúnings málunum, fulltrúar allra flokka. En hverjir voru nú í nefnd um þetta mál, herra forseti? (Iðnrh.: Þetta lá allt fyrir.) ,,Lá allt fyrir``, segir hæstv. ráðherra. Heyrist hæstv. ráðherra að það liggi allt fyrir núna? Er það niðurstaða hæstv. ráðherra eftir að hafa hlustað á þessar umræður að það hafi allt legið fyrir? Eru þetta þá alvitrir spekingar sem hér voru settir í nefnd, (Gripið fram í.) hv. þm. Stefán Guðmundsson, hv. þm. Sturla Böðvarsson, Páll Gunnar Pálsson lögfræðingur og Tryggvi Gunnarsson hæstarréttarlögmaður? Þetta eru sjálfsagt hinir mestu snillingar og spekingar og allt það. En ég leyfi mér að fullyrða að það hefði verið hollt að kalla til marga fleiri. Ég leyfi mér að fullyrða að það gæti verið allt annar bragur á umræðum um þetta mál og á stöðu þess hér í þinginu ef stjórnarandstaðan hefði átt sína aðild að undirbúningi þess. Það var ekki eins og hún væri skoðanalaus og frumkvæðislaus í þessu máli. Hér hafa legið fyrir frumvörp um árabil frá mönnum (Gripið fram í.) sem nálgast þetta mál frá allt öðrum sjónarhóli. Var ekki ástæða til að leyfa þeim aðilum að rökstyðja sitt mál og eiga þar aðild?

Það er því ekki hægt að segja að hér hafi menn verið að reyna að laða fram ásættanlegt samkomulag eða málamiðlun út frá þeim upplýsingum sem fyrir lágu í málinu eins og ég heyri að hæstv. iðnrh. er að reyna að kalla fram í hér. Það er alveg gjörsamlega fjarri lagi að hægt sé að halda slíku fram.

Nei, herra forseti, hæstv. ríkisstjórn hefur nálgast þetta mál á sömu þröngu flokkspólitísku forsendunum og er orðið alsiða að gera nú og nánast er orðin reglan en ekki undantekningin hjá hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Engin ríkisstjórn hefur jafngjörsamlega horfið frá því að reyna að laða fram pólitískt samkomulag og samstöðu um hlutina og var þó t.d. sú síðasta ekki góð. Ég bendi t.d. á hluti sem algjörlega fortakslaust voru unnir hér í góðu samstarfi allra flokka á árum áður, t.d. vegáætlun eða slíkir hlutir. Það er liðin tíð að slíkt sé undirbúið með aðild allra stjórnmálaflokka. Og grundvallarmál af þessu tagi eru ekki einasta ekki undirbúin þannig heldur er ekkert gert með það þegar önnur sjónarmið koma fram í umfjöllunum um málið.

Herra forseti. Ég tel t.d. að fyrir utan slagsíðu á þessu frv. hvað varðar umhverfismál --- hér hefur verið rækilega bent á af ýmsum ræðumönnum hversu veik umhverfishliðin er í þessu --- beri það þess alveg stórlega merki að vísindamenn, t.d. jarðvísindamenn sem einhver hefði nú talið að væri kannski ástæða til að hafa einhvers staðar nálægt við undirbúning málsins, hafi í raun og veru lítið komið sínum sjónarmiðum á framfæri. Ég leyfi mér t.d. að fullyrða að helstu sérfræðingar okkar á sviði jarðhitanýtingar hefðu gjarnan hugsað sér að ganga öðruvísi frá hlutunum en frv. gerir ráð fyrir. Fleira af þeim toga, herra forseti, mætti tína til um hliðar á þessu máli þar sem því er stórkostlega ábótavant.

Ég vona, herra forseti, að það sé ekki svo að því verði ekki breytt eða afstýrt að þetta frv., ótrúlega mál, verði knúið fram til endanlegrar afgreiðslu á þessu vorþingi. Ég held að hæstv. ráðherra yrði maður að meiri að setja þetta í vinnufarveg í sumar og leyfa þar fleiri sjónarmiðum að njóta sín og koma að málinu. Láta á það reyna með eins og sumarlangri vinnu hvort ekki sé unnt að skapa meiri sátt í þjóðfélaginu um fráganginn á þessu örlagaríka og afdrifaríka stóra máli. Ef við t.d. berum þetta saman við frv. um grundvallarskipulag lífeyrissjóða sem hér var til umfjöllunar á síðasta þingi á svipuðum árstíma, ef ég man rétt, og var stórmál þá tókst svo vel til að það mál var ekki knúið fram með þeim ágöllum sem á því voru, heldur var það sett í vinnufarveg og það tókst að ná um það miklu betra samkomulagi en var í sjónmáli á þinginu sl. vor. Nú geta menn auðvitað deilt um það hvort það hafi verið gallalaust eða góð smíð eftir sem áður.

Ég trúi ekki öðru en að almennt séu menn þeirrar skoðunar að ef menn eigi um tvennt að velja, samkomulag eða ósamkomulag um hlutina, þá sé samkomulagið betra. Það eru að vísu örugglega til þær manngerðir sem velja frekar stríðið en friðinn ef þær eiga val. En við skulum nú trúa því að það eigi við um færri og ekki um hæstv. iðnrh. þannig að hann sé enn þeirrar skoðunar að það væri nokkuð fyrir það gefandi að ná um þetta betra samkomulagi. Ég sé engan flöt á þessa, herra forseti, nema hæstv. ríkisstjórn fáist til þess að fresta afgreiðslu málsins og fallast á eitthvert vinnuferli fyrir það í sumar þannig að síðan megi í kjölfar þess láta á það reyna hvort ekki náist fram breytingar sem geri menn sáttari við innihaldið.

Herra forseti. Ég læt þessi orð mín nægja. Það væri fróðlegt að heyra þegar líður á umræðuna hvort hæstv. iðnrh. eða aðrir aðstandendur frv. telja sig geta rökstutt eitthvað betur en hingað til hefur verið gert réttmæti þess eða nauðsyn að ganga svona frá málunum. En ég áskil mér rétt til þess að taka þátt í umræðunni aftur á síðari stigum í ljósi þess hverju fram vindur.