Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 17:40:13 (6502)

1998-05-12 17:40:13# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[17:40]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. ræddi eins og reyndar hefur verið gert áður í umræðunni nokkuð um tengsl þessa frv. við önnur ákvæði í lögum sem fjalla um umhverfismál í víðum skilningi, náttúruvernd og náttúrurannsóknir og beindi sérstaklega til mín athugasemd varðandi V. kafla frv. um jarðefni. Ég vil á þessu stigi í umræðunni, hæstv. forseti, aðeins vísa til þess sem áður hefur komið fram að hv. frsm. meiri hluta iðnn. gerði grein fyrir því að fram hefðu komið athugasemdir varðandi umhverfismálin í umfjölluninni á síðustu stigum og einnig fyrr í umræðunni og í nefndarstarfinu, en núna á seinustu dögum, reyndar eftir að nál. og brtt. lágu fyrir og það sé vilji hans að nefndin fari að einhverju leyti yfir það aftur milli 2. og 3. umr. Ég greindi frá því viðhorfi mínu í andsvari við ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar í gær að ég vildi gjarnan láta líta á nokkur atriði. Ég endurtek það á þessu stigi en vil ekki af því að ekki hefur verið farið svo yfir það við hv. iðnaðarnefndarmenn eða nefndina í heild hvað þar kunni að koma sérstaklega til tals, að ég er á þessu stigi ekki að fara í einstök efnisatriði heldur veit ég að iðnaðarnefndarmenn hafa hlýtt á þessa umræðu og þær athugasemdir sem hér hafa komið fram eins og ég hef og gert, a.m.k. á köflum í þessari umræðu og málin verða skoðuð milli umræðna.