Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 17:46:23 (6505)

1998-05-12 17:46:23# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, Frsm. meiri hluta StG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[17:46]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur farið fram um málið. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Ágústi Einarssyni sem flutti góða ræðu og sem var að mörgu leyti athygli verð.

En ég vil segja það við hv. þm. Hjörleif Guttormsson að hann getur varla ætlast til þess að ég svari þeim spurningum sem hv. þm. leggur fram, bæði hvað varðar hitakærar örverur og einnig að skýra hvað standi fyrir því að fella almannaauðlind sem grunnvatn í jörðu undir einkarétt og eins og hann segir, að sé merkilegt að ákveðið skuli. Ég held að hv. þm. verði að gera sér grein fyrir því að, eins og hann bætti svo við, svo þjóðhættulegt sem málið er, þarf lengri tíma en í örstuttu andsvarsformi að svara slíku. En að sjálfsögðu munum við eða ég svara því við seinna tækifæri í umræðunni en alls ekki undir andsvörum. Til þess gefst ekki nægjanlegur tími, hv. þm.