Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 17:52:35 (6509)

1998-05-12 17:52:35# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[17:52]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Að mínum dómi er hér til umfjöllunar eitt stærsta þingmálið sem komið hefur til kasta Alþingis, ekki bara síðustu daga heldur hin síðari ár. Frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu tekur til grundvallarmála. Í nál. frá meiri hluta iðnn. segir m.a., með leyfi forseta:

,,Með frumvarpi þessu er lagt til að skipað verði í einn lagabálk reglum um allar auðlindir í jörðu hvort sem um er að ræða í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi. Meginmarkmið þess er að stuðla að skynsamlegri nýtingu auðlinda í jörðu frá þjóðhagslegu sjónarmiði.``

Og á skilgreiningu á hinum þjóðhagslegu hagsmunum tekur minni hluti iðnn. í áliti sínu. Þar er bent á að allar auðlindir í og á jörðu í löndum í einkaeign skuli vera eign landeigenda og vísað er í önnur lagafrv. sem liggja fyrir Alþingi og hafa verið flutt af hálfu stjórnarandstöðunnar þar sem kveðið er á um hið gagnstæða, um það að djúphiti í jörðu, kol, olía, gas, málmar og fleiri jarðefni skuli vera þjóðareign.

Þarna er tekist á um stórpólitískt mál. Í minnihlutaálitinu kemur einnig fram að í þessu frv. ríkisstjórnarinnar gæti tillitsleysis við áherslur í umhverfismálum. Í þriðja lagi er bent á ýmis atriði sem vanti í þetta frv. og er þar m.a. nefnt:

,,að ekki er fjallað nægilega um eignar- og hagnýtingarrétt ríkisins á auðlindum í jörðu utan afmarkaðra eignarlanda,

að ekki er kveðið á um eignarrétt ríkisins að jarðefnum sem ekki hafa verið hagnýtt hér á landi þar sem þau hafa ekki fundist í nýtanlegu magni, þvert á móti eru þessi auðæfi afhent landeigendum,

að óljóst er kveðið á um eignarrétt ríkisins á orku háhitasvæða,

að ekki eru settar skýrar reglur um hvernig bætur skuli metnar fyrir tjón sem landeigendur telja sig verða fyrir vegna leyfisveitinga eða eignarnáms,

að í frumvarpið vantar skýrar reglur um leyfisveitingar til leitar, rannsókna og nýtingar á þeim auðlindum sem frumvarpið tekur til, svo og ákvæði um gjaldtöku fyrir réttindi til þess að leita að, rannsaka og nýta þær auðlindir,

að ekki eru í frumvarpinu nægjanleg ákvæði um umhverfismat umfram þau sem eru í gildandi lögum.``

Ég ætla ekki að lesa upp álitsgerðir, hvorki frá meiri hluta iðnn. né minni hluta iðnn. en læt nægja að benda á þessa þætti, annars vegar það álit meiri hlutans að okkur sé að auðnast að koma í einn lagabálk reglum um allar auðlindir í jörðu og að um þetta sé fjallað út frá þjóðhagslegu sjónarmiði og hins vegar álit minni hlutans sem bendir á hinn pólitíska þátt málsins, að verið sé að afhenda eignir þjóðarinnar, auðlindir í og á jörðu, landeigendum, auk þess sem á það er lögð áhersla að umhverfisþátturinn sé ekki virtur.

Þau frv. sem verið hafa til umfjöllunar síðustu daga eru tengd enda hafa menn í máli sínu skírskotað til þeirra og iðulega vísað til þessara frv. sem frumvarpaþrennunnar. Þar erum við að fjalla í fyrsta lagi um sveitarstjórnarlögin og sérstaklega 1. gr. þess frv. þar sem kveðið er á um skiptingu alls landsins í stjórnsýslueiningar milli sveitarfélaga. Í öðru lagi er um að ræða þjóðlendufrv. þar sem fjallað er um eignarhald á landi utan eignarlanda í einstaklingseign og í þriðja lagi er um að ræða það frv. sem er til umræðu, frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu.

Að mínum dómi er þetta frv. langmikilvægasta frv. af öllum þessu frv. Enda þótt þjóðin hafi í umræðu á opinberum vettvangi, í fjölmiðlum, á fundum og í blaðagreinum fyrst og fremst beint sjónum sínum að fyrsta frv. sem ég nefndi, sveitarstjórnarlögunum, er það álit mitt að það frv. sem hér er til umræðu verðskuldi ekki síður athygli manna.

[18:00]

Í afstöðu þingflokks Alþb. og óháðra til allra þessara frv. má greina rauðan þráð. Grundvallarafstöðu. Þessi grundvallarafstaða lýtur að umhverfismálum og náttúruvernd. Það er sá þáttur sem við höfum lagt höfuðáherslu á og í okkar huga ræðst allt annað af því hvernig okkur tekst að búa svo um hnúta að umhverfisvernd og náttúruvernd verði jafnan í fyrirrúmi. Skammtímasjónarmið og stundarhagsmunir mega ekki verða til þess að ráðist verði í framkvæmdir á landinu sem eru ekki rækilega íhugaðar og skoðaðar út frá þessum sjónarhóli. Við lögðum áherslu á það í umræðu um sveitarstjórnarlögin að miðhálendið yrði ein skipulagseining. Það var ekki vegna formsins eins, ekki vegna þess að við tryðum á formið í sjálfu sér, heldur vorum við á því að með því móti tækist okkur betur að verja það grundvallarsjónarmið sem ég vék að og er umhverfis- og náttúruvernd. Á nákvæmlega sama hátt skoðum við þetta frv. auk þess, og þar kem ég að hinu meginatriðinu sem við grundvöllum okkar málflutning á og alla okkar pólitísku baráttu, að tryggja að auðæfi þjóðarinnar séu í hennar eign og komi henni að notum. Þetta er hinn grundvallarþátturinn í okkar málflutningi.

Við lifum á tímum þar sem alþjóðafjármagn er víðast hvar í heiminum að sækja í sig veðrið. Það ríður mjög á að almenningur eigi sér trausta málsvara gagnvart yfirgangi alþjóðafjármagnsins. Þessa málsvara er að finna, þar sem best lætur, í ríkisstjórnum. Ég ætla að nefna dæmi um það sem er að gerast á alþjóðavettvangi hvað þetta snertir. Í burðarliðnum er samningur sem skammstafaður hefur verið MAI og stendur fyrir Mulitilateral Agreement on Investment og á rætur sínar í OECD. Þessi samningur byggir á því að fyrirtækjum á alþjóðavísu verði ekki mismunað, eins og það heitir, í einstökum ríkjum. Samkvæmt honum má ekki mismuna fyrirtækjum. Ég minnist þess að hæstv. iðnrh. skrifaði grein í Morgunblaðið ekki alls fyrir löngu. Þar sagði hann að þessi samningur væri einstaklega góður fyrir smáþjóðir. Það er nú ekki smærri smáþjóð en Frakkar sem hefur áhyggjur af þessum samningi og af því að með honum sé verið að veita alþjóðafjármagni og alþjóðastórfyrirtækjum aðgang að frönsku efnahagslífi umfram það sem æskilegt gæti talist. Hvað er það sem gæti talist óæskilegt? Jú, Frakkar vilja ekki að valdsvið lýðræðislega kjörinnar stjórnar verði takmarkað og þeir hafa vakið sérstaka athygli á því að kvikmyndaiðnaðurinn í Frakklandi, sem notið hefur styrkja frá ríkinu vegna þess að Frakkar vilja styrkja sína menningu, kunni að eiga undir högg að sækja þegar erlend stórfyrirtæki, t.d. bandarísk kvikmyndafyrirtæki, gera þá kröfu á hendur frönskum stjórnmálum í krafti þessa samnings, ef af verður, að ekki megi mismuna fyrirtækjum og ekki megi niðurgreiða þessa starfsemi.

Það eru aðrar hliðar á þessum samningi sem vert væri fyrir okkur að íhuga og hvaða áhrif þetta kemur til með að hafa á uppbyggingu okkar samfélags. Um það mætti hafa langt mál. Hvers vegna er ég að vekja máls á þessu? (Gripið fram í: Það er spurning.) Það er stór spurning. Hvernig stendur á því að ég er að vekja athygli á samningi sem kenndur er við Multilateral Agreement on Investment? Hvers vegna er ég að tala um alþjóðafjármagn? Jú, ég er að tala um alþjóðafjármagn vegna þess að við höfum opnað efnahagslíf okkar og land erlendum fyrirtækjum og erlendu eignarhaldi. Við gerðum það með EES-samningnum og gengumst inn á að erlendir aðilar gætu keypt hér eignarland. Við gerðum það. Með þessu frv. erum við að ganga enn lengra. Það er ekki nóg með það að við ætlum að heimila þessum erlendu fyrirtækjum að kaupa landið heldur einnig það sem undir því er og þær auðlindir sem kunna að finnast í jörðu. Við erum að opna fyrir þetta.

Ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. er núna á síðustu dögum þingsins að knýja fram lagabreytingar sem veita erlendum aðilum möguleika á að eignast verðmæti sem kunna að finnast í jörðu til frambúðar. Það er að gerast. Skyldu þetta vera einhverjir hugarórar eða skyldi þetta vera gert í hugsunarleysi? Ég held því miður ekki. Ef þetta væri gert í hugsunarleysi þá gætu menn snúið af þessari braut. Menn geta það náttúrlega líka ef þeir sjá að sér. En ástæðan fyrir orðum mínum er sú að í grg. með frv. er óbeint komið inn á þetta. Í grg. með frv. er m.a. vísað til jarðhita. Yfirleitt er það þannig og almennt sjónarmið á Íslandi að þegar um er að tefla verðmæti í jörðu, mikil verðmæti í jörðu, þá eigi það að gagnast okkar þjóð. Það er hið almenna sjónarmið í landinu og að við eigum að beita sameiginlegu átaki til að nýta verðmætin í jörðu, t.d. á háhitasvæðum. Í greinargerðinni segir hins vegar, með leyfi forseta:

,,Sem rök fyrir því að ætla ríkinu eignarráð háhita hefur það sjónarmið verið uppi að vinnsla slíks jarðhita væri kostnaðarsamari en svo að það væri almennt á færi einkaaðila að leggja út í slíka vinnslu. Þó að vissulega megi telja að slíkt kunni að eiga við í ýmsum tilvikum er þó ekki ástæða til annars en ætla að fyrirtæki á sviði stóriðnaðar og aðrir fjársterkir aðilar væru í hliðstæðri aðstöðu til að virkja slík háhitasvæði og þá á grundvelli samninga við viðkomandi rétthafa.``

Sjá menn hvað er að gerast hér? Það er ekki nóg með að fyrir fáeinum árum hafi verið birtur auglýsingabæklingur á vegum iðnrn. og látinn ganga víðs vegar um heiminn þar sem auglýst var hversu ákjósanlegt land Ísland væri. Hér væru laun lág og auðvelt um vik á alla lund fyrir erlend stórfyrirtæki að athafna sig. Hér er beinlínis sagt, í frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu, að það sé ákjósanlegur kostur fyrir fjársterka aðila, stórfyrirtæki, að nýta þessa orku. Hver á þessa orku? Hér er verið að staðfesta það með lagafrv. að það verði ekki þjóðin, heldur þeir einstaklingar sem eiga landið þar sem orkan finnst. (StG: Þeir þurfa nú leyfi til þess.) Þeir þurfa leyfi til að ráðast í þessa vinnslu en jafnvel þar er illa búið um hnúta. Hv. formaður iðnn. hristir höfuðið. Ef það er svo að ég sé að misskilja að hér eigi að tryggja eigendum lands eignarhald á verðmætum í jörðu þá óska ég eftir því að hann leiðrétti mig. Ég vona að þetta sé þá misskilningur hjá mér. Því miður er ég ekki einn um að misskilja þetta á þennan veg. Þá er þetta almennt útbreiddur misskilningur hjá allri stjórnarandstöðunni og í þjóðfélaginu og hjá öllum þeim aðilum sem hafa tjáð sig um þetta mál. Ég er ansi hræddur um að það þurfi að leiðrétta þetta gagnvart ýmsum öðrum.

Hér er sagt berum orðum að það sé liðin tíð og úrelt sjónarmið að við í sameiningu ráðumst í framkvæmdir af þessu tagi, nú sé sú stund runnin upp að stórfyrirtækin, sem þess vegna gætu verið erlend, nýti sér þessa orku, þessi auðæfi þjóðarinnar. Um það snýst málið. Málið sem hér er til umfjöllunar er ekkert nýtt af nálinni. Þetta hefur verið umfjöllunarefni Alþingis og ríkisstjórna í langan tíma.

[18:15]

Í frv. um jarðhitaréttindi sem lagt var fram á þessu þingi og flutt var af hálfu þingfl. Alþb. og óháðra undir forustu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, sem var 1. flm., er rakin í greinargerð saga þessara mála um jarðhitann og hér segir m.a., með leyfi forseta:

,,Hvati að undirbúningi þessa frumvarps fyrir meira en áratug`` --- og er verið að vísa í frv. sem Ólafur Jóhannesson, þáverandi forsrh., beitti sér fyrir --- ,,var m.a. ákvæði í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar frá 1. sept. 1978 þess efnis að djúphiti í jörðu skuli vera þjóðareign.`` Hér er enn fremur vikið að því að ýmsar tilraunir hafi verið gerðar til að setja heildarlög um jarðhita. Þetta hafi verið gert allt frá árinu 1937. Á þeim tíma þegar þetta kom til umfjöllunar í lok áttunda áratugarins var gerð könnun á þessum málum og hefur reyndar verið iðulega gert, aftur og ítrekað. Síðar segir í greinargerðinni:

,,Á vegum OECD var árið 1962 gerð könnun á eignar- og umráðarétti yfir olíu í jörðu og var niðurstaðan sú að nánast hvarvetna, þar sem rannsóknir hefðu farið fram á því hvort olíu væri að finna neðan jarðar, væri hún háð eignarráðum eða umráðum ríkisins og virðast Bandaríki Norður-Ameríku vera eina ríkið þar sem olía á landi er háð einkaeignarrétti og landeigendur fá því greiðslur fyrir olíu úr landi sínu.``

Bandaríki Norður-Ameríku eru samkvæmt þeirri könnun, sem gerð var á vegum OECD árið 1962, eina landið sem tryggir einkaréttinn á olíu, á auðæfum í jörðu en í öllum öðrum ríkjum sé almannaeignarrétturinn virtur.

,,Í Noregi voru árið 1973 sett lög um rannsókn og vinnslu olíu neðan jarðar undir norsku landsvæði og með þeim kveðið á um skýlausan eignarrétt ríkisins á olíu innan yfirráðasvæðis þess. Ekki var talið að um væri að ræða þess háttar eignarskerðingu að leitt gæti til bóta samkvæmt eignarnámsákvæði stjórnarskrárinnar norsku.

Í Danmörku hefur verið úrskurðað að lög um rannsókn og vinnslu hráefna neðan jarðar nái til jarðhita og er hann því ríkiseign.

Í Bandaríkjunum hafa verið sett lög um jarðhita, annars vegar Geothermal Steam Act 1970 og hins vegar Geothermal Energy Research Development and Demonstration Act 1974. Í Bandaríkjunum hafa stjórnvöld um langan aldur undanskilið verðmæti í jörðu við sölu landareigna. Þetta hefur leitt til þess að langmestur hluti jarðhita þar í landi er í umráðum ríkisins.`` --- Hér erum við aftur að vísa til Bandaríkjanna. Það sem ég nefndi áðan virðist fyrst og fremst eiga við um olíuna en ekki jarðhitann. Bandaríkjamenn ganga ekki eins langt og ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. Þetta er umhugsunarefni.

Í Nýja-Sjálandi, og þeir kalla nú ekki allt ömmu sína þar í landi, gilda enn þann dag í dag lög frá árinu 1953 um jarðhita. Með þessum lögum er allur jarðhiti í Nýja-Sjálandi lýstur almannaeign án bóta til landeiganda nema því aðeins að landeigandi hafi þegar byrjað að nota jarðhitann og hann hafi því beinan hag af honum. Augljóst er að í öðrum löndum, þar sem löggjafar nýtur, hefur verið gengið miklu lengra í þá átt að takmarka rétt landeigenda til jarðhita en gerðar eru tillögur um í því frv. sem fjallað er um í greinargerð og ég er að vísa í frv. um jarðhitaréttindi sem var lagt fyrir þetta löggjafarþing.

Mér finnst það vera umhugsunarefni og tel að það hljóti að vera áhyggjuefni öllum mönnum að Íslendingar eru með því frv. sem er til umfjöllunar að ganga lengra en flestar aðrar þjóðir heims í því að tryggja eignaraðilum eignarhald á auðæfum í jörðu. Mér finnst vægast sagt ótrúlegt að þetta skuli vera að gerast og mér finnst líka ótrúlegt að sá stjórnmálaflokkur sem varaði við ýmsum ákvæðum EES-samkomulagsins, sérstaklega um eignarhaldið, skuli nú ganga lengra en þá var gert. Hann gengur lengra og er að lögfesta það að þeir erlendir menn eða stórfyrirtæki sem festa kaup hér á landi fái eignarhald á verðmætum í jörðu. Það er með ólíkindum hve langt Framsfl. er reiðubúinn að ganga í þessu efni.

Um þetta frv. hefur borist sægur af umsögnum og það sem er merkilegt við umsagnirnar er að þær skiptast í tvö horn. Annars vegar eru þær umsagnir sem koma frá náttúruverndarsamtökum eða aðilum sem láta slík mál sérstaklega til sín taka og hins vegar þeim sem horfa á orkuþáttinn ópólitískum augum og eru margir fremur jákvæðir en þeir aðilar sem sýsla með umhverfismál eru nánast allir mjög gagnrýnir á þetta frv. (StG: Því hefur verið breytt.) Því hefur verið breytt, segir hv. formaður iðnn. og vil ég þá spyrja að bragði: Hefur t.d. 8. gr. frv. verið breytt? (Gripið fram í.) Fyrst menn eru farnir að tala og fjalla um þessi mál úr sæti sínu væri fróðlegt að heyra það á eftir frá hv. þm. vegna þess að um þessa 8. gr., sem hefur ekki verið breytt eftir því sem ég fæ best séð, er m.a. fjallað í umsögn frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga, en áður en ég les hana upp ætla ég að lesa 8. gr. frv., með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði III. og IV. kafla er heimilt án leyfis að rannsaka og hagnýta á eignarlandi berg, grjót, möl, leir, sand, vikur, gjall og önnur slík gos- og steinefni, svo og mold, mó og surtarbrand.``

Í umsögn Félags íslenskra náttúrufræðinga um greinina segir, með leyfi forseta:

,,Vegna ákvæða þessarar greinar, þá bendir umhverfisnefnd FÍN á að þessi grein lagafrumvarpsins gengur þvert gegn ýmsum gildandi lögum og reglugerðum. Nýting jarðefna getur fallið undir náttúruverndarlöggjöf, lög um mat á umhverfisáhrifum og aðra slíka löggjöf. Þá gæti greinin óbreytt stuðlað að enn frekari fjölgun smánáma um land allt þar sem ekkert er kveðið á um eftirlit. Þær eru nú þegar mikið vandamál eins og fram kemur í skýrslum sem teknar hafa verið saman af Náttúruverndarráði, nú Náttúruvernd ríkisins. Það fæst heldur ekki séð að frumvarpshöfundar hafi haft skýrslu umhverfisráðherra, Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, til hliðsjónar við samningu þess.``

Hæstv. forseti. Hér kemur fram mjög alvarleg gagnrýni á eina af þeim greinum frv. sem snertir náttúruvernd. Ég geri þetta að umtalsefni nú og lagði örlítið lykkju á leið mína í málflutningi mínum vegna þess að formaður hv. iðnn. kallaði fram í ræðu mína og sagði að frv. hefði verið breytt að þessu leyti til að koma til móts við þau sjónarmið sem ég er að halda á loft og eru gagnrýnin á frv. að þessu leyti. Þeirri grein hefur ekkert verið breytt. Þau standa óhögguð orðin frá Félagi íslenskra náttúrufræðinga.

Í umsögn Félags íslenskra náttúrufræðinga kemur fram mjög hörð gagnrýni á frv. Ekki einvörðungu á einstakar lagagreinar heldur á alla vinnslu frv. Hér segir m.a., með leyfi forseta:

,,Frumvarpið fjallar um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. Eðli máls samkvæmt þá er nýting auðlinda í jörðu nátengd umhverfi og náttúru. Umhverfisnefnd FÍN hefði því talið að í slíku frumvarpi og hér um ræðir væri að finna mun sterkari skírskotanir til þeirra málaflokka og jafnframt tilvísanir til gildandi laga og reglna sem þar gilda. Svo er ekki og hlýtur það að sæta furðu. Ekki er hægt að skilja lagatextann á annan hátt en þann að gildandi t.d. náttúruverndarlög og lög um mat á umhverfisáhrifum séu sniðgengin, ásamt reglugerðum á þeim byggðum. Þó slíkt hafi ekki verið ætlun höfunda frumvarpsins, þá er ekki hægt að vísa til slíks síðar nái lagatextinn fram að ganga eins og hann er nú, sérstaklega þar sem skýrari túlkanir hvað þetta varðar er heldur ekki að finna í greinargerð.``

Þetta segir m.a. í innganginum að umsögn Félags íslenskra náttúrufræðinga um þetta frv. Í umsögn frá félaginu sem er upp á fjórar síður er fjallað ítarlega um nánast hverja grein í frv. Hér kemur mjög hörð gagnrýni á nánast allar greinar frv. Ég tók nánast af handahófi eina grein vegna frammíkalls hv. þm. og formanns iðnn., frsm. þessa frv., um að frumvarpsgreinunum hefði verið breytt til að koma til móts við þá sem halda uppi málstað náttúruverndar og umhverfisverndar. (Gripið fram í.) Nei, ekki er það Framsfl. og ég hef farið í gegnum það í máli mínu hvað er í rauninni að gerast með þessu frv.

Ég rakti það í máli mínu hvernig við lifum núna tíma þar sem alþjóðafjármagn er að sækja í sig veðrið nánast hvar sem er í heiminum og ég vék að nýjum samningi sem er reyndar í burðarliðnum. Hann er ekki fullmótaður, MAI-samningurinn, Multilateral Agreement on Investment sem hæstv. iðnrh., sem er ábyrgur fyrir þessu frv. líka, sagði að væri sérstaklega hagstæður fyrir smáþjóðir, sem eru að opna landið fyrir alþjóðafjármögnunum. Ég vék að því hve mikilvægt er að hafa á slíkum tímum ríkisstjórn sem stendur í fæturna, fyrir hönd almennings, og ég rakti það hvernig búið er að opna á eignaraðild að landinu í gegnum EES-samninginn. Núna eru menn að færa sig niður í jörðina og veita stórfyrirtækjum aðgang að auðlindum í iðrum jarðar. (Gripið fram í.) Fyrst þingmenn eru farnir að sýna þessum málflutningi áhuga þá vék ég einnig að því hvernig segir í greinargerð með frv. hvernig menn eru að víkja frá þeirri reglu og því grundvallarsjónarmiði sem við höfum búið við um langt skeið að það séu ríki eða sveitarfélög sem nýti sameiginlegar auðlindir okkar og hvernig við séum að færa okkur inn í nýja tíma þar sem stórfyrirtækin eigi að taka að sér þetta verkefni.

Hæstv. forseti. Ég hef haldið mig við aðalatriði málsins og ég er að hefja yfirferð yfir þær umsagnir sem Alþingi hafa borist um þetta frv. og um einstakar greinar þessa frv. Ég er vel meðvitaður um að í ræðum annarra hv. þm. um frv. í dag og á liðnum dögum hefur þetta verið rækilega tíundað og ég ætla ekki að verða til þess að lengja þingfund umfram það sem nauðsynlegt er. Ég ætla ekki að gera það. Ég ætla því ekki við umræðuna nú og í ræðu minni að fara nánar í umsagnirnar eða fjalla um einstakar greinar frv. Ég ætla ekki að gera það. Ég mun sjá hvað setur í þessu efni.

Ég vil árétta það sem ég hef áður sagt, og aðrir þingmenn úr stjórnarandstöðunni, að hyggilegt væri að láta þessi frv. bíða í sumar. Gefa þeim aðilum sem hafa mikið við þessa lagatexta að athuga færi á því að koma sjónarmiðum sínum betur til skila til Alþingis. Þetta er lýðræðisleg krafa auk þess sem hún er líkleg til þess að stuðla að vandaðri niðurstöðu sem ætla mætti að sæmileg sátt gæti náðst um.