Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 18:44:26 (6512)

1998-05-12 18:44:26# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[18:44]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það er nú varla að taki því að svara hótfyndni hv. þm. Sighvats Björgvinssonar enda ekkert í þessari spurningu, því eins og kom fram í ræðu minni er alveg ljóst að með þeim frv. sem verið er að taka í gegnum þingið er verið að afhenda þjóðinni yfir 50% af öllu Íslandi, bæði landi, gæðum og auðæfum í jörðu, þannig að ef einhver ríkisstjórn hefur náð sátt við þjóðina hvað þetta varðar og það er það sem þjóðin hefur viljað, þ.e. að hálendi Íslands og þjóðlendur væru eign hennar, þá hefur sú sátt náðst. Það er svo annað mál að hv. þm. ásamt þingmönnum í þingflokki sínum hefur tekist nokkuð vel að telja þjóðinni trú um að þetta hafi ekki verið gert. Það er svo merkilegt sem það er. Ég veit að Göbbels bliknar í samanburðinum við það hvernig þeim hefur tekist að segja hlutina á allt annan hátt en þeir í rauninni eru. (LB: Það er ekkert annað. Það er ekki leiðum að líkjast.) Það er alveg með ólíkindum og ég tek ofan fyrir þeim hvað þetta varðar.

Ég ætla bara rétt að vona, herra forseti, að ríkisstjórninni og þá fyrst og fremst þeim ráðherrum sem með þessa málaflokka fara takist að skýra út hvað felst í þeim frv. sem eru til afgreiðslu. Þegar það hefur tekist og þjóðin hefur áttað sig á þessu og komist í gegnum þann moðreyk sem þyrlað hefur verið upp af hálfu þingmanna jafnaðarmanna þá hlýtur þjóðin að átta sig á því hvar þetta mál er statt.