Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 18:48:32 (6515)

1998-05-12 18:48:32# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[18:48]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er eins farið fyrir mér og mörgum öðrum hv. þm. að við höfum ekki alveg náð utan um það hver rökin eru á bak við það að færa eignarhald á öllum auðlindum sem finnast hugsanlega á fasteignum einstaklinga undir yfirráð þeirra. Ég ætla svo sem ekki að fara út í þá ræðu sem hv. þm. flutti áðan enda skildi ég hvorki upp né niður í henni. En ég hef farið yfir frv. og athugasemdirnar og mér þætti vænt um það ef sá hv. þm. sem tók þó til máls í umræðunni --- og það verður þó að teljast honum til tekna þó kannski ræðan hafi ekki verið burðug --- kæmi upp og útskýrði fyrir mér og fleiri hv. þm. hvernig það megi vera að einstaklingar fari betur með náttúruauðlindir en ríkið, jafnvel náttúruauðlindir sem þarf að leggja út í mikinn kostnað til þess að vinna.

Mér er algerlega fyrirmunað skilja þetta og það er engan skilning að finna í þessu frv. eða röksemdina fyrir þessu þannig að mér þætti mjög vænt um það, virðulegi forseti, ef sá hv. þm. gæti komið upp og útskýrt fyrir mér og fleirum hvernig það getur verið að einstaklingar fari betur með náttúruauðlindir þjóðarinnar en ríkið.