Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 18:55:11 (6519)

1998-05-12 18:55:11# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[18:55]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var svo merkileg ræða að ég get bara ekki á mér setið að svara henni nokkrum orðum. Ekki fór á milli mála að hv. þm. ætlar ekki að stilla sér upp í þessari málafylgju með hinum ættjarðarlausu því að hann líkir okkur við áróðursmeistarann Göbbels, okkur sem höfum fyllt þann flokk hér á Alþingi, og reynt að standa á verðinum fyrir fólk sem er eignalaust hér á landi, á ekki jarðeignir og við höfum reynt að standa í ístaðinu fyrir þetta fólk í umræðum undanfarna daga.

Mér fannst þetta svolítið langt um seilst en mig langar að minna hv. þm. á Hitaveitu Suðurnesja sem hann minntist líka á í máli sínu en þar var einmitt verið að virkja háhitasvæði. Öll sveitarfélög á svæðinu mynduðu félag og tóku lán til þess að það væri hægt að færast í fang þessa virkjun. Náttúrlega hefði enginn einstaklingur getað staðið að því verkefni.

En hvernig fór? Virkjunin tókst með ágætum og í framhaldinu þurfa Suðurnesjamenn um aldur og ævi að borga þeim sem átti hraundrangana sem eru undir virkjuninni fé fyrir hvern lítra sem þarna kemur upp úr jörðinni. Mér hefur alltaf fundist þetta ósanngjarnt og ég tala ekki um þegar ég var í dag að hlusta á ágætan jarðfræðing í þingmannahópnum, Steingrím J. Sigfússon, útskýra hvernig eftir því sem tekið er af vatninu í háhitageymnum flýtur inn í hann vatn frá fjarlægum svæðum sem eru e.t.v. alls ekki í eigu þessara landeigenda. En til þessa er náttúrlega ekkert tillit tekið.