Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 18:57:29 (6520)

1998-05-12 18:57:29# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[18:57]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hitaveita Suðurnesja er náttúrlega gott dæmi um að það geta fleiri gert svona stóra hluti en ríkið. Hitaveita er fyrirtæki sem er í eigu sveitarfélaga og eftir því sem mér heyrðist áðan hjá hv. þm. sem ræddu málin er engum treystandi til þess að sjá um þessi samegininlegu vatnsforðabúr undir okkur öðrum en ríkinu því að allir aðrir væru svoddan skúrkar að þeir væru með skáboranir og djúpboranir til þess að ná þessu frá næsta manni.

Hitaveita Suðurnesja er einmitt dæmi um fyrirtæki sem hefur tekið mjög alvarlega og af mikilli ábyrgð á vatnsforðabúskap sínum og verið með mjög kostnaðarsamar rannsóknir, mælingar og fleira sem ég held að við getum sagt að sé til mikillar fyrirmyndar. Það sannar einmitt fyrir okkur að fyrirtæki, auðvitað af stærðagráðu Hitaveitu Suðurnesja, geta gert þetta. Þetta eru einmitt líka rökin fyrir því, eins og ég sagði áðan, að einstaklingar sem ætla að fara út í einhverjar skáboranir eins og áðan kom fram hafa enga möguleika til þess. Það er útilokað. Samkvæmt frv. verða rannsóknarboranir og kannanir yfirleitt háðar leyfum og það eru opinberir aðilar og fyrirtæki sem þar koma til með að fá þau leyfi yfirleitt. Svo kannski að síðustu, herra forseti, þá er búið að taka eignarnámi eða kaupa mestallt það land nú þegar sem máli skiptir að þessu leyti.