Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 19:21:20 (6525)

1998-05-12 19:21:20# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[19:21]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held það þýði í sjálfu sér voðalega lítið fyrir okkur að deila um þetta. Við erum einfaldlega ekki sammála um það hvort hægt sé að setja einkaeignarréttinum skorður með lögum eða ekki. Ég hef aðra sýn á því en hv. þm. Svavar Gestsson og um það stendur deilan um þetta mál m.a. Af hverju liggur svona mikið á? Nú tel ég að málið sé orðið nógu þroskað eftir margra áratuga yfirlegu hinna mætustu manna og ágætis vinnu á undanförnum árum við að undirbúa málið. Menn hafa beðið eftir því í mörg ár að frv. yrði lagt fyrir þingið og það gerist núna í tíð þessarar ríkisstjórnar og ég tel það tækifæri sem við höfum til að lögfesta málið á þessu vori.