Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 19:26:36 (6530)

1998-05-12 19:26:36# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[19:26]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafi þetta verið óskýrt áðan þá skýrðist það ekki mikið núna. Hæstv. ráðherra sagði að það væri mat ríkisstjórnarinnar að fara þessa leið en skýrði ekki hvaða rök lægju á bak við það mat. Málið er ekki flóknara en það og því vil ég taka undir með hv. þm. Svavari Gestssyni sem spurði áðan: Af hverju núna? Af hverju þarf að fara þessa leið? Hæstv. ráðherra hefur sagt að þetta sé í samræmi við þær réttarreglur sem gilda núna og því spyr ég: Af hverju þarf að lögfesta reglur sem eru í gildi í samfélaginu? Er nema von að spurt sé, virðulegi forseti. Af hverju þarf að lögfesta reglur sem eru í samræmi við gildandi réttarframkvæmd? Virðulegi forseti, ef hægt er að fá skýringu á þessu hverf ég glaður héðan úr pontu.