Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 19:30:12 (6533)

1998-05-12 19:30:12# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[19:30]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit að það koma tillögur frá hv. iðnn. um breytingar á einstökum greinum frv. sem snúa að umhverfisverndinni. Ég tek alveg undir það og við erum tilbúnir til þess að skoða það sérstaklega. En af því að hv. þm. hefur mikinn áhuga á því að vita í hverju málamiðlunin fólst milli Framsfl. og Sjálfstfl. í þessu frv. ... (Gripið fram í: Það eru fleiri um það.) Já, það er gott að heyra að þingmenn sem hér eru staddir hafa mikinn áhuga á að heyra í hverju sú málamiðlun liggur.

Nú erum við að horfa á það að hér gætu, í slíkum grundvallarmálum, legið fyrir frv. frá hverjum einasta stjórnmálaflokki um það hvernig að þessu skuli staðið, enda kemur það í ljós. Alþb. hefur í mörg ár lagt fram frv. um þetta efni. Það er mjög frábrugðið því frv. sem Alþfl. og jafnaðarmenn hafa lagt hér fyrir. Ef Framsfl. hefði ekki verið í stjórnarsamstarfi eða Sjálfstfl. ekki verið í stjórnarsamstarfi við Framsfl., þá hefðu sjálfsagt komið frv. frá þessum flokkum sem væru að einhverju leyti svolítið öðruvísi. (Forseti hringir.)

Hér er svo niðurstaðan, og það er málamiðlunin, að menn ákveða að festa í sessi réttarframkvæmdina og einstaka þætti í löggjöf sem fyrir er en ganga ekki lengra. Þar af leiðandi er engin eignatilfærsla í málinu, en settar skýrar (Forseti hringir.) reglur um nýtingarréttinn og rannsóknina.