Samráð um þingstörfin

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 11:05:31 (6542)

1998-05-13 11:05:31# 122. lþ. 126.92 fundur 381#B samráð um þingstörfin# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[11:05]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Þetta er grafalvarlegt mál. Ekki vegna þess að við skulum hafa lokið umræðu um þingmál hér á kvöldmatartíma í gærkvöldi og gengið sé til atkvæða í morgunsárið í dag, heldur vegna þess að það vantar allt samráð. Fyrstu dagana eftir að ljóst var að það átti ekkert að ræða við þingflokksformenn fannst mér þetta fyrst og fremst spaugilegt. Það viðurkenni ég. En núna, þegar liðnir eru tíu dagar, þá finnst mér þetta grafalvarlegt mál og snúast um sóma Alþingis.

Ég hvet til þess að rætt verði um stjórn þingsins og það á ekki að gerast að þingflokksformenn fái boð um atkvæðagreiðslur í gegnum símann frá skiptiborðinu, sérstaklega ekki þegar um stór mál er að ræða sem miklar deilur hafa staðið um og ljóst er að þörf er á að fara yfir þau mál og atkvæðagreiðslukjöl.

Ég ætla að minnast á það góða samráð við forseta Alþingis. Það hefur verið til fyrirmyndar. Hér hefur verið byggt upp nýtt samstarf að öllu leyti og Alþingi hefur verið sjálfstætt í störfum sínum. Á liðnum dögum höfum við talað um að þetta samstarf sé fyrir bí. Ég harma það ef þinghaldi nú í vor á að ljúka á þannig að allt samráð fari fram með tilskipunum frá forsetadæminu til þingflokksformanna. Ég hvet til þess að hér og nú verði horfið af þessari braut.