Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 11:08:56 (6544)

1998-05-13 11:08:56# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[11:08]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er um að ræða, frv. til laga um eignarhald á nýtingu auðlinda í jörðu, er tvímælalaust stærsta mál þess þings sem nú situr. Það er verið að færa landeigendum allar auðlindir í jörðu með afgerandi hætti þó að hefðir, venjur, dómar og saga hafi sýnt okkur að eðlilegra væri að hafa aðra skipan á málum.

Hér er um að ræða milljarðatuga eignatilfærslu. Hér er um að ræða lagasetningu, ef þetta verður samþykkt, sem mun hafa úrslitaáhrif á efnahags- og atvinnulíf á Íslandi langt inn í næstu öld. Þess vegna leggjum við til að þessu máli veðri vísað frá, vegna auðlindanna, vegna umhverfismálanna og vegna þess að á frv. eru stórkostlegar missmíðar.

Ég hvet þess vegna til þess að málinu verði hafnað og það verði skoðað betur. Engin rök hafa verið flutt fyrir því að frv. þurfi að afgreiða á þessu vori.