Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 11:13:07 (6547)

1998-05-13 11:13:07# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[11:13]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Við sitjum hjá um þessa grein en munum síðan greiða atkvæði á móti nokkrum greinum frv. og einstökum málsgreinum, t.d. í 2. gr., greiða atkvæði á móti 3. gr. og móti 8. gr. og móti a.m.k einni brtt., eins og síðar mun koma fram.

Sú grein sem hér er um að ræða er skilgreiningargrein. Hún er hins vegar mjög gölluð. Talað er um að fyrir utan þau verðmæti sem kunna að finnast innan netlaga, og allir þekkja skilgreininguna á, þá er gert ráð fyrir því að landeigendur eigi þau verðmæti sem finnast undir sjávarbotni innan netlaga. Hér er gengið miklu lengra en nokkru sinni fyrr að þessu leyti. Að þessu leyti er greinin gölluð og hefði auðvitað getað gefið tilefni til þess að greiða atkvæði á móti henni.

Ég vil taka undir þau orð hv. þm. Sighvats Björgvinssonar hér áðan að það er til marks um stöðu þessa máls að hæstv. iðnrh. skuli ekki taka þátt í atkvgr. Hann heyrir þannig ekki atkvæðaskýringarnar. Ég spyr hæstv. forseta: Telur hann ekki eðlilegt að atkvæðagreiðslunni verði frestað meðan kannað er hvar iðnrh. er, þannig að hann geti tekið á þátt í atkvgr.? Ég skora á hæstv. forseta að kanna þetta nú þegar.

(Forseti (GÁS): Forseti vill upplýsa, vegna þessara orða, að hæstv. iðn.- og viðskrh. er með fjarvistarleyfi í dag.)