Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 11:23:50 (6556)

1998-05-13 11:23:50# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, Forseti GÁS
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[11:23]

Forseti (Guðmundur Árni Stefánsson):

Forseti vill vegna þessara orða geta þess að sá er hér stendur stýrir þessum fundi. Í þingsköpum er ekki um að ræða neina aðalforseta og aukaforseta. Forseti vill einnig geta þess vegna þessara orða að honum er kunnugt um það að forsetadæmið í heild sinni hafði enga tilkynningu fengið um það fyrir fram af hálfu einstakra ráðherra hvort þeir yrðu viðstaddir þessa afgreiðslu. Forsetadæmið stillir upp dagskrá þingsins eins og venja er til og reynir að gera það með þeim hætti að þingstörf geti, miðað við allar aðstæður, gengið eins greiðlega fyrir sig og unnt er. Umræðu um dagskrármálið var lokið í gærkvöldi og því eðlilegt að hafist yrði handa eins fljótt og kostur er við að greiða atkvæði um það mál. Það er verið að gera hér.

Formlega telur forseti að hann hafi enga stöðu til þess samkvæmt þingsköpum að fresta atkvæðagreiðslu þótt einstaka hv. þm. eða jafnvel einstaka hæstv. ráðherra vanti í salinn. Atkvæðagreiðsla er hafin og forseti vill lýsa því yfir mjög skýrt að hann hefur ekki áform um að fresta henni.