Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 12:04:52 (6569)

1998-05-13 12:04:52# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, RA (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[12:04]

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Það hefði mátt ætla þegar lög eru sett um eignarrétt að miðað væri við gildandi rétt eins og hann er í þjóðfélagi okkar í dag og stuðst væri þá við þær réttarheimildir sem fyrir eru, t.d. dóma Hæstaréttar sem eru réttarheimildir um gildandi rétt. En sú grein sem verið er að samþykkja er í engu samræmi við dóma Hæstaréttar. Hér er verið að skapa mönnum meiri rétt en þeir hafa haft. Ég tel að bændur eigi að halda öllum þeim réttindum sem þeir hafa haft og fylgt hafa íslenskum búskaparháttum á liðnum öldum og tel ekki að þeir séu ofsælir af rétti sínum. En það gildir um þá eins og alla aðra jarðeigendur að þeir eiga ekki með slíkri löggjöf, sem við erum að setja, að fá meiri rétt en þeir hafa haft.