Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 12:15:05 (6573)

1998-05-13 12:15:05# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[12:15]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Þetta er að mínum dómi alvarlegasta og versta frv. úr frumvarpaþrennu ríkisstjórnarinnar um skipulagsmál og auðlindir. Þetta er versta greinin. Hér er verið að færa einkaaðilum eignarhald á auðlindum í ríkari mæli en þekkist nokkurs staðar þó litið sé til allra ríkja OECD, Bandaríkjanna, Nýja-Sjálands. Það þarf ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsfl. til að ganga erinda einkahagsmuna gegn almannahagsmunum í einu og öllu og ganga þá leið alveg til enda.

Með þessari lagasamþykkt er verið að færa eignarhald niður í jörðina og einnig til útlanda. Því að eftir EES-samninginn geta fjársterkir aðilar, hvar sem er á EES-svæðinu, keypt jarðir. Hér eftir geta þeir einnig eignast auðlindir í jörðu.