Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 12:37:47 (6583)

1998-05-13 12:37:47# 122. lþ. 126.1 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SighB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[12:37]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Efni þessarar greinar snýst um að verið er að heimila einstökum jarðeigendum að gera þær skaðabótakröfur nýti almenningur eða ríkisvaldið auðlind á landi viðkomandi jarðeiganda, svo sem djúphita, að hann geti reist kröfur á hendur almenningi um skaðabætur sem nemur annaðhvort andvirði auðlindarinnar sjálfrar, eins og hún leggur sig, eða kröfu til þess að fá árlega hlutdeild í arði af nýtingu hennar. Þetta er algerlega fráleitt ákvæði, en það sem verra er að verið er að opna möguleika fyrir því vegna eðlis jarðhita, sem getur átt sér upptök víða, að þó að ríkisvaldið virki háhita á jörð í eigu ríkisins sjálfs þá geti einhver jarðeigandi, sem á jörð ekki langt fjarri, krafist þess að sér verði greiddar bætur vegna þess að verið sé að draga á vatn eða djúphita í jörðu sem honum tilheyrir. Þetta er algjörlega fráleitt viðhorf sem hér er verið að lögfesta, og ég tek það fram að fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar að loknum kosningum á að vera að afnema svona vitleysu.