Húsnæðismál

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 13:32:43 (6588)

1998-05-13 13:32:43# 122. lþ. 126.2 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, Frsm. meiri hluta MS
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[13:32]

Frsm. meiri hluta félmn. (Magnús Stefánsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nál. frá meiri hluta félmn. um frv. til laga um húsnæðismál. Nefndin fékk fjölmarga til fundar við sig og einnig bárust fjölmargar umsagnir um málið og var um þær fjallað í nefndinni.

Frumvarp þetta er samið af samráðshópi ríkis og sveitarfélaga sem félagsmálaráðherra skipaði 15. október 1997 og starfshópi til að undirbúa frumvarp um breytt hlutverk og starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins sem félagsmálaráðherra skipaði 22. október 1997. Verkefni samráðshópsins var að vinna að útfærslu tillagna um breytingar á félagslega íbúðakerfinu yfir í félagslegt lánakerfi. Verkefni starfshópsins var að undirbúa frumvarp um breytt hlutverk og starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á núverandi skipulagi húsnæðismála og eru eftirfarandi breytingar veigamestar:

Lagt er til að Húsnæðisstofnun ríkisins verði lögð niður 1. janúar 1999 og að ný stofnun, Íbúðalánasjóður, taki við hlutverki hennar og skuldbindingum Byggingarsjóðs verkamanna og Byggingarsjóðs ríkisins. Íbúðalánasjóði er ætlað að vera óháður framlögum úr ríkissjóði og standa undir lánveitingum sínum og rekstri með eigin tekjum. Stjórn sjóðsins verður skipuð fimm mönnum. Innlausnarreglur eldra kerfis munu þó vara í einhverja áratugi en allar nýjar úthlutanir verða á grundvelli nýrra reglna.

Í öðru lagi verða umtalsverðar breytingar á þátttöku, áhrifum og ábyrgð sveitarfélaga og húsnæðisnefnda sveitarfélaga hvað félagslegt húsnæði og lánveitingar varðar.

Þá mun félagsleg jöfnun verða í gegnum vaxtabótakerfi í stað niðurgreiðslu vaxta. Að öðru leyti verður uppbygging kerfisins sú að Íbúðalánasjóður veitir einstaklingum sem eiga rétt á almennu láni til kaupa á eigin íbúð húsbréfalán fyrir allt að 65--70% af verði íbúðar og sértækt viðbótarlán fyrir allt að 20--25%. Lagaákvæði varðandi lánsrétt vegna leiguíbúða, þ.e. til sveitarfélaga, félagasamtaka og félaga til byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði, eru að mestu óbreytt frá gildandi lögum.

Loks verður settur á fót sérstakur varasjóður með það meginmarkmið að bæta mögulegt tjón Íbúðalánasjóðs af töpuðum viðbótarlánum en varðandi eldra kerfi tekur varasjóðurinn m.a. við hlutverki Tryggingarsjóðs vegna byggingargalla. Sá sjóður verður lagður niður og allar eigur hans og réttindi renna í varasjóðinn auk framlaga sveitarfélaga, söluhagnaðar af innleystum íbúðum og eftir atvikum framlaga ríkissjóðs samkvæmt fjárlögum hverju sinni.

Nefndin ræddi sérstaklega stöðu þeirra starfsmanna sem nú starfa hjá Húsnæðisstofnun ríkisins. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að það er hlutverk undirbúningsnefndar, skv. 56. gr. frumvarpsins, að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna stofnunar Íbúðalánasjóðs og yfirtöku réttinda og skyldna samkvæmt frumvarpinu, þar á meðal að taka á réttindum og málefnum starfsmannanna. Meiri hlutinn leggur þunga áherslu á að starfsmönnunum verði gefinn kostur á störfum hjá hinni nýju stofnun eftir því sem frekast er unnt og þannig nýtt starfsreynsla þeirra og sérþekking.

Meiri hlutinn komst að þeirri niðurstöðu eftir vandlega yfirferð yfir þær umsagnir sem bárust að gera þyrfti ýmsar breytingar á frumvarpinu.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Ætla ég þá að fara yfir helstu efnisbreytingar breytingartillagnanna.

1. Lögð er til breyting á 2. gr. sem fjallar um orðskýringar. Í frumvarpinu er við það miðað að fasteignaveðbréf og lán vegna leiguíbúða og viðbótarlán verði ákveðið hlutfall af matsverði íbúðar. Af þeim sökum er ekki ástæða til þess að taka sérstaklega fram að lán þessi hvíli á sérstökum veðrétti.

2. Lögð er til viðbót við 4. gr. sem fjallar um Íbúðalánasjóð. Með því að taka fram að Íbúðalánasjóður heyri stjórnarfarslega undir félagsmálaráðherra er verið að undirstrika að hér er um að ræða sjálfstæða ríkisstofnun. Sem dæmi um slíka ríkisstofnun má nefna Landsbókasafn Íslands -- Háskólabókasafn. Þýðing þess að um er að ræða sjálfstæða ríkisstofnun sem heyrir stjórnarfarslega undir félagsmálaráðherra felst m.a. í því að ákvarðanir stjórnar Íbúðalánasjóðs verða ekki bornar undir félagsmálaráðherra með stjórnsýslukæru. Þá getur ráðherra ekki gefið stofnuninni bindandi fyrirmæli um úrlausn mála nema hann hafi til þess lagaheimild. Aftur á móti er tekið fram að ráðherra geti krafið stjórn Íbúðalánasjóðs um upplýsingar og gögn sem snerta málefni sjóðsins.

3. Lögð er til breyting á 8. gr. sem fjallar um framkvæmdastjóra Íbúðalánasjóðs. Lagt er til að 2. mgr. falli brott þar sem ákvæðið er talið óþarft.

4. Lögð er til breyting á 9. gr. sem fjallar um verkefni Íbúðalánasjóðs. Lagt er til að það skuli einnig vera meðal verkefna Íbúðalánasjóðs að fylgjast með áætlanagerð sveitarfélaga um þörf á íbúðarhúsnæði. Hefur þetta einkum þýðingu þegar kemur að áætlun sveitarfélaga um þörf á viðbótarlánum í sveitarfélaginu. Þá er orðinu ,,félög`` aukið við upptalninguna í 2. tölul. til samræmis við 35. gr. frumvarpsins.

5. Lögð er til viðbót við 10. gr. sem fjallar um tekjur Íbúðalánasjóðs. Breytingin felur í sér að með tæmandi hætti er talið hvernig Íbúðalánasjóður fjármagni verkefni sín.

6. Lögð er til breyting á 14. gr. sem fjallar um verkefni húsnæðisnefnda sveitarfélaga. Í 5. tölul. 1. mgr. er gert ráð fyrir að eitt af verkefnum þeirra sé að aðstoða aldraða og samtök þeirra við öflun húsnæðis, svo og ráðgjöf o.fl. Lagt er til að í stað þess að einskorða þessa þjónustu við aldraða sé einnig gert ráð fyrir að sama eigi við um fatlaða og félagasamtök þeirra. Þá er lögð til breyting á 3. mgr. greinarinnar. Heimild húsnæðisnefndar til þess að taka þjónustugjöld er bundin við þau verkefni sem hún hefur með höndum. Ljóst er að gjöld þessi mega ekki vera hærri en sem nemur kostnaði vegna þeirrar þjónustu sem veitt er hverju sinni. Inn í kostnaðargrundvöllinn er því ekki unnt að reikna óskyld atriði.

7. Lögð er til breyting á 15. gr. sem fjallar um lánveitingar Íbúðalánasjóðs. Ekki er ástæða til þess að binda veitingu almennra lána sérstaklega við einstaklinga. Lagt er til að slíkar lánveitingar geti einnig náð til annarra. Með því er m.a. skapað svigrúm til þess að veita lán til félaga, þar á meðal húsnæðissamvinnufélaga, til þess að byggja íbúðir handa félagsmönnum sínum sem ekki uppfylla tilgreind skilyrði um tekju- og eignarmörk. Enn fremur opnast möguleiki á að fjármagna leiguíbúðir að stórum hluta með húsbréfaskiptum.

8. Lagt er til að 3. málsl. 1. mgr. 16. gr. falli brott og að heimild til að skuldbreyta lánum Íbúðalánasjóðs verði færð í sérstaka grein sem verði 48. gr.

9. Lögð er til breyting á 17. gr. sem fjallar um húsbréfadeild. Breytingin er í samræmi við efni 18. gr. gildandi laga um Húsnæðisstofnun ríkisins.

10. Lagt er til að 24. gr. færist til og verði 48. gr. Þannig verði á einum stað mælt fyrir um heimildir Íbúðalánasjóðs til þess að skuldbreyta lánum sjóðsins.

11. Lögð er til lagfæring á orðalagi í 26. gr. sem fjallar um gjaldfallin húsbréf.

12. Lögð er til breyting á orðalagi í 27. gr. sem fjallar um verðbréfaviðskipti. Ekki þykir rétt að húsbréf skuli eingöngu skráð á tilteknu verðbréfaþingi.

13. Lögð er til lagfæring á orðalagi í 31. gr. sem fjallar um viðbótarlán.

14. Lögð er til lagfæring á orðalagi í 32. gr. sem fjallar um lánskjör viðbótarlána. Auk þess er rétt að fram komi að vextir viðbótarlána skulu ákvarðast af þeim lánskjörum sem Íbúðalánasjóði býðst á almennum lánamarkaði, en slíkt er forsenda þess að sjóðurinn geti sjálfur staðið undir starfsemi sinni.

15. Lagt er til að 34. gr. falli brott. Ekki þykir ástæða til þess að hafa í frumvarpinu ákvæði er hamla ráðstöfun íbúðarhúsnæðis sem á hvílir viðbótarlán þar sem réttur til vaxtabóta samkvæmt lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er bundinn við vexti af lánum vegna öflunar eigin húsnæðis.

16. Lögð er til sú breyting á 36. gr. að félagsmálaráðuneytið haldi skrá yfir félög og félagasamtök sem hlotið hafa staðfestingu ráðherra og að sveitarfélög og aðrir sem hafi áhuga á geti fengið vitneskju um starfrækslu slíkra aðila.

17. Lagðar eru til breytingar á 1. mgr. 38. gr. sem fjallar um lánskjör á lánum til leiguíbúða. Breytingarnar eru til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til á 2. gr. frumvarpsins.

18. Lagt er til að 39. gr. sem fjallar um upplýsingarskyldu og eftirlit Íbúðalánasjóðs falli brott en að ákvæðið færist í nýja grein í lok kaflans.

19. Lögð er til breyting á 40. gr. sem fjallar um ráðstöfun leiguhúsnæðis. Lagt er til að skýrar komi fram með hvaða hætti unnt sé að ráðstafa leiguhúsnæði til einstaklinga sem uppfylla skilyrði 1. mgr. greinarinnar. Ákvæðið leggur ekki hömlur á að leiguhúsnæði sé að öðru leyti ráðstafað til einstaklinga er uppfylla nefnt skilyrði með samningum. Gæta verður þó ákvæða 4. mgr.

20. Lagt er til að við bætist ný grein sem verði 40. gr. og fjalli um eftirlit með félögum og félagasamtökum. Greinin fjallar um aðgang Íbúðalánasjóðs að gögnum og upplýsingum hjá þeim aðilum sem fengið hafa lán til byggingar leiguíbúða. Komi í ljós að ekki hefur verið fylgt skilyrðum um meðferð og ráðstöfun lána er Íbúðalánasjóði heimilt að endurskoða lánskjör eða gjaldfella lánið.

21. Lögð er til sú breyting á 3. mgr. 43. gr. sem fjallar um kærunefnd húsnæðismála að fellt verði brott ákvæði um að nefndin geti mælt fyrir um munnlegan eða skriflegan málflutning. Heimildir til þess að mæla fyrir um munnlegan eða skriflegan málflutning eru í stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.

22. Lögð er til breyting á 44. gr. sem fjallar um valdsvið kærunefndar húsnæðismála. Þar sem unnt er að skjóta ákvörðunum nefnda sveitarfélaga, er starfa á þeirra vegum, til æðra stjórnvalds er almennt gert ráð fyrir að stjórnsýslustig séu tvö, sbr. lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og í málum er snerta skipulags- og byggingarmál. Ekki þykir ástæða til þess að víkja frá þessu fyrirkomulagi að því er snertir ákvarðanir húsnæðisnefnda.

23. Lögð er til breyting á 47. gr. Ljóst er að endanlegt tjón Íbúðalánasjóðs vegna tapaðra viðbótarlána liggur ekki fyrir fyrr en sú eign sem um ræðir hefur verið seld á almennum markaði þar sem rétt verð fæst fyrir hana. Rétt þykir að taka fram að framlag sveitarfélaga til varasjóðsins skuli í upphafi vera 5%.

24. Lögð er til breyting á 48. gr. sem fjallar um þinglýsingu og stimpilgjald. Í 78. gr. gildandi laga er fjallað um þinglýsingu og stimpilgjald. Lagt er til að skuldabréf sem gefin eru út til Íbúðalánasjóðs vegna viðbótarlána og lána til byggingar og kaupa á leiguhúsnæði séu stimpilfrjáls, svo og heimildarbréf vegna kaupa á eigin íbúð.

25. Lagt er til að við bætist ný grein sem verði 48. gr. og fjalli um greiðsluvanda. Tekin verði upp á einum stað í frumvarpinu heimild til þess að bregðast við greiðsluvanda lánþega hjá Íbúðalánasjóði sem einnig taki til eldri lánveitinga Byggingarsjóðs ríkisins, Byggingarsjóðs verkamanna og fasteignaveðbréfa húsbréfadeildar. Greinin kemur í stað 24. gr. og lokamálsliðar 1. mgr. 16. gr. frv. Auk þess er kveðið á um heimildir til að fresta greiðslum hjá lántakendum lána til byggingar eða kaupa leiguhúsnæðis.

[13:45]

26. Lögð er til breyting á orðalagi í 50. gr. sem fjallar um gjaldtöku. Kveðið er með skýrari hætti á um fyrir hvaða þjónustu Íbúðalánasjóði er heimilt að taka gjald.

27. Við 52. gr. er verði 51. gr. Lagt er til að orðalag greinarinnar verði fært til samræmis við orðalag 119. gr. gildandi laga.

28. Lögð er til breyting á 53. gr., gildistökugreininni. Þar sem lagt er til að tekið verði upp nýtt ákvæði til bráðabirgða VII er tekið fram að þau ákvæði laga nr. 97/1993 sem þar er vísað til haldi einnig gildi sínu á meðan það ástand sem þar um ræðir varir.

29. Lögð er til breyting á 54. gr. sem fjallar um sameiningu sjóða. Þar sem fleiri aðilar en sveitarfélög hafa greitt ábyrgðargjald til Tryggingarsjóðs vegna byggingargalla er rétt að Íbúðalánasjóður taki við hlutverki hans að því er snertir þá aðila. Horfir það til skýringar þegar litið er til efnis ákvæðis til bráðabirgða VII þar sem varasjóður sveitarfélaga skal taka við eignum sveitarfélaga í sjóðnum. Þegar hlutverki Tryggingarsjóðs telst lokið skal honum eins og hann stendur þá skipt milli framkvæmdaraðila, annarra en sveitarfélaga, í réttu hlutfalli við framlög þeirra.

30. Lögð er til breyting á 56. gr. sem fjallar um undirbúningsnefnd sem annast á undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna stofnunar Íbúðalánasjóðs og yfirtöku réttinda og skyldna samkvæmt frumvarpi þessu. Lagt er til að félagsmálaráðherra skipi fimm menn í nefndina í stað þriggja.

31. Lögð er til breyting á ákvæði til bráðabirgða I. Í a-lið er leiðrétt tilvísun í lög nr. 97/1993. Í b-lið er felld brott tilvísun í 80. gr. gildandi laga til samræmis við nýja 48. gr. frumvarpsins sem fjallar um greiðsluvanda. Í c-lið er tekið fram að þau ákvæði gildandi laga sem vísað er til í ákvæðum til bráðabirgða II, IV, V og VII í frumvarpinu haldi gildi sínu. Loks er í d-lið tekin upp heimild til þess að skjóta til kærunefndar húsnæðismála ágreiningsmálum sem snerta eldra réttarástand á meðan það varir.

32. Lögð er til breyting á ákvæði til bráðabirgða II þar sem lagt er til að í ákvæði til bráðabirgða I verði tekinn upp almennur málskotsréttur til kærunefndar húsnæðismála.

33. Lögð er til breyting á ákvæði til bráðabirgða III. Í fyrri liðnum er bætt við tilvísun í lán Byggingarsjóðs ríkisins og í síðari liðnum er kveðið á um það hversu langur sá frestur skuli vera sem húsnæðisnefndir sveitarfélaga hafi til þess að skilyrða veitingu viðbótarlána við innleystar íbúðir.

34. Lögð er til breyting á ákvæði til bráðabirgða V. Skv. 1. mgr. 73. gr. laga nr. 97/1993 getur sá frestur sem einstaklingur hefur til þess að nýta sér kauprétt sinn verið mismunandi, en minnst fimm ár. Rétt þykir að hlutaðeigandi haldi þeim rétti sem hann kann að hafa samið að öðru leyti um við framkvæmdaraðila, en eftir gildistöku frumvarpsins fari um lánveitingar og lánskjör eftir ákvæðum frumvarpsins.

35. Lögð er til breyting á ákvæði til bráðabirgða VI. Um ráðstöfun félagslegra eignaríbúða er fjallað í nýju bráðabirgðaákvæði VII. Þykir rétt að vísa þangað um ráðstöfun þeirra íbúða sem tilbúnar verða til afhendingar eftir gildistöku frumvarpsins.

36. Lagt er til að við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða VII um meðferð umsókna um félagslegar eignaríbúðir. Samkvæmt þessu getur sá sem fengið hefur loforð um eða úthlutun á íbúð á byggingarstigi, eða annars konar íbúð samkvæmt eldra kerfi, fyrir 1. júní 1998 nýtt sér slíkt loforð þrátt fyrir að slík íbúð komi ekki til afhendingar fyrr en eftir gildistöku laga þessara. Íbúðalánasjóður mun veita þau lán sem veitt verða í slíkum tilvikum, en um meðferð slíkra lánsumsókna og lánskjör skal beita ákvæðum laga nr. 97/1993, eftir því sem við getur átt. Úthlutanir eða samningar sem eiga sér stað fyrir fyrrgreint tímamark halda með öðrum orðum gildi sínu. Með úthlutanir og samninga sem eiga sér stað eftir 1. júní 1998 og ekki reynist unnt að afhenda íbúð fyrr en eftir gildistöku frumvarpsins fer um lánveitingar og lánskjör samkvæmt ákvæðum VI. og VII. kafla frumvarpsins. Um lánveitingar og lánskjör vegna þeirra íbúða sem koma til afhendingar fram að gildistökutíma frumvarpsins fer eftir gildandi lögum.

37. Lagðar eru til breytingar á VII. bráðabirgðaákvæði til samræmis við breytingar á 54. gr. frumvarpsins.

38. Lögð er til breyting á ákvæði til bráðabirgða VIII. Við það er miðað að við samþykkt frumvarpsins hefjist viðræður milli ríkisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, fulltrúa félagslegra byggingaraðila og fulltrúa ASÍ og BSRB. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lánveitingar Íbúðalánasjóðs til byggingar leiguhúsnæðis samkvæmt VIII. kafla þess standi undir sér, en samhliða slíkum lánveitingum komi samtímagreiðslur er styrki hlutaðeigandi framkvæmdir. Í undirbúningi eru viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um hver verði þáttur þeirra í slíkum greiðslum. Til þess að slíkar viðræður leiði til árangurs er nauðsynlegt að könnun fari fram á leigumarkaði hér á landi og á meðan verði lánskjör til byggingar leiguíbúða óbreytt.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir álit meiri hluta félmn. og gert grein fyrir brtt. sem fram koma í sérstöku þingskjali en undir nál. meiri hlutans skrifa Magnús Stefánsson, Siv Friðleifsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Arnbjörg K. Sveinsdóttir, Kristján Pálsson og Pétur H. Blöndal.