Húsnæðismál

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 13:51:44 (6589)

1998-05-13 13:51:44# 122. lþ. 126.2 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, Frsm. minni hluta KÁ
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[13:51]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Hér er komið á dagskrá eitt af hinum stóru málum sem eru til umræðu á hinu háa Alþingi á þessu vori og ljóst að hér er um að ræða eitt af forgangsmálum ríkisstjórnarinnar. Það breytir ekki því að þetta frv. hefur verið gagnrýnt mjög harðlega. Hv. félmn. barst fjöldi umsagna þar sem margvíslegri gagnrýni er komið á framfæri, og sá bunki, sem við í minni hlutanum höfum dreift til þingmanna sem fylgiskjölum, ber það með sér að mjög margir höfðu mikið við þetta frv. að athuga, enda kemur líka í ljós að gerðar eru miklar breytingar á frv. Það er í sjálfu sér alltaf gott þegar hlustað er á athugasemdir og reynt að færa málin til betri vegar en það breytir því ekki að hér er um grundvallarbreytingar á húsnæðiskerfinu að ræða sem við í minni hlutanum getum ekki sætt okkur við.

Andstaðan við þetta frv. kom glöggt í ljós 1. maí sl. þegar verkalýðsforingjar gerðu þetta frv. að umræðuefni úti um land og er ekki að ástæðulausu að menn óttast afleiðingar frv. og mun ég koma betur inn á það á eftir. Það er auðvitað ekki skylda ríkisvaldsins að semja frv. í samráði við aðila úti í þjóðfélaginu en það er hins vegar skynsamlegt að hafa samráð og það er skynsamlegt að reyna að ná sem víðtækastri sátt um jafnviðamkil og alvarleg mál og húsnæðismál eru í samfélagi okkar, en því miður ákvað ríkisstjórnin að leggja fram þetta frv. þótt ljóst væri að mikil að andstaða væri við það og sú andstaða stendur enn þrátt fyrir ýmsar breytingar. Á síðasta þingi var samþykkt fjölskyldustefna ríkisstjórnarinnar, þál. um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og um aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. Þar segir í I. kafla, með leyfi forseta, kafla sem ber heitið Meginforsendur fjölskyldustefnu:

,,Ríkisstjórn og sveitarstjórnum á hverjum tíma ber að marka sér opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar í því skyni að styrkja hana og vernda án tillits til gerðar hennar og búsetu.``

Síðar í þessari þál. segir um almenn markmið stjórnvalda, 3. tölul.: ,,Að grundvallaröryggi fjölskyldunnar efnahagslega sé tryggt ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum.``

Það er samþykkt stefna ríkisstjórnarinnar að reyna að standa vörð um fjölskylduna og hag hennar og að tryggja öryggi í húsnæðismálum. Ég tel, hæstv. forseti, að þær aðgerðir sem hér á að grípa til og þær breytingar sem á að gera á húsnæðiskerfinu muni leiða til þess að allverulegur fjöldi fjölskyldna, sem hingað til hefur átt skjól í hinu félagslega húsnæðiskerfi, mun verða settur út á guð og gaddinn, út í óvissuna, og það veit enginn hvað þar tekur við.

Það er ástæða til þess, hæstv. forseti, að rifja upp að félagslega húsnæðiskerfið á sér langan aðdraganda hér á landi. Fyrstu lögin um félagslegar aðgerðir í húsnæðismálum eru frá árinu 1929 en ég held ég muni það rétt að u.þ.b. 10 árum áður hafi umræðan hafist um nauðsyn þess að grípa til aðgerða í húsnæðismálum og það stafaði meira og minna af því að húsakostur landsmanna var afar lélegur. Það lá mikill straumur fólks til hinna vaxandi bæja vegna þess að þar var boðið upp á atvinnu en húsnæðið sem þar var í boði var oft og tíðum ekki annað en kjallaraholur eða hanabjálkar eða þá einhverjir húskofar sem fólk hróflaði sér upp. Þessi straumur hélt stöðugt áfram og varð til þess að samþykkt voru lög árið 1929 um aðgerðir í húsnæðismálum sem m.a. leiddu til byggingar verkamannabústaðanna, samið var um byggingu verkamannabústaða í vesturbæ Reykjavíkur, og þar má sjá styttu af einum helsta baráttumanni þessa máls, Héðni Valdimarssyni, sem þá var þingmaður og formaður Verkamannafélagsins Dagsbrúnar.

Það er ekki vafamál að bygging þessara verkamannabústaða leysti vanda hundruða fjölskyldna og oft hafa heyrst frásagnir af því, m.a. frá Guðmundi heitnum J. Guðmundssyni verkalýðsforingja hvílík bylting það var fyrir fjölskyldu hans þegar hún flutti inn í verkamannabústaðina í vesturbænum. Frá þeim tíma hefur alltaf öðru hvoru verið gert átak í byggingu félagslegs húsnæðis. Það virðist alltaf hafa dottið niður inn á milli af ýmsum ástæðum, en frá árinu 1965 hefur verið nokkur samfella í byggingu og kaupum á félagslegu húsnæði, húsnæði sem hefur verið ætlað hinum lægst launuðu í samfélaginu. Árið 1965 var samið sérstaklega um byggingu nokkur hundruða íbúða í Breiðholtinu í Reykjavík. Ég er ekki nógu vel að mér í þessari sögu til að fullyrða hvað byggt var af félagslegu húsnæði annars staðar á landinu, en frá 1965 hefur þetta kerfi verið í gangi þótt það hafi tekið töluverðum breytingum. Nú eru 10.600 íbúðir sem teljast til félagslegs húsnæðis, þannig að þetta er nú ekki lítill fjöldi og þar af leiðandi ekki fáar fjölskyldur sem hafa getað leyst húsnæðisvanda sinn innan félagslega kerfisins.

Ég gat þess við 1. umr. um þetta mál að ég hef ákveðna reynslu af þessu kerfi, bæði eftir að hafa setið í stjórn Verkamannabústaða eins og þeir hétu þá í Reykjavík, og einnig eftir að hafa tekið þátt í nefndarstarfi árið 1990 þegar gerðar voru verulegar breytingar á kerfinu, en þá m.a. gerðist það að verkamannabústaðirnir og það kerfi var fært undir sveitarfélögin að mestu leyti og það varð á ábyrgð sveitarfélaganna. Ein af nefndum sveitarfélaganna tóku að annast þessi mál og síðan hafa verið stigin frekari skref í þá átt og hér er í rauninni verið að stíga lokaskrefið með því að taka fulltrúa verkalýðsfélaganna út úr húsnæðisnefndunum en það má vissulega setja spurningarmerki við þá aðgerð eins og við gerum reyndar í nál. okkar. Ég held að að mörgu leyti hafi það haft góð áhrif að hafa fulltrúa verkalýðsfélaganna í húsnæðisnefndunum, en vissulega hafa komið upp aðstæður þar sem fulltrúar sveitarfélagsins hafa lent í minni hluta og það er auðvitað ekki ásættanlegt af hálfu sveitarfélaganna. Spurningin er því sú hvort ekki hefði mátt finna þarna einhvern milliveg. Ég minnist þess frá minni reynslu þegar ég átti sæti í stjórn Verkamannabústaðanna í Reykjavík, að þar voru Guðjón Jónsson heitinn, sem var formaður Félags járniðnaðarmanna, og Kristján Thorlacius frá BSRB, en þeir voru báðir margreyndir úr verkalýðsbaráttu og þekktu vel til aðstæðna í þjóðfélaginu. Því leitaði mjög margt fólk til þeirra sérstaklega vegna þeirrar stöðu sem þeir höfðu, og ég óttast að þegar þessi tengsl verða algerlega rofin verði þetta meira kerfi en það hefur verið hingað til og þarna rofni þessi tengsl, en vonandi gerist það ekki. Við skulum ekki endilega vera mjög svartsýn hvað það atriði varðar því þetta er á ábyrgð sveitarfélaganna og þau eiga að sjálfsögðu að hafa meiri hluta innan nefnda sinna og ég hef fullan skilning á því sjónarmiði.

[14:00]

Áður en ég kem að breytingunum vil ég nefna að menn hafa verið að gera miklar breytingar, bæði á hinu almenna húsnæðiskerfi og félagslega kerfinu og fróðlegt er að velta því fyrir sér hvers vegna. Ég held að það mikla verðbólguástand sem ríkti áratugum saman hafi haft mjög mikil áhrif á það hvernig menn voru sífellt að breyta húsnæðiskerfinu og reyna að finna nýjar leiðir. Við minnumst þess þegar launavísitölunni var kippt úr sambandi 1983 hafði það mjög alvarlegar afleiðingar á stóran hóp fólks sem var að kaupa sér húsnæði. Ég hygg að sú aðgerð hafi haft töluverð áhrif á samningana sem voru gerðir 1986 þegar samið var um nýtt lánakerfi en það lánakerfi reyndist tímasprengja. Það var tímasprengja því að það óx svo gífurlega að allir sáu að það gat ekki haldið áfram. Það hefði leitt ríkissjóð út í miklar ógöngur. Því var hafist handa við að kanna önnur kerfi og út úr því dæmi kom svo húsbréfakerfið. Í kjölfarið voru gerðar töluverðar breytingar á félagslega húsnæðiskerfinu eins og ég minntist á, sem fólu m.a. í sér þær breytingar að stofnaðar voru húsnæðisnefndir undir stjórn sveitarfélaganna, tekið var upp greiðslumat, ég man að árið 1990 var stefnt að því að reyna að sjá til þess að fólk legði eitthvað fram sjálft, það væru ekki veitt nema 90% lán en það kom mjög fljótlega í ljós að það gekk einfaldlega ekki. Þarna var ákveðinn hópur sem þurfti meiri aðstoð og því voru aftur tekin upp 10% viðbótarlán. Eins og kemur fram í gögnunum hefur alveg ótrúlega lítill hópur lent í vanda þótt hann hafi fengið 100% lán og haft litlar tekjur því sem betur fer snúast aðstæður fólks oft til hins betra.

Áður en ég vík að efni frv. er líka vert að velta fyrir sér þeirri spurningu hverjum kerfið hefur þjónað, hverjir hafa þurft á félagslegri aðstoð að halda og hverjir munu þurfa á henni að halda í framtíðinni. Það eru hinir tekjulægstu og í þeim hópi eru einstæðar mæður, barnmargar fjölskyldur, fatlaðir og ýmsir sem búa af einhverjum ástæðum við skert kjör og bera skarðan hlut frá borði í samfélaginu og ég fullyrði að kerfið hafi fyrst og fremst þjónað þessum hópum. Að vísu hafa verið undantekningar á. Ég minnist þess að iðnnemar höfðu aðgang að kerfinu meðan þeir voru nemar, ekki veit ég hvort reglur um námsmannabústaði og annað slíkt hefur breytt því en þarna var um hóp að ræða sem síðan fékk allgóð og oft mjög góð laun eftir að út á vinnumarkaðinn kom. Því var tekin upp sú regla að hægt væri að endurmeta vexti á þeirri forsendu að það væri ekki sanngjarnt að hið opinbera væri að greiða niður vexti fyrir fólk sem hefði mjög góð kjör og ég hygg nú að þessi hópur hafi nú flutt sig út úr félagslega kerfinu. En reynsla mín er sú og sú þekking sem ég hef haft og hef af kerfinu er sú að þetta félagslega kerfi hafi fyrst og fremst þjónað hinum lægst launuðu. Ekki hafa aðrir komist þarna inn, nema hugsanlega í þeim tilvikum, t.d. úti á landi þar sem ekki hafa verið nægjanlega margar umsóknir og menn hafa hreinlega fengið leyfi frá Húsnæðisstjórn til að úthluta öðrum þessum íbúðum. Ég þekki dæmi um það, hreinlega til að koma íbúðunum út.

Þá ætla ég að víkja að því hvaða breytingar er verið að gera á húsnæðiskerfinu af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hér gerist það að rótgróin stofnun, Húsnæðisstofnun ríkisins, verður lögð niður og í staðinn verður stofnuð ný ríkisstofnun, Íbúðalánasjóður. Ég tek það fram að þótt við fjöllum ekki um þetta atriði sérstaklega í nefndarálitinu að ég get fyllilega sætt mig við að menn stokki upp ríkisstofnanir og breyti þeim að því tilskildu að staða starfsfólks sé tryggð. Ég ætla að koma betur að því máli á eftir. Það er líka verið að sameina byggingarsjóðina og þótt ekki liggi fyrir nein úttekt á því hvað þessi sameining þýðir og hversu langt hún dugir eða hvort hún dugir til að rétta af Byggingarsjóð verkamanna held ég að þetta sé líka rétt skref. Ég minnist þess að 1990 lagði sú nefnd sem ég átti sæti í þetta til en af einhverjum ástæðum voru menn ekki tilbúnir til þess þá en hefðu nú betur verið það vegna þess að síðan hefur Byggingarsjóður verkamanna lent í töluverðum ógöngum og sigið mjög á ógæfuhlið, fyrst og fremst vegna þess að ríkisstjórnir undanfarinna ára hafa jafnt og þétt skorið niður framlögin til Byggingarsjóðs verkamanna jafnvel þótt menn hafi verið að reyna að semja um annað. Það hefur leitt til þess að staða sjóðsins hefur versnað verulega og ég minni á að Ríkisendurskoðun hefur vakið athygli á því ár eftir ár hve staða sjóðsins er alvarleg og það yrði að grípa til einhverra ráða. Þau ráð eru annars vegar þau að hækka vexti sem kemur ekki til greina gagnvart því láglaunafólki sem er verið að reyna að sinna og slíkar breytingar geta ekki verið afturvirkar nema á alveg sérstökum forsendum eins og þeim að tekjur fólks hafi breyst verulega. Hin leiðin er framlög úr ríkissjóði og við í stjórnarandstöðunni höfum lagt til ár eftir ár að framlögin yrðu aukin til Byggingarsjóðs verkamanna, til að koma í veg fyrir hreint gjaldþrot hans í upphafi næstu aldar. Það styttist í það uppgjör. En það hefur líka legið fyrir að hægt væri að sameina sjóðina. Staða Byggingarsjóðs ríkisins fer stöðugt batnandi vegna þess hversu lítið er lánað úr honum en mikið borgað inn í hann. Hins vegar hefði þurft að liggja fyrir hvort þetta dugir, hversu langt þetta dugir, því Byggingarsjóður verkamanna hefur lánað út á mjög lágum vöxtum, 1--2,4% vöxtum en honum hefur verið gert að taka lán og afla fjár á miklu hærri vöxtum, markaðsvöxtum, og allir sjá að þetta dæmi gengur ekki upp til lengdar.

Meginbreytingin sem verið er að gera og sú sem við gagnrýnum fyrst og fremst er breytingin á félagslega húsnæðiskerfinu. Nú verður hætt að veita lán á niðurgreiddum vöxtum en í stað þess getur fólk sótt um almennt lán sem verður allt að 70% ef um það er að ræða að verið er að kaupa íbúð í fyrsta sinn og síðan getur láglaunafólk, þeir sem standast greiðslumat og verða væntanlega undir ákveðnum tekjumörkum, fengið viðbótarlán sem er allt að 20 til 25% en þau lán verða á ábyrgð sveitarfélaganna. Það er líka meginbreyting að þessum lánum má verja til kaupa á íbúðum hvar sem er á markaðnum en þó mega sveitarfélögin skylda þá sem fá viðbótarlán til að kaupa íbúðir innan núverandi kerfis næstu tvö árin og það er reyndar breyting frá því sem stóð upphaflega í frv., það er sem sagt búið að afmarka þetta við næstu tvö ár.

Nú verður afar fróðlegt að sjá hvernig þetta ákvæði mun virka og ég dreg ekki dul á að það reynir kannski mest á þetta í Reykjavík þar sem hreyfing innan kerfisins er mest enda íbúðirnar flestar. Það verður fróðlegt að sjá hvernig gengur að skylda fólk til að kaupa íbúðir í þeim hverfum í borginni sem eru óvinsælust því ekki er því að leyna að það eru nokkrir staðir í borginni þar sem ekki hefur tekist nægilega vel til og umhverfið er með þeim hætti að fólk kýs að búa annars staðar ef það á þess nokkurn kost. Það er því alveg ljóst að ef sveitarfélögin lenda í því að leysa til sín mikinn fjölda íbúða verður þar um mikil útgjöld að ræða. Það væri sérstakt áhyggjuefni Reykjavíkurborgar sem eins og ég nefndi ber ábyrgð á langsamlega flestum af þessum íbúðum og það verður afar fróðlegt að sjá hvernig þetta gengur. Þarna er verið að koma til móts við ákveðin vandræði sveitarfélaganna en þetta ákvæði gengur þvert á það grundvallaratriði og þá aðalbreytingu sem verið er að gera, að færa lánin frá íbúðum til einstaklinga og að veita þeim frelsi til að velja sér íbúð einhvers staðar úti á markaðnum, þetta er því takmarkað frelsi. Þrátt fyrir það má búast við því að töluverður straumur verði af fólki sem mun sækja um viðbótarlán og það er allt óvíst um það hvernig sveitarfélögin muni bregðast við, hvað þau verða reiðubúin til að ábyrgjast mörg lán. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. er gert ráð fyrir að allt að þúsund einstaklingar muni sækja um lán og bætast við og það er töluverður straumur út á húsnæðismarkaðinn.

Ein af hinum stóru breytingum sem er verið að gera varðar lán til öflunar leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga eða félagasamtaka. Þar á að veita allt að 90% lán, að öllum líkindum á markaðsvöxtum. Hér er rétt að vekja athygli á því að öll hugsun frv. gengur út frá því að hin nýja ríkisstofnun standi undir sér, standi undir rekstri sínum og þar af leiðandi hljóta markaðsvextir að ráða för þótt þess kunni að verða einhver dæmi að veitt verði fé á fjárlögum hugsanlega til ákveðinna lánaflokka eða ákveðinna aðgerða. Það er alveg ljóst að veitt verður fé á fjárlögum, a.m.k. næstu tvö árin, hugsanlega lengur, á meðan verið er að gera úttekt á leigumarkaðnum og reyna að komast að samkomulagi milli ríkisins, sveitarfélaganna og verkalýðshreyfingarinnar um það hvernig skuli staðið að byggingu leiguhúsnæðis, hvernig markaðurinn er, hver er þörfin. Þetta á allt saman að kanna en við vitum ekkert hver útkoman verður eða að hve miklu leyti sveitarfélögin verða reiðubúin til að koma inn í dæmið í ríkari mæli en þau hafa gert hingað til.

[14:15]

Vert er að vekja athygli á því í upphafi að við í minni hluta félmn. mótmælum því harðlega að ríkisstjórnin skuli ætla að knýja húsnæðisfrv. í gegn á þessu vori. Margt er mjög óljóst varðandi alla framkvæmd málsins. Andstaðan við það er mikil, einkum innan verkalýðshreyfingarinnar, og reyndar hafa komið fram miklar athugasemdir frá þeim húsnæðisnefndum sem sendu inn umsögn. Það er rétt að vekja athygli á gagnrýni húsnæðisnefndanna sem hafa farið ofan í þessi mál meðan sveitarstjórnirnar og Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lagt blessun sína yfir málið. Það var þó með ákveðnum fyrirvörum og kröfum sem við í minni hlutanum sjáum nú reyndar alls ekki að gangi upp miðað við alla hugsun málsins. Það er auðvitað mjög athyglisvert að þeir sem best þekkja til t.d. húsnæðisnefndir Reykjavíkur, Kópavogs, Hafnarfjarðar, Akureyrar og Reykjanessbæjar, sem virkilega hafa skoðað málið, krossa sig í bak og fyrir vegna þess sem á að fara að gera.

Hið alvarlega í þessu og ástæðan fyrir því að við leggjum til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar og skoðað betur er að ekkert mat liggur fyrir um áhrifin af þessum aðgerðum. Það er ekkert vitað um áhrifin á húsnæðismarkaðinn, hvað þýðir þessi aukna eftirspurn? Þýðir hún hækkun verðs eða lækkun verðs? Hver verða áhrifin á verðbréfamarkaðinn ef stofnunin þarf að afla mun meira fjár, m.a. vegna aukinna lána til þeirra sem áður féllu undir félagslega kerfið? Það liggur ekkert fyrir um þann kostnað sem frv. hefur í för með sér fyrir sveitarfélögin. Eiga þau að bregðast við þeirri þörf sem verður til þegar hópur fólks verður útilokaður frá félagslega kerfinu og þarf að leita út á leigumarkaðinn? Hvernig eiga sveitarfélögin að bregðast við? Hvernig munu þau bregðast við og hvað kostar þetta þau?

Við erum hér með dæmi frá einstaka sveitarfélögum sem hafa reynt að leggja mat á áhrifin og það er auðvitað ekkert smáræði. Það er sko ekkert smáræði fyrir þessi sveitarfélög. Það hefði nú verið forvitnilegt að fá slíkt mat fyrir Reykjavíkurborg. Hér er ástandið auðvitað verst og það liggur reyndar fyrir að Reykjavíkurborg hefur uppi áform um að kaupa hundrað nýjar leiguíbúðir. Mér segir svo hugur að það dugi skammt. Hver verða áhrifin á hinn almenna leigumarkað? Hver verða áhrifin á leiguverðið þegar þessum hópi er vísað út á þann markað? Verða þá fleiri sem eiga ekki annan kost en að búa áfram hjá foreldrum sínum og geta ekki byrjað að búa? Ég er auðvitað að vísa til þess að meðal þeirra sem hafa fengið úthlutun félagslegra íbúða eru ungar konur að ég hygg stærsti hópurinn, ungar konur með börn. Einstæðar mæður, mjög lágt launaðar, ráða að sjálfsögðu ekki við háa leigu. Það er því veruleg ástæða til að hafa áhyggjur af því hver áhrifin af þessu frv. verða.

Það er rétt að benda á það líka, eins og fram kemur í nál. okkar að það er stöðugt vaxandi þörf fyrir leiguhúsnæði, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Hingað liggur straumurinn og það er auðvitað sárt ef fólk sem vill eignast eigið húsnæði á þess ekki kost vegna þessara breytinga.

Áhrifin á kjör kaupenda og væntanlegra leigjenda í hinu nýja kerfi eru algerlega óljós. Það munar töluvert miklu á milli þeirra útreikninga sem er að finna í frv. og þess sem ASÍ og BSRB lagði fyrir okkur í hv. félmn. Það byggir auðvitað á því að menn hafa gefið sér mismunandi forsendur. Fulltrúar ASÍ og BSRB bentu á að í útreikningum ráðuneytisins á greiðslubyrði næstu áratugina væri ekki gert ráð fyrir neinum breytingum. Allar stærðir voru stöðugar, verðbólga, launaþróun o.s.frv. en um leið og einhverjar slíkar breytingar verða hefur það auðvitað mikil áhrif á greiðslubyrði, ýmist til hins betra eða verra eftir því hver þróunin er. Auðvitað getur enginn spáð fyrir um hvað gerast muni á næstu áratugum. Enginn getur spáð því hver vaxtaþróun verður þótt hún stefni heldur niður á við núna, sem betur fer. Við vitum samt ekki hvernig ástandið verður eftir 10, 15, 20 ár. Það skiptir hins vegar miklu fyrir kjör þeirra sem verða innan þessa kerfis.

Þá er vert að benda á að í upphafi voru lögð fram tvö frv. um húsnæðismál sem auðvitað áttu að fylgjast að, þ.e. frv. um húsnæðismál og síðan frv. um byggingar- og samvinnufélög. Mikil áhersla var lögð á að afgreiða húsnæðisfrv. úr nefnd. Því miður gafst okkur ekki tími til að vinna hitt málið, miðað við þær reglur sem hér voru settar um vinnu nefnda. Nú hefur það hins vegar gerst, hæstv. forseti, að þingið hefur dregist meir en ráð var fyrir gert. Hefði verið gert ráð fyrir að nefndir störfuðu áfram hefði kannski verið hægt að vinna það mál líka. Auðvitað er afar slæmt að skilja frv. um húsnæðissamvinnufélög svona eftir en best hefði auðvitað verið að fresta báðum málunum og reyna að ná sátt.

Ég ætla þá að víkja að því hver áhrif þessa frv. verða að okkar mati. Ég vísa þá til þess sem sagt hefur verið um markmið þessa frv. Yfirlýst markmið er að einfalda kerfið eins og segir í grg. og auðvelda fólki öflun húsnæðis. Ég hygg því miður að áhrifin, a.m.k. hvað það varðar að auðvelda fólki öflun húsnæðis, eigi býsna langt í land en þar munu viðbrögð sveitarfélaganna ráða mjög miklu um það hvernig til tekst. Það er a.m.k. ljóst að sú breyting ein, að veita 90% lán í stað þess að ákveðinn hópur átti kost á 100% lánum, hefur veruleg áhrif. Þar er hópur sem mun ekki lengur eiga þess kost að eignast húsnæði. Aðrar breytingar sem fylgja með, eins og það að fólk þarf að greiða stimpilgjald af almenna láninu, gjöld til húsnæðisnefndar og væntanlega einnig að greiða fasteignasala hans skerf, þýðir aukinn kostnað fyrir þá sem eru að afla sér húsnæðis. Þar af leiðandi mun þar bætast við hópur sem fellur út.

Um greiðslumatið er allt óljóst. Það mun einnig hafa veruleg áhrif á það hverjir munu geta keypt sér húsnæði undir formerkjum almenns láns og viðbótarláns. Tölur skortir um það hversu stór þessi hópur er. Það er margt sem getur ráðið því og haft áhrif á hversu stór hann verður, m.a. vaxtakjörin á almennum markaði.

Í nál. okkar kemur fram að húsnæðisnefnd Kópavogs reyndi að leggja mat á það hver áhrifin yrðu af greiðslumatinu ef það verður hið sama innan almenna kerfisins, þ.e. hjá þeim sem fá húsbréfalán og hinum sem fá húsbréfalán plús viðbótarlán. Í umsögn þeirra kom fram að gerð var könnun á greiðslumati 122 fjölskyldna sem hafa keypt íbúðir í félagslega kerfinu að undanförnu. Þessar fjölskyldur voru metnar miðað við 18% greiðslubyrði sem er sú viðmiðun sem stuðst er við í húsbréfakerfinu. Þá kom í ljós, og þetta er mjög athyglisvert, að aðeins 11 fjölskyldur af 122, eða 9% hefðu staðist greiðslumat skv. frv. Þessar tölur gefa nokkra hugmynd um það sem koma skal. Ef við bætist sá hópur sem ella hefði fengið 10% lán til viðbótar, þeir sem geta ekki tekið á sig þann aukna kostnað sem þessu mun fylgja, hvað erum við þá að tala um stóran hóp sem áður átti þess kost að fá úrlausn sinna mála innan félagslega kerfisins?

Rétt er að taka skýrt fram að félagslega kerfið hefur engan veginn annað eftirspurn á höfuðborgarsvæðinu, en þessi kostur var þó til staðar og þeir höfðu forgang sem verst stóðu að vígi og ljóst þótti að gætu staðið undir kaupum. Þarna er stór hópur sem ekki mun lengur eiga möguleika og er vísað út á leigumarkað sem er ekki til. Það er ekki til leiguhúsnæði fyrir þetta fólk. Það mun auðvitað taka tíma fyrir sveitarfélögin að koma sér upp leiguhúsnæði. Það er algerlega ljóst. Ég hygg að mikið sé til af húsnæði í landinu sem mætti breyta í íbúðir og gera að huggulegum leigu\-íbúðum. Það tekur hins vegar allt sinn tíma og sveitarfélögin þurfa auðvitað að eiga peninga. Þau þurfa að leggja sitt af mörkum til að standa undir þessu og staða sveitarfélaganna er auðvitað afar mismunandi hvað þetta varðar, að ekki sé nú talað um viljann til að grípa til aðgerða.

Í grg. frv. segir varðandi markmiðin eins og ég nefndi áðan, með leyfi forseta:

,,Frumvarp það sem hér er lagt fram um húsnæðismál er annað tveggja frumvarpa er hafa það að markmiði að einfalda og samræma skipulag húsnæðismála til lengri tíma og tryggja rétt þeirra sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda við öflun húsnæðis.``

Þá spyr maður: Hver er hin félagslega aðstoð? Hverjar eru hinar félagslegu aðgerðir sem boðið verður upp á? Því hefur verið svarað til að viðbótarlánin séu félagsleg aðgerð, félagsleg lán. En þetta eru auðvitað bara lán á markaðsvöxtum. Þetta verða lán á markaðsvöxtum og það bera breytingartillögur meiri hlutans mjög skýrt með sér. Í upphaflega frv. stóð að vextir skyldu vera breytilegir en skv. breytingartillögum er miðað við að fylgni sé milli þeirra vaxta sem sjóðurinn þarf að greiða vegna lána sem hann tekur, þess fjár sem hann er að afla sér úti á markaði og þeirra lána sem hann er að veita. Ella stæðist ekki sú hugsun frv. að stofnunin standi undir rekstri sínum og sé sjálfbær. Hér er því um meginbreytingu að ræða.

Breytingin felst í því að niðurgreidd lán sem mjög lengi hafa verið við lýði í íslenska húsnæðiskerfinu munu hverfa. Ég hygg að miklu meira öryggi sé í slíkum lánum fyrir láglaunafólk heldur en því kerfi sem nú á að taka upp og felst í að vaxtakostnaður fólks er greiddur niður með vaxtabótum. Reynslan af vaxtabótakerfinu og þeim a.m.k. tveimur ríkisstjórnum sem setið hafa frá 1991 er ekki góð. A.m.k. fjórum sinnum hafa verið gerðar breytingar á vaxtabótakerfinu vegna þess að menn sáu það þenjast út. Hér er verið að bæta nýjum hóp inn í vaxtabótakerfið. Kannski verður hann stærri en menn áætla, hver veit? Hvað skyldu vaxtabæturnar standa lengi?

[14:30]

Ég skal taka undir þau sjónarmið, sem m.a. hafa komið fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal, að nauðsynlegt sé að skoða vaxtabótakerfið og það má vel vera að vaxtabótakerfið sé að hluta til að þjóna hátekjufólki því þó að það séu tekjutengingar og mörk og vaxtabótaþak, þá er fólk að fá vaxtabætur á býsna háar tekjur, en vissulega er margt sem spilar inn í stöðu fólks, eins og barnafjöldi og skuldir m.a. námsskuldir og fleira. Það er því erfitt að finna eitthvert réttlæti þarna. En aðalatriði málsins er að verið er að taka af kerfi sem hefur boðið upp á mikið öryggi og verið að setja þennan verst stadda hóp í samfélaginu eða þá sem eru meðal hinna verst stöddu yfir í kerfi sem er mjög auðbreytanlegt og hefur verið breytt býsna oft hingað til.

Eitt af þeim atriðum sem verkalýðshreyfingin hefur bent á í málflutningi sínum og þeim finnst hvað alvarlegast í þessu máli er að í frv. eru engar tryggingar fyrir því að veitt verði viðbótarlán, að leiguhúsnæði verði keypt eða byggt, það er óvissa á öllum sviðum. Það er alveg sama hvaða atriði er skoðað, það er alls staðar sama óvissan. Menn vísa til ábyrgðar sveitarfélaganna en sannleikurinn er sá að skylda sveitarfélaganna til að aðstoða fólk í húsnæðismálum er studd vægast sagt veikum lagabókstaf bæði í þessu frv. og eins í lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga, en þar segir í 45. gr., með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna ... eftir því sem kostur er og þörf er á, ...``

Sveitarfélögunum er gefið það að meta hvað þau ráða við, hver er þörfin o.s.frv. Þetta er afar veikt ákvæði og tryggir ekki nokkurn skapaðan hlut en ég vísa til þess sem ég sagði í upphafi að í gegnum árin hefur iðulega verið samið í kjarasamningum um byggingu ákveðins fjölda íbúða og ég minnist þess að á kjörtímabilinu --- það var alla vega meðan Alþfl. sat í stjórn --- líklega á tímabilinu 1988--1990 sem minni hluti þeirrar stjórnar var afar veikur og þá gerði Kvennalistinn ákveðið samkomulag við ríkisstjórnina um að styðja frv. í húsnæðismálum gegn því að byggður yrði ákveðinn fjöldi félagslegra íbúða. Menn hafa því iðulega verið að gera samninga til að tryggja ákveðið framboð á félagslegu húsnæði. Meginkostir þess kerfis sem hefur verið við lýði eru niðurgreiddir vextir sem er mikið öryggi fyrir lántakendur og hins vegar það að félagslegt húsnæði hefur verið byggt skipulega upp. Þó að vissulega megi taka undir þá gagnrýni að gengið hafi verið of langt í því að hafa félagslegar íbúðir of margar á sama stað og þær hafi stundum fengið á sig ýmis heiti svo sem bæjarblokkir og fleira slíkt og að réttara væri að reyna að blanda sem allra mest, hefur samt sem áður mjög gott húsnæði verið tryggt fyrir láglaunafólk.

Varðandi þessa tryggingu þá kom það fram í starfi félmn. að endurskoða á lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar munu menn væntanlega skoða þetta ákvæði og vonandi huga að því að tryggja betur skyldu sveitarfélaganna til að reyna að aðstoða fólk í húsnæðismálum. En reynslan sýnir okkur einfaldlega hvernig sveitarfélögin hafa farið með þessi mál og það eru einstök sveitarfélög, m.a. á höfuðborgarsvæðinu, sem einfaldlega halda frá sér fólki með því að takmarka framboð á félagslegu húsnæði, það er bara hreinlega ekki neitt. Í bæ eins og Seltjarnarnesi er sáralítið leiguhúsnæði og athygli vakti þegar gerð var könnun á dreifingu námsmanna að það voru bara engir námsmenn sem leigðu í Seltjarnarnesbæ. Þetta er auðvitað ákveðin stefna sem þar er rekin til þess að halda slíku fólki frá sér í sæluríki Sigurgeirs.

Til að draga saman meginatriði í gagnrýni minni hluta félmn., þá segir í nál. okkar: ,,Allt er málið sama markinu brennt, áhrif þess eru óljós að flestu leyti. Núverandi kerfi, sem hefur lengi verið í föstum skorðum með ákveðinn fjölda nýrra íbúða og svipaðan fjölda endursöluíbúða ár hvert, tryggir réttindi og skyldur til öflunar félagslegs húsnæðis þótt það hafi engan veginn getað annað eftirspurn, t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Félagslega kerfið hefur haldið niðri verði á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu vegna þess að byggðar hafa verið ódýrari íbúðir en almennt gerist (um 16% lægra verð í Reykjavík), en hér eftir mun markaðsverð ráða. Verði hið nýja kerfi að veruleika verða möguleikar fólks til að kaupa húsnæði á félagslegum kjörum eða til að komast inn í leiguíbúðir sveitarfélaga algjörlega háðar vilja og framtaki sveitarfélaganna, hvað þau treysta sér til að ábyrgjast mörg viðbótarlán og hve mikla áherslu þau leggja á leiguhúsnæði.``

Þetta er meginkjarni málsins og rétt að vekja sérstaka athygli á því sem hér segir um verð á íbúðum og það aðhald sem félagslega kerfið hefur verið, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, og ég vitna til þess af því að hér þekki ég best til. Ég þekki best til á höfuðborgarsvæðinu en þess eru mörg dæmi eins og komið hefur fram í umræðunni og í vinnu nefndarinnar að víða úti á landsbyggðinni lentu menn í því að byggja allt of dýrt húsnæði og hafa verið í vandræðum með það. Það er rannsóknarefni út af fyrir sig hvernig á því stóð og hvers vegna Húsnæðisstofnun fylgdist ekki betur með en þetta. Reyndar hefur verið bent á að vissulega hafi margt gerst, stundum hafa byggingarfyrirtæki farið á hausinn, margir aðilar komið að byggingu þessara félagslegu íbúða o.s.frv., og menn hafa einfaldlega lent þarna í vandræðum.

Áður en ég kem að einstökum atriðum ætla ég að víkja að öðrum mjög mikilvægum þætti sem eru þær forsendur sem hæstv. ríkisstjórn gefur sér fyrir þessum breytingum. Þar vil ég fyrst og fremst vísa í umsögn Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem sendu frá sér langa og ítarlega umsögn sem er að finna í fylgiskjölum okkar. Ég ætla ekki að vitna í það sérstaklega, en Alþýðusambandinu og BSRB fannst ástæða til að leggja verulega vinnu í að skoða þær forsendur sem ríkisstjórnin hafði gefið sér fyrir þessum breytingum vegna þess að allar þessar forsendur má draga í efa eða hreinlega segja að séu rangar. Menn eru að breyta kerfi sem hefur að miklu leyti gengið vel þó að auðvitað hafi verið á því gallar sem sjálfsagt hefði verið að breyta, en að mestu leyti hefur þetta kerfi gengið vel, og við hreinlega mótmælum þeim forsendum sem menn gefa sér fyrir breytingu. Í nefndarálitinu kemur fram og rökin eru þau að kerfið sé komið í þrot. Það hafi valdið sveitarfélögunum miklum vanda, of margir hafi reist sér hurðarás um öxl, húsnæði standi autt o.s.frv. Þetta eru meginforsendurnar sem ríkisstjórnin hefur gefið sér fyrir því að gera þessar grundvallarbreytingar. Og maður spyr sig hvort eitthvað annað búi að baki sem menn segja ekki opinskátt. Ég átta mig hreinlega ekki á því. Ég veit ekki til þess að neitt slíkt ástand sé hjá Húsnæðisstofnun að það út af fyrir sig gefi tilefni til mikilla breytinga. Sá vandi sem blasir við og allir viðurkenna er vandi Byggingarsjóðs verkamanna sem öllum er ljós og sú ríkisstjórn sem nú situr og sú sem á undan henni fór brugðust engan veginn við vanda sjóðsins og þeim ábendingum sem Ríkisendurskoðun hefur ítrekað komið fram með.

Einnig er sjálfsagt að viðurkenna og það er vissulega rétt að ýmis sveitarfélög hafa lent í vanda með þetta kerfi, bæði vegna þess að fólk hefur flutt í burtu, upp hefur komið mikið atvinnuleysi, menn hafa hugsanlega --- það hafa verið nefnd dæmi um það --- reist sér hurðarás um öxl, byggt of margar félagslegar íbúðir, kannski til þess að halda uppi atvinnu í sveitarfélögunum, þetta hefur verið fullyrt. En vandi nokkurra sveitarfélaga með félagslega íbúðakerfið eru ekki nægjanleg rök til að bylta þessu kerfi. Það að íbúðir standi auðar --- íbúðir standa alls staðar auðar tímabundið, m.a. er það svo í Reykjavík að ótrúlegan tíma tekur oft að gera upp dæmin þegar um endursölu er að ræða. Það þarf að mála íbúðir og gera þær upp og ýmislegt getur valdið því að íbúðir standa auðar jafnvel um nokkurra mánaða skeið. Þetta eru heldur engin rök til að breyta kerfinu jafnverulega og hér er verið að gera. Þær forsendur sem ríkisstjórnin gefur sér standast því einfaldlega ekki og það verður ekki séð að þau markmið náist sem menn eru að setja sér að ,,einfalda og samræma skipulag húsnæðismála til lengri tíma og tryggja rétt þeirra sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda við öflun húsnæðis`` eins og segir í grg. með frv., með leyfi forseta. Það verður engan veginn séð að þau markmið náist.

Ég vil aðeins koma að því að það kerfi sem verið er að koma upp er þannig að félmrh. er yfir húsnæðismálunum. Síðan er hin sjálfstæða stofnun, Íbúðalánasjóður, og innan hennar er sérstaklega tilnefnd ein deild, húsbréfadeildin. Síðan er ekkert nafn á hinu sem er umsýslan um Byggingarsjóð verkamanna og Byggingarsjóð ríkisins á meðan það dæmi verður gert upp, sem mun taka einhverja áratugi. Þessari stofnun verður falin veiting viðbótarlána og ýmislegt annað sem stofnunin á að fjalla um í störfum sínum og í 9. gr. frv. eru ýmis verkefni Íbúðalánasjóðs talin upp.

[14:45]

Síðan eru það húsnæðisnefndirnar sem annast um húsnæðismálin hver á sínum stað. Ég kem síðar að þeim breytingum sem þar er verið að gera.

Ég fæ ekki séð að mikil einföldun sé í þessu kerfi. Í stað þess að menn eru nú að veita félagsleg lán á einu bretti, eitt lán og reyndar stundum 10% lán viðbótar, á núna að veita almennt lán og viðbótarlán, náttúrlega til alls hópsins sem á þess kost að fá viðbótarlánin og húsbréfakerfið heldur auðvitað áfram. Hver er einföldunin? Eina sýnilega einföldunin er sú að verið er að sameina Byggingarsjóð verkamanna og Byggingarsjóð ríkisins og það kann að vera að í því felist töluverður sparnaður og hagræðing til lengri tíma litið. Það er ljóst að með þessum breytingum er verið að loka báðum þessum sjóðum og þar af leiðandi mun að miklu leyti streyma inn í þá en ekki út lengur nema menn þurfa eflaust að taka frekari lán til endurfjármögnunar og til þess að standa undir afborgunum, hugsanlega reyna að fá lán á lægri vöxtum o.s.frv. Ég get ekki séð að hér sé um mikla einföldun að ræða enda er það kannski ekki meginatriði málsins heldur fyrst og fremst hvað felst í breytingunum og hvaða afleiðingar þær munu hafa.

Þá ætla ég að víkja að einstökum atriðum sem við í minni hlutanum viljum tíunda í gagnrýni okkar við frv. og þar með þær spurningar sem við setjum fram varðandi málið. Þá vík ég fyrst að atriði sem ég nefndi aðeins áðan sem eru tengslin við aðila vinnumarkaðarins. Með þessum breytingum er endanlega verið að klippa á áratugatengsl við verkalýðshreyfinguna. Það er nokkuð síðan Vinnuveitendasambandinu var kippt út úr húsnæðismálastjórn og þegar við töluðum við þá lögðu þeir að sjálfsögðu mikla áherslu á að þeir sætu við sama borð og verkalýðshreyfingin. Auðvitað má alltaf setja spurningarmerki við það hverjir eiga að koma að þessum málum. Ljóst er að þarna eru aðilar sem hafa mikla yfirsýn yfir vinnumarkaðinn, yfir fjármagnsmarkaðinn og yfir kaup og kjör í landinu þannig að ég held að ráðlegt væri og að mörgu leyti gott að hafa betri tengsl bæði við verkalýðshreyfinguna og Vinnuveitendasambandið í stað þess að við erum bara að senda þeim málið til umsagnar. Þetta eru þeir aðilar sem eru að fjalla um þessi mál og hafa iðulega samið um þennan málaflokk. Maður spyr sig að því hvort það er hér með úr sögunni að samið verði um húsnæðismál í kjarasamningum. Mér segir svo hugur að verkalýðshreyfingin eigi eftir að taka þessi leigumál upp og reyna að hafa einhver áhrif á þau því að það mun mjög fljótlega reyna á það gagnvart hluta þeirra félagsmanna hvernig kerfið virkar og hvaða áhrif það hefur á kjör láglaunafólks.

Í þessu sambandi er rétt að minna á að hvorki verkalýðshreyfingin né þau félagasamtök sem eiga hvað mestra hagsmuna að gæta varðandi leiguhúsnæði, byggingarsamvinnufélög og aðra þá kosti sem hafa verið í boði komu að samningu frv. Rétt er að ítreka að þó verkalýðshreyfingin hafi verið inni í þessari vinnu á fyrri stigum og hafi tekið undir ákveðnar hugmyndir eins og einstaklingslán þá kom verkalýðshreyfingin hvergi nærri útfærslunni sem er í þessu frv. enda hafa verkalýðsfélögin mótmælt innihaldi frv. harðlega.

Þá er einkenni á þessu frv. og þeirri skipan mála sem á að koma á hve vald ráðherra er mikið. Hér er rétt að vekja athygli á því að þetta er hluti af þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum þar sem framkvæmdarvaldið hefur verið að taka til sín æ meira vald og við höfum séð hvert frv. á fætur öðru þar sem vald ráðherra til setningar reglugerða er gríðarlega mikið. Mér finnst ástæða til þess að setja spurningarmerki við þessa þróun. Er rétt stefna hjá okkur almennt í lagasetningu að vera sífellt að setja lagaramma en síðan er það á valdi framkvæmdarvaldsins að fylla upp í rammann? Ég hef átt samtöl við lögfræðinga sem gagnrýna þá stefnu mjög harðlega. Lög séu að verða svo óljós að það sé hægt að túlka þau endalaust sundur og saman og þetta er mjög aukin vinna fyrir lögfræðinga en gerir allt lagaumhverfið óljósara. Ég vil nefna þetta sérstaklega. Mér finnst að þetta sé atriði sem við þurfum virkilega að velta fyrir okkur.

Í frv. kemur fram að það þarf að setja hvorki meira né minna en 28 reglugerðir í tengslum við frv. Reyndar hafa býsna margar reglugerðir verið settar vegna núgildandi laga en það er gríðarlegt reglugerðarvald sem ráðherra er falið. Þetta tvennt, hið mikla vald ráðherra, hann skipar stjórn hinnar nýju ríkisstofnunar einn og síðan setur hann allar þessar reglugerðir þannig að vald hans er gríðarlega mikið en síðan er rétt að vekja athygli á því að Íbúðalánasjóður verður sjálfstæð stofnun, hún verður mun sjálfstæðari stofnun en Húsnæðisstofnun er nú. Ég er ekki viss um að hv. þingmenn hafi áttað sig á því að hér er verið að gera stjórnkerfislega breytingu hvað varðar stöðu þessarar stofnunar. Hún verður miklu sjálfstæðari en Húsnæðisstofnun er nú og er rétt að rifja það upp að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var ekki alls kostar ánægð með störf stjórnar Húnæðisstofnunar á sínum tíma og knúði gegn breytingar sem gáfu henni kost á því að hafa meiri áhrif á ákvarðanir Húsnæðisstofnunar. Hér er verið að stíga skrefið aftur til baka til meira sjálfstæðis stofnunarinnar.

Í þessu samhengi vekjum við athygli á því að enn einu sinni er verið að leggja niður eina af þeim stjórnum ríkisstofnana sem Alþingi hefur kosið hingað til. Hér er enn eitt skrefið í þá átt án þess að neinar umræður hafi farið fram um það hvað rétt er í þessum efnum. Hvar eiga að vera stjórnir ríkisstofnana, kjörnar af Alþingi? Ég er ekki að segja að þetta sé rangt en í tengslum við þær umræður sem hafa átt sér stað að undanförnu um eftirlit með ríkisstofnunum, hverjir eigi að annast það og hvernig það fer fram, þá er þetta mjög mikilvægt atriði. Hvar á Alþingi að koma beint að og kjósa stjórnir og hvar ekki?

Ég er fylgjandi mjög skýrum aðskilnaði milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds en Alþingi verður að geta fylgst með. Það verður að geta sinnt eftirlitsskyldu sinni gagnvart framkvæmdarvaldinu og þar af leiðandi held ég að þetta sé mál, hæstv. forseti, sem þurfi að ræða mjög alvarlega en það sem er umhugsunarvert er hvernig þessi skref hafa verið stigin eitt af öðru án þess að það hafi verið rætt af einhverri alvöru og einhverju samhengi hvað er verið að gera og hvað er eðlilegt í þessum efnum.

Þá kem ég að atriði sem ég nefndi áðan sem er það sem verkalýðshreyfingin hefur gagnrýnt mjög harðlega, að það er ekkert í þessu frv. né í öðrum lögum sem tryggir að sveitarfélögin svari vaxandi þörf fyrir leiguhúsnæði. Tryggingin er engin. Það er veikur lagabókstafur og er eingöngu að treysta á vilja sveitarfélaganna og getu þeirra til þess að bregðast við. Við getum tekið dæmi af því sem fram kemur í umsögn Kópavogsbæjar. Þeir mátu það þannig að hjá þeim mundi verða þörf fyrir 75 nýjar leiguíbúðir á ári næstu fjögur árin sem þýðir verulegan kostnað fyrir sveitarfélagið. Í umsögn húsnæðisnefndar Akureyrarbæjar kom fram að búast megi við að þar verði þörf fyrir 60 nýjar leiguíbúðir á ári og þá er miðað við þann hóp sem mundi ekki standast greiðslumat og ekki muni eiga fyrir 10% útborgun. Það gefur auga leið að þetta veldur sveitarfélögunum auknum kostnaði.

Við vekjum athygli á því að hjá Félagsmálastofnun Reykjavíkurborgar liggur nú fyrir 381 gild umsókn um leiguhúsnæði hjá borginni. Þar af eru 197 umsækjendur í algerum forgangshópi og hér er einungis átt við þá sem eru 66 ára og yngri því að greint er á milli þeirra sem teljast vera orðnir eldri borgarar og annarra. Þessi hópur gefur einhverja hugmynd um það hver þörfin er í Reykjavík en það er ljóst að töluverður hópur mun bætast við ef það gerist að þetta frv. verður samþykkt.

Þá er rétt að víkja að því, hæstv. forseti, sem snýr að námsmönnum sérstaklega því að þessar breytingar munu hafa veruleg áhrif á kjör námsmanna og framboð á námsmannaíbúðum. Í umsögnum námsmanna og samtaka þeirra, Félagsstofnunar stúdenta og Byggingarfélags námsmanna og fleiri sem sendu okkur umsagnir komu fram miklar áhyggjur af því sem hér er verið að gera. Þar er staðan sú að þessir aðilar hafa hingað til getað fengið lán á 1% vöxtum en við munu taka lán á markaðsvöxtum nema eitthvað annað verði sérstaklega ákveðið. Hækkun á vöxtum þýðir hækkun á leigu og eftir því sem fram kom hjá fulltrúum námsmanna telja þeir að fólk þeirra þoli afar litla hækkun á leigu. Þessir byggingaraðilar verða að einhverju leyti að leita eftir lánum á almennum lánamarkaði og þar verða markaðsvextir þannig að þá óar mjög við því að halda inn í markaðsumhverfið. Staðreyndin er sú að á höfuðborgarsvæðinu er mikill skortur á húsnæði fyrir námsmenn og við skulum ekki gleyma því að þau lán hafa líka þjónað landsbyggðinni mjög dyggilega. Byggt hefur verið námsmannahúsnæði við Samvinnuháskólann í Bifröst, á Hólum og við Háskólann á Akureyri fyrir utan það sem byggt hefur verið í Reykjavík. Það er mjög alvarlegt mál ef dregur úr byggingu námsmannahúsnæðis og er rétt að vekja athygli á því að Félagsstofnun stúdenta sem annast húsnæðismálið fyrir nemendur við Háskóla Íslands á mjög langt í land með að uppfylla þörfina fyrir leiguhúsnæði þannig að það mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar ef námsmönnum og samtökum þeirra mun verða vísað út á almennan lánamarkað og á lán á markaðsvöxtum hjá Íbúðalánasjóði. Hv. þm. geta flett upp í umsögnum og séð þær tölur sem nefndar eru. Hið sama gildir að sjálfsögðu um íbúðir fyrir fatlaða sem er annar hópur sem hefur verið að reyna að koma sér upp húsnæði og þarf sérstakt húsnæði, m.a. vegna lömunar og eftir því hvernig á stendur meðal hinna fötluðu og þeir óttast líka mjög að hækkun verði á leigu, fyrst og fremst vegna vaxtanna. Þar er um enn þá viðkvæmari hópa að ræða en námsmenn, hóp sem býr því miður oft við afar kröpp kjör.

[15:00]

Þá víkur sögunni að kostnaði sveitarfélaganna sem ég reyndar nefndi aðeins áðan og vil einungis geta þess að aukinn kostnaður sveitarfélaganna felst í því að þau munu þurfa að fjármagna byggingu eða kaup á leiguhúsnæði að hluta til á markaðsvöxtum eða á þeim vöxtum sem verða á húsbréfum hverju sinni og hugsanlega líka að taka lán á almennum lánamarkaði. Þá bætist við sá kostnaður hjá sveitarfélögunum að þeim verður gert að greiða 5% af hverju viðbótarláni í sérstakan varasjóð sem mun auðvitað nema töluverðum upphæðum ef um verulegar lánveitingar verður að ræða. Þetta mun mæða mest á sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu þar sem þörfin er mest, þ.e. ef þau bregðast við.

Þá er rétt að benda á að aukinn fjöldi leigjenda hefur líka í för með sér aukin útgjöld sveitarfélaganna vegna húsaleigubóta. Eins og ég nefndi fyrr þá liggur ekkert mat fyrir um þann kostnað sem bætast mun við hjá sveitarfélögunum. Ég efast um að þau hafi öll gert sér grein fyrir því hversu mikinn kostnað er hér um að ræða. Húsnæðisnefndir Kópavogs og Akureyrar lögðu í sérstaka vinnu við að reyna að meta þann kostnað. Það er ekki hægt að fara með þær tölur því þeir reiknuðu með stimpilgjöldum á öll lán, enda var ekki hægt að skilja frv. öðruvísi. En meiri hlutinn leggur til breytingu hvað varðar stimpilgjöldin sem ég kem að innan skamms.

Þá er að nefna húsnæðisnefndir sveitarfélaganna. Hlutverk þeirra mun breytast þótt það sé býsna óljóst að hve miklu marki störf þeirra munu breytast vegna þess að það mun taka töluverðan tíma að afgreiða núgildandi kerfi. Það mun auðvitað verða við líði um allnokkurra ára skeið meðan íbúðir eru að skipta um eigendur og fara út á almennan markað. Það getur jafnvel tekið áratugi. En breytingarnar sem verða hjá húsnæðisnefndunum eru að þær munu nú fyrst og fremst fjalla um þörf á viðbótarlánum og meta þær umsóknir. Það er svolítið annað en það sem menn hafa verið að meta, þ.e. möguleika fólks til að standa undir þessum niðurgreiddu lánum. Þeim er ætlað að gera árlegar áætlanir um þörf á íbúðarhúsnæði fyrir sveitarfélagið. Við vekjum athygli á því að slíkt ákvæði hefur lengi verið í lögum en hefur því miður ekki virkað sem skyldi. Ég nefndi við 1. umr. að stjórn Verkamannabústaða í Reykjavík og síðan húsnæðisnefndin hafa afgreitt þetta atriði þannig að umsóknirnar sem berast gefi mynd af því hver húsnæðisþörfin er. En málið er auðvitað miklu viðameira. Menn þurfa að gera sér grein fyrir breytingum, gera áætlanir um íbúaþróun, samsetningu íbúanna o.s.frv. til að átta sig á hinum mismunandi þörfum íbúanna fyrir húsnæði. Því miður finnst mér að þessu verkefni hafi alls ekki verið sinnt sem skyldi og þarna þyrftu sveitarfélög og húsnæðisnefndir verulega að taka sig á. Inn í þetta dæmi þarf líka að taka þörf fyrir námsmannahúsnæði, námsmannaíbúðir, sem sagt að sveitarfélagið hafi einhverja raunverulega mynd af þörfinni hjá sér. Þegar ég nefni námsmannahúsnæði er ég enn einu sinni fyrst og fremst að vísa til höfuðborgarsvæðisins.

Við vekjum líka athygli á því að ef það gerist að lögð verði mun meiri áhersla á leiguhúsnæði þá verður ákveðin skörun milli verkefna húsnæðisnefndanna og félagsmálanefnda sveitarfélaganna.

Í 14. gr. hafa húsnæðisnefndirnar það almenna hlutverk eins og segir í 1. tölul., með leyfi forseta:

,,Að gera árlega áætlanir fyrir sveitarfélagið um þörf á íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og að hafa milligöngu um, og eiga frumkvæði að því, að aflað verði húsnæðis í því skyni og aðstoða einstaklinga við húsnæðisöflun.``

Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi en að hér sé um það að ræða að nefndirnar eigi að afla húsnæðis í því skyni. Það er alveg ljóst að meiningin er að húsnæðisnefndir séu ekki lengur að fást við byggingarstarfsemi eins og verið hefur en reyndar hefur dregið verulega úr. En hvað þetta þýðir gagnvart leiguhúsnæði er ekki alveg ljóst í mínum huga því t.d. í Reykjavík er komið upp nokkuð sérstakt kerfi sem er þannig að það er fyrst húsnæðisnefndin sem hefur annast þennan hluta félagslega húsnæðiskerfisins, þ.e. eignaríbúðirnar, síðan annast félagsmálanefnd og félagsmálastofnun borgarinnar að meta þörf fólks fyrir leiguhúsnæði á vegum sveitarfélagsins og síðan hefur það gerst að stofnað hefur verið sérstakt hlutafélag, Félagsbústaðir hf., sem annast rekstur íbúðanna. Þetta er orðið býsna viðamikið og flókið kerfi og ég held að Reykjavíkurborg hljóti að skoða það mjög alvarlega hjá sér hvort þörf sé á að hafa þetta svona margskipt og hvort ekki væri best að reyna að hafa þetta allt á einum stað, a.m.k. mat á þörfinni fyrir aðstoð og öflun húsnæðis o.s.frv. Ég verð að viðurkenna að ég átta mig ekki á því hvar það á að gerast, hver það er sem á að koma með tillögur um t.d. kaup Reykjavíkurborgar á leiguhúsnæði. Það hlýtur eiginlega að vera verkefni húsnæðisnefndarinnar að benda borginni á að hún þurfi svo og svo margar leiguíbúðir meðan það er félagsmálastofnun sem hefur langsamlega mesta tilfinningu fyrir og mestar upplýsingar um þörfina. Ég held því að hér verði óhjákvæmilega um skörun að ræða. Ég vil benda á að samkvæmt lögum hefur sveitarstjórn heimild til að flytja verkefni milli nefnda. Það er í sjálfu sér ekkert sem skyldar sveitarfélögin til að hafa húsnæðisnefnd. Hægt er að fela félagsmálanefnd eða félagsmálaráði að annast þessi verkefni. Ég held að sveitarfélögin hljóti að skoða þetta töluvert eftir þessar breytingar og ekki síst eftir því sem núverandi félagslegt kerfi fjarar út og verkefnum sem tengjast rekstri og umönnun núverandi kerfis fækkar.

Þá ætla ég að víkja að sérstökum lánaflokkum sem hafa verið við lýði samkvæmt 11. gr. núgildandi laga. Þar er m.a. átt við lán til einstaklinga með sérþarfir. Í þessu frv. er þetta tekið út sem ákvæði í lögum en í 16. gr. kemur fram að stjórn Íbúðalánasjóðs geti að fengnu samþykki ráðherra stofnað til nýrra lánaflokka. Í skýringum er vísað til þess að slíkt geti gerst ef það samræmist fjárhagsáætlun sjóðsins. Rétt er að leggja sérstaka áherslu á þetta. Ef sjóðurinn treystir sér til og á einhvern aur afgangs er hugsanlegt að stofnað verði til nýrra lánaflokka. Þessi breyting tengist því að stofnunin á að standa undir sér og veita lán á markaðsvöxtum, vegna þess að það er alveg ljóst að lán til sérþarfa og til sérstakra hópa verður erfitt að veita á venjulegum vöxtum. Það verða erfið kjör fyrir þessa hópa. En aðalatriðið er að ekki er lengur tryggt að þessir lánaflokkar séu til staðar. Hins vegar felur ákvæði 16. gr. í sér, að komi upp ný þörf, einhver þörf á nýjum lánaflokki, getur stjórnin og ráðherra ákveðið þetta og þá þarf ekki lagabreytingu til þess. Að því leytinu er þetta kostur. En hér er auðvitað verið að afnema ákveðna lánaflokka sem hafa verið tryggðir í lögum og þetta er skýrt í athugasemd við 16. gr.

Þá víkur sögunni að greiðslumatinu og greiðslubyrðinni. Eins og ég hef vikið að mun greiðslumatið hafa mikil áhrif á það hverjir komast inn í þetta kerfi, hverjir fá viðbótarlán og það hverjir verða út undan eða hverjir falla ekki undir kerfið. Skemmst er frá að segja að allt er í óvissu um áhrif greiðslumatsins. Ég vísa til þess sem ég sagði áðan um mat Kópavogsbæjar á því hversu margir í þeim hópi sem þeir hafa þjónað mundu standast greiðslumat samkvæmt 18%-reglunni. En til að gæta sanngirni vil ég geta þess að embættismenn ráðuneytisins lögðu mikla áherslu á það að menn vildu að greiðslumatið væri sveigjanlegt. Þeir voru ekki sammála þeirri túlkun að hér yrði um þrengingu að ræða. En það er allt algerlega óljóst um það og verði stuðst við 18% greiðslumat er þar auðvitað um mikla þrengingu að ræða miðað við það sem nú er í félagslega kerfinu. Við minnum einnig á annan kostnað sem bætist við hjá þeim sem verða að taka lán og verður til þess að þrengja þeirra hag.

Þeir útreikningar sem við höfum fengið á greiðslumati og greiðslubyrði eru afar misvísandi. Í umsögn ASÍ og BSRB segir, með leyfi forseta:

,,... þak á hámarksupphæð vaxtabóta hefur í för með sér, að svigrúm fólks í nýja kerfinu til að kaupa íbúðir yfir ákveðnum mörkum er verulega takmarkað ef greiðslubyrði á ekki að aukast.``

Hér kemur að því sem kom töluvert við sögu við 1. umr. að það kemur býsna fljótt að því að láglaunafólk rekur sig upp undir vaxtabótaþakið og þar af leiðandi eru möguleikar þess til að kaupa góðar íbúðir býsna takmarkaðir. Það mun reyna mjög á þær reglur sem verða settar um kröfurnar til húsnæðis. Það má ekki gerast, hæstv. forseti, að aftur sé verið að vísa fólki í kjallaraholur og upp undir þak þar sem það verði einu íbúðirnar sem láglaunafólk á þess kost að kaupa. Það má ekki gerast. Þar mun þróun launa og þróun íbúðaverðs hafa gríðarleg áhrif. En það er ekki að ástæðulausu að dæmin sem tekin eru í frv. eru um 5 og 6 millj. kr. íbúðir. Maður spyr sig hvers konar íbúðir það eru og hvernig íbúðir það verða þegar og ef eftirspurnin eykst við þessa breytingu.

[15:15]

Ein af stóru breytingunum sem gera á er sú að þeir sem hingað til hafa notið niðurgreiddra vaxta fá nú vaxtabætur fjórum sinnum á ári. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 1998 er áætlað að vaxtabætur verði 3,8 milljarðar á þessu ári. Þetta eru auðvitað verulegar fjárhæðir fyrir ríkissjóð. Eins er ljóst að þær munu hækka nokkuð við að þeir sem áður fengu niðurgreidda vexti koma nú inn í vaxtabótakerfið eða um 120 millj. kr. á ári samkvæmt áætlun fjmrn., eftir því sem kemur fram í umsögn fjármálaskrifstofunnar. Síðan eru auðvitað aðrir liðir í þessu frv. og aðrar aðgerðir sem einnig hafa kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð.

Við vekjum athygli á því hversu oft hefur verið krukkað í vaxtabótakerfið af stjórnvöldum og það að niðurgreiddir vextir eru mun öruggari aðstoð fyrir láglaunafólk en vaxtabótakerfið miðað við reynslu undanfarinna ára. Það er ekki að ástæðulausu að sú aðferð hefur verið viðhöfð í félagslega húsnæðiskerfinu um áratuga skeið að halda fast við niðurgreidda vexti. Það er hápólitísk spurning, hvernig aðstoð vegna húsnæðismála af hálfu hins opinbera skuli háttað og hverjir skuli njóta hennar. Við í minni hlutanum leggjum mikla áherslu á að þær fjölskyldur sem þurfa á aðstoð að halda við öflun húsnæðis megi alls ekki við kjaraskerðingu. En hún felst því miður í þessu frv. Hugsanlega mun þessi leið, að greiða niður húsnæðiskostnað með vaxtabótum í stað niðurgreiddra vaxta, fela í sér kjaraskerðingu þó, eins og ég hef nefnt, útreikningum beri ekki saman eftir því hvaða forsendur menn gefa sér.

Víkur þá sögunni að stimpilgjöldum. Það er eitt af þeim atriðum sem flestir umsagnaraðilar mótmæltu hvað harðast. Því var mótmælt að taka ætti upp stimpilgjöld. Sú gagnrýni leiddi til þess að nú liggur fyrir brtt. sem felur í sér að hvorki verða lögð stimpilgjöld á viðbótarlánin né á lán vegna byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði. Þetta þýðir, hæstv. forseti, að þeir sem fá almennt lán og viðbótarlán verða að greiða stimpilgjald af almenna hlutanum, þ.e. húsbréfaláninu. Það hefur í för með sér aukinn kostnað fyrir lántakendur frá því sem nú er. Þetta er einn kostnaðarliðurinn sem bætist við.

Ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi en svo að það verði greidd stimpilgjöld af öðrum lánum sem veitt kunna að verða samkvæmt 16. gr. Ef aðrir lánaflokkar verða teknir upp, þá verða væntanlega stimpilgjöld á þeim. Ella þarf að gera lagabreytingu. Öðruvísi er ekki hægt að skilja þetta. Við í minni hlutanum mótmælum því enn og aftur að aukinn kostnaður skuli vera lagður á þá sem fá viðbótarlán, þá sem hingað til hafa átt inni í félagslega kerfinu. Og þarna er enn einn liðurinn sem veldur því að færri munu eiga þess kost að nýta sér þessi lán.

Hæstv. forseti. Þá kemur að atriði sem hefur vakið töluverða umræðu. Samkvæmt umsögn fjárlagaskrifstofunnar var greinilegt að meining ríkisstjórnarinnar var að veita ekki lán næstu tvö árin nema til byggingar 50 leiguíbúða á tveimur árum. Í umsögnum fjölmargra aðila, m.a. námsmanna og Búseta og húsnæðisnefndanna kom fram að þessi fjöldi dygði engan veginn. Hér er um að ræða lán til 50 íbúða á niðurgreiddum vöxtum. Samkvæmt upphaflegri tillögu var þetta ætlunin. Nú leggur meiri hlutinn til að þetta verði ekki nákvæmlega tilgreint heldur verði vísað til framlaga á fjárlögum þessi ár. Það á ekki endilega að vera bundið við tvö ár heldur verði beðið eftir niðurstöðu þeirrar nefndar sem setja skal á fót með aðild verkalýðshreyfingarinnar, annarra byggingaraðila og sveitarfélaganna sem mun fara yfir ástandið á leigumarkaðnum. Það vekur þá spuringuna: Hvað svo? Og hvað mun koma út úr starfi þessarar nefndar? Það veit enginn frekar en um annað sem hér stendur til að gera.

Þýðir þessi brtt. að menn gefi ákveðin fyrirheit um áframhaldandi lán á niðurgreiddum vöxtum? Hvernig er hægt að treysta á slík loforð miðað við það sem reynslan hefur kennt okkur varðandi Byggingarsjóð verkamanna? Þar hafa framlögin verið skorin niður jafnt og þétt. Þá vaknar spurning: Um hvað á að semja við sveitarfélögin? Á að semja um bein framlög þeirra til byggingar leiguhúsnæðis? Í lögunum sem voru í gildi frá 1990--93 voru sveitarfélögin skylduð til þess að leggja fram 3,5% af verði hverrar íbúðar sem eins konar styrk eða framlag til húsnæðismála. Sum þeirra hafa haldið því áfram, t.d. til byggingarfélags námsmanna hér á Reykjavíkursvæðinu, Félagsstofnun stúdenta, o.fl. hafa fengið styrk frá Reykjavíkurborg til byggingar námsmannahúsnæðis. Hvers ætlast ríkisstjórnin til af sveitarfélögunum? Hver er meiningin? Það veit enginn. Þetta sýnir enn að leigumálin og sú áhersla sem hér er verið að reyna að leggja á öflugan leigumarkað er allt eitt stórt spurningarmerki og enginn veit hvað verður.

Breytingin sem hér er verið að gera stafar fyrst og fremst af mikilli gagnrýni á þessa takmörkun og að þetta mundi þýða að á næstu árum drægi úr framboði á leiguíbúðum og námsmannaíbúðum. Í þessu samhengi er rétt að benda á að Samband ísl. sveitarfélaga gerði samþykkt á sínum fundi austur á Egilsstöðum þar sem þeir gera kröfu um að áfram verði boðið upp á lán á niðurgreiddum vöxtum eftir að þessu margumrædda tveggja ára tímabili lýkur.

Við í minni hlutanum verðum nú að segja að okkur er algjörlega óskiljanlegt hvernig sveitarfélögunum dettur í hug að leggja blessun sína yfir allar þessar breytingar og þetta kerfi en að gera svo kröfu um að gamla kerfinu verði haldið áfram að hluta til. Sú krafa gengur engan veginn upp miðað við meginhugsun frv., sem er að Íbúðalánasjóður verði sjálfstæð stofnun sem standi undir sér. Þar af leiðandi getur hann ekki veitt lán á niðurgreiddum vöxtum og það eina sem þar gæti komið til væri beint framlag úr ríkissjóði. Við spyrjum hvort það standi til. Stendur til að veita áfram lán á niðurgreiddum vöxtum til byggingar leiguhúsnæðis? Það liggur ekkert fyrir um það. Nákvæmlega ekki neitt. Það á sem sagt að fara út í viðræður við aðila vinnumarkaðarins, sveitarfélögin, verkalýðshreyfinguna, byggingaraðila og hamingjan veit hvað kemur út úr því. Hér stendur til að afgreiða málin áfram án nokkurra skuldbindinga.

Þá kemur að býsna flóknu máli sem snertir m.a. Búseta og húsnæðisnefnd Reykjavíkur. Í 40. gr., sem verður 37. gr., er kveðið á um rétt þeirra aðila sem byggja eða kaupa leiguíbúðir til að selja leigjendum eignarhlut. Hér er átt við þá sem hingað til hafa fallið undir félagslega kaupleigu. Það er afar óljóst hver áhrif þess verða. Þar er skemmst frá að segja að fulltrúar úr húsnæðisnefnd Reykjavíkur eru mjög óánægðir með þessa útfærslu og húsnæðisnefnd Reykjavíkur gerir mjög alvarlegar athugasemdir við það hvernig þetta atriði er afgreitt. Þeir hafa séð það sem möguleika að hvetja leigjendur í íbúðum Reykjavíkurborgar til þess að kaupa sér eignarhlut, m.a. á þeim forsendum að það muni leiða til betri umgengni í íbúðunum, auka ábyrgðartilfinningu og fleira slíkt. Með þeim breytingum og þeirri framsetningu sem hér er virðist þeim í raun og veru að verið sé að gera þetta ómögulegt. Þeir vilja eiga möguleika á að veita fólki ákveðinn tíma til aðlögunar. Hér er verið að klippa á það og það er auðvitað alvarlegt mál.

Hvað verður um hina almennu kaupleigu? Henni er einfaldlega úthýst og frv. um byggingar- og samvinnufélag er skilið eftir og allt það sem snýr að t.d. Búseta, sem eru fjölmenn samtök og eiga mikið af íbúðum, er í óvissu.

Þá fer að líða að lokum ræðu minnar, hæstv. forseti, ég er langt komin með að fara hér yfir þetta nál. Hér kemur að afar stóru og mikilvægu atriði. Það er framtíð starfsfólks Húsnæðisstofnunar. Í máli hv. þm. Magnúsar Stefánssonar kom fram að í nál. meiri hlutans er vikið að stöðu starfsfólksins og í almennum orðum vikið að því að það voni og treysti því að fá vinnu við hina nýju stofnun. Hins vegar er ekkert sem tryggir það. Eins og nærri má geta hefur þessi umræða og þetta frv. valdið miklum óróa innan stofnunarinnar. Þar eru ýmsir að hugsa sér til hreyfings og einhverjir eru hættir. Aðrir vita ekkert hvað þeirra bíður.

Því hefur verið haldið fram í umræðum um þetta mál að starfsfólki muni fækka og það er reyndar afar líklegt miðað við það að byggingarsjóðirnir verði sameinaðir. En meiri hluti félmn. hefur verið ófáanlegur til að setja einhver ákvæði inn í þetta frv. líkt og gert hefur verið í svipuðum málum sem hafa verið hér til umfjöllunar. Þar hafa menn sett lagaákvæði þess efnis að réttindi starfsfólks skuli tryggð. Um þetta fólk gilda auðvitað lögin um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, en það er rétt að vekja athygli á því að þeim lögum var breytt árið 1996. Hjá Húsnæðisstofnun er nú starfandi hópur fólks sem á t.d. engan biðlaunarétt, en aðeins sinn uppsagnarfrest vegna þess að lögunum var breytt á sínum tíma. Þarna er fólk í mikilli óvissu og við lögðum mikla áherslu á það í minni hlutanum að í það minnsta yrðu sett einhver ákvæði um forgang, eins langt og hann dygði, en það er ekki vilji til þess. Mér finnst mjög mikilvægt, hæstv. forseti, að við þessa umræðu komi skýr og skilmerkileg yfirlýsing hæstv. félmrh. um að forgangur starfsfólks Húsnæðisstofnunar að störfum við hina nýju stofnun verði tryggður. Það er mjög mikilvægt að slík yfirlýsing verði gefin.

[15:30]

Niðurstaða minni hlutans er sú að við leggjum til að frv. verði endurskoðað með þátttöku þeirra aðila sem málið snertir sérstaklega, svo sem samtaka launafólks, sveitarfélaga, námsmannasamtaka, Búseta og fleiri. Allt of margir þættir þessa máls eru óljósir og vert að benda á að ekki er tekið á ýmsum vandamálum sem einkennt hafa núgildandi kerfi, svo sem reglur um endursölu íbúða. Þar vísa ég sérstaklega í álit lögmanns húsnæðisnefndar Reykjavíkur en húsnæðisnefnd Reykjavíkur hefur sent okkur niðurstöðu umboðsmanns Alþingis þar sem hann hefur vakið athygli á réttaróvissu hvað varðar endursöluíbúðir. Þótt verið sé að breyta kerfinu munu líða mörg ár þar til endursölu íbúða lýkur og nauðsynlegt er að taka á þessum þætti. Einhverra hluta vegna var alls ekki vilji til þess en þetta efni geta þingmenn kynnt sér í fylgiskjölum.

Verði frv. að lögum mun það kalla á stóraukinn kostnað fyrir sveitarfélögin og verða til þess að vísa fjölda fjölskyldna út á leigumarkað sem er ekki til. Breytingarnar munu leiða til þess að dýrara verður fyrir láglaunafjölskyldur að eignast eigið húsnæði. Áhrifin á verðbréfamarkaðinn og húsnæðismarkaðinn eru óljós og rétt er að benda á að bæði Seðlabankinn og Vinnuveitendasambandið vöktu athygli á þessum atriðum. Sérstaklega vísa ég til umsagnar Vinnuveitendasambandsins sem vakti athygli á því að menn hefðu ekki lagt neitt mat á það hver áhrifin yrðu. Eins og ég nefndi fyrr má búast við ýmsu í þeim efnum. Það má búast við að íbúðaverð hækki, í það minnsta fyrst um sinn vegna aukinnar eftirspurnar á almennum markaði og því fólki sem fær viðbótarlán verður gefinn kostur á að kaupa íbúð hvar sem er. Fjárlagaskrifstofa fjmrn. gerir ráð fyrir að um þúsund manns bætist við í vaxtabótakerfinu og sú tala gefur hugmynd um þann fjölda sem mun leita sér að húsnæði á almennum markaði. Þetta er hópurinn sem mun væntanlega kaupa sér íbúðir nái þessar breytingar fram að ganga.

Þá hverfur það aðhald við íbúðaverð er framkvæmdir húsnæðisnefndanna, einkum á höfuðborgarsvæðinu, hafa veitt almenna markaðnum og einnig það mun eflaust valda einhverri hækkun á íbúðaverði. Þetta er afar slæmt mál.

Að lokum vekjum við athygli á því að ekkert kerfi er gallalaust og breyttar aðstæður og breyttar þarfir kalla á breytingar. Það eru einkum lítil sveitarfélög úti á landi sem hafa lent í erfiðleikum með félagslega húsnæðiskerfið eins og það er nú meðan það hefur að mestu leyti gengið vel á höfuðborgarsvæðinu. Vanda litlu sveitarfélaganna þarf að leysa á annan hátt en þann að gjöbreyta húsnæðiskerfinu og kippa þar með grunninum undan öryggi hundruða fjölskyldna sem fengið hafa fyrirgreiðslu í félagslega húsnæðiskerfinu á undanförnum árum og áratugum. Þá er algerlega óviðunandi hvernig starfsfólk Húsnæðisstofnunar er skilið eftir í óvissu um framtíð sína. Minni hlutinn mótmælir harðlega slíkri framkomu við starfsfólk. Í ljósi alls þess er að framan greinir leggur minni hlutinn til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Áður en ég lýk máli mínu, hæstv. forseti, vil ég vekja athygli á því að ýmsir sem hvað mest hafa komið að húsnæðismálum á vegum verkalýðshreyfingarinnar, hafa skrifað greinar í blöðin á undanförnum vikum til að reyna að koma vitinu fyrir ráðamenn en það virðist því miður ekki hafa nein áhrif. Þó var ákveðið að kalla fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar inn í störf þeirrar nefndar sem á að setja á laggir til að skoða leigumarkaðinn, hvenær sem niðurstaða þeirrar nefndar mun liggja fyrir. Þeir Guðmundur Vignir Óskarsson og Kristján Gunnarsson frá BSRB og ASÍ skrifuðu grein í Morgunblaðið, Rannveig Sigurðardóttir hagfræðingur BSRB skrifaði grein og lögfræðingur ASÍ, Magnús Nordal, skrifaði einnig grein en það má eiginlega furðulegt heita, hæstv. forseti, að ekki skuli hafa birst meiri gagnrýni í blöðum og á opinberum vettvangi á þetta frv. Ég held að því miður stafi það af því að menn hafi almennt ekki áttað sig á því hvað er að gerast. Þó hefur komið í ljós hjá húsnæðisnefnd Reykjavíkur að fólk hér úti í bæ er uggandi um sinn hag og það hefur verið mikil hreyfing hjá þeim, mjög margir haft samband, mjög margir sótt umsóknarblað og reynt að koma sér inn í kerfið en það er vonlaust mál. Það verður ekki úthlutað nema til þeirra sem hafa þegar fengið loforð um úthlutun og sem betur fer munu þeir sem hafa fengið loforð verða í gamla í kerfinu út árið en þeir sem koma inn síðar fara inn í nýja kerfið. Það eru mjög breyttar forsendur og spurning hvaða áhrif það hefur.

Allra síðast vil ég mjög stuttlega vekja athygli á þeim bunka af fylgiskjölum sem við leggjum fram með nál. okkar til að vekja athygli á þeim athugasemdum og gagnrýni sem hefur komið fram við þetta frv. Þar er fyrst að nefna áskorun til félmrh. frá Starfsmannafélagi Húsnæðisstofnunar ríkisins sem fer þess á leit að sett verði ákvæði í lögin sem tryggi hagsmuni starfsmanna. Við birtum umsagnir húsnæðisnefnda Hafnarfjarðar, Kópavogs og Reykjavíkur og húsnæðisnefndar Akureyrar til að vekja athygli á því hvernig þessar húsnæðisnefndir hafa skoðað málin ofan í kjölinn. Kópavogur og Akureyri hafa reiknað út hvað þetta þýðir fyrir þessi sveitarfélög og þau dæmi eru mjög athyglisverð og gefa hugmynd um þá miklu breytingu sem þarna er á ferðinni og hvað þetta mun þýða mikil umsvif og mikinn aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin. Í umsögn húsnæðisnefndar Reykjavíkur eru mörg mjög viðamikil atriði og ekki síst varðandi núverandi kerfi, ábendingar um það hvað hefði þurft að gera varðandi núverandi kerfi sem eins og ég sagði áðan, menn láta alveg hjá líða að sinna og mun væntanlega bara hjakka áfram í sama farinu þrátt fyrir ýmsa erfiðleika sem komið hafa upp.

Við birtum athugasemdir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga þar sem m.a. er að finna þá tillögu sem ég nefndi áðan um kröfuna um að áfram verði veitt lán á niðurgreiddum vöxtum til byggingar leiguhúsnæðis. Þroskahjálp vekur athygli á því hvaða áhrif þessi breyting mun hafa á hækkun leigu, m.a. í íbúðum fatlaðra. Þak yfir höfuðið eru samtök allmargra aðila, m.a. námsmanna, leigjenda, Búseta og fleiri og þeir setja fram margvíslegar athugasemdir við frv. Félagsstofnun stúdenta bendir á hækkun leigu hjá sér og það hve þörfinni fyrir námsmannaíbúðir er illa sinnt og hve mikið verk er þar að vinna en hversu erfitt það verður ef þessi breyting gengur í gegn. Eins og ég vék að áður er umsögn Alþýðusambands Íslands og BSRB afar ítarleg og þeir reyna fyrst og fremst að meta forsendur frv. og að kveða það í kútinn að slík þörf hafi verið á að breyta kerfinu auk þess sem í umsögn þeirra er að finna töluverða útreikninga á greiðslubyrði þar sem þeir gagnrýna útreikninga félmrn. og fá nokkuð aðra niðurstöðu.

Ég nefni einnig umsögn Vinnuveitendasambandsins og Samtaka iðnaðarins þar sem sérstaklega er bent á skort á mati á áhrifum þessara breytinga þótt þeir taki í megindráttum undir þær en þeir benda á að svona miklar breytingar geta haft mikil áhrif á húsnæðismarkaðinn og verðbréfamarkaðinn því verið er að fjármagna þessar breytingar úti á hinum almenna fjármagnsmarkaði. Seðlabanki Íslands var á svipuðum nótum og benti á ýmis praktísk atriði sem meiri hlutinn tók að miklu leyti til greina. Ríkisendurskoðun vakti athygli á mjög athyglisverðum þáttum sem var hin stjórnskipulega staða Húsnæðisstofnunar og ég verð að viðurkenna að það var ekki fyrr en við fórum í gegnum þá umsögn og svör ráðuneytisins að ég áttaði mig á því að verið var að gjörbreyta stöðu þessarar stofnunar í ríkiskerfinu. Það kemur ekki mjög skýrt fram í sjálfu frv. en vert er að vekja athygli á því að það er verið að breyta stöðu hennar í kerfinu.

Síðan er að finna ýmsar upplýsingar sem nefndin kallaði eftir og þingmenn geta kynnt sér og loks nefni ég umsögn Búseta sem gerir verulegar athugasemdir við frv. og er heldur óhress með stöðu sína því að eins og fram hefur komið hefur hann verið og er skilinn eftir og ég vona þó að í haust verði það frv. sem að honum snýr lagt fram aftur og þá verði staða Búseta samræmd kerfinu eins og það verður þá orðið.

Allra síðast, hæstv. forseti, ætla ég í örfáum orðum að víkja að nokkrum brtt. meiri hlutans. Ég hef nefnt þær nokkrar og þar er fyrst að nefna að hinn nýi Íbúðalánasjóður mun fá það hlutverk að fylgjast með íbúðaþörf í landinu og áætlanagerð sveitarfélaganna um þörf á íbúðarhúsnæði. Þessi brtt. kemur til vegna mikillar umræðu sem varð um það hvort einhvers staðar þyrfti ekki að vera yfirsýn yfir húsnæðismál í landinu og að ríkisvaldið sem er baktryggingin fyrir kerfinu þurfi að hafa aðgang að upplýsingum og að einhvers staðar sé hægt að leita eftir því hver þörfin er og hvernig þróun þessara mála er. Þá er vert að vekja athygli á því að við 14. gr., sem fjallar um hlutverk húsnæðisnefndanna, er skilgreining á gjöldum sem húsnæðisnefndum er heimilt að taka. Ég vek sérstaka athygli á því að hér er verið að bregðast við þeim umræðum sem hafa átt sér stað á undanförnum árum í kjölfar úrskurðar umboðsmanns Alþingis og hér er ákvæði sem er í samræmi við úrskurði hans, þ.e. að sveitarfélögin mega ekki innheimta gjöld sem er hærri upphæð en nemur kostnaði við þá þjónustu sem húsnæðisnefnd lætur einstaklingum í té. Ég vek sérstaka athygli á því, hæstv. forseti, að hér er dæmi um að löggjafarvaldið verður við tilmælum umboðsmanns Alþingis. Menn hafa einstaka sinnum rætt um að ekki sé tekið nægjanlegt mark á úrskurðum hans en mér finnst sem betur fer að þess séu æ fleiri dæmi að úrskurðir hans hafa áhrif. Þetta tengist einnig þeirri umræðu sem varð í sveitarstjórnarmálunum um 7. gr. þess frv. þar sem rætt var um að sveitarfélögin ættu að móta sér stefnu hvað varðar arð af fyrirtækjum og þar snýst umræðan einmitt um þetta sama, hver er réttur sveitarfélaganna til að taka gjöld eða arð umfram þann kostnað sem sveitarfélögin leggja í.

[15:45]

Ég held að ég veki að síðustu athygli á því að hér er líka að finna brtt. sem snýr að greiðsluvanda. Hér er komin lagastoð fyrir því að stjórn Íbúðalánasjóðs hafi heimild til þess að veita lán til að leysa úr tímabundnum greiðsluerfiðleikum og hér eru þau skilgreind og ég held að þetta sé af hinu góða.

Hæstv. forseti. Ég tel að þær breytingar sem verið er að gera á frv. séu allar skref í rétta átt. Sem betur fer bregðast menn við athugasemdum og umsögnum en það breytir ekki þeirri niðurstöðu okkar í minni hlutanum að hér sé verið að gera mjög alvarlegar breytingar sem munu rýra kjör ákveðins hóps láglaunafólks sem hingað til hefur getað aflað sér húsnæðis í félagslega kerfinu. Það er verið að vísa ákveðnum hópi út á leigumarkað sem er afar vanþróaður, ef hann er þá yfir höfuð til. Það viðbótarhúsnæði sem þarf vegna þessara breytinga er í það minnsta ekki til. Hér er því verið að stíga skref sem ástæða er til þess að hafa mjög miklar áhyggjur af og hér er verið að veita ráðherra mikið vald og verið að taka vald af Alþingi. Ástæða er til þess að hafa sérstakar áhyggjur af því hvað verða mun um námsmenn. Ástæða er til þess að vekja athygli á auknum kostnaði sveitarfélaganna og á framtíð starfsfólks Húsnæðisstofnunar. Öll þessi atrtiði eru mikið áhyggjuefni. Framkvæmd þessa máls og hvernig staðið verður að henni er afar óljós og því ítreka ég þá tillögu minni hlutans að málið verði skoðað að nýju, það verði sent ríkisstjórninni og að menn leiti leiða í þessu máli eins og fleiri stórmálum sem eru til meðferðar á hinu háa Alþingi til þess að leita sátta, til þess að ná sáttum í jafnmikilvægu máli og hér er um að ræða. Ég held ég geti fullyrt það, hæstv. forseti, að til að mynda verkalýðshreyfingin á eftir að láta þessi mál mikið til sín taka. Og svo miklu skal ég lofa fyrir hönd minni hlutans að við munum fylgjast grannt með því hverju fram vindur. Það verður afar slæmt ef kjör þeirra sem þegar standa verst að vígi munu versna. Það er skref aftur á bak og því verður að svara einhvern veginn. Við hljótum að verða að treysta á sveitarfélögin í þessu máli. En því miður eru fordæmin ekki öll góð. En enn og aftur, þetta er mál sem sátt þyrfti að nást um, hæstv. félmrh. --- sem nú gengur í salinn --- og því réttast að ríkisstjórnin taki frv. til sín aftur og vinni það betur í sátt við sveitarfélögin og aðra þá sem málið snertir.