Húsnæðismál

Miðvikudaginn 13. maí 1998, kl. 15:49:56 (6590)

1998-05-13 15:49:56# 122. lþ. 126.2 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 122. lþ.

[15:49]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér flutti formaður félmn., hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, mjög góða og yfirgripsmikla ræðu þar sem hún fór yfir ýmsa þætti frv. Hv. þm. hefur stýrt þeirri vinnu sem fram hefur farið um þetta frv. í félmn. og er umhugsunarvert að það skuli vera niðurstaða formanns nefndarinnar að aflokinni þeirri yfirferð að fresta beri samþykkt þessa frv. Og það er sú spurning sem ég ætla að velta fyrst fyrir mér, þ.e. hvers vegna ætti að fresta frv., hvers vegna ég er á því máli að það væri hyggilegt. Fyrstu röksemdirnar sem ég vil nefna í því eru að fyrir því er mjög almennur vilji í þjóðfélaginu. Það hafa komið ályktanir og yfirlýsingar þessa efnis frá öllum helstu almannasamtökum sem láta sig húsnæðismál varða. Nefni ég þá fyrst samtök launafólks, ASÍ, BSRB, Kennarasamband Íslands og fleiri samtök launamanna. Ég nefni ýmis félagasamtök, Sjálfsbjörg, Öryrkjabandalagið. Ég nefni Leigjendasamtökin, Búseta, námsmannahreyfingarnar, samtökin Þak yfir höfuðið, sem eru eins konar heildarsamtök aðskiljanlegra aðila sem sýsla með félagslegt húsnæði og þannig mætti áfram telja. Ég ætla ekki að lesa upp allar þær fjölmörgu áskoranir sem Alþingi hafa borist um þetta efni en vil þó vísa í lokaorð og niðurstöðu húsnæðisnefnda ASÍ og BSRB frá 25. mars sl. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Það er niðurstaða ASÍ og BSRB að mæla gegn því að frumvarp félagsmálaráðherra verði að lögum án þess að á því verði gerðar verulegar breytingar. Þau telja að húsnæðismál séu órjúfanlegur hluti af lífskjörum launafólks. Verkalýðshreyfingin hefur ítrekað sett fram hugmyndir um hvernig bæta megi félagslega húsnæðiskerfið til þess að það þjóni sem best hagsmunum félagsmanna hennar. Hún átti frumkvæði að því að koma á fót félagslegu húsnæðiskerfi hér á landi og stórum hópi fólks í samfélaginu hefur verið tryggt öruggt og gott íbúðarhúsnæði með félagslegu átaki. Kerfið hefur átt við margvísleg vandamál að glíma, m.a. vegna breyttra þjóðfélagsaðstæðna og rangra ákvarðana. Á þetta hefur verkalýðshreyfingin bent og ítrekað krafist þess að gerðar verði nauðsynlegar breytingar svo kerfið standi undir upphaflegum markmiðum sínum um öruggt, ódýrt og gott húsnæði fyrir alla án tillits til efnhags.

Til þeirra breytinga, sem nauðsynlegt er að gera á frumvarpi félagsmálaráðherra þarf vilja, vandaðri undirbúning og meiri tíma. Samtökin telja að sá tími sem ætlaður er til afgreiðslu frumvarpsins sé allt of skammur. Samtökin hafa gert félagsmálaráðherra grein fyrir afstöðu sinni í grófum dráttum en engin viðbrögð fengið og við þau var ekkert samráð haft um frumvarpsgerðina.``

Ég vek athygli á því að þetta er dagsett 25. mars. Síðan þetta er skrifað hafa verið haldnir fundir um efnið og fram komið brtt. á upphaflegu frv. Það er rétt að halda því til haga. Engu að síður standa þessar áherslur samtakanna um að fresta beri frv. Og held ég hér lestrinum í þessari greinargerð sem er dagsett 25. mars:

,,Þau hafa á allt of skömmum tíma reynt að glöggva sig á helstu breytingum sem boðaðar eru og áhrifum þeirra en mikil vinna er enn óunnin. Það sem þó hefur komið í ljós er að allur undirbúningur frumvarpsins er óvandaður og frumvarpið í alla staði vitnisburður um óvandaða lagasmíð. Sérstök athygli er vakin á því að í 34 af 65 ákvæðum frumvarpsins er að finna annað af tvennu, heimildir til ráðherra til þess að setja reglugerðir og reglur um nánari framkvæmd allra helstu þátta nýja húsnæðiskerfisins eða þá heimildir til þess að skipa stjórnir, setja þeim fyrir verkefni og samþykkja ákvarðanir þeirra. Þetta er ekki einasta móðgun við löggjafann heldur kippir þetta reglugerðarvald ráðherrans öllum stoðum undan því öryggi sem verkalýðshreyfingin vill í húsnæðismálum. Þetta öryggi hefur hún reynt að tryggja sl. 80 ár, fyrst með því að eiga frumkvæði að byggingu fyrstu leiguíbúðanna fyrir lágtekjufólk í Reykjavík og síðan alla tíð eftir það átt drjúgan þátt í uppbyggingu kerfisins og fjármögnun framkvæmda.``

Þetta eru lokaorð og niðurstaða í lengri skýrslu og undir þetta plagg skrifa formenn húsnæðisnefnda ASÍ og BSRB, þeir Kristján Gunnarsson og Guðmundur Vignir Óskarsson.

Til að rétt sé rétt þá hefur ýmislegt gerst frá því að þetta er skrifað og þar með t.d. er komin fram brtt. frá hæstv. félmrh. runnin, hygg ég, þar sem kveðið er á um að skipuð verði nefnd til að gera úttekt á leigumarkaðnum og væntanlega gera tillögur til úrbóta í framhaldinu. Þetta finnst mér skipta máli og er að sönnu mikilvægt. En við þurfum að fá meira kjöt á það bein því að áhyggjur manna um afleiðingar samþykktar þessara laga eru mjög miklar.

Þetta eru lokaorð og niðurstaða úr greinargerð sem kom frá ASÍ og BSRB í lok marsmánaðar. Eins og ég gat um áðan hefur okkur borist fjöldinn allur af ályktunum og ég nefndi nokkur þeirra samtaka sem hafa látið frá sér heyra frá því að frv. kom fram. Ég tek hér nánast af handahófi, þó ekki alveg af handahófi því að þetta er lýsandi afstaða frá öðrum geira sem hefur með félagslegt húsnæði að gera, Stúdentaráði Háskóla Íslands. Þar segir í ályktun sem er dagsett 8. apríl, með leyfi forseta:

,,Stjórn Stúdentaráðs mótmælir harðlega þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru á húsnæðiskerfinu og hafa það í för með sér að illa er vegið að framtíðaráformum um öfluga uppbyggingu stúdentagarðanna. Margt bendir til þess að stefna stjórnvalda hvað varðar uppbyggingu stúdentagarðanna sé algjört afskiptaleysi. Árið 1997 fékkst engin úthlutun lána til uppbyggingar garðanna úr Byggingarsjóði verkamanna og stefnir allt í það sama í ár. Fyrirætlanir um útlán árið 1999 og 2000 benda síður en svo til þess að úrbóta megi vænta og eftir það er framtíðin óskrifað blað. Margt í nýgerðu frumvarpi bendir auk þess til aukins kostnaðar og óhagstæðari lána sem gera framtíðarhorfur síður en svo góðar.

Stjórn Stúdentaráðs beinir þeim eindregnu tilmælum til stjórnvalda að tryggt verði að áfram geti átt sér stað öflug uppbygging á félagslegum leiguíbúðum eins og stúdentagörðunum og komið verði í veg fyrir að stoðunum verði kippt undan rekstrargrundvelli garðanna.``

Þetta eru áhyggjur sem koma frá námsmönnum. Ég minnist þess að í þeim mikla bunka sem við höfum undir höndum koma svipaðar áhyggjur frá Kennaraskólanum og ég minnist þess að Menntaskólinn á Laugarvatni er með ábendingar í þessa veru, þ.e. áhyggjur yfir framtíðinni í húsnæðismálum námsmanna þar á bæ. Þessar ályktanir tek ég nánast af handahófi til að renna stoðum undir þá fullyrðingu sem ég setti hér fram að það er óánægja hjá þessum samtökum, verkalýðshreyfingu, samtökum og félagsskap sem hefur með félagslegt húsnæði að gera. Allt er þar á einn veg, að menn vilja að frv. verði frestað.

[16:00]

Hvers vegna vilja menn að frv. verði frestað? Jú, það komu fram ástæður í þeim ályktunum sem hér var vitnað til. En ef ég drægi þær saman held ég að það sé annars vegar vegna þess að menn óttast að það sem er jákvætt í markmiðssetningu laganna nái hreinlega ekki fram að ganga. Ég vitna þar í 1. gr. frv. þar sem segir:

,,Tilgangur laga þessara er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.``

Þetta eru góð markmið en menn óttast að þau nái ekki fram að ganga með þeim tillögum og skipulagsbreytingum sem frv. gerir ráð fyrir. Ég minni á að það er engin nýlunda að menn vari við því að háleit markmið sem sett eru í lagasmíð nái síðan ekki fram að ganga. Ekki alls fyrir löngu fjölluðum við á Alþingi um ný húsaleigulög en í 1. gr. þeirra laga er að finna þá markmiðslýsingu að afkoma tekjulágs fólks eigi að verða betur tryggð eftir samþykkt laganna með húsaleigubótum en áður. Síðan kemur í ljós að fjöldinn allur af fólki sem ég mundi a.m.k. skilgreina sem lágtekjufólk er verr komið eftir þessi lög. Ekki vegna laganna sjálfra, sem að mörgu leyti eru mjög góð og ég skrifa upp á, heldur vegna þess að framkvæmdin er önnur. Vegna þess að það átti eftir að binda ýmsa þræði sem var ekki einvörðungu á færi félmrh. að gera heldur sveitarfélaganna í þessu tilviki. Ég held að það sé mjög mikilvægt að áður en ráðist er í grundvallarbreytingar á lögum sé búið að vinna slíka grunnvinnu. Við, margir hv. þm., vöruðum við þessu þá en við því var ekki orðið.

Ég vil nefna annað málefni af því að hæstv. félmrh. er í forsvari fyrir þetta mál. Þar vil ég nefna t.d. vinnumarkaðsaðgerðir og lögin sem við samþykktum um Vinnumálastofnun og vinnumarkaðsaðgerðir. Þar vorum við mörg á því máli að hyggilegt væri að byrja á því að samþykkja lög um vinnumarkaðsaðgerðir og gera síðan í kjölfarið aðrar afleiddar breytingar, breytingar á atvinnuleysisbótafyrirkomulaginu o.s.frv. þegar við hefðum reynsluna fyrir okkur. Enda hefur komið á daginn, eins og eðlilegt er, að langan tíma tekur að smíða þann grunn sem menn ætla að reisa bygginguna á. En í því tilviki hefði verið heppilegt að fresta framkvæmd málsins eða lögum þar til menn vissu nokkurn veginn hvert þeir ætluðu að halda. Og ekki nóg með það heldur hefðu undirbúið alla framkvæmdina betur.

Önnur ástæðan fyrir því, svona í samandregnu máli, að menn hafa efasemdir um frv. og vilja skoða það betur, er sú að menn óttast að lagabreytingarnar verði ekki til þess að tilgangur laganna og markmiðin sem sett eru fram nái fram að ganga. Þau háleitu markmið sem eru sett í 1. gr. laganna standist ekki í reynd. Þetta er annað.

Hitt er svo líka að menn óttast að margt af því sem gert er ráð fyrir í frv. gangi ekki allt of vel upp, markaðsvæðing alls kerfisins. Menn hafa efasemdir um að það sé heppileg leið að fara og sumir meira en efasemdir, eru því mjög andvígir, og í þeim hópi er sá sem hér stendur.

Þegar allt kemur til alls er skynsamlegt að fresta málinu af praktískum ástæðum. Þetta mun tryggja vandaðri lagasmíð og það er líklegra að um þessa lagsmíð yrði víðtækari sátt en ef þessu er flýtt í gegnum þingið fyrir þinglok. Það eru praktískar ástæður en svo eru líka þessar lýðræðislegu ástæður og það sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir nefndi hér um daginn, tilfinninga- og lýðræðisástæður. Ég tek hjartanlega undir það sem kom fram í málflutningi hennar um daginn að það eru líka rök í sjálfu sér. Það eru rök í sjálfu sér að taka tillit til lýðræðislegs vilja í þjóðfélaginu.

Ég rifjaði það upp við annað tilefni fyrir fáeinum dögum að ég mun aldrei gleyma því þegar sú ríkisstjórn sem sat á undan þeirri sem nú situr neitaði þjóðinni um það að taka ákvörðun um inngöngu okkar í hið Evrópska efnahagssvæði enda þótt fyrir því væru yfirgnæfandi líkur að mikill meiri hluti þjóðarinnar --- það kom fram í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri --- væri því fylgjandi að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um málið.

Mér finnst í hæsta máta vafasamt af Alþingi og mjög ámælisvert þegar höfð eru í frammi vinnubrögð af þessu tagi.

Mér fannst lærdómsríkt á margan hátt að vera við atkvæðagreiðsluna í dag um önnur frumvörp, um frumvörp um eignarhald og nýtingu auðlinda í jörðu þegar við vorum að greiða atkvæði um lagagreinar sem tryggja eigendum lands eignarhald á auðæfum sem kunna að finnast í jörðu. Hvers vegna fannst mér það lærdómsríkt? Mér fannst það lærdómsríkt vegna þess að ég þóttist merkja það á mönnum sem voru í þingsal, hv. þm., að þeim væri brugðið. Mönnum var brugðið þegar þeir voru að samþykkja, eins og gert var hér við atkvæðagreiðsluna í dag, að nánast ótakmörkuð heimild er veitt til eigenda lands að ráðstafa vikri, grjóti, möl að eigin vild. Við erum búin að upplifa það hér þegar Seyðishólar voru fluttir til útflutnings og olli það talsverðum deilum í þjóðfélaginu en hér var verið að veita lagaheimild til eigenda lands að ráðstafa landi okkar að eigin vild nánast án þess að nokkrar hömlur séu settar á slíkt.

Ég held að þegar hv. þm. var gerð grein fyrir þessu við atkvæðagreiðsluna að mönnum hafi verið brugðið. Ég nefni þetta, hæstv. forseti, vegna þess að ég er að færa fyrir því rök að vönduð vinnubrögð borga sig alltaf. Þau eru alltaf til góðs.

Við þurfum að íhuga þær röksemdir sem hæstv. félmrh. teflir fram fyrir því að hraða málinu. Hæstv. félmrh. hefur sagt okkur í umræðum og á opinberum vettvangi hefur hann tjáð sig um að það sé mjög óhyggilegt að fresta framkvæmd málsins, það sé mjög óhyggilegt að fresta lagasetningunni. Hvers vegna?

Hann nefnir tvær ástæður. Annars vegar segir hann að það sé óheppilegt fyrir starfsfólkið, starfsfólkið sé í óvissu, starfsfólk Húsnæðisstofnunar er í óvissu. Ég er fyrstur manna til að leita leiða til að eyða slíkri óvissu og það er hægt að gera það. Hvernig gerum við það? Með því að ákveða núna að málið verði tekið fyrir í haust en jafnframt fylgi þeirri ákvörðun ásetningur um að fresta líka framkvæmd laganna. Í stað þess að lögin tækju gildi 1. janúar á næsta ári, á árinu 1999 þá tækju lögin gildi í upphafi árs árið 2000. Ástæðan fyrir því, hygg ég, að starfsfólk Húsnæðisstofnunar vill eyða óvissu og fá fast land undir fætur er að tíminn til stefnu er mjög skammur. Þetta er ekki nema u.þ.b. hálft ár og eðlilegt er að fólk vilji góðan umþóttunartíma. Ég er að segja: Það er hægt að eyða þessari óvissu með því að fresta gildistöku laganna.

Hitt sem hæstv. félmrh. hefur nefnt og er óvissa gagnvart öllum þeim sem eiga í hlut, sem eru í félagslega húsnæðiskerfinu nú eða eru að leita sér að húsnæði og skoða þá kosti sem eru í boði, að þar sem málið sé komið á hreyfingu sé best fyrir alla að fá því lokið þannig að menn hafi fast land undir fótum. Þetta eru rök sem hafa heyrst frá honum, að það sé slæmt bæði fyrir starfsmenn og fyrir þjóðfélagið allt að búa við óvissu í þessum efnum. Auðvitað er þetta alveg rétt, það er ekki hægt að mótmæla þessu. En ég tel engu að síður að hér sé um svo stórt mál að ræða, svo mikilvægt mál að ræða, að við getum ekki leyft okkur annað en að fá þá allra bestu niðurstöðu sem völ er á. Það er samdóma álit allra þeirra sem tjá sig um málið og hafa gott vit á þessum málum, --- eða allflestra, að sjálfsögðu eru til undantekningar á því og ýmsir aðilar óskað eftir að málið fái framgang hér í vor --- en allflestir eru hins vegar á því að eðlilegt sé að málinu verði frestað. Við skulum ekki gleyma því að við erum margbrennd í húsnæðismálunum. Það er búið að taka stökk og heljarstökk á liðnum árum. Lengi vel bjuggum við við sæmilega festu í þessum málum frá því farið var að byggja upp það húsnæðiskerfi sem við þekkjum í dag, frá því að fyrstu lög voru sett um félagslegar íbúðir seint á þriðja áratugnum. En á síðustu árum höfum við búið við þessar stöðugu og miklu kerfisbreytingar sem hafa komið sér afar illa fyrir fólk. Það kemur sér illa fyrir fólk að vera að hringla í þessum málum, í þessum kjörum.

[16:15]

Við munum öll hvað gerðist í upphafi níunda áratugarins með misgengi vaxta og launa, þegar launavísitölunni var kippt úr sambandi með hrikalegum afleiðingum. Síðan fengum við nýtt húsnæðiskerfi árið 1986 og húsnæðisbætur. Við fengum vaxtabótakerfið í byrjun þessa áratugar. Við höfum búið við það í 8 ár. Fimm sinnum á þeim tíma hefur verið krukkað í vaxtabæturnar. Menn hafa gert margvíslegar breytingar í þessu kerfi. Það er ekki nóg með það heldur er ljóst að í kerfinu sem við höfum búið við hefur fjöldinn allur af fólki lent á milli hólfa. Iðulega hefði verið hægt að koma í veg fyrir þetta ef þeir sem best þekkja til mála hefðu verið kallaðir að borði og menn reynt að ná samkomulagi áður en ráðist var í breytingar en ekki eftir á.

Nú velti ég því fyrir mér hvers vegna hæstv. félmrh. er svona ánægður með sína gjörð. Ég hef ákveðna tilgátu í því efni. Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. félmrh. vilji, með þeim lagabreytingum sem hann stendur fyrir, að markmið þau er sett eru fram í 1. gr. laganna nái fram að ganga. Ég efast ekkert um það. Hvernig stendur á því að hann er svona yfir sig ánægður með frv. þrátt fyrir alla þessa gagnrýni?

Ég held að ánægja hans sé vegna þess að hann er í samstarfi við stjórnmálaflokk sem vill ganga miklu lengra í markaðsvæðingu kerfisins. Ég held að hæstv. félmrh. líti á það sem ákveðinn sigur að hluti þessarar starfsemi sé rekinn á vegum samfélagsins en því sé ekki öllu vísað inn í fjármagnskerfið, inn í bankana. Það eru nefnilega þær kröfur sem Sjálfstfl. hefur sett fram. Mér fannst svolítið sláandi, kannski upplýsandi, kannski vegna þess að menn hafa verið með einhver önnur drög í höndunum, þegar einn umsagnaraðili um frv. --- ég held að það hafi verið Ríkisendurskoðun --- vísaði í hið nýja hlutafélag. Hann var þá að tala um Íbúðalánasjóðinn, sem á ekki að vera hlutafélag en ýmsir vilja gjarnan að verði gerður að hlutafélagi.

Ég held hins vegar að góður ásetningur hæstv. félmrh. hafi spillst í sambýlinu við peningahyggjumennina í Sjálfstfl. Það sem hann lítur á sem sigur er ekki nægilega metnaðarfullt. Ég stilli orðum mínum í hóf vegna þess að ég tel að hér þyrftum við að hafa miklu sterkari orð: Það sem hæstv. félmrh. er að gera með þessari lagabreytingu er að markaðsvæða kerfið og alla þá hugsun sem það hvílir á.

Hér eftir verður nánast bannað að veita fjármagn til húsnæðismála, öðruvísi en í gegnum vaxtabótakerfið. Það er heimilt að fara aðrar leiðir í tiltekinn tíma, talað um tvö ár, og opnað inn á eitthvað óskilgreint í því efni. En öll hugsun frv. byggir á því að jafnmikið eigi að koma inn í sjóðinn og fari út úr honum. Það er ágætis markmið í sjálfu sér en það á að gerast í gegnum vexti. Á því byggir þetta nýja kerfi. Það er hugsunin.

Ríkið ætlar hins vegar að styðja við íbúðakaupendur og leigjendur, annars vegar í gegnum húsaleigubætur og hins vegar í gegnum vaxtabætur. Það er hugsunin. Kerfið sem slíkt er hins vegar hugsað eins og hver annar sjóður sem aflar sér lánsfjármagns og veitir lán. Þar eiga hlutirnir að standast á. Þetta er hugsunin í því kerfi sem hér er verið að smíða, á því leikur ekki nokkur einasti vafi.

Við í minni hluta félmn. sendum frá okkur allítarlega álitsgerð þar sem saga þessara mála er rakin allt frá því fyrstu lög um byggingu félagslegs húsnæðis voru sett hér í lok þriðja áratugarins, árið 1929. Við bendum á að frá þeim tíma hafi smám saman verið að þróast hér öflugt félagslegt húsnæðiskerfi sem þjónað hafi láglaunafólki, hefði mátt gera það betur, en engu að síður verið mikils virði. Reyndar er fátt sem hefur eins mikil áhrif á kjör fjölskyldunnar og það hvernig búið er að húsnæðismálum hennar, möguleikum hennar til að eignast þak yfir höfuðið eða leigja sér húsnæði. Það hefur verið svo að húsnæðismál hafa jafnan verið mjög á oddinum í allri verkalýðsbaráttu. Í því samhengi mega menn minnast bygginga verkamannabústaðanna í Reykjavík, sem samið var um á fjórða áratug þessarar aldar. Verkalýðshreyfingin hefur allt frá þeim tíma haft mikil áhrif á byggingu félagslegs húsnæðis og iðulega samið um ný verkefni til að afla húsnæðis fyrir hina lægst launuðu.

Árið 1965 var samið um byggingu hundraða íbúða í Breiðholtinu, sem hluta af því verkefni að útrýma braggabyggð og heilsuspillandi húsnæði í höfuðborginni auk þess að tryggja verkafólki góðar íbúðir. Nú á síðustu árum hefur mjög rík áhersla verið lögð á það, af hálfu samtaka launafólks, að bæta þetta kerfi og fara nýjar brautir, auka valfrelsi einstaklinganna, veita félagsleg lán þar sem einstaklingarnir geta sjálfir ákveðið hvar þeir búa. Markmiðið hefur verið að auka valfrelsið og koma til móts við leigjendur.

Það eru mörg ár síðan BSRB og ASÍ tóku upp þá stefnu að berjast fyrir húsaleigubótum. Þessu hefur verið haldið á loft í samningum. Þetta gera þeir sem þar stýra ferðinni ekki út frá þröngum eiginhagsmunasjónarmiðum. Sem betur fer er það enn sterkt í þjóðfélagi okkar og verður vonandi alltaf þannig að menn sýni félagslega samábyrgð. Það er undir okkur komið, sem viljum halda hinum félagslegu fánum á loft, hversu vel tekst til. Vonandi verður það svo áfram.

Margir vilja koma kjarasamningum inn í allt annan farveg. Að menn horfi þröngt á hlutina og hugsi hvað þeir sjálfir fái í launaumslagið sitt. Aðrir vilja horfa til samfélagsins alls og þá ekki síst skoða húsnæðismálin sem án efa eru eitt brýnasta og mikilvægasta hagsmunamál hverrar fjölskyldu.

Félagslega húsnæðiskerfið hefur tekið töluverðum breytingum í áranna rás. Þar hefur m.a. komið til vaxandi þátttaka sveitarfélaganna. Nú teljast 10.600 íbúðir til félagslegs húsnæðis. Það er ekki nokkur vafi á því að þessi gamalgróna félagslega aðstoð hefur tryggt miklum fjölda fjölskyldna öryggi og stórbætt kjör þeirra. Félagslega húsnæðiskerfið þarf að þróast og breytast í takt við breytt samfélag og nýjar þarfir. Það er hins vegar grundvallaratriði að standa við það upphaflega markmið að útvega því fólki húsnæði á viðráðanlegum kjörum sem mest þarf á því að halda og að líta á slíka félagslega aðstoð sem hluta af aðgerðum samfélagsins til að jafna launa- og aðstöðumun.

Í þessu sambandi minni ég á það að í áherslubreytingum samtaka launafólks á liðnum árum hefur verið, eins og ég gat um áðan, hvatt til þess að menn reyndu nýjar leiðir, tækju t.d. upp valkvæð félagsleg lán. Menn voru hins vegar aldrei og hafa aldrei talað um að slátra öllu því kerfi sem við búum við. Við vörum mjög eindregið við því að taka slík heljarstökk. Menn eiga að gera tilraunir.

Vita menn hvað gerðist í Bretlandi á Thatcher-tímanum t.d.? Vita menn hvað gerðist þá? Þá var stigið það skref að félagslegt húsnæði átti skyndilega að heyra íbúunum til. Félagslegt húsnæði átti að heyra íbúunum til og það átti að selja þeim þessar íbúðir. Það var gert. Hvers vegna var það gert? Var það vegna þess að Thatcher-stjórnin hefði svo miklar áhyggjur af hag láglaunafólks í Bretlandi? Nei. Hún vildi reyndar gera alla að litlum kapítalistum. Það var pólitíkst keppikefli þeirrar ríkisstjórnar. Hitt skipti stærra máli og meira máli, að ríkisstjórn Margrétar Thatcher vildi spara útgjöld. Hún vildi spara útgjöld.

Ég spyr hvort það sé þetta sem vakir fyrir hæstv. félmrh. og ríkisstjórninni, að ráðast í kerfisbreytingar sem eru ódýrari og þýða minni peninga frá samfélaginu til húsnæðismála. Er það það sem vakir fyrir hæstv. félmrh.? Er hann þar kominn í félag með Margréti Thatcher? Hvað er það sem vakir fyrir mönnum í þessum efnum? Hvað halda menn að hafi vakað fyrir mönnum þegar ráðist var í launakerfisbreytingar hér á vegum hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar? Hvað halda menn að hafi vakað fyrir mönnum? Að spara peninga samfélagsins. Það var yfirlýst markmið í öllum þeim greinargerðum sem komu frá OECD að með þessum kerfisbreytingum spöruðu menn peninga til launaútgjalda, þótt þetta væri jafnan sett fram í allt öðru formi.

[16:30]

Ég spyr hv. þingmenn og aðra sem kunna að heyra mál mitt hvort þeir viti hvað einn aðilinn sem kom til félmn. sagði þegar spurt var um þær kerfisbreytingar sem hér eru kynntar. Jú, það væri miklu erfiðara að stýra útgjöldum ríkisins ef útgjöldin færu um margar ólíkar brautir. Það væri auðveldara að gera það ef allur stuðningurinn væri á einni braut, í vaxtabótunum. Það væri erfiðara að eiga við t.d. vextina, vexti í félagslega húsnæðiskerfinu, erfiðara að hækka þá. Það væri auðveldara að stýra fjármagninu frá ríkinu ef þetta væri allt komið á eina braut. Og þarna er komið að kjarna málsins. Við höfum áhyggjur af því að þetta verði til þess, sérstaklega á samdráttartímum, að draga úr opinberri aðstoð við húsnæðiskaupendur og leigjendur. Það er mergurinn málsins.

Hvenær er mest þörf á vaxtabótum? Hvenær skyldi það vera? Það er þegar tekjur einstaklinganna og fjölskyldnanna dragast saman. Þá hækka vaxtabæturnar. Hvað gerist á slíkum tímum? Þá dragast tekjur ríkissjóðs líka saman. Það er úr minna að spila þar á bæ líka. Og þar verður freistingin og þrýstingurinn að skera niður einmitt þessa aðstoð. Auðvitað má til sanns vegar færa að það eigi við um aðra þætti líka, fjármagn sem látið er í verkamannabústaði, fjármagn sem látið er í niðurgreiðslu af vöxtum o.s.frv. En þar er um fleiri brautir að fara.

Nú bregður svo við að ríkisstjórnin hefur ákveðið að gjörbylta því húsnæðiskerfi sem við búum við, og þá ekki síst félagslega hlutanum með þeim rökum að kerfið sé komið í þrot. Þau rök eru sett fram að kerfið sé komið í þrot. Það hafi valdið sveitarfélögum mjög miklum vanda og það hefur verið haft á orði að margir hafi reist sér hurðarás um öxl, eins og sagt er, og það eigi við um mörg sveitarfélög, húsnæði þar standi autt o.s.frv. En þegar betur er skoðað og þessi mál eru betur gaumgæfð þá standast þessar fullyrðingar ekki.

Byggingarsjóður verkamanna er vissulega í erfiðleikum, það er staðreynd, og meira að segja í mjög miklum vanda. Og hann mundi stefna í þrot upp úr aldamótum ef ekki væri gripið í taumana. En hvernig stendur á því? Hvernig stendur á því að svo er? Vandinn stafar fyrst og fremst af því að framlög í sjóðinn hafa ekki verið með eðlilegum hætti. Það er ástæðan. Þess vegna lendir hann í vanda; af því að framlög hafa verið skorin niður jafnt og þétt og honum gert að taka lán á mun hærri vöxtum en hann lánar á. Þarna skapast misræmi og það hefur ekki fengist fjármagn til að brúa það bil.

Þess eru dæmi að sveitarfélög standi uppi með félagslegt húsnæði sem ekki er þörf fyrir, m.a. vegna búferlaflutninga, og að þau eigi í vandræðum vegna reglna um kaupskyldu. En sá vandi réttlætir engan veginn að kerfinu sé umbylt. Þá kemur það fyrir í öllum sveitarfélögum að íbúðir standa auðar um sinn en miðað við kerfið í heild sinni, sem er um 10.600 íbúðir eins og ég gat um áðan, þá er um mjög lítinn hluta íbúða að ræða og það dugir engan veginn sem rök til að gjörbylta öllu kerfinu. Hvað erum við að tala um margar íbúðir? Við erum að tala um 1% af þessum 10.600 íbúðum. Við teljum að nær hefði verið að gera nauðsynlegar breytingar á núverandi skipan og halda í meginkostina sem eru m.a. niðurgreiddir vextir og skipulegt framboð félagslegra íbúða, en það krefst auðvitað framlaga úr opinberum sjóðum. En það gera líka vaxtabæturnar.

Nú stendur til að þeir sem áður fengu lán á niðurgreiddum vöxtum færist yfir í vaxtabótakerfið. Það kom fram hjá fjárlagaskrifstofu fjmrn. að gera megi ráð fyrir að um 1.000 einstaklingar komi árlega inn í vaxtabótakerfið og er áætlað að vaxtabæturnar muni hækka árlega um 120 millj. kr. að jafnaði næstu tíu árin vegna þeirra sem áður fengu lán á niðurgreiddum vöxtum. --- Ég vona, hæstv. forseti, að ég trufli ekki samræður hér í hliðarherbergi. (Forseti hringir.) Ég hef nógan tíma, það er allt í góðu lagi.

Ég er að færa fyrir því rök að það sé engin ástæða fyrir því, þrátt fyrir vanda sem við blasir í félagslega húsnæðiskerfinu, að gerbylta öllu kerfinu á þann hátt sem hér er lagt til. Ég ítreka, af því að ég hef iðulega vísað í ályktanir samtaka launafólks í þessum efnum, að þar á bæ hefur verið mjög ríkur vilji til þess að gera kerfisbreytingar sem horfa til framfara, auka valfrelsi einstaklinganna, gera lánin valkvæð, þannig að einstaklingarnir geti valið sjálfir hvar þeir búa. Þetta viljum við gera en án þess að breyta forsendum þessara lána. Við höfum t.d. innan ASÍ og BSRB mjög eindregið lagt áherslu á niðurgreidda vexti sem eina leið sem menn eigi að fara til að halda greiðslubyrði niðri. Við segjum að ef ráðist er í breytingar þá eigi að gera það hægt og sígandi og í tilraunaskyni en ekki setja allt kerfið á spil. Þetta er þungamiðjan í málflutningi okkar.

En hverju er þá verið að breyta með þessu frv. frá ríkisstjórninni? Hverju er verið að breyta? Þær breytingar sem ríkisstjórnin leggur til eru í megindráttum þær að Húsnæðisstofnun ríkisins verður lögð niður en í hennar stað sett á fót ný stofnun, Íbúðalánasjóður. Því er haldið fram að starfsfólki muni fækka nokkuð og því er framtíð þess í algerri óvissu. Ekki algerri óvissu, það er kannski of djúpt í árinni tekið að því leyti að hæstv. félmrh. hefur lýst því yfir við starfsfólkið og samtök þess að hann muni gera allt sem í hans valdi stendur til að tryggja framtíð starfsfólksins. Ég mun koma að því síðar hvað það er sem hæstv. félmrh. gæti gert ef hann vildi tryggja það eða ganga þá braut til enda að gera allt sem í hans valdi stendur. Hann gæti þá sett lagaákvæði þessa efnis inn í frv. en ég mun koma að því síðar hvernig það ætti að vera. En hitt er annað mál að ljóst er að það verða færri sem starfa hjá hinum nýja sjóði. Það eru færri sem koma til með að starfa hjá Íbúðalánasjóði en Húsnæðisstofnun þannig að það eru einhverjir sem munu missa atvinnu sína.

Byggingarsjóðirnir tveir, Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna verða sameinaðir. Í stað 90--100% lána á 1,2--1,4% vöxtum til kaupa á félagslegu húsnæði verða veitt húsbréfalán eða almenn lán allt að 65--70% og síðan viðbótarlán allt að 20--25% sem verða á ábyrgð sveitarfélaganna. Þessum lánum má verja til kaupa á íbúðum hvar sem er á markaðnum en þó mega sveitarfélögin skylda þá sem fá viðbótarlán til að kaupa íbúðir innan hins núverandi félagslega kerfis næstu tvö árin.

Samkvæmt frv. er einn meginkostur þeirra breytinga sem verið er að gera sá að tekin eru upp einstaklingslán og nú fær fólk að velja sér íbúð á markaðnum í stað þess að vera úthlutað félagslegri íbúð á ákveðnum stað. Þetta er í samræmi við þær áherslur sem komið hafa frá samtökum launafólks, stærstu heildarsamtökum launamanna. Þetta frelsi kemst þó ekki á fyrr en eftir tvö ár, eins og ég nefndi, því að sveitarfélögin geta skilyrt viðbótarlánin. Skýringin er sú að sveitarfélögin, einkum á höfuðborgarsvæðinu, óttast að standa uppi með illseljanlegar íbúðir í einstökum hverfum og þau þurfi að leysa til sín íbúðir sem getur kostað þau stórfé.

Þá verða veitt allt að 90% lán til öflunar leiguhúsnæðis á vegum sveitarfélaga, félaga eða félagasamtaka en allt er óljóst um fjölda þeirra lána, hvað þá á hvaða kjörum þau verða. Öll hugsun frv. gengur út frá því að hin nýja ríkisstofnun standi undir rekstri sínum og þar af leiðandi hljóta markaðsvextir að ráða för. Vaxtabætur munu koma í stað niðurgreiddra vaxta og verða greiddar út fjórum sinnum á ári.

Þetta er kall tímans, frelsið á fjármagnsmarkaði. Það er ekki búinn til sá sjóður hér á landi undir forræði þessarar ríkisstjórnar að hann sé ekki reistur og smíðaður samkvæmt þessari formúlu. Félagsleg aðstoð er að verða bannorð. Þetta eru fyrirskipanir og tilskipanir frá Evrópusambandinu, mér er kunnugt um það, sem menn lúta í undirgefni og fara eftir í einu og öllu og eiga ekki annarra kosta völ en að hlýða þeim tilskipunum sem þaðan koma. En það er ekki nóg með það, þetta er sú hugsun sem sett er inn í hvert einasta lagafrv. sem frá ríkisstjórninni kemur. Ég vakti rækilega máls á því á sínum tíma þegar lög voru sett síðast um Atvinnuleysistryggingasjóð. Hann er rekinn algjörlega í þessum anda líka. Þetta er skírt voðalega fínum nöfnum um sjálfbæra sjóði og sjálfbærar stofnanir. Og lífeyrissjóðirnir, ég veit ekki hvort landsmenn gera sér almennt grein fyrir því að lífeyrissjóðirnir eru lögum samkvæmt skyldaðir til að okra, þeir eru skyldaðir samkvæmt lögum frá Alþingi að okra. Í lagatexta sem Alþingi samþykkti á síðasta ári er ákvæði þess efnis að lífeyrissjóðum beri lögum samkvæmt að leita jafnan eftir hæstu vöxtum.

Fyrir nokkrum árum eða áratugum bjuggum við við okurlög. Það var bannað að okra. Nú er þetta kall tímans, skylda dagsins lögum samkvæmt. Þetta er umhugsunarefni og það er inn á þessa braut sem hæstv. félmrh. og sú ríkisstjórn sem nú situr er að beina okkur. Það er það sem er að gerast. Við erum að fara með húsnæðiskerfið inn í þá hugsun, inn í markaðsvaxtahugsunina þar sem bannað er að niðurgreiða vexti, það þykir ekki fínt lengur. Sú hugsun á ekki upp á pallborðið en nú er það hinn frjálsi markaður sem á að stýra för.

[16:45]

En hver er þá afstaða minni hluta félmn. til þeirra breytinga sem ég rakti? Hver er afstaða okkar? Við höfum í starfi nefndarinnar mótmælt því harðlega að ríkisstjórnin skuli ætla að knýja húsnæðisfrv. í gegnum þingið á þessu vori. Þar fara sjónarmið okkar algerlega saman við þau sjónarmið sem ég vísaði til í upphafi máls og hafa komið fram frá verkalýðshreyfingu og flestum þeim samtökum sem hafa með félagslegt húsnæði að gera. Hér er um mál að ræða sem snertir hagsmuni þúsunda fjölskyldna og mat okkar er að það hefði þurft nánari skoðun. Ekkert er vitað um áhrif boðaðra breytinga á húsnæðismarkaðinn eða verðbréfamarkaðinn en slíkar kúvendingar geta haft mikil og snögg áhrif. Þetta kom fram í athugasemdum og máli ýmissa sem komu á fund okkar þó nú verði að segjast að þeir sem komu úr þessari áttinni, stigu út af marmaragólfum verðbréfahallanna, þeir sem komu úr þeirri átt voru yfirleitt mjög ánægðir og hrifnir. Þeir voru yfirleitt mjög ánægðir og hrifnir með frv. hæstv. félmrh. og ríkisstjórnarinnar. Fannst sú markaðshugsunin sem það byggir á mjög góð, alveg til fyrirmyndar. Að banna alla niðurgreiðslu og truflun á markaðsvöxtum væri hið besta mál. En frá fulltrúum almannasamtakanna komu efasemdirnar. Þær komu frá samtökum launafólks, Öryrkjabandalaginu, Sjálfsbjörg, ASÍ, BSRB, Kennarasambandinu, námsmannahreyfingunni, Þak yfir höfuðið, Búseta, Leigjendasamtökunum.

Hér er að finna hina pólitísku skiptingu í landinu. Ætlar maður að hlusta eftir því sem kemur frá verðbréfahöllunum eða ætlar maður að hlusta, leggja við hlustir og taka tillit til óska sem koma frá almannasamtökunum?

Ekkert mat liggur fyrir um þann kostnað sem frv. hefur í för með sér fyrir sveitarfélögin bregðist þau við vaxandi þörf íbúanna fyrir leiguhúsnæði. Nái frv. fram að ganga kallar það eitt og sér á byggingu eða kaup á leiguhúsnæði vegna þess hóps sem mun ekki ráða við þau kjör sem boðið verður upp á í hinu nýja kerfi. Þetta er náttúrlega eitt stærsta áhyggjuefnið í öllum þessum breytingum.

Þar við bætast stöðugir búferlaflutningar til höfuðborgarsvæðisins og óuppfyllt þörf, t.d. námsmanna, sem kallar einnig á aukið framboð á leiguhúsnæði. Síðast en ekki síst eru áhrifin á kjör bæði kaupenda og væntanlegra leigjenda í hinu nýja kerfi algjörlega óljós og greinir töluvert á milli þeirra útreikninga á greiðslubyrði sem fyrir liggja hjá félmrn. annars vegar og hjá ASÍ og BSRB hins vegar. Þá liggur svo mikið á að afgreiða húsnæðisfrv. að frv. um húsnæðissamvinnufélög er skilið eftir en það gerir lagalega stöðu og rétt félaga eins og Búseta, mjög óljósa.

Í málflutningi forsvarsmanna Búseta hafa komið fram áhyggjur um þetta. Þeir vilja að allur pakkinn fylgist að, allar þessar breytingar fylgist að.

Við í minni hluta félmn. Alþingis gerum mjög alvarlega athugasemdir við þær breytingar sem verið er að boða á félagslega húsnæðiskerfinu og við mótmælum harðlega þeirri atlögu sem gerð er að kjörum láglaunafólks með frv. Ekki bara það heldur erum við líka að tala um þá óvissu sem þessum hópi er búin. Eins og ég mun koma að síðar erum við líka að tala um þá óvissu sem fólki er búin með þessu frv. Nái það fram að ganga mun það fyrst og fremst bitna á tekjulitlu fólki, einstæðum mæðrum, barnmörgum fjölskyldum, námsmönnum og fötluðum. Verði frv. að lögum er verið að vísa því fólki sem átti áður kost á 100% lánum út á leigumarkað sem er afar vanþróaður enda mikill skortur á leiguhúsnæði um allt land.

Það hefur fengið mikla umfjöllun í fjölmiðlum hve stórhuga ríkisstjórnin er í þessu efni, hve mikið á að reisa af leiguhúsnæði á næstu árum til að taka við þeirri fjölgun sem er fyrirsjáanleg inn á þann markað. Það var talað um 50 íbúðir, heilar 25 íbúðir á ári. Þetta er náttúrlega svo óraunsætt að tekur engu tali.

Þá getur nýtt greiðslumat haft þær afleiðingar að allstór hópur sem féll áður undir reglur félagslega kerfisins falli utan eða milli kerfa en engar áætlanir liggja fyrir um það.

Í umsögn húsnæðisnefndar Kópavogs kemur fram að þar var gerð könnun á greiðslumati 122 fjölskyldna sem hafa keypt íbúðir í félagslega kerfinu að undaförnu. Þessar fjölskyldur voru metnar miðað við 18% greiðslubyrði sem er sú viðmiðun sem stuðst er við í húsbréfakerfinu. Kom þá í ljós að aðeins 11 fjölskyldur af 122, eða 9%, hefðu staðist greiðslumat samkvæmt frv. Þessar tölur gefa vísbendingu um það sem koma skal. Hvað verður um þetta fólk? Ég spyr: Hvað verður um þetta fólk? Er verið að vísa þessu fólki út á götuna? (Gripið fram í: Nei.) Þá þarf hæstv. félmrh. að sýna okkur fram á það með haldgóðum rökum og finna þeim rökum stoð í lögum að ekki sé verið að vísa þessu láglaunafólki út á götuna því að menn hafa áhyggjur af þessu. (Gripið fram í: Með stoð í peningum.) Og stoð í peningum. Stoð í fjármagni til þess að reisa íbúðir, þetta félagslega húsnæði, og reisa þá leiguíbúðir.

Við þurfum að fá tryggingu fyrir því. Þetta er mjög mikilvægt. Við þurfum tryggingu fyrir því að frá ríkinu komi nægjanlegt fjárframlag til að tryggja fólki húsnæði. Þetta er grundvallaratriði. Það er grundvallaratriði að áður en þessi lög eru samþykkt komi trygging fyrir því að fjármagn komi til sögunnar. Þetta er grundvallaratriði, algert grundvallaratriði.

Umræðan um greiðslumat hefur verið svolítið ruglingsleg á stundum. Hvað er greiðslumat? Hvað er það eiginlega? Það er mat sem er lagt á getu fólks til þess að rísa undir tilteknum skuldbindingum. Það er mat sem er lagt á fjárhag fóks og hvort það hefur möguleika til þess að rísa undir tilteknum skuldbindingum. Hér erum við að tala um skuldbindingar í húsnæðismálum, skuldbindingar í gegnum lánafyrirgreiðslu, að geta borgað af lánunum. Það er málið. Þess vegna þurfa menn að hafa allar þessar tölur og upplýsingar alveg á tæru. Hver verður greiðslubyrðin og síðan að fá hugmyndir og vissu fyrir því hvernig greiðslugeta fólks verður, hverjar byrðarnar verða.

Hér hafa útreikningar stangast á, hér stangast á staðhæfingar sem koma frá félmrn. og ríkisstjórninni annars vegar og frá öðrum aðilum hins vegar. Um það væri hægt að hafa langt mál, bæði með því að fara ítarlega og rækilega í greinargerðir sem koma t.d. frá ASÍ og BSRB, frá húsnæðisnefndunun. Ég nefni t.d. ítarlega greinargerð sem kemur frá húsnæðisnefndum Kópavogs, Akureyrar og fleiri aðilar sem hafa lagst yfir útreikninga á þessum málum. En það er grundvallaratriði að við vitum að hverju við erum að ganga.

Síðan geta menn deilt um pólitíkina. Hvort þá langar til að koma hér öllu lifandi og dauðu í samfélaginu á markað, eins og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., með hjálp Framsfl., er því miður að gera. Framsfl. ætti að vera í miklu betri félagsskap en þessum. Því miður þá er þetta að gerast.

Menn geta deilt um pólitíkina og á endanum greiða menn atkvæði samkvæmt pólitískri sannfæringu sinni um hvernig eigi að skipuleggja eitt samfélag. En um staðreyndir máls eiga menn ekki að þurfa að deila. Þær eiga að liggja á borðinu. Menn eiga að geta tekið ákvörðun út frá staðreyndum sem eru traustar, að menn viti að um staðreyndir er að ræða en ekki einhvern líkindareikning.

Í því kerfi sem á að taka upp er eina félagslega aðgerðin sú, ef við eigum að kalla hana því nafni, að boðið er upp á viðbótarlán. Enginn veit hve mörg viðbótarlánin verða. Og enginn veit um þau kjör sem þau verða á, menn vita það ekki. Í b-lið 14. tölul. í brtt. meiri hluta segir:

,,Vextir af viðbótarlánum skulu taka mið af þeim lánskjörum sem Íbúðalánasjóði bjóðast hverju sinni.``

Taka mið af þeim vöxtum sem bjóðast hverju sinni. Hér er ljóst hvert stefnir, markaðsvextir munu ráða en síðan er vísað til ábyrgðar sveitarfélaganna á því að útvega því fólki húsnæði sem hallast stendur fæti. Skylda sveitarfélaganna til að aðstoða fólk í húsnæðismálum er studd vægast sagt veikum lagabókstaf í þessu frv. sem og í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem segir í 45. gr.:

,,Sveitarstjórnir skulu, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna.``

Eftir því sem kostur er. Við vitum alveg hvernig þetta er hjá sveitarfélögum þar sem peningahyggja ræður ferðinni. Við vitum alveg hvernig afstaða þeirra er til félagslegs húsnæðis. Hún hefur ekki verið til að hrópa húrra fyrir. Ég nefni t.d. Garðabæ, það dæmi kemur upp í hugann. Ég held þeir hafi ekki heldur verið sérstaklega áfjáðir í slíkt á undanförnum árum í Vestmannaeyjum. Annað dæmi sem kemur upp í hugann. Annars staðar hafa menn sinnt þessari þörf miklu betur. En þetta er orðalagið ,,eftir því sem kostur er``.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem fram komu í félmn. verða lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga endurskoðuð en það er eins með það mál og ýmis önnur sem snerta efni frv. að enginn veit hver útkoman verður endanlega. Það veit enginn.

(Forseti (RA): Nú verður gert hlé á fundinum. Ef ræðumaður vildi ljúka orðum sínum í þetta sinn með örfáum setningum og taka svo til máls á nýjan leik á næsta fundi er það að sjálfsögðu velkomið. Spurningin er um að hann fresti ræðu sinni að sjálfsögðu.)

Ekki með öðrum orðum en þeim að þakka hæstv. forseta fyrir ágæta fundarstjórn. Ég hef ekki lokið máli mínu.

(Forseti (RA): Hv. ræðumaður frestar þá ræðu sinni.)