Húsnæðismál

Fimmtudaginn 14. maí 1998, kl. 12:27:02 (6592)

1998-05-14 12:27:02# 122. lþ. 127.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 122. lþ.

[12:27]

Jóhanna Sigurðardóttir:

(Forseti (StB): Forseti vill geta þess, vegna sérstakra óska hv. þm., að gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að gera henni vistina í ræðustólnum sem besta. Hér hefur verið komið með púlt að ósk þingmannsins.)

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hugulsemi forseta að búa mér bærilega aðstöðu í ræðustólnum vegna þess að ég á eftir að dvelja hér þó nokkurn tíma, enda er hér stórt mál á ferðinni.

Vissulega má öllum vera ljóst að þegar verið er að slá af, með litlum fyrirvara og litlum undirbúningi, félagslega húsnæðiskerfið, sem hefur verið við lýði frá árinu 1929 eða í 70 ár, og það án alls samráðs við verkalýðshreyfinguna eða félagasamtök eins og samtök námsmanna, samtök fatlaðra, samtök aldraðra, Búseta og Leigjendasamtökin, þá kallar það á mjög langa og ítarlega umræðu. Félagslega kerfið hefur í 70 ár þjónað mörgum tugum þúsunda fjölskyldna á Íslandi. Fátæku fólki hefur verið gert kleift að komast úr saggafullum kjöllurum og bröggum í sómasamlegt húsnæði. Þessa aðstoð í húsnæðismálum láglaunafólks á nú að slá af í einu vetfangi með þeim afleiðingum að hundruð fjölskyldna á ári hverju hafa hvergi öryggi í húsnæðismálum.

Herra forseti. Það mál sem við ræðum hér er rothögg fyrir láglaunafjölskyldurnar á Íslandi og stærsti skellurinn sem láglaunafólk hefur orðið fyrir í marga áratugi. Það er alveg ljóst að afleiðingar þessa frv. geta orðið víðtækar. Þess vegna kallar þessi umræða á viðveru ýmissa ráðherra við umræðuna. Þó að húsnæðismálin falli undir hæstv. félmrh. geta afleiðingarnar haft víðtæk áhrif. Þau geta haft áhrif t.d. á heilbrigðismálin, menntamálin, ekki síst að því er varðar húsnæðismál námsmanna, félagslega aðstoð almennt og almennt á aukin útgjöld á öðrum sviðum þjóðfélagsins. Áhrifanna mun gæta í bankakerfinu og í skuldastöðu heimilanna. Undir þessari ræðu minni, sem staðið getur í alllangan tíma, vil ég því biðja forseta, eða a.m.k. láta í ljós ósk mína eftir viðveru ýmissa ráðherra. Þar er t.d. hæstv. fjmrh. sem nauðsynlegt er að hlýði á þessari umræðu, en álit frá fjmrn. sýnir að fjmrn. gerir einungis ráð fyrir 50 félagslegum íbúðum næstu tvö árin þó að setja eigi hundruð fjölskyldna út á götuna.

[12:30]

Eins minnist ég þess að hæstv. fjmrh., sem nýtekinn er við því starfi, var helsti forsvarsmaðurinn fyrir því fyrir nokkrum árum að veitt yrðu 100% lán í félagslega kerfinu, taldi það mjög brýnt og beitti sér fyrir því með sérstakri brtt. Þess vegna er nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. verði viðstaddur umræðuna þannig að hann megi gera þingheimi ljós þau sinnaskipti sem hafa orðið hjá hæstv. fjmrh.

Ég hef nefnt hæstv. menntmrh. til sögunnar og hæstv. heilbrrh. og hæstv. viðskrh. en það er vegna bankakerfisins og lána til húsnæðismála þar og einnig er nauðsynlegt að fá fram viðhorf formanns Framsfl. í húsnæðismálum þegar Framsfl. hefur núna tekið upp stefnu sjálfstæðismanna í þessum mikilvæga málaflokki.

Í 70 ára sögu félagslegra íbúða á Íslandi hafa verið reistar 10--11 þús. félagslegar íbúðir. Ekki er óvarlegt að áætla að á síðustu áratugum hafi margir tugir þúsunda heimila í landinu á umliðnum árum og áratugum notið góðs af félagslega íbúðakerfinu.

Saga félagslegra íbúða er ákaflega merkileg. Félagslegu íbúðirnar voru til þess að færa fólk úr köldum, þröngum og heilsuspillandi kjöllurum og hreysum í mannsæmandi húsnæði en á þeim tíma var þriðjungur allra íbúða þröngar kjallaraíbúðir eða undir súð en tæplega 70% íbúða voru þá leiguíbúðir. Þegar Héðinn Valdimarsson mælti fyrir frv. um félagslegar íbúðir 1929 orðaði hann það svo, með leyfi forseta:

,,Kjallarakompurnar þar og köld og rakasöm loftherbergi stytta ævi verkalýðsins, auka barnadauðann og eru gróðrarstía fyrir berklaveiki og aðra næma sjúkdóma.``

Félagslega íbúðakerfið hefur æ síðan þessi orð voru mælt verið helsti bjargvættur fátæks fólks og getað treyst betur nauman framfærslueyri þess og til að fátækar fjölskyldur láglaunafólks geti komið sér þaki yfir höfuðið. Ég held að það sýni það á því herrans ári 1998 þegar slá á af þetta kerfi að þessi ríkisstjórn lifir í fílabeinsturni. Hún sér ekki eða vill ekki sjá kjör þessa fólks. Allir vita að stærsti þátturinn í framfærslu hverrar fjölskyldu eru húsnæðismálin og þegar svo er komið að öllu þessu fólki er vísað út á almennan leigumarkað, fjölda þeirra sem hefur fengið aðstoð í gegnum félagslega kerfið, þar sem því er gert að greiða kannski 35--50 þús. kr. í leigu, er illa komið fyrir Íslandi.

Við vitum að allt of stór hluti fólks hér á landi þarf að framfleyta sér á lágmarkslaunum og það má ekki við miklu, herra forseti. Það má ekki mikið út af bregða að endar nái ekki saman hjá þeim fjölskyldum. Hvað þá þegar því nú er gert, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir, að verið er að setja það út á almennan leigumarkað. Þúsund fjölskyldur á ári er kannski ekki stór hópur en það eru þó 2--4 þús. manns og það er fólk sem á kröfu til þess að það geti komið sér þaki yfir höfuðið. Verkalýðshreyfingin og stjórnarandstaðan munu hvergi draga af sér til þess að koma í veg fyrir þetta stærsta áfall sem láglaunafólk hefur orðið fyrir í marga áratugi. Það stórlys, herra forseti, sem félmrh. og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er að leiða yfir fátækar fjölskyldur á Íslandi. Því þarf engan að undra að ég þurfi að fara vítt og breitt yfir í löngu máli. Ég mun fara yfir samskipti verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda en það hafa orðið kaflaskipti í samskiptum verkalýðshreyfingarinnar og stjórnvalda á þessu kjörtímabili og get ég þar vitnað til vinnulöggjafarinnar, sem var þröngvað í gegn í andstöðu við verkalýðshreyfinguna, og til húsnæðislöggjafarinnar núna, breytingu á félagslega kerfinu sem á að koma í gegnum þingið án alls samráðs við verkalýðshreyfinguna. Ég hygg að þetta sé í fyrsta skipti í 70 ára sögu verkalýðshreyfingarinnar að gera eigi slíkar breytingar, ég tala ekki um að slá af kerfið af, að ekki er haft neitt samráð við verkalýðshreyfinguna, að ekki er neitt hlustað á verkalýðshreyfinguna eða hvaða innlegg hún hefur í málið.

Samskiptin við félagasamtök eru ekkert betri, herra forseti. Fjölmörg félagasamtök hafa notið góðs af því sem félagslega kerfið hefur boðið upp á. Skjólstæðingum þessara félagasamtaka á líka að úthýsa, herra forseti. Ég mun fara yfir það ítarlega í máli mínu síðar í dag.

Á þessum degi hefur birst heilsíðuauglýsing frá ýmsum þessara félagasamtaka sem hæstv. félmrh. hefur hunsað, ekki talið sig þurfa að eiga neinn orðastað við þó verið sé að kippa grundvellinum undan húsnæðisaðstoð sem þessi félagasamtök hafa veitt skjólstæðingum sínum. Undir kröfu um að þessu máli verði frestað skrifa: Landssamtökin Þroskahjálp; Leigjendasamtökin; Geðhjálp; Félagsstofnun stúdenta; Búseti; Öryrkjabandalag Íslands; Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra; Byggingarfélag námsmanna; Nemendagarðar Samvinnuháskólans; Félag einstæðra foreldra; Sjálfsbjörg, félag fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu; Landssambandið Þak yfir höfuðið; Hússjóður Öryrkjabandalagsins; Blindrafélagið; Húsnæðisfélagið SEM; Sólheimar; Félagsstofnun stúdenta á Akureyri; Bandalag ísl. sérskólanemenda; Nemendagarðar Bændaskólans á Hólum; Styrktarfélag vangefinna; Félag ábyrgra feðra; Landssamband eldri borgara auk heildarsamtaka launafólks, ASÍ og BSRB.

Ráðherrann telur sig ekki þurfa að hlusta á allan þennan stóra hóp. Ég hygg að ekki sé óvarlegt að áætla að það séu nálægt 100 þúsund félagar og skjólstæðingar í öllum þessum félögum sem ég hef verið að telja upp. Þeir eru með ákall til Alþingis um að þetta frv. verði stöðvað. Við í stjórnarandstöðunni munum gera okkar til þess að svo geti orðið.

Í þriðja lagi, herra forseti, þarf að fara yfir stefnu sjálfstæðismanna í húsnæðismálum og stefnu framsóknarmanna í húsnæðismálum. Framsfl. hefur a.m.k. gerbreytt um stefnu frá því í síðustu kosningum. Hann boðaði allt annað í síðustu kosningum en hann er að leggja til á Alþingi í dag. Það þarf að fara ítarlega yfir. Síðan þarf að fara yfir, herra forseti, þær umsagnir sem hafa komið fram um frv., ég hygg að séu um 150--200 blaðsíður sem við erum að tala um sem eru umsagnir um þetta frv. Margar þeirra, herra forseti, verulegur fjöldi þeirra eru mjög alvarlegar athugasemdir eins og frá ASÍ, BSRB, húsnæðisnefndum víðs vegar um land, félagasamtökum og meiri hlutinn í hv. félmn. hefur bara lítið hlustað á þessar athugasemdir sem hafa komið fram sem hafa verið studdar mjög ítarlegum rökum, herra forseti, fullnægjandi rökum sem hefðu átt að nægja til þess að meiri hlutinn hefði aðeins stoppað við núna þegar er verið að fara í þá stóru aðgerð að umbylta öllu félagslegu kerfi á Íslandi.

Einnig þarf að fara yfir hvernig áður hefur verið staðið að breytingum á húsnæðislöggjöfinni á Íslandi í tíð fyrri félmrh., hvernig samráð var virkt við aðila vinnumarkaðarins, hvernig ítarlegur undirbúningur var að öllum breytingum sem hafa verið lagðar til í húsnæðismálum á umliðnum árum þar sem undirbúningi var háttað á þann veg að fyrst var farið í að gera ítarlegar skýrslur um nauðsyn breytinganna, áhrifin af þeim breytingum, þær bornar undir verkalýðshreyfinguna og ýmsa aðila og þegar þær athugasemdir voru fengnar var farið í að setjast yfir að smíða löggjöf í samráði við verkalýðshreyfinguna. Allt þetta verður rifjað upp, herra forseti, úr þessum ræðustól í dag.

Við þurfum líka að fara yfir sögu félagslega íbúðakerfisins allt frá 1929, en á árinu 1929 voru mjög gagnmerkar umræður á Alþingi þegar félagslega íbúðakerfinu var komið á fót. Þar létu til sín taka menn sem voru mjög framarlega í pólitíkinni á þeim tíma. Héðinn Valdimarsson var í broddi fylkingar til að koma á félagslega íbúðakerfinu. Í þeirri umræðu létu til sín taka Tryggvi Þórhallsson, þáv. forsrh. og atvinnumálaráðherra, Pétur Ottesen, Ólafur Thors, Jón Baldvinsson, Haraldur Guðmundsson, Jörundur Brynjólfsson og Jónas Jónsson þáv. dómsmrh. Þeir létu sig húsnæðislöggjöfina skipta. Forsrh. tók mjög virkan þátt í umræðunum um húsnæðismálin 1929 en forsrh. á Íslandi 1998, þegar verið er að slá af þetta kerfi, hann lætur ekki sjá sig. Þetta þarf að rifja ítarlega upp.

Síðan þarf ég að fara yfir gagnmerkt rit sem er til um sögulega þróun húsnæðismála á Íslandi og ég nefni einnig framkvæmdaáætlunina 1964 en þá var ákveðið að byggja 1.250 félagslegar íbúðir á sex árum. Það var mikil lyftistöng og breytti miklu fyrir fátækt fólk á Íslandi. Ég þarf einnig að fara í stórum dráttum yfir meginþættina í þróun og skipulagi húsnæðismála á Norðurlöndum og fjármögnunarkerfinu þar að því er varðar húsnæðismálin. Það þarf að fara yfir kosti þess og galla að leggja niður Húsnæðisstofnun ríkisins og stofna nýjan banka. En hæstv. ráðherra heldur því fram að um sparnað sé að ræða að leggja niður þessa stofnun án þess að sýna neitt fram á það hvað þessi nýi húsbanki eða Íbúðalánasjóður kostar. Auðvitað verður farið ítarlega yfir það, herra forseti, hvernig á að fara með starfsfólk Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þar eru líka kaflaskipti.

Ég hef viðað að mér ýmsum lögum töluvert langt aftur í tímann þar sem verið er að breyta ríkisstofnunum, breyta rekstrarformum þeirra. Í öllum þeim lögum, sem ég hef farið yfir, hverju og einasta þeirra, er ákvæði um að tryggja því starfsfólki í þeirri viðkomandi stofnun sem var verið að breyta um rekstrarform á vinnu eftir breytinguna. Hæstv. ráðherra hlustar ekki á það. Einhver óljós orð í nál. um það að e.t.v. eins og hægt er verði það skoðað að þetta fólk fái starf í nýja Íbúðalánasjóðnum. Hér eru líka á ferðinni, herra forseti, ákveðin kaflaskipti að því er varðar umgengni við starfsfólk þegar verið er að fara út í svona rekstrarbreytingar. Það finnst mér vera alveg sérstakur kafli að það skuli vera félmrh. og það félmrh. sem tilheyrir Framsfl. sem er hér að brjóta í blað, hvernig með er farið að því er varðar starfsmenn þegar verið er að breyta og leggja niður Húsnæðisstofnun og nýr Íbúðalánasjóður að taka við, að þetta fólk skuli ekki hafa forgang þar til starfa. Ég þekki ekki betur, og hef í nokkur ár haft samskipti við Húsnæðisstofnun sem félmrh., en að þar vinni fólk sem þekkir mjög vel til verka, þekkir vel húsnæðislöggjöfina út og inn, og ég held að missir verði að því ef svo verður haldið á málum að þessu fólki verði ekki tryggð atvinna og yfir það verður rækilega farið síðar á þessum degi, herra forseti.

[12:45]

Síðan þarf auðvitað að fara, herra forseti, á nýjan leik yfir svör hæstv. félmrh. til Alþingis á síðasta þingi þegar hann var spurður um ýmsa þætti félagslega íbúðakerfisins og hann varð uppvís að því, herra forseti, sem virðist gerast aftur og aftur á hverju þinginu á fætur öðru, að gefa þinginu rangar upplýsingar. Það var ekki nóg með að hann gerði það einu sinni á því þingi, heldur tvisvar vegna þess að hæstv. ráðherra gaf þinginu einnig rangar og villandi upplýsingar um samanburð á húsbréfakerfinu og 86-kerfinu, sem Framsfl. ríghélt í þótt það væri mjög dýrt fyrir ríkissjóð, kallaði á langar biðraðir þannig að fólk þurfti að bíða í 2--3 ár eftir að fá fyrirgreiðslu í húsnæðismálum og var mjög kostnaðarsamt og dýrt á allan hátt fyrir fólk. Í þeim svörum, herra forseti, kom fram að afföllin í 86-kerfinu, sem menn töldu að fundið hefði verið upp með húsbréfakerfinu, voru á bilinu 13--23%. Það var kerfi sem Framsfl. leiddi í lög og hafði forustu um á þingi á sínum tíma. Allt þetta þarf að rifja upp, herra forseti.

Síðan þarf að fara almennt yfir mat á því hvaða áhrif þessar breytingar hafi í þjóðfélaginu, ekki bara fyrir þá sem notið hafi góðs af félagslega kerfinu heldur hvaða áhrif þetta hefur á félagslega þjónustu almennt, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, vímuefnavandamálið, ríkissjóð, áhrif á fjárhag sveitarfélaga vegna þess að ég held að sveitarfélögin hafi ekki almennt áttað sig á því hvað hér er á ferðinni. Og ef sveitarfélögin kvarta núna undan því að lagðar séu byrðar á þau vegna félagslegra íbúða, þá held ég að þau hafi ekki séð nema hluta af því þegar í ljós kemur í framkvæmdinni hvaða áhrif ákvæði þessa frv. hafa fyrir sveitarfélögin og ég mun fara ítarlega yfir það í máli mínu. Ég kann því illa þegar farið er að nota þau orð sem sífellt glymja og félmrh. notar gjarnan að þetta sé einhver baggi eða byrði á sveitarfélögum að aðstoða fólk við að fá sér húsnæði.

Við heyrum aldrei talað um, herra forseti, að það sé einhver baggi á sveitarfélögum þó að malbika þurfi götur eða því um líkt. Þess vegna á fólk að venja sig af því að tala um bagga þegar við erum að tala um stöðu þeirra verst settu í þjóðfélaginu. Við verðum þá hreinlega að gera það upp við okkur hvort við viljum viðhalda því velferðarkerfi, sem við erum stolt af, vegna þess að staðreyndin er sú að þegar verið er að tala um að miklir peningar og fjármagn fari í velferðarkerfið, í húsnæðismálin, í félagslegar íbúðir, þá er staðreyndin sú, og tölur liggja fyrir um það í úttekt sem gerð hefur verið, að helmingi minna fjármagn rennur til barnafjölskyldna á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum. Samt eru hlutfallslega miklu fleiri börn 16 ára og yngri hér en á hinum Norðurlöndunum. Mig minnir að það séu 24,5% meðan það er einhvers staðar á bilinu 16--18% á hinum Norðurlöndunum. Samt rennur helmingi minna fjármagn til barnafjölskyldna hér á landi.

Við þurfum líka að fara yfir það, herra forseti, hvaða áhrif þetta hefur á félagasamtök eins og Búseta sem hefur gert stórátak í húsnæðismálum íslensku þjóðarinnar frá því að Búseti tók til starfa. Ég sé ekki betur, nema eitthvað breytist í meðförum þingsins, en að verið sé hreinlega að kippa grundvellinum undan starfsemi þeirra félagasamtaka enda skrifa þau undir þá áskorun til þingsins sem birtist á heilsíðu í dagblaði í dag.

Við þurfum líka að fara yfir úttekt Félagsmálastofnunar á húsaleigubótum og hvaða áhrif þær breytingar sem voru gerðar á húsaleigubótum hafa haft á þá sem hafa verið í leiguíbúðum hjá félagsmálayfirvöldum. Þetta þarf allt að fara yfir. Við þurfum einnig að fara yfir skýrslu sem liggur fyrir þinginu og var lögð fyrir þingið að mig minnir á sl. ári en hefur ekki verið rædd og það er skýrsla forsrh. um fátækt og lífskjör á Íslandi og annars staðar. Þegar verið er að setja fátækt fólk út í kuldann eins og hér á að gera, þá þurfum við að fá sýn hæstv. forsrh. á fátækt á Íslandi og hvernig hún blasir við honum vegna þess að staðreyndin er auðvitað sú, eins og ég hef bent á, að mér finnst að þessi ríkisstjórn, þessi helmingaskiptastjórn Framsfl. og Sjálfstfl. tali úr fílabeinsturni, hún vilji ekki sjá hvernig kjörum stórs hluta þjóðarinnar er háttað.

Síðan þurfum við, herra forseti, að fara yfir stöðu einstæðra foreldra. Á hverjum bitna þær breytingar sem hér er verið að gera? Þær bitna helst á einstæðum foreldrum, fátækum barnmörgum fjölskyldum, námsmönnum og fötluðum. Þetta eru hóparnir sem ríkisstjórnin hefur valið sér rétt áður en þing fer heim eða hvenær sem það nú verður, (RG: Ekki í fyrsta sinn.) Hún velur sér þennan hóp, þennan markhóp til að draga niður lífskjör þeirra. Ekki í fyrsta sinn, herra forseti, segir hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Það er rétt. Það er nefnilega alveg með ólíkindum í þeirri velferð sem hæstv. forsrh. státar sig iðulega af, að það sé svo mikil velferð og uppsveifla í þjóðfélaginu, að ég hygg að á þessu kjörtímabili hafi aldrei, aldrei frá því að ég man eftir verið eins oft og grimmilega ráðist á kjör aldraðra í þjóðfélaginu. Aftur og aftur voru þeir skotmarkið í hverjum fjárlögunum á fætur öðrum.

Þegar jafnaðarmenn voru í ríkisstjórn voru erfiðleikar. Þá vorum við ekki í uppsveiflu og mikil kreppa var í þjóðfélaginu. En jafnaðarmenn settu sér það mark hvað sem á gengi, hvað mikið sem þyrfti að skera niður að vernda t.d. kjör fatlaðra, aðstöðu þeirra, aðbúnað og þjónustu. Þar var, held ég megi segja, í gegnum öll þessi ár veruleg raunaukning á framlögum til þeirra og hefur aldrei orðið eins mikil uppbygging eins og þegar jafnaðarmenn fóru með stjórn landsmálanna að því er varðar málefni fatlaðra. Jafnaðarmenn reyndu líka að hlífa öldruðum eins og kostur var en ekki að nota þá sem bitbein til að reyna að skera niður í fjárlögunum.

Þess vegna hef ég tekið með mér ágæta samantekt um stöðu fjölskyldunnar á Íslandi sem var gefin út í bók 1994 á Ári fjölskyldunnar sem sýnir almennt stöðu fjölskyldunnar á Íslandi, hvar á hallar, hverju við þarf að bregðast og hvað þarf að gera betra til þess að við búum í fjölskylduvænu samfélagi. Ég mun vissulega fara ítarlega yfir það í máli mínu á eftir.

Ég sé að hæstv. félmrh. tollir ekki í salnum og er þetta ekki góð byrjun á langri ræðu minni þegar hann tollir ekki fyrsta hálftímann. Ég á væntanlega eftir að vera alllengi í stólnum og hefði óskað eftir því að sem mest á þeim tíma mundi hæstv. ráðherra hlýða á mitt mál og ekki síst nú þegar ég ætla að gera það að mínum næsta kafla að rifja upp loforð og afrek Framsfl. og hvernig þeir hafa staðið sig í húsnæðismálum eftir að þeir tóku við félmrn. Byrjunin var ekki glæsileg, herra forseti. Skuldbreyting aldarinnar. Skuldbreyting aldarinnar var flaggið í kosningunum. Ég býst við að einhverjir af þingmönnum Framsfl. geti þakkað setu sína á þinginu því flaggi sem reist var í kosningunum --- skuldbreyting aldarinnar. Hvernig birtist svo þessi skuldbreyting í þingsölunum? Hv. formaður félmn. sem hér er í salnum, herra forseti, og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, sem báðar eiga sæti í félmn. muna þá snautför ráðherrans þegar hann kom inn í þingið með skuldbreytingu aldarinnar. Glöggar eins og þær eru sáu þær auðvitað fljótt þegar farið var yfir málið að hæstv. ráðherra var að hverfa langt aftur í tímann, þannig að ef þær aðgerðir, sem hann kom með inn í þingið á sínum fyrstu vikum í stóli ráðherra, hefðu verið við lýði á árinu 1993, þegar við jafnaðarmenn komum aðgerðum á að því er varðar skuldbreytingu, þá hefðu ekki 2.000 manns fengið aðstoð á árinu 1993--1995, nei. Það voru aðeins 400 sem hefðu fengið aðstoð. Ef þetta frv. sem ráðherrann var með sem var skuldbreyting aldarinnar, flaggið, hefði komið til framkvæmda 1993, þá hefðu aðeins 400 manns fengið aðstoð í staðinn fyrir 2.000 sem fengu aðstoð samkvæmt þeim tillögum sem við höfðum hrint í framkvæmd í tíð jafnaðarmanna í félmrn. Það voru öll ósköpin. Hæstv. ráðherra var rekinn til baka með frv., herra forseti, og þær tillögur sem höfðu verið settar í tíð okkar jafnaðarmanna voru lögfestar. Þar varð engin breyting á. Það var öll skuldbreyting aldarinnar.

Ég man eftir því að hæstv. ráðherra, af því að hann ber sig nú alltaf vel, þakkaði félmn. mjög vel fyrir vel unnin störf og væntanlega fyrir --- þó að hann segði það ekki úr ræðustól --- að leiða sig af villu síns vegar.

Síðan kom hitt málið sem var flagg númer tvö í kosningabaráttu framsóknarmanna og hefur átt drjúgan þátt í að þeir fengu bærilega útkomu í síðustu kosningum. Það var greiðsluaðlögun. Koma átti á greiðsluaðlögun sem bjarga átti skuldugustu heimilunum. Það voru ófáar ræðurnar, herra forseti, sem voru fluttar á þingi af framsóknarmönnum um greiðsluaðlögun. Þeir gerðu margar atlögur að þáv. hæstv. félmrh., hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir, sem var í sæti félmrh. fyrir þær kosningar og kröfðust greiðsluaðlögunar, greiðsluaðlögunar strax, hér og nú, ekki eftir kosningar. Það væri ekki hægt að bíða. Tími allrar skoðunar væri liðinn og þúsundir fjölskyldna biðu eftir því að greiðsluaðlögun kæmi. Þar var fremstur í flokki hæstv. viðskrh. Finnur Ingólfsson. Hann skrifaði margar greinar sem ég mun fara yfir síðar í dag um nauðsyn á greiðsluaðlögum.

(Forseti (StB): Forseti leyfir sér að trufla hv. þm. í ræðunni en gert hafði verið ráð fyrir því að gera matarhlé kl. eitt. Nú er klukkan eitt og forseti vill spyrja hv. þm. hvort ekki séu tök á því að þingmaðurinn geri hlé á ræðu sinni í 30 mínútur og gert verði matarhlé.)

Það er sjálfsagt, herra forseti.