Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 12:29:38 (6604)

1998-05-15 12:29:38# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, Frsm. minni hluta KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[12:29]

Frsm. minni hluta félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það voru mörg atriði í ræðu hæstv. félmrh. sem þörf hefði verið á að svara. Ég ætla bara að taka eitt atriði af því að tíminn er naumur. Ég skildi ræðu hæstv. ráðherra svo að hann væri að breyta húsnæðiskerfinu, ekki vegna sveitarfélaganna, ekki vegna ríkissjóðs heldur vegna íbúanna sem hefðu kvartað.

[12:30]

Mér finnst að hæstv. ráðherra þurfi að skýra fyrir okkur hvílíkar og hvaða óskaplegar kvartanir þetta eru og hvers eðlis sem leiða til þess að honum finnst nauðsyn á að gjörbreyta félagslega húsnæðiskerfinu. Ég minni á að verkalýðshreyfingin, nánast öll sem ein, og aðrir aðilar sem eru að byggja á félagslegum kjörum úti í samfélaginu hafa mótmælt þessum breytingum. Maður hlýtur að spyrja sig hverjir eru þeir gífurlegu gallar sem íbúarnir hafa kvartað yfir sem leiða til þessara miklu breytinga. Þetta kemur mér vægast sagt mjög á óvart og ég held að ýmislegt annað búi þarna að baki en síðan verður ráðherrann að þola að fólk geri athugasemdir sínar við þetta mál því að þetta er stórt og alvarlegt mál sem mikil andstaða er við.