Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 12:38:05 (6612)

1998-05-15 12:38:05# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[12:38]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ræða ráðherrans áðan var hnefahögg framan í það láglaunafólk sem hvergi fær úrlausn eftir að frv. ráðherrans er orðið að lögum. Það voru engin skilaboð í ræðu ráðherrans til námsmanna, til fátækra barnafjölskyldna, til einstæðra foreldra sem fá nú enga lausn mála sinna. Þetta er stór hópur, þetta eru nokkur hundruð fjölskyldur og það voru engin skilaboð hvað ætti að gera fyrir þetta fólk. Sá ráðherra sem talar nú um hækkun á vöxtum sem varð 1992 um 1,4% en er sjálfur að hækka vexti um 2,6% eða í 5% talar úr glerhúsi. Sá ráðherra sem talar um stöðu byggingarsjóðsins með þeim hætti sem ráðherrann gerir kastar líka steinum úr glerhúsi vegna þess að framlög í sjóðinn voru 1.275 millj. 1992 en 275 millj. þegar ráðherrann tók við. Þeim húsnæðismálaráðherra sem þekkir ekki að það er mismunur á markaðsverði og áhvílandi lánum á íbúðum og segir að þá sé íbúðin yfirveðsett er ekki treystandi til að breyta húsnæðiskerfinu. Þekkir ráðherrann virkilega ekki að það getur verið mismunur á markaðsverði íbúða og áhvílandi lán?