Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 12:44:47 (6618)

1998-05-15 12:44:47# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, BH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[12:44]

Bryndís Hlöðversdóttir (andsvar):

Herra forseti. Í verkalýðshreyfingunni sem er þverpólitísk hreyfing sem hefur starfað sem slík í áratugi er það ekki flokksskírteini sem stjórnar gerðum manna. Það er þetta grundvallaratriði sem hæstv. félmrh. virðist ekki hafa áttað sig á og er sorglegt vegna þess að innan félmrn. eru vinnumarkaðsmálin.

[12:45]

Mér fannst þetta merkileg yfirlýsing hjá ráðherranum áðan vegna þess að allt frá því hann tók við störfum sem félmrh. hefur hann verið í stöðugum útistöðum við verkalýðshreyfinguna. Það er ekki bara í þessu eina máli. Í hverju stórmálinu á fætur öðru á þessu kjörtímabili hefur hæstv. félmrh. sýnt það og sannað að hann hefur engan skilning á starfsemi verkalýðshreyfingarinnar og vill beinlínis ekki starfa í samstarfi við hana.

Ég held, herra forseti, að skýringin hafi kannski verið að koma í ljós hér í umræðunum áðan. Hæstv. ráðherra opinberaði að verkalýðshreyfingin væri í stjórnarandstöðu vegna þess að þar séu menn ekki með rétt flokksskírteini.