Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 15:24:13 (6623)

1998-05-15 15:24:13# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, BH
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[15:24]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Sú staða sem við okkur blasir hér í dag er að mörgu leyti kunnugleg. Við horfum á ríkisstjórn Davíðs Oddssonar í andstöðu við verkalýðshreyfinguna. Það er ekkert nýtt. Það hefur oft gerst áður á þessu kjörtímabili. Til þess að glöggva okkur aðeins þá getum við rifjað það upp að fyrir u.þ.b. tveimur árum stormaði hingað niður á Austurvöll heilt alþýðusambandsþing til þess að mótmæla frumvörpum sem þá lágu fyrir hinu háa Alþingi. Í skýrslu forseta Alþýðusambands Íslands fyrir árið 1996 segir um þetta, með leyfi forseta:

,,38. þing ASÍ var haldið í Íþróttahúsinu í Digranesi, Kópavogi, dagana 20.--24. maí. Daginn eftir að þingið var sett var 2. umræðu um breytingar á vinnulöggjöfinni fram haldið á Alþingi. Þetta mál setti því sterkan svip á þing ASÍ. Í ávörpum gestanna, Ögmundar Jónassonar, formanns BSRB, og Elnu Katrínar Jónsdóttur, varaformanns BHM, var lögð mikil áhersla á samstöðu gervallrar verkalýðshreyfingarinnar.

Þriðjudadginn 21. maí, þegar Alþingi var að hefja umræður um vinnulöggjöfina, risu allir þingflulltrúar á 38. þingi ASÍ úr sætum og samþykktu með lófataki harðorða mótmælaályktun gegn skerðingum á réttindum launafólks. Þar var skorað á þingmenn að stöðva framgang frumvarpsins.

Að lokinni afgreiðslu ályktunarinnar hélt þingheimur ASÍ niður á Austurvöll og þingfundi fram haldið fyrir utan Alþingishúsið. Þar var Páli Péturssyni félmrh. afhent ályktunin og Jón Karlsson, þingforseti alþýðusambandsþingsins, afhenti Ólafi G. Einarssyni, starfsbróður sínum á Alþingi, persónulegt bréf til allra þingmanna með áskorun um að taka ekki þátt í að skerða réttindi launafólks.``

Tvö ár eru liðin síðan þetta gerðist, herra forseti, og ýmislegt hefur gerst síðan þá. Enn stöndum við frammi fyrir því að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar er í andstöðu við verkalýðshreyfinguna um stórt grundvallarmál, herra forseti, sem mun hafa miklar afleiðingar sem ekki eru allar fyrirséðar.

Til vitnist um þessa tvo andstæðu póla í samfélaginu, annars vegar hæstv. ríkisstjórn og hins vegar verkalýðshreyfinguna, þá vil ég benda á viðtal frá því í gær, 14. maí, þar sem Ævar Örn Jósepsson, dagskrárgerðarmaður á Rás 2, ræddi við nafnana Magnús Norðdahl, lögfræðing Alþýðusambands Íslands, og Magnús Stefánsson, hv. framsóknarþingmann, sem reyndar var frsm. þessa frv. Þar kemur fram vægast sagt undarleg afstaða þykir mér til þeirra mótmæla sem hér hafa komið fram. Ég vil taka það fram að mér hefur borist það til eyrna að hv. þm. Magnús Stefánsson er ekki hér í húsinu og að er ekki hægt að ná í hann vegna þess að hann er á fundi í Hveragerði. Ég geri mér grein fyrir því að hann er ekki hér til að gera grein fyrir þessu viðtali eða til að svara fyrir sig. Ég vil samt sem áður koma því hér á framfæri að í þessu viðtali kom fram alveg ótrúleg afstaða í garð þeirra mótmæla orðið hafa vegna þessa frv. Svipuð afstaða hefur reyndar birst hjá hæstv. félmrh. oft og mörgum sinnum í þessari umræðu.

Í viðtalinu er bent á að fram hafi komið mikil mótmæli frá öllum helstu félagasamtökum sem starfa á vettvangi launafólks og víðar í samfélaginu. Ævar spyr hvernig standi á því að þrátt fyrir þessa auglýsingu frá Alþýðusambandinu, BSRB og fleiri stórum samtökum, og þrátt fyrir mikinn og öflugan málflutning stjórnarandstöðunnar gegn þessu frv., þá eigi að ljúka þessu máli eins og hverju öðru þingmáli. Það er það sem hér liggur fyrir. Þá segir hv. þm. Magnús Stefánsson að meiningin sé einfaldlega að ljúka þessu máli eins og hverju öðru þingmáli sem fer bara hér í gegnum þingið eins og hvert annað mál, sama hvað tautar og raular. Hann bendir á það að menn geti nú haft ýmsar skoðanir á þessum málum og það sé ekki að gerast í fyrsta skipti núna að einstakir aðilar skori á þingið að fresta málum.

Hæstv. ríkisstjórn tekur því eins og hverju öðru hundsbiti að það hafi komið fram heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu frá fjölda samtaka: Alþýðusambandinu, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Neytendasamtökunum, Kennarasambandinu, Leigjendasamtökunum, Geðhjálp, Þroskahjálp, Byggingarfélagi námsmanna, Nemendagarði Samvinnuháskólans --- ég ætla ekki að telja þetta allt upp. Þetta hefur verið talið upp hér í umræðunum áður. Hæstv. ríkisstjórn lítur á þetta sem hvert annað hundsbit sem eigi ekki einu sinni að hlusta á, herra forseti.

[15:30]

Það er ekki með öllu ólík afstaða sem hæstv. ríkisstjórn sýnir gagnvart þessum mótmælum og hún sýndi gagnvart hálendisfrv. svokölluðu, þrennunni sem hefur verið að fara í gegnum þingið á undanförnum dögum, við mikil mótmæli ekki aðeins stjórnarandstöðunnar heldur ekki síður fjölda félagasamtaka og einstaklinga sem telja sig eiga hagsmuna að gæta um þau mál. Það birtust líka heilsíðuauglýsingar um þau mál þar sem skorað var á hæstv. ríkisstjórn að fresta málunum. En hæstv. ríkisstjórn kýs að hlusta ekki á þau mótmæli, eins og þau skipti hana ekki nokkru einasta máli vegna þess að hér sé á ferðinni ákveðin pólitík sem ríkisstjórnin ætlar að koma í gegn hvað sem tautar og raular. Ég verð að segja það, herra forseti, að þessi afstaða einkennist að mínu mati af valdhroka, ég get ekki skýrt þetta með öðru en að þarna sé um að ræða hreinan og kláran valdhroka. Það er sorglegt að horfa á það þegar verið er að gera slíkar breytingar á íslensku samfélagi sem eru að fara í gegn með þessu frv. og þeim frv. sem fóru í gegnum þingið á vikunum á undan.

Það er ekki aðeins verkalýðshreyfingin, það eru ekki aðeins samtök fatlaðra og Neytendasamtökin og ýmis samtök önnur sem mótmæla heldur er námsmannahreyfingin líka enn einu sinni að mótmæla. Námsmannahreyfingin hefur oftar en einu sinni stormað niður á Austurvöll á þessu kjörtímabili og mótmælt aðgerðum þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Um þau mótmæli hefur í flestum tilvikum, herra forseti, farið eins og um mótmæli þeirra félagasamtaka sem ég hef minnst á hér áður, á þau er ekki hlustað.

Frumvarpið sem við erum að fjalla um hér er um mjög mikilvæg félagsleg málefni. Það er unnið í flaustri og með þó nokkrum hraða. Ekki aðeins er það unnið í flaustri heldur er það unnið án samráðs við verkalýðshreyfinguna eða aðra sem hafa komið nálægt húsnæðismálum um áratuga skeið. Vil ég þar nefna t.d. Búseta sem hefur vakið athygli á því í umsögn sinni að við þá var ekki haft samráð og það hefur ekki verið tekið tillit til mótmæla þeirra þrátt fyrir að þeir hafi unnið töluvert starf að því að reyna að greiða úr vanda fólks á húsnæðismarkaðnum hér á landi.

Það er ekki hlustað á þau mótmæli sem fram koma, það er ekki tekið mark á aðvörunum um afleiðingarnar, og það sem einkennir þetta frv. líka er að gæðingar flokkanna tveggja eru settir í að semja frv. án þess að um leið séu nokkur tengsl höfð við samfélagið að öðru leyti. Það er sem sagt einn frá mér og einn frá þér og svo búum við til frumvarp.

Þetta minnir um margt á það ástand sem var fyrir u.þ.b. tveimur árum þegar vinnumarkaðsfrumvarpið fór í gegn og var af mörgum nefnt leiftursóknarherferð ríkisstjórnarinnar. Það er sami þjösnagangurinn í því máli og í þeim málum, það er sama skilningsleysið sem birtist gagnvart viðfangsefninu sjálfu og ekki síst kom það skilningsleysi mjög skýrlega fram í ræðu hæstv. félmrh. áðan. Ráðherra vinnumarkaðsmála sýndi sjálfur í ræðu sinni alveg ótrúlegt skilningsleysi að mínu mati á málefnum verkalýðshreyfingarinnar og þeirri vinnu sem þar fer fram þegar hann gaf það nánast í skyn að forustumenn verkalýðshreyfingarinnar sem hafa vogað sér að gerast aðilar að stjórnmálasamtökum öðrum en Framsfl. eða Sjálfstfl. eða eru í samstarfi við stjórnarandstöðuflokkana á einhvern hátt væru handbendi þeirra stjórnmálaflokka sem þeir ynnu með. Þetta segir hæstv. ráðherra vinnumarkaðsmála þrátt fyrir að af flestum sé vitað mál að verkalýðshreyfingin hér á landi hefur unnið þverpólitískt um áratuga skeið og þar hafa menn komið að úr öllum stjórnmálaflokkum og getað unnið saman að verkalýðspólitík án þess að flokksskírteinin skipti þar öllu máli. En mér þótti þessi ummæli hæstv. félmrh. um margt lýsa skilningsleysi hans á starfi verkalýðshreyfingarinnar og innviðum hennar. Það hefur reyndar komið fram oft áður í umræðum um ýmis mál sem tengjast verkalýðshreyfingunni.

Í frv. birtist ákveðinn valdhroki og ég vil segja nánast valdagræðgi ráðherra sem er vissulega á kostnað lýðræðisins. Það birtist í mörgu eins og því hvernig stjórn húsnæðissjóðsins, Íbúðalánasjóðsins, er skipuð, það birtist í fjölda reglugerðarheimilda sem eru 28, ef ég man rétt. Í frv. sem telur 57 ákvæði eru 28 reglugerðarheimildir þar sem ábyrgð er vísað frá löggjafarvaldinu yfir á framkvæmdarvaldið og það á að greiða nánar og ítarlegar úr málum þar. Þetta held ég að kunni ekki góðri lukku að stýra, herra forseti, og sé yfir höfuð mjög slæm lagasetningaraðferð og ekki sæmandi hinu háa Alþingi að standa að.

Ég verð líka að segja það, herra forseti, að mér hugnast ekki þessar 28 reglugerðarheimildir vegna þess að ríkisstjórnin hefur sýnt það og sannað að henni er ekkert um verkalýðshreyfinguna gefið eða þau málefni sem hún stendur fyrir. Ríkisstjórnin vill ekkert samráð við verkalýðshreyfinguna, hún trúir ekki ráðleggingum verkalýðshreyfingarinnar og hún vill veg verkalýðshreyfingarinnar yfir höfuð sem minnstan enda hefur komið fram hjá hæstv. félmrh. að menn sem eru ekki þar í forustu hafa ekki rétt flokksskírteini að mati hæstv. ráðherrans.

En eftir að hin hæstv. ríkisstjórn er búin að hafna öllu samráði við verkalýðshreyfinguna um þennan málaflokk sem hún hefur þó haldið utan um, félagslega húsnæðiskerfið, um áratuga skeið finnst mér skjóta svolítið skökku við eins og fram kemur í áðurnefndu viðtali við hv. þm. Magnús Stefánsson að þegar spyrillinn spyr hann að því hvort það sé satt sem á ríkisstjórnina hefur verið borið að þeir séu að hjálpa hinum ríku að gera sér hina efnaminni að féþúfu, þá segir þingmaðurinn nei. Málið sé það að gert sé ráð fyrir því í brtt. félmn. að komið verði á markvissu samstarfi aðila launþegahreyfinganna og sveitarfélaganna og ríkisvaldsins um það að fara yfir leigumarkaðinn og móta þar línurnar með það að markmiði að byggja upp leigumarkaðinn á eðlilegan hátt og síðan varðandi fjárframlög og lánveitingar til leiguíbúða að þá sé auðvitað gert ráð fyrir því eftir sem áður eins og verið hefur að það verði ákveðið í fjárlögum hverju sinni hvernig fjárveitingum verði háttað til þeirra mála.

Það á sem sagt að taka upp samstarf við verkalýðshreyfinguna eftir á, eftir að búið er að djöfla þessu frv. og þjösna því í gegn í fullri andstöðu við alla verkalýðshreyfinguna. Þá á að bjóða henni upp á samstarf um einhver smáatriði og einhver útfærsluatriði sem ráðherranum þóknast að hafa samstarf um við hreyfinguna.

Ég verð bara að spyrja hæstv. félmrh.: Trúir hann því virkilega að einhver vilji hafa samstarf við hann um þetta mál eftir það sem á undan er gengið? Hver ætti það svo sem að vera? Félmrh. er búinn að snúa baki við öllum nema Framsfl. og Sjálfstfl. í þessu máli og öll þau samtök sem hæstv. ráðherra gæti hugsanlega haft samstarf við um þessi mál hafa farið fram á það að málinu verði frestað og þau koma fram í auglýsingunni sem birtist í Morgunblaðinu fyrir u.þ.b. tveimur dögum. Ég hef því ekki nokkra trú á því, herra forseti, að nokkur úr þeim samtökum sem þarna koma til greina hafi áhuga á því að hafa samstarf við hæstv. ráðherra um þessi mál eftir það sem á undan er gengið.

Það má spyrja sig að því, og ég hef gert það mjög oft, af hverju ákveðið sé af þessari ríkisstjórn að leggja niður félagslega kerfið og af hverju það sé gert án samráðs við verkalýðshreyfinguna. Við fyrstu sýn virðist manni sem þar sé bara um hreinan og kláran yfirgang og þjösnaskap að ræða og að vísvitandi sé gengið fram hjá verkalýðshreyfingunni. En það má líka gera ráð fyrir því að ráðherra treysti einfaldlega öðrum betur til þessa verks en verkalýðshreyfingunni og það er í raun og veru eina niðurstaðan sem ég get fengið við spurningunni og eina svarið. Bent hefur verið á það að félagslega kerfið sé komið í þrot. Það má segja með réttu að félagslega kerfið, húsnæðiskerfið, hefur átt við töluverð vandamál að stríða en það eru ástæður fyrir því, herra forseti. Margir hafa tekið undir það með hæstv. félmrh. að þörf sé á því að endurskoða kerfið og gera á því ýmsar bragarbætur. En það hefur hins vegar enginn, ekki einn einasti maður, eftir því sem ég best veit annar en þeir sem eru í herbúðum stjórnarinnar lagt það til að kerfið sé beinlínis lagt niður án þess að nokkur einustu úrræði komi í staðinn fyrir láglaunahópana. Ég mun reyndar fara nánar yfir það síðar í ræðu minni út af hverju félagslega kerfið er komið í þrot, fyrir því eru margar ástæður.

En ég held að það sé einsýnt af því frv. sem hér hefur verið lagt fram, og ekki síður af því sem á undan hefur gengið á þessu kjörtímabili, að hæstv. ráðherra vinnumarkaðsmála vill ekkert samstarf við verkalýðshreyfinguna. Ég held að það sé einsýnt að hann vill hana út úr húsnæðiskerfinu og treystir öðrum betur til þess verks og það má með réttu taka undir það sem bent var á af hv. þm. Steingrími Sigfússyni, sem talaði hér áðan að þar gengur hæstv. félmrh. svo sannarlega erinda Sjálfstfl. sem hafa átt þann draum um margra ára skeið að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið.

Margir hafa bent á það í umsögnum, herra forseti, að frv. sé flausturslega unnið og að það þurfi að vanda það mun betur áður en það sé tækt til lagasetningar. Þetta kemur fram í ýmsum umsögnum og ég vil benda á nokkrar þeirra. Til dæmis liggur fyrir umsögn, reyndar greinargerð frá lögmönnum, Gylfa Thorlacius, Svölu Thorlacius o.fl., sem húsnæðisnefnd Reykjavíkur var gefin um frv. Þar er m.a. bent á að það sé megingalli á frv. að ekki skuli vera samin heildarlöggjöf um húsnæðismál og hér hafi verið kjörið tækifæri til að setja einfaldar, auðskiljanlegar og aðgengilegar reglur varðandi þau atriði sem var vissulega orðið tímabært að gera og komast hjá kostnaðarsömum málaferlum sem er óhjákvæmilegt að framhald verði á, segja lögmennirnir.

Þá er líka bent á það í þeirri umsögn að mjög óeðlilegt sé hve mikill hluti þessara reglna á að fara eftir reglugerðarákvæðum en samkvæmt athugasemdum með þeirri grein, 51. gr. frv., þarf að setja reglugerð um a.m.k. 28 atriði. Þetta er náttúrlega engin hemja, herra forseti, að semja þurfi 28 reglugerðir um frv. sem er u.þ.b. 50 lagagreinar. Það er alveg greinilegt að það er ýmislegt óunnið í slíku frv.

Samtökin Þak yfir höfuðið hvetja eindregið til að afgreiðslu frv. verði frestað til haustsins, ekki síst svo tími gefist til að fara betur ofan í þau fjölmörgu atriði sem gerðar hafa verið athugasemdir við. Það er ekki síður það sem fólk er að fara fram á, að því gefist kostur á að fara ítarlegar ofan í frv. til að reyna að átta sig á afleiðingum þess vegna þess að það virðist alveg ljóst að þær eru ekki allar fyrirséðar.

Það hafa verið nefnd þau félagasamtök sem mótmæltu í Morgunblaðinu. Þau hafa öll krafist þess að frumvörpunum verði frestað. Í umsögn Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja er þess krafist að frv. verði frestað vegna þess að frv. sé illa unnið og að það þurfi að vanda frumvarpssmíðina mun betur en nú hefur verið gert.

Til marks um það hversu illa frv. er úr garði gert þegar það kemur fyrir Alþingi er ekki aðeins það að vísað skuli til framkvæmdarvaldsins 28 atriðum sem þarf að semja reglugerðir um heldur hefur hv. félmn. þurft að gera á því 40 brtt. til þess að sníða stærstu agnúana af. En enn eru eftir inni í frv. svolítið skrýtin ákvæði og vil ég þar nefna sem dæmi 9. gr. sem fjallar um verkefni Íbúðalánasjóðs.

[15:45]

Þar segir m.a. að verkefni Íbúðalánasjóðs sé að hafa umsjón með fjárhag, rekstri og annarri starfsemi Íbúðalánasjóðs og gæta þess að sjóðurinn starfi í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.

Herra forseti. Ég skil þetta þannig að Íbúðalánasjóður eigi að hafa umsjón með sjálfum sér. Í fyrsta lagi held ég að slíkt eftirlit sé ekki mjög virkt en í öðru lagi held ég að það hljóti að liggja í eðli málsins að hlutverk sjóðsins sé að hafa umsjón með fjárhag sínum og rekstri og sennilega á þarna að standa: ,,Verkefni stjórnar Íbúðalánasjóðs eru``, en eftir því sem ég gat best séð er þetta ekki eitt af þeim atriðum sem hæstv. félmn. gerir tillögu um að verði breytt, sem þó hefði þurft að gera til að þessi frumvarpsgrein eða þessi liður hennar sé ekki hrein og klár markleysa.

Minnst hefur verið á starfsöryggi starfsfólks Húsnæðisstofnunar og það verður að segjast eins og er að það er algerlega óskiljanlegt hvers vegna ekki er farin sama leið og farin hefur verið í öðrum ámóta tilvikum þegar stofnanir hafa verið lagðar niður eða grundvelli þeirra breytt, þ.e. að ekki skuli vera hægt að reyna einhvern veginn með þessari lagasmíð að tryggja starfsöryggi þessa fólks. Það er hreint og klár til skammar að hæstv. félmrh., ráðherra vinnumarkaðsmála, skuli ekki gæta að þessu í sínu frv. þegar þó eru fordæmi fyrir því eins og hér hefur verið bent á að aðrir ráðherrar hafa í sínum frv. tekið tillit til þessara hluta.

Borist hefur áskorun til félmrh. frá starfsfólki Húsnæðisstofnunar og þar segir m.a., með leyfi herra forseta:

,,Í lagasetningu um breytingar á starfsemi opinberra stofnana að undanförnu hefur verið að finna ákvæði er tryggja atvinnuöryggi starfsmanna viðkomandi stofnana. Nægir hér að nefna 8. gr. laga nr. 103/1996, um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar, 8. gr. laga nr. 50/1997, um stofnun hlutfélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, 10. gr. laga nr. 60/1997, um stofnun Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, og loks 13. gr. laga nr. 68/1997, um Lánasjóð landbúnaðarins.

Í öllum þessum lögum er kveðið á um að allir starfsmenn þeirra sjóða og stofnana sem verið er að breyta eða leggja niður skuli fá sambærileg störf hjá nýjum félögum, stofnunum eða sjóðum sem taka við starfsemi þeirra.

Félag starfsmanna Húsnæðisstofnunar ríkisins telur að sömu rök hljóti að liggja til þess að tryggja starfsöryggi og nýta starfsreynslu þeirra 49 starfsmanna sem nú starfa hjá Húsnæðisstofnun ríkisins í þágu hins nýja Íbúðalánasjóðs.``

Af hverju er það ekki hægt, herra forseti, eins og í þeim frv. sem hér hefur verið bent á, að tryggja starfsöryggi þess fólks sem vinnur hjá Húsnæðisstofnun ríkisins? Þetta er að mínu mati fullkomin vanvirðing við þetta fólk og það er fullkomin vanvirðing á þeirri sérþekkingu og skilningisskortur á þeirri sérþekkingu sem skapast hefur innan þessarar stofnunar um húsnæðismál og það er reyndar með ólíkindum, fyrir utan þetta, að hæstv. ráðherra félagsmála og þar með talið vinnumarkaðsmála skuli ekki gæta að því svona fyrir siðasakir að tryggja að þessi mál séu þó í þokkalegu lagi. Og hefur hæstv. ráðherra þó lýst því yfir hér úr þessum stól, þótt ekki hafi hann enn komið því í verk að framkvæma það, að hann sé opinn fyrir því að beita sér fyrir því að hér verði fullgild samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um uppsögn af hálfu atvinnurekanda. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir fyrir nokkrum árum síðan að hann vildi líta á það með opnum hug að staðfesta þessa samþykkt. Það hefur ekki enn þá gerst. Hins vegar væri fróðlegt að vita í tengslum við þetta mál hvort hæstv. ráðherra hafi gert eitthvað í þeim málum eða hvort hann hyggist gera eitthvað í þeim málum áður en kjörtímabilinu lýkur því að ekki er alveg útséð um að hæstv. ráðherrann verði áfram í þessu ráðuneyti vinnumarkaðsmála á næsta kjörtímabili. Ég vildi því gjarnan heyra hér á eftir hvort hæstv. félmrh. hafi eitthvað gert til að koma því við að fullgilda þessa samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um uppsagnir af hálfu atvinnurekenda, áður en kjörtímabilinu lýkur.

Það má spyrja sig, herra forseti: Hagsmunum hvers þjónar þetta frv.? Jú, það þjónar hagsmunum húsnæðiskerfisins að einhverju leyti. Það þjónar hagsmunum sveitarfélaga að einhverju leyti. En það þjónar ekki hagsmunum neytenda kerfisins, herra forseti. Það eru þeir sem eru settir út á guð og gaddinn, a.m.k. þeir tekjulægstu og þótt einhverjir hafi verið óánægðir með kerfið, eins og hæstv. félmrh. hefur margbent á, og hafi lagt leið sína niður í Hafnarhús til að koma mótmælum sínum á framfæri við félmrh., þá er það sorglega við þetta að engin önnur úrræði koma í staðinn fyrir ákveðna hópa, herra forseti. Ég efast um að þeir sem hafa komið og kvartað við hæstv. félmrh. um að félagslega íbúðakerfið væri gallað hafi lagt til að hæstv. ráðherra legði það niður án þess að nokkur úrræði kæmu í staðinn fyrir þá hina sömu. Mér þætti gaman að sjá framan í þá sem hafa mælt með því við hæstv. ráðherra. Þetta er grundvallaratriði í málinu. Það er grundvallaratriði í þessu máli að það hefur verið ákveðin óánægja með kerfið, en þar með er ekki sagt að réttlætanlegt sé að leggja kerfið niður án þess að nokkur önnur félagsleg úrræði komi í staðinn fyrir tekjulægstu hópana. Það er algerlega ófyrirgefanlegt.

Ekki liggur fyrir hverjar afleiðingar þessa frv. eru. Þær eru margar hverjar ófyrirséðar enda hefur varla unnist tími til þess fyrir þá sem hafa viljað skoða málið ítarlega ofan í kjölinn, að átta sig á því hverjar afleiðingarnar eru auk þess sem ég trúi því að margar þeirra komi ekki fram fyrr en eftir að kerfið fer að virka að einhverju marki.

Félagsstofnun stúdenta hefur lagt fram umsögn ásamt fjölmörgum öðrum og þar kemur fram að gera megi ráð fyrir því að óbreyttu frv. að uppbygging námsmannaíbúða dragist stórlega saman á næstu árum. Niðurfelling 3,5% framlags sveitarfélaga, álag stimpilgjalda og dýrari framkvæmdalán hafa áhrif til hækkunar byggingarkostnaðar og þar af leiðandi til hækkunar leiguverðs til stúdenta. Á þetta er bent í umsögn Félagsstofnunar. Þar segir líka að vaxtakjör sé sú breyta sem mestu máli skiptir og óvissa um þau geri alla áætlanagerð erfiða en eins og komið hefur fram hefur hækkun vaxta úr 1% í 5% áhrif á hækkun leigu sem nemur tæplega 30% og þessu gera þeir nánar grein fyrir reyndar í umsögn sinni hjá Félagsstofnun stúdenta. Þá benda þeir á að óvissa um lánafyrirgreiðslu er að sama skapi allri langtímaáætlanagerð og stefnumótun fjötur um fót.

Félagsstofnun stúdenta leggur til að í lögum um húsnæðismál komi fram valkvæði sveitarfélaga til að styrkja aðila sem byggja félagslegt húsnæði um sem nemur gatnagerðargjöldum. Félagslegir aðilar fái undanþágu frá stimpilgjöldum og að vextir af lánum verði fastir og nemi 1%. Tryggingarsjóði verði skipt upp og endurgreiddur hlutfallslega til þeirra aðila sem greitt hafa í hann á undanförnum árum. Þá verði úthlutunum lána á árunum 1999 og 2000 fjölgað úr 50 íbúðum í 500 íbúðir til að koma á móts við aukna þörf á leiguhúsnæði og til að leysa brýnan vanda félagslegra aðila.

Síðan segir í umsögn Félagsstofnunar stúdenta, með leyfi forseta:

,,Félagsstofnun stúdenta hefur litið á uppbyggingu stúdentagarða og rekstur þeirra sem hluta af lausn þess húsnæðisvanda sem almennt steðjar að. Húsnæðisvandi stúdenta er enn fyrir hendi og þarf að leysa hann á annan hátt ef Félagsstofnun stúdenta er ekki gert kleift að sinna því hlutverki. Eftirspurn eftir heppilegu húsnæði fyrir stúdenta er langt umfram framboð og hafa á undanförnum árum ríkt erfiðleikar á leigumarkaðnum seinni part sumars og á haustin. Tekjulitlir stúdentar, flestir utan af landi, njóta leiguhúsnæðis hjá Félagsstofnun stúdenta í 1--6 ár meðan á námi stendur. Um er að ræða fyrirkomulag sem stúdentar og stjórnvöld hafa ítrekað lýst yfir ánægju sinni með. Félagsstofnun stúdenta hefur fullan hug á að halda uppbyggingunni áfram en lýsir yfir áhyggjum sínum ef frumvarpið verður samþykkt í óbreyttri mynd og vonast til að hæstvirt félagsmálanefnd skoði vandlega þau atriði sem hér hefur verið minnst á.``

Þetta frv. hæstv. félmrh. snertir því vissulega mjög marga þætti samfélags okkar og getur leitt til þess og mun líklega leiða til þess ef það verður samþykkt í óbreyttri mynd, að jafnrétti til náms er enn skert, eina ferðina enn af þessari hæstv. ríkisstjórn.

Fleiri umsagnir eru í svipaða veru. Öryrkjabandalag Íslands segir um þetta frv. að hér sé alveg ljóst að um gerbreytingu húsnæðiskerfisins sé að ræða og mörgum spurningum sé ósvarað um framkvæmd þess eftir lagabreytingu. Öryrkjabandalag Íslands telur því að allt of skammur tími gefist til vandlegrar athugunar allra þátta þessara mála sem varða almenning í landinu svo miklu ekki síst það fólk sem Öryrkjabandalagið er fulltrúi fyrir. Bandalagið telur því réttast að frumvarpið verði ekki afgreitt fyrr en á næsta þingi svo að allir sem hagsmuna eiga að gæta komi eðlilega að málsmeðferðinni.

Öryrkjabandalag Íslands gengur líka út frá þeirri staðreynd í umsögn sinni að skjólstæðingar þess eru upp til hópa láglaunafólk, allt yfir í tekjulægsta fólkið í landinu.

,,Húsnæðisfrumvarp þetta sýnist ekki koma til móts við þetta fólk`` --- segir í umsögn Öryrkjabandalagsins --- ,,þar sem ekki er unnt að sjá annað en enn fleirum sé vísað á leigumarkað. Ekki er séð að með frumvarpinu sé þessum auku þörfum fyrir leiguhúsnæði mætt þar sem ekki er gert ráð fyrir nema 50 lánum til leiguíbúða á næstu tveimur árum. Á móti munu menn segja að viðbótarlán hins nýja kerfis komi í stað félagslegra íbúðarlána í dag. Þá ber þess að geta að enn strangari tekjuskilyrði eru fyrir húsbréfalánum en lánum úr félagslega kerfinu. Það þýðir að fleiri verða útilokaðir frá eignaríbúðakerfinu, sem eðlilega bitnar harðar á þeim tekjulægstu svo sem öryrkjum.

Ekki verður af frumvarpinu ráðið hversu þörfum þessa fólks verður mætt þar sem beinlínis er aflétt ákveðnum skyldum sem sveitarfélögin hafa í dag.

Öryrkjabandalag Íslands leggur höfuðáherslu á að gætt sé í hvívetna hagsmuna hinna tekjulægstu í húsnæðiskerfinu.

Með tilliti til óska okkar um að málinu verði frestað í ljósi framangreindra áherslna þá sjáum við ekki ástæðu til að gera nema örfáar viðbótarathugasemdir:`` --- sem síðan eru tilgreindar nánar í umsögn Öryrkjabandalagsins.

En því miður mun hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar ekki taka tillit til þessara félagasamtaka, Öryrkjabandalags Íslands, frekar en einhverra annarra radda úti í samfélaginu sem eru að kvaka og eru á móti þessu frv. Það skal í gegn, herra forseti.

Það má líka velta fyrir sér undirbúningi þessa máls, hvernig staðið var að skipan þeirra hópa sem áttu að undirbúa frv. Frá því er greint í athugasemdum með frv., með leyfi forseta:

,,Frumvarp þetta er samið sameiginlega af samráðshópi ríkis og sveitarfélaga, sem félagsmálaráðherra skipaði 15. október 1997, og starfshópi til að undirbúa frumvarp um breytt hlutverk og starfsemi Húsnæðisstofnunar ríkisins, sem félagsmálaráðherra skipaði 22. október 1997. Verkefni samráðshópsins var að vinna að útfærslu tillagna um breytingar á félagslega íbúðakerfinu yfir í félagslegt lánakerfi. Markmiðið skyldi vera að auka sveigjanleika félagslega lánakerfisins og færa umsýslu þess í auknum mæli til sveitarfélaga. Jafnframt var samráðshópnum falið að annast viðræður við sveitarfélög um að félagsleg aðstoð húsnæðiskerfisins fari í gegnum húsnæðisnefndir sveitarfélaga og um uppgjör vegna fortíðarvanda í félagslega húsnæðiskerfinu.`` --- Þetta er hið pólitíska markmið, herra forseti. --- ,,Samráðshópnum var falið að hafa samráð við verkalýðshreyfinguna og nefnd sem hefur það hlutverk að undirbúa frumvarp um breytt hlutverk Húsnæðisstofnunar.`` --- Og svo skulum við gæta að einu. Hverjir voru skipaði í þessar nefndir og þessa hópa? --- ,,Í samráðshópinn voru skipaðir Karl Björnsson bæjarstjóri, Páll R. Magnússon, formaður húsnæðisnefndar Reykjavíkur, Gunnar S. Björnsson, varaformaður húsnæðismálastjórnar, Steingrímur Ari Arason, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, og Árni Gunnarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, sem jafnframt var skipaður formaður samráðshópsins.``

[16:00]

Í hinn starfshópinn voru skipaðir Hákon Hákonarson, Gunnar S. Björnsson, Páll Gunnar Pálsson, Steingrímur Ari Arason og Árni Gunnarsson.

Ég vil bara minna á það hér að það er hæstv. félmrh., sem jafnframt er ráðherra jafnréttismála á Íslandi, sem skipaði þessa tvo hópa. Hann velur þann kost að skipa í hópana eintóma karla. Í þessum hópum er ekki ein einasta kona. Það virðist líka sem hæstv. félmrh. hafi viljað gæta þess og tryggja að engin kona kæmist að starfinu yfir höfuð vegna þess að starfsmenn hópanna og þeir sem unnu með hópunum að gerð frv. voru líka allir karlar, sennilega ágætismenn en allir voru þeir karlmenn.

Ég get nú ekki annað en spurt hæstv. félmrh. --- Er hæstv. félmrh. einhvers staðar nálægur? Getur forseti kallað á ráðherrann? Hæstv. félmrh. er hér. --- Ég get ekki annað, eftir að ég hef bent hæstv. ráðherranum á það hvernig samsetning þessa hóps er og minnt hæstv. félmrh. á það að hann er jafnframt ráðherra jafnréttismála, en spurt hæstv. ráðherrann að því hvort honum þyki þetta ásættanlegt. (Félmrh.: Nei.) Nei, segir hæstv. ráðherra. En þá vil ég minna hæstv. ráðherrann á það (Félmrh.: Þetta voru mistök.) að hans er valdið.

Ég fagna því að ráðherrann kallar hér fram í að þetta hafi verið mistök og hann skuli viðurkenna það. Ég ætla rétt að vona það að hann tryggi að þetta gerist ekki aftur. Það hefur margoft verið bent á það í þessum ræðustól að það sé algjört grundvallaratriði að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir að 90% þeirra séu karlmenn, leitist a.m.k. við og reyni að virða þau jafnréttislög sem gilda hér í landinu. Skipan svona hópa sem í eru eintómir karlar, þar sem algjörlega er horft fram hjá því að helmingur mannkyns og helmingur þessarar þjóðar eru konur, er algjörlega óásættanlegt. Það bara gengur ekki, herra forseti. Og þessi skipan er því miður ekki til mikils sóma fyrir hæstv. félmrh., þó ég vilji á engan hátt vega að þeim einstaklingum sem þarna eiga hlut að máli en þarna hefur ekki verið gætt eðlilegra sjónarmiða með tilliti til þess að konur komi líka að frumvarpsgerðinni.

Þegar frv. sjálft og efni þess er skoðað, er ýmislegt að athuga. Það má segja að frumvarpshöfundar gefi sér ákveðnar forsendur fyrir þessari smíði sinni en því miður hefur verið sýnt fram á það mjög rækilega, í sameiginlegri umsögn sem hér liggur fyrir frá Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, að þær forsendur sem frumvarpshöfundar gefa sér standast ekki nema e.t.v. í einhverjum örfáum, einstökum atriðum.

Í þessu frv., eða öllu heldur í athugasemdum með því, er gerður samanburður á núverandi félagslegu eignaríbúðakerfi og nýju kerfi viðbótarlána. Á öðrum stöðum er síðan fjallað um fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs verkamanna og stöðu félagslega íbúðakerfisins. Fjallað er um stöðu íbúðareigenda innan þess kerfis, auðar íbúðir og kaupskyldu sveitarfélaganna. Þá er vísað til fjölda athugana og skýrslna sem ýmist eru birtar í heild eða að hluta. Af þessum skýrslum og þessum umsögnum eru síðan dregnar ákveðnar ályktanir.

Í umsögn Alþýðusambandsins og BSRB er síðan, á mjög ítarlegan hátt og með mjög sterkum rökstuðningi, sýnt fram á að þessar forsendur standast hreinlega ekki.

Fyrsta forsendan sem menn gefa sér er sú að vaxtabótakerfið sé einfaldara en kerfi niðurgreiddra vaxta og það sé auðveldara að aðlaga það aðstæðum fólks hverju sinni, meðan í núverandi kerfi sé bara heimilt að hækka vexti en ekki lækka þá. Það er hins vegar ekkert útskýrt frekar í þessu frv. hvað verði einfaldara í vaxtabótakerfinu. Í umsögn Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja segir, með leyfi forseta:

,,Bent er á í greinargerðinni þann ósveigjanleika að einungis megi hækka vexti en ekki lækka. Einfaldast er að taka á þessum vanda með því að heimila lækkun vaxta vegna breytinga á tekjum, rétt eins og hækkun þeirra. Verkalýðshreyfingin hefur ítrekað krafist, að þessi háttur verði hafður á. Þannig yrði vaxtaniðurgreiðslan ætíð í samræmi við aðstæður fólks hverju sinni.

Í sambandi við þá tillögu að færa alla aðstoð vegna húsnæðiskaupa yfir í vaxtabótakerfið er rétt að benda á að við það aukast jaðaráhrif hjá lágtekjufólki verulega þar sem vaxtabætur eru tekjutengdar. Varhugavert hlýtur að teljast að auka jaðaráhrif á þennan hóp nema að vandlega athuguðu máli.``

Eiginlega þarf ekki frekari skýringa við. Það getur varla talist æskilegt að auka jaðaráhrifin frá því sem nú er. Síst mega tekjulægstu hóparnir við því.

Þá er í athugasemdum með frv. einnig fjallað um vaxtabætur og niðurgreiðslur. Þar er m.a. sagt að 50% greiddra vaxtabóta fari til einstaklinga með árstekjur undir tveimur milljónum og þar sé að hluta um sama hóp að ræða og fær niðurgreidda vexti í gegnum félagslega íbúðakerfið. Stuðningur til sömu einstaklinga er með tvennum hætti, annars vegar niðurgreiddir vextir og hins vegar vaxtabætur.

Í umsögn Alþýðusambandsins og BSRB segir um þetta, með leyfi forseta:

,,Nefndin tekur raunar fram að hún hafi ekki haft handbærar tölur um fjölda hjóna sem fengu vaxtabætur og ekki heldur sambærilegar upplýsingar um fjölda hjóna og einstaklinga sem eru lántakendur í félagslega íbúðakerfinu en þar eru hjón talin sem einn lántakandi. Af þessum tölum draga frumvarpshöfundar þá ályktun að hér sé ,,að hluta um sama hóp að ræða`` og ,,Af þessu má ætla að stór hluti þeirra sem fá félagslega aðstoð í formi niðurgreiddra vaxtabóta fái einnig vaxtabætur``.``

Þessar ályktanir nefndarinnar eru því ekkert annað en ágiskanir, herra forseti. Það er meira að segja viðurkennt að þær séu ekkert annað en ágiskanir. Þessar tölur hafi ekki legið fyrir. (KÁ: Það er einkenni á öllu þessu verki.) Það er rétt hjá hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur, formanni hv. félmn., að það er með sönnu einkenni á öllu þessu verki að forsendur þess eru allar meira og minna ágiskanir. Það er algjörlega óþolandi, herra forseti, að búa við það að fram sé sett frv. um að leggja niður félagslega húsnæðiskerfið og byggja það eingöngu á ágiskunum, og engu öðru en einhverjum sögusögnum og því að einhverjir einstaklingar hafi komið til hæstv. félmrh. og kvartað.

Í umsögn BSRB og Alþýðusambandsins segir líka, herra forseti, um þetta atriði:

,,Mikilvægt er að félagslegri aðstoð ríkisins, hvort heldur hún er veitt með vaxtabótum eða niðurgreiddum vöxtum, sé beint að þeim hópi sem mesta þörf hefur og nauðsynlegt er að sá markhópur sé vel skilgreindur svo aðgerðir ríkisins beri tilætlaðan árangur. Þetta er sérstaklega mikilvægt þegar úr takmörkuðu fé er að spila. Á þennan undirbúning skortir verulega í vinnu og gögnum frumvarpshöfunda. ASÍ og BSRB leggja þunga áherslu á að sérstaklega sé horft til fjölskyldustærðar, framfærslubyrði og félagslegrar stöðu þeirra sem njóta eiga félagslegrar húsnæðisaðstoðar með vaxtabótum og/eða niðurgreiddum vöxtum. Þannig finnist sá hópur sem mesta þörf hefur og jafnframt sá hópur sem verst getur orðið úti við vanhugsaðar kerfisbreytingar.``

Það er einmitt það sem við erum að fjalla um hér, herra forseti, vanhugsaðar kerfisbreytingar.

Ein klisjan sem er gegnumgangandi í þessu frv. er sú að félagslega kerfið sé svo dýrt í rekstri. Það er tekið fram í athugasemdum með frv. að kostnaður af rekstri Byggingarsjóðs verkamanna sé 138,2 milljónir eða 10,5% af 1.320 milljóna vaxtaniðurgreiðslu hans. Til samanburðar er það nefnt að rekstur allra skattstofa ríkisins kosti 505 milljónir eða 15% af greiddum vaxtabótum, sem nema 3,3 milljörðum.

En varpar þessi samanburður einhverju ljósi á rekstrarkostnað þessara tveggja kerfa? ASÍ og BSRB hafa komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Í fyrsta lagi vegna þess að rekstrarkostnaði Húsnæðisstofnunar sé skipt upp milli Byggingarsjóðs verkamanna, Byggingarsjóðs ríkisins og húsbréfadeildar samkvæmt ákveðinni reglugerð. Þar er kveðið á um að launum og öðrum starfsmannakostnaði, húsnæðiskostnaði og afskriftum fastafjármuna skuli skipt á milli sjóða eftir fjölda starfsmanna. Þar segir að öðrum rekstrarkostnaði skuli skipta eftir heildareignum hvers sjóðs að frádregnum lánveitingum hans. Í samræmi við þessa reglugerð var hlutdeild Byggingarsjóðs verkamanna 138,2 millj. árið 1996. Þetta hefur það í för með sér að hluti af kostnaði, sem færður er sem rekstrarkostnaður Byggingarsjóðs verkamanna, getur stafað t.d. af verkefnum sem félmrh. setur á stofnunina og lúta ekki beint að rekstri Byggingarsjóðs verkamanna.

Þá segir í umsögn Alþýðusambandsins og BSRB að þess sé að geta að hluti af umsýslukostnaði Byggingarsjóðs verkamanna sé vegna lánafyrirgreiðslu sjóðsins, innheimtukostnaður, lögfræðikostnaður og kostnaður við að veita lán.

Í öðru lagi er bent á það að samanburðurinn standist ekki vegna þess að útreikningur vaxtabóta, sem gerist við álagningu á skattstofum, sé ekki nema óverulegur hluti þess ferlis sem hefst með áætlun vaxtabóta, heldur áfram með álagningu og endanlegri álagningu, kærum og leiðréttingu áætlana og lýkur með greiðslum til viðtakanda ef hann hefur þá ekki fengið ofgreitt. Rekstur á skattstofum ríkisins er því ekki nema brot af heildarkostnaði ríkisins vegna skattálagningar og innheimtu.

Í umsögninni er bent á það að fjölmargar stofnanir ríkisins komi að álagningu, endurskoðun og greiðslu aukinna vaxtabóta. Þess vegna er í raun og veru verið að bera hér saman epli og appelsínur og byggja á því löggjöf sem á að rústa heilu kerfi, herra forseti.

Um þetta eins og svo margt annað í frv. er einnig tekið fram að frumvarpshöfundar hafi nú enga könnun gert á þessu og auðvitað hlýtur það að teljast til baga. En þeir láta það ekki stoppa sig þó að þeir hafi enga könnun gert. Þeir draga ekki þá ályktun af því að þeir þurfi hugsanlega að skoða málið eitthvað betur. Nei, þeir ætla sér að koma frv. í gegn og það skal gert hvernig svo sem það kann að verða.

Í umsögn ASÍ og BSRB er einnig bent á samanburð á greiðslubyrði. Niðurstaða frumvarpshöfunda er að tilteknir útreikningar sýni að nýtt kerfi standist fyllilega samanburð við greiðslubyrði af lánum eins og þau eru í núverandi félagslegu eignaríbúðakerfi. Þessir útreikningar sýna einnig, með einni undantekningu, að greiðslubyrðin í nýja kerfinu sé lægri í upphafi lánstímans en í núverandi lánakerfi en meiri á seinni hluta hans. Um þetta segir í umsögn Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, með leyfi forseta:

,,Útreikningar hagdeilda ASÍ og BSRB sýna að við samanburð þá skipta forsendur verulegu máli. Einnig sýna útreikningar hagdeildanna að þak á hámarksupphæð vaxtabóta hefur í för með sér að svigrúm fólks í nýja kerfinu til að kaupa íbúðir yfir ákveðnum mörkum er verulega takmarkað ef greiðslubyrði á ekki að aukast.``

[16:15]

Síðan eru í umsögninni tekin nokkur dæmi um þetta, herra forseti, sem ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að rekja en þau eru nokkur mjög ítarleg og sannfærandi en þó greinilega ekki nóg til þess að hæstv. félmrh. og hæstv. stjórnarmeirihluti hafi séð ástæðu til þess að taka tillit til þeirra ábendinga.

Í frv. er ákveðinn samanburður gerður á eignamyndun og þess er getið að óbreytanlegar reikniforsendur óháðar markaðsverði eignanna hafi hægt á eignamyndun í félagslega íbúðakerfinu og því sé eignamyndunin í félagslega kerfinu hægari en ef keyptar eru íbúðir á almennum markaði. Um þetta segir í umsögn samtaka launafólks, með leyfi forseta:

,,Í fyrsta lagi er enginn samanburður gerður á þeirri eignamyndun sem verður í hinu nýja húsnæðiskerfi sem frumvarpið boðar, þ.e. þegar lánað er venjulegt húsbréfalán og að auki sérstakt viðbótarlán allt að 90%. Í frumvarpinu er einungis borið saman núverandi almennt kerfi og núverandi félagslegt kerfi. Með hærri vöxtum í nýja kerfinu verða afborganir af höfuðstól mun minni og eignamyndun því hægari en í núverandi félagslegu íbúðalánakerfi.``

Og þetta er sýnt hér í töflu í umsögninni.

,,Í öðru lagi miðast útreikningur með frumvarpinu við Reykjavík en þar er fasteignamarkaður með nokkuð öðrum hætti en víðast hvar annars staðar á landinu. Í Reykjavík er 47% af öllu félagslegu íbúðarhúsnæði og því skortir samanburð í þessu tillitit fyrir 53% af félagslega húsnæðiskerfinu.``

Og það er ekkert lítið, herra forseti.

,,Í þriðja lagi er ekki er getið þeirrar eignaupptöku, sem orðið hefur í almenna íbúðakerfinu víða um land þar sem markaðsverð fasteigna hefur hrunið meðan reiknireglur félagslega kerfisins hafa varið einstaklinga tapi.``

Í fjórða lagi er í samanburðinum ekki tekið tillit til viðhaldskostnaðar.

Í fimmta lagi er bent á að forsendur þessa séu gagnrýnanlegar þar sem þeim sem almennt gætu ekki myndað eignir í almenna kerfinu sökum lágra launa og mikillar framfærslubyrði er gefinn kostur á því að eignast eigið húsnæði í núverandi félagslegu íbúðalánakerfi í stað þess að greiða leigu á almennum eða félagslegum markaði. Nauðsynlegt er að hafa þetta í huga við samanburðinn. Skipting eigna og sparnaðar í samfélaginu, hvort heldur er í föstu eða lausu, hefur mikil áhrif á heildarsvip samfélagsins og félagslega samsetningu þess.

Í sjötta og síðasta lagi hefur engin rannsókn verið gerð á eignamyndun í félagslega eignaríbúðakerfinu frá upphafi og til dagsins í dag.

Bent er á það í þessari ítarlegu umsögn ASÍ og BSRB að vísað sé til ákveðinna gagna og skýrslna sem var aflað og athugana og nál., m.a. um Húsnæðisstofnun, vanda sveitarfélaganna og fleiri atriða. Hins vegar er ekki tekið fram á hvern hátt þessi álit og þessar niðurstöður byggja undir þær tillögur og þá leið sem hér er lagt til að verði farin. Alþýðusambandið og BSRB benda á í umsögn sinni að í flestum niðurstöðum þeirra gagna sem frumvarpshöfundar öfluðu er mælt með upptöku félagslegra lána í stað félagslegs íbúðakerfis og að þau lán verði með breytilegum, lágum vöxtum. Í frv. er ekki gert ráð fyrir félagslegum lánum í þessum skilningi. Hin félagslega fyrirgreiðsla verður samkvæmt tillögum nefndarinnar fólgin í hækkun veðmarka við veitingu viðbótarlána í húsnæðiskerfinu og hún verður fólgin í því að dreifa áhættu af þeirri hækkun á sveitarfélögin. Það er þá sá skilningur sem hægt er að kalla félagslegan í þessu frv.

Þessi röksemdafærsla minnir um margt, herra forseti, á það þegar hæstv. ríkisstjórn gekk til svokallaðs samráðs við verkalýðshreyfinguna um vinnumarkaðsfrumvörpin á sínum tíma. Skilningur hæstv. ríkisstjórnar á samráði fólst í því að fá menn til þess að vinna saman í nefnd en taka í engu tillit til þeirra óska og þeirra tillagna sem þar komu fram frá sömu aðilum en flagga því síðan í hvert skipti sem vinnumarkaðsmálin báru á góma, að það hafi verið haft samráð við verkalýðshreyfinguna. Þetta minnir um margt á þá röksemdafærslu sem hér er lögð til grundvallar, vitnað er í hinar og þessar skýrslur og því er öllu tjaldað sem til er. En það er ekki tekið fram að engin niðurstaða í þeim skýrslum sem um er rætt leggur til að sú leið sé farin sem er farin í frv. Þetta er alveg ótrúleg röksemdafærsla, herra forseti.

Eitt af því sem hefur gjarnan verið bent á sem rök fyrir nauðsyn þess að endurskoða félagslega kerfið er fjárhagsstaða Byggingarsjóðs verkamanna. Í greinargerð frv. segir um þetta:

,,Að síðustu er rétt að minna á þá staðreynd að félagslega íbúðalánakerfið stefnir í þrot og að óbreyttu hefði þurft að koma til veruleg hækkun vaxta af félagslegum lánum.``

Á undanförnum árum hefur margoft verið fjallað um fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs verkamanna í ýmsum nefndum og ýmsum úttektum. Það hefur einu sinni verið gerð tilraun til þess, eins og bent er á í umsögn samtaka launafólks, að taka á vanda sjóðsins. Árið 1992 var gert átak í að styrkja fjárhagsstöðu hans með fjárveitingu á fjárlögum. Þá var sett það markmið að styrkja fjárhagsstöðu sjóðsins og treysta uppbyggingu hans og framboð félagslegra íbúða. Miðað var við að útlánaáætlun sjóðsins fengi staðist til lengri tíma á grundvelli stefnunnar um árlegt ríkisframlag samtímis því sem byggja átti upp og varðveita eiginfjárstöðu sjóðsins. Síðan var gert ráð fyrir ákveðnu framlagi til Byggingarsjóðs verkamanna árlega.

Hins vegar er öllum ljóst sem hafa kynnt sér þessi mál að þessi ásetningur stóðst ekki því að strax árið eftir er farið að draga úr fjárveitingum til sjóðsins og það hefur verið gert æ síðan. Engan skal undra að hann eigi í fjárhagserfiðleikum á meðan ekki er staðið við framlög til sjóðsins af hálfu ríkisins.

Ríkisendurskoðun gerði á sínum tíma stjórnsýslulega endurskoðun á Húsnæðisstofnun sem var birt 1996. Þar kemur fram að Byggingarsjóð verkamanna vanti um 4--5 milljarða kr. til þess að standa undir skuldbindingum sínum og að eigið fé sjóðsins verði uppurið skömmu eftir næstu aldamót miðað við að útlánum sjóðsins yrði hætt. Jafnframt er bent á það í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar að framlög til sjóðsins hafi ekki verið í samræmi við áætlanir og þær forsendur sem lagt var af stað með um lækkun meðallána til félagslegra eignaríbúða og hlutdeild almennra kaupleiguíbúða í heildarútlánum hafi ekki náð fram að ganga og ríkissjóður hafi auk þess ekki staðið nema að hluta við fyrirheit sín um ríkisframlagið sem hefur farið ört lækkandi ár frá ári. Bent er á að vanda sjóðsins sé í raun og veru velt fram á næsta ár eða frá ári til árs.

Ríkisendurskoðun lagði á það áherslu að stjórnvöld grípi tafarlaust til aðgerða til lausnar yfirvofandi fjárhagsvanda Byggingarsjóðs verkamanna og horfist í augu við þann kostnað sem fylgir því að veita lán til félagslegra íbúða.

Þetta er ein af þeim skýrslum sem hafa verið notaðar til þess að réttlæta það að sjóðurinn hefur verið lagður niður. En allt að einu er ljóst að í þessari skýrslu er á engan hátt lagt til að félagslega íbúðalánakerfið verði algjörlega lagt niður, herra forseti, ekki frekar en í öðrum skýrslum sem hafa verið lagðar til grundvallar.

Það er því mjög mikilvægt að því sé haldið til haga í umræðunni þegar við erum að leggja niður þetta áratuga gamla félagslega íbúðakerfi og án þess að nokkuð annað eigi að koma í staðinn fyrir tekjulægstu hópana að fjárhagsvandi sjóðsins er að miklu leyti kominn til vegna meðvitaðra ákvarðana ríkissjóðs um að veita ekki fé til sjóðsins. Það var vitað að ef ekki yrði staðið við þessi fjárframlög mundi sjóðurinn fara í þrot.

Eitt af því sem hefur verið bent á í frv. og hefur verið notað til þess að réttlæta þessar breytingar er staða félagslega íbúðakerfisins á árunum 1990--1996.

Í greinargerð með frv. eru raktar ýmsar stærðir sem eiga að gefa til kynna hver þróun kerfisins hefur verið á þessum árum. Í lok kaflans er þó engin ályktun dregin. En sé það haft í huga að frumvarpshöfundar leggja það til að kerfið verði lagt af má ætla að dregin hafi verið sú ályktun að núverandi kerfi hafi þjónað illa hlutverki sínu. Það hlýtur að vera tilgangurinn með því að draga þetta fram.

Um þann samanburð sem þar er lagður til grundvallar segir í umsögn Alþýðusambandsins og BSRB, með leyfi forseta:

,,Erfiðleikum er bundið að bera þessar tölur saman af ýmsum ástæðum. T.d. gekk Byggingarsjóður ríkisins í gegnum mikla hrinu vanskila og uppboða á síðasta áratug þegar misgengi kaups og verðlags var hvað mest en virðist hafa jafnað sig. Félagslegt íbúðarhúsnæði hefur aukist hröðum skrefum eða um 51% frá 1990 til 1996 og endursala innan kerfisins um 158% á sama tíma. Fjöldi nýrra fjölskyldna hefur vaxið að sama skapi innan kerfisins en ekki liggur fyrir greining þess hóps. Þess ber því að gæta í þessu tilliti, bæði þegar litið er til Byggingarsjóðs verkamanna og húsbréfadeildar, að ætla má, að þeir einstaklingar sem verst eru í stakk búnir til þess að standa sig lendi fyrst í erfiðleikum og er þá horft til reynslunnar af Byggingarsjóði ríkisins. Allar upplýsingar frumvarpshöfunda um fjölda kröfulýsingar eru einnig óáreiðanlegar vegna þess að kröfulýsingar eru sendar vegna allra uppboða, sem auglýst eru, hvort heldur vanskilum er til að dreifa hjá viðkomandi byggingarsjóði eða ekki. Breytt verklag við innheimtu og breytt löggjöf um uppboð hafa einnig hér veruleg áhrif.``

Þá segir líka í umsögn samtaka launafólks, með leyfi forseta, um þetta:

,,Alvarlegu tíðindin sem sögð eru í 6. kafla greinargerðarinnar eru þau að vanskil hafa aukist í öllum byggingarsjóðunum og mest í húsbréfadeild. ASÍ og BSRB hafa ítrekað bent á þennan vaxandi vanda og gera ekki lítið úr honum. Ef hins vegar á að nota töflur og tölur frumvarpshöfunda sem forsendu aðgerða þá benda þær sterklega til þess að tafarlausra aðgerða sé þörf innan húsbréfakerfisins vegna greiðsluvanda. Þar hefur hlutfall lántakenda í vanskilum og hlutfall vanskila af útlánum vaxið hröðum skrefum og virðist kerfið þjóna ill hagsmunum landsmanna í húsnæðismálum. Þróunin í félagslega kerfinu er slæm en þó langt í frá eins slæm og þróunin í húsbréfakerfinu. Það bendir til þess að varhugavert sé eins og lagt er til í frumvarpinu að auka hlutverk húsbréfakerfisins á kostnað þess félagslega.``

Á mörgum stöðum í frv. er vikið að greiðsluvandræðum lántakenda í Byggingarsjóði verkamanna og það er borið saman m.a. við almenna kerfið. Bent er á það í umsögn samtaka launafólks að inn í þessa mynd vanti þróun vanskila innan bankakerfisins á þessu tímabili til þess að heildstæð mynd fáist. Sýnt er fram á það með mjög ítarlegri röksemdafærslu og töflum í umsögnum Alþýðusambandsins og BSRB. Um þetta atriði segir, með leyfi forseta:

[16:30]

,,Þegar haft er í huga að lántakendur í Byggingarsjóði verkamanna eru að jafnaði úr hópi láglaunafólks má ætla að þessi hópur sé viðkvæmari fyrir breytingum í efnahagslífinu en lántakendur í öðrum sjóðum. Síðan ber að hafa í huga að vextir af lánum Byggingarsjóðs verkamanna hækkuðu á árinu 1993 úr 1% í 2,4% en það hefur haft talsverð áhrif á greiðslubyrði þeirra.

Afmörkuð vandamál hefur sjóðurinn þó átt við að glíma og gera frumvarpshöfundar eitt þeirra að umtalsefni í kafla 2.2 í greinargerð á bls. 20. Þar segir að ,,100% hafa í mjög mörgum tilfellum leitt einstaklinga í fjárhagserfiðleika sem þeir eiga erfitt með að komast út úr``. Þessi vandi er ekki sérstaklega skoðaður af frumvarpshöfundum en út frá því gengið, að því er virðist, að hann sé dæmi um hve illa hafi tekist til með lánveitingar sjóðsins til þeirra tekjulægstu.``

Þessi forsenda er skoðuð sérstaklega og sýnt fram á að hún standist ekki frekar en aðrar forsendur sem byggt er á í athugasemdum með frv. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að þessi ítarlega umfjöllun samtaka launafólks um þetta mál og þessar forsendur bendir ótvírætt til þess að það stendur nánast ekki steinn yfir steini í frv. þegar grannt er skoðað.

Einnig er byggt á því í frv. að svo margar auðar íbúðir séu í kerfinu að kaupskyldan sé til vandræða fyrir mörg sveitarfélög og síðan er fjallað um íbúðaþörfina. Í umsögn ASÍ og BSRB er bent á að það sé ljóst að vandamál þeirra sveitarfélaga, sem stafar af auðum, innleystum íbúðum sé að mestu bundið við eitt kjördæmi. Bent er á að ein ástæða þess að félagslegt húsnæði stendur autt geti verið sú að eftirspurn sé ekki næg. Það er staðreynd að í nokkrum byggðarlögum hefur sérstakur vandi skapast vegna ástands félagslegs húsnæðis og því ekki tekist að selja það. Sums staðar hefur viðhald verið vanrækt árum saman og ekki verið tekið tillit til þess við innlausn og endursölu.

Sérstaklega er tekið fram í greinargerð að engar sérstakar athuganir eða kannanir hafi verið gerðar á umfangi þessa vanda. Það er eins og með annað, herra forseti, að frumvarpshöfundar hafa ekki séð ástæðu til að gera könnun á þessu frekar en öðrum fullyrðingum sem hér eru lagðar til grundvallar, hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason.

Af þessum ástæðum er vandséð hvernig frumvarpshöfundar telja sig geta talið auðar íbúðir innan félagslega kerfisins með forsendum í rökstuðningi sínum fyrir því að kerfið verði í heild sinni lagt af.

Í þessari umsögn samtaka launafólks er sýnt fram á þetta í ítarlegu máli. Þar segir líka, herra forseti:

,,Ljóst er að vandi þessara sveitarfélaga er staðbundinn og til kominn vegna samdráttar í atvinnu- og byggðarþróun. Einnig hefur verið bent á að nýbygging félagslegra íbúða hafi ekki í öllum tilvikum verið í takt við íbúðaþörf. ,,Ríkisendurskoðun telur`` --- þarna er verið að vitna í skýrslu Ríkisendurskoðunar --- ,,að gera þurfi ríkari kröfur til þess að húsnæðisnefndir leggi fram raunhæfar áætlanir um íbúðaþörf í sveitarfélögum. Þetta er ekki síst mikilvægt í ljósi þess að víða sitja sveitarfélög uppi með félagslegt íbúðarhúsnæði vegna þess að engir umsækjendur eru til staðar. Þá telur Ríkisendurskoðun fulla ástæðu til að krefjast betri upplýsinga frá húsnæðisnefndunum um það hvort mæta megi félagslegri íbúðaþörf í meira mæli með kaupum á notuðu húsnæði á hverjum stað í stað nýbygginga. Að mörgu leyti er skiljanlegt að lögð hafi verið áhersla á atvinnuskapandi nýbyggingar en á móti má segja að það sé varla hlutverk hins félagslega húsnæðiskerfis að halda uppi atvinnustarfsemi í byggingariðnaði.````

Þarna, í stjórnsýsluendurskoðun Ríkisendurskoðunar og eins í umsögn Alþýðusambandsins og BSRB, er því haldið fram að vandi a.m.k. sumra sveitarfélaga vegna íbúðanna sé hluti af stærra vandamáli. Það má alla vega halda því fram, herra forseti, að það gæti verið ein skýringin, og þess vegna kannski varlegt að byggja á henni umbyltingu og leggja niður kerfi á svo hæpinni forsendu.

Þetta var um forsendurnar. Ég tel að miðað við það sem hér hefur verið vitnað í, í þessari óvenju ítarlegu umsögn Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, það er ekki oft sem nefndir þingsins fá svona ítarlegar úttektir á einstöku máli, verði að segjast eins og er að þessar forsendur frumvarpshöfunda standist því miður fæstar.

Þá væri kannski ekki úr vegi að skoða markmið frv. Það verður að segjast eins og er um tilgang frv. að ég get ekki séð að honum sé náð með þeirri efnislegu útfærslu sem lögð er til í frv. Í 1. gr. frv. er tilgreint að tilgangur laganna sé að stuðla að því, með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála, að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum skal það vera.

Eftir að þær umsagnir hafa verið raktar sem hér hefur verið gert, ekki aðeins í mínu máli heldur í máli þeirra fjölmörgu stjórnarandstöðuþingmanna annarra sem hér hafa talað, þá er það svolítið ankannalegt að þetta skuli hafa verið tilgangur og markmið þessa frv. Það hefur margoft verið bent á að búsetuöryggi á leigumarkaði í dag er algjörlega óásættanlegt, það er fullkomið villta-vesturs-ástand á leigumarkaðnum á Íslandi í dag. Því miður verður ekki séð að það séu raunhæf úrræði í þessu frv., þrátt fyrir fögur fyrirheit, sem geti tryggt það að hér verði viðunandi ástand og fýsilegt fyrir einhvern að búa á þeim markaði, hvað þá tekjulægstu hópana. Þeim er jú að hluta vísað út á leigumarkaðinn.

Það má vel vera, það hefur svo sem komið fram hjá a.m.k. öðrum stjórnarflokknum, Sjálfstfl., að hann telur að lögmál náttúrunnar, frumskógalögmálið, sé best til þess fallið að tryggja jafnrétti og aðeins þurfi örlitla viðhorfsbreytingu. Það má kannski segja að hér sé angi af þeirri stefnu Sjálfstfl. að sem minnst félagslegt öryggi þýði í raun og veru jafnrétti. Ef við skoðum t.d. leigumarkaðinn sem slíkan og berum hann saman við leigumarkaðinn á Norðurlöndunum, þar sem hann er að mörgu leyti til fyrirmyndar og þá er ég fyrst og fremst að horfa á búsetuöryggi og hagsmuni neytendanna, þá vantar kannski fyrst og fremst ásættanlegar reglur hér á landi. Það hefði þá kannski verið svolítill manndómsbragur ef hæstv. félmrh. hefði lagt fram, um leið og hann leggur fram þessi ósköp, frv. til laga um leigumiðlun og sett utan um það þokkalegar reglur sem gerðu leigumarkaðinn kannski eitthvað nálægt því sem tíðkast hjá siðmenntuðum þjóðum. Búsetuöryggi þeirra sem eru á leigumarkaði, t.d. víða á Norðurlöndum, felst m.a. í því að ekki er hægt að henda fólki umyrðalaust út úr leiguhúsnæði eins og hægt er hér á landi. Um leigufjárhæðir og annað gilda ákveðnar reglur meðan á Íslandi getur sá sem á leiguhúsnæðið níðst á fólki endalaust. Við vitum dæmi þess að það er níðst á fólki sem þarf að búa í leiguhúsnæði sem væri ekki svo óæskilegt ef svolítið meira öryggi væri á leigumarkaðnum. Það væri ekkert óæskilegt fyrir suma hópa að búa í leiguhúsnæði frekar en að eignast íbúðir. Það ekki endilega hagsmunum allra að eignast íbúðir.

Ef hæstv. ráðherra hefði bara viljað skoða þennan þátt örlítið og treyst sér til þess að smíða hér svolitla löggjöf um leigumiðlanir, t.d. um að ekki megi hver sem er leigja út íbúðarhúsnæði. Um aðra starfsemi, svipað eðlis eins og t.d. fasteignasölur og nú í seinni tíð um bílasölur, hafa verið sett ákveðin skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að mega vera í slíkri miðlun. Í lögfræði, t.d. Norðurlandanna, er heil grein lögfræðinnar sem fjallar um miðlanir og þau lög sem gilda þar um, hvort sem það eru leigumiðlanir, fasteignamiðlanir eða önnur hlutverk miðlara.

Hérna er það hins vegar þannig að hinir og þessir braskarar hafa í gegnum tíðina getað byggt íbúðarhúsnæði og leigt síðan út þeim sem hæst býður. Sá sem býr í íbúðinni hverju sinni hefur nánast enga tryggingu fyrir því að einhver annar bjóði ekki betur og þá er mjög fátt að gera annað en að fara, taka saman föggur sínar og fara. Það er alveg ljóst að svona umhverfi er ekki fjölskylduvænt umhverfi. Nú hefur hæstv. félmrh. þó a.m.k. verið að reyna að búa til einhvers konar fjölskyldustefnu sem þessi ríkisstjórn á að standa fyrir. Ég mundi segja að tillögurnar í þessu frv. væru á engan hátt til þess að bæta eða gera samfélag okkar fjölskylduvænna.

Í umsögnum, ég ætla ekkert að fara að lesa það upp hér, er einnig rakið hvernig þessi tilgangur og hvernig þessi markmiðsgrein laganna stendur hreinlega ekki undir sjálfri sér. Ég vil segja að hafi þetta verið einlægur tilgangur frumvarpshöfunda, þá hefðu þeir átt að gefa sér betri tíma til þess að útfæra hugmyndir sínar. Þær eru því miður ekki tryggðar í frv. Þetta markmið verður hreint og klárt hjárænulegt þegar maður les yfir greinar frv. og skoðar á hvern hátt eigi að koma markmiðunum í framkvæmd.

Það hefur verið bent á að rjúfa eigi algjörlega tengslin við verkalýðshreyfinguna inn í húsnæðiskerfið. Ég ætla ekkert að hafa mörg orð um það hér. Ég tel mjög misráðið að gera það. Ráðherravaldið er mjög mikið og svo sem í anda þess sem hefur birst í öðrum frumvörpum þessarar hæstv. ríkisstjórnar. Allt gengur út á að færa vald frá löggjafarvaldinu og frá stofnunum eða félagasamtökum úti í samfélaginu yfir til ráðherra, herra forseti. Í þessu frv. er það gert þannig, og birtist m.a. í stjórn Íbúðalánasjóðs, að félmrh. einn skipar stjórn sjóðsins til fjögurra ára í senn og hana skipa fimm menn og jafnmargir til vara. Félmrh. skipar síðan formann og varaformann úr hópi stjórnarmanna. Stjórn sjóðsins skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Félmrh. ætlar sér ekki að lúta tilnefningum annarra í þessa stjórn. Hann ætlar sér að ráða því sjálfur hvernig þessi stjórn verður skipuð. Það er einnig tekið fram hér, til að taka af allan vafa um ráðherravaldið, að ráðherra ákveður að sjálfsögðu þóknun stjórnarmanna einn og sér. Þarna er um algjört einræðisvald ráðherra að ræða og ég tel að það sé mjög óæskilegt. Ég tel að það sé beinlínis gamaldags og hallærislegt, fyrir utan það að einkennast af ákveðinni valdagræðgi, að mæla svo fyrir um að ráðherra einn, pólitískur ráðherra, stýri því algjörlega og þurfi ekki að leita álits eins eða neins á því hverjir eru skipaðir í stjórn stofnunar á borð við Íbúðalánasjóð. Samkvæmt þessu frv., eins og svo mörgum öðrum frv. sem hér hafa verið rædd á þessu kjörtímabili, er valdið hans.

[16:45]

Stjórn Íbúðalánasjóðs er engum öðrum háð en hæstv. félmrh. Páli Péturssyni. Það skal líka liggja ljóst fyrir. Það er þá ljóst að sá hinn sami hæstv. félmrh. Páll Pétursson ræður líka framkvæmdastjórann vegna þess að stjórn Íbúðalánasjóðs ræður framkvæmdarstjórann og þessi framkvæmdarstjóri ræður síðan annað starfsfólk þannig að væntanlega verður það líka Páll sem ræður því hverjir starfa hjá Íbúðalánasjóði.

Ég vakti á því athygli áður að í 9. gr. er fjallað um að verkefni Íbúðalánasjóðs sé m.a. að hafa umsjón og eftirlit með sjálfum sér eins og 3. tölul. 9. gr. bendir til. Ég tel að þarna þurfi eitthvað að laga til vegna þess að væntanlega á þetta að vera verkefni stjórnar Íbúðalánasjóðs en ég sá a.m.k. ekki þegar ég renndi yfir þessar 40 brtt. meiri hluta félmn. að gerð væri breyting við þetta en ég teldi að það væri mjög til skýringar fyrir þá sem eiga eftir að glíma við þessi lög í framtíðinni og reyna að skýra þau ef að lögum verður sem ég vona að sjálfsögðu að verði ekki.

Gert er ráð fyrir því að Íbúðalánasjóðurinn eigi að vera sjálfbær og bent hefur verið á það í umræðunni að það þýðir væntanlega það að hann eigi ekki að standa í félagslegum úrræðum og má segja að félagslegu úrræðin séu nánast alfarið tekin út úr húsnæðiskerfinu með þessu frv. fyrir utan þá viðbótarlánin ef hægt er að kalla þau félagsleg úrræði. Mér þykir reyndar mjög óljóst við lestur frv. og greinargerðar hvað það þýði í raun og veru, hvaða skilyrði það séu sem við er átt að menn þurfi að uppfylla til þess að fá svokölluð viðbótarlán.

Það má líka halda því fram að þessi staðreynd í frv. reki okkur til þeirrar niðurstöðu að því sé hafnað af ríkisstjórninni að húsnæðisvandamál séu á nokkurn hátt félagsleg vandamál. Þau séu í raun og veru félagsleg vandamál sem skuli leysa með úrræðum samfélagsins. Eins og hérna hefur líka verið dregið fram eru þessi félagslegu úrræði dregin út úr lögunum án þess að leigumarkaðurinn sé gerður þannig að það sé í raun og veru búandi á honum. Ég vil spyrja hæstv. félrmh. ef hann er að hlýða á mál mitt og kannski gæti hv. þm. Magnús Stefánsson, sem þekkir þessi mál vel og er kominn í þingsalinn, svarað því hvort eitthvað hafi komið til tals í undirbúningsnefndunum að tekið yrði til skoðunar hvort ekki þyrfti að setja löggjöf um húsaleigumiðlanir og hvort menn hafi haft þar einhverjar tillögur uppi um að gera leigumarkaðinn svolítið fýsilegri hér á landi sem ég held að sé í raun og veru algör lykill að því að hægt sé að vísa fólki út á leigumarkaðinn. Það gengur ekki að vísa fólki þangað án þess að því fylgi einhver umgjörð sem tryggi að fólk sé meðhöndlað þar á sómasamlegan hátt. Ég vildi gjarnan fá að heyra það annaðhvort frá hv. þm. Magnúsi Stefánssyni eða frá hæstv. félmrh. hvort þetta hafi eitthvað komið til tals og þá hvort það standi kannski til af hálfu hæstv. ríkisstjórnar að koma slíkum lögum í framkvæmd.

Svolítið hefur verið fjallað um húsnæðisnefndir sveitarfélaga og bent hefur verið á það í umræðunni að mikil ábyrgð er lögð á hendur sveitarfélögunum í tengslum við húsnæðismálin. Húsnæðisnefndir sveitarfélaganna eiga að gera árlegar áætlanir fyrir sveitarfélög um þörf á íbúðarhúsnæði sem er kannski allt í lagi í sjálfu sér en þær eiga líka að leggja mat á þörf einstaklinga sem búa við erfiðar aðstæður og viðbótarlán hvort þeir uppfylli skilyrði í því efni. Þarna getur verið svolítið vandasamt að meta en þetta er húsnæðisnefndum sveitarfélaganna ætlað að gera. Þeim er ætlað að hafa milligöngu um töku lána hjá Íbúðalánasjóði fyrir hönd sveitarfélags til öflunar leiguhúsnæðis fyrir einstaklinga og þeim er ætlað að veita almennar upplýsingar og ráðgjöf um húsnæðismál og húsaleigusamninga og að aðstoða aldraða og samtök þeirra við öflun húsnæðis með ráðgjöf við útboð, byggingarframkvæmdir, samningsgerð og fleira. Þarna er mikil ábyrgð lögð er á herðar sveitarfélögum og má segja að þessi samfélagslega ábyrgð sem áður var í höndum ríkisins er lögð yfir til sveitarfélaganna en hins vegar má spyrja hvað hæstv. ráðherra hyggist gera, hvernig meiningin sé að bregðast við því ef sveitarfélögin, eitt eða fleiri, vanrækja þessar skyldur sínar. Eru einhver úrræði í frv. um það á hvern hátt skuli bregðast við því ef sveitarfélög einhverra hluta vegna, e.t.v. af fjárhagslegum ástæðum kjósa að verja fjármunum sínum í einhverja aðra hluti, ef svo er, eru einhver úrræði í frv.? Er á einhvern hátt gert ráð fyrir því að taka á slíkum málum?

Ég hef verið að segja það, herra forseti, að ég óttast að sveitarfélögin geti ekki öll sinnt þessum miklu skyldum sínum sem skyldi og ætla þá ekki að draga eitt sveitarfélag eða eina tegund sveitarfélaga út öðrum fremur en ég held að þarna hljóti þau að vera mjög misjafnlega í stakk búin til þess að sinna þessum skyldum sínum.

Það er líka gert ráð fyrir því að húsnæðisnefndum sé heimilt að taka gjald fyrir kostnað við þjónustu sem þær hafa veitt samkvæmt gjaldskrá sem sveitarstjórn staðfestir. Þegar upp er staðið held ég að þetta sé eitt af þeim atriðum sem er óljóst í frv. á hvern hátt muni koma út og ég held að það liggi alls ekki nógu ítarleg úttekt á því fyrir á hvern hátt þetta muni koma út fyrir einstaklinga og sérstaklega ef við tökum þennan lið að leggja mat á þörf einstaklinga sem búa við erfiðar aðstæður á viðbótarlánum, hvort uppfyllt eru skilyrði í því efni.

Herra forseti. Ég fór áðan yfir að forsendurnar fyrir þessari lagasmíð sem sýnt er fram á í umsögn Alþýðusambandsins og BSRB að standast ekki og það er auk þess rakið í umsögn þessara sömu samtaka að það er a.m.k. mjög á reiki að frv. þjóni þeim markmiðum sem að setur sjálfu sér. Bent er á að í 34 greinum frv. sé að finna heimildir til ráðherra fyrir setningu reglugerðar, reglna og töku ákvarðana um öll helstu atriði frv. og bent er á fjölmörg atriði sem benda til þess að alls ekki sé hægt að sjá að þessum háleitu markmiðum verði þjónað með þessu frv. þannig að í raun og veru ætti það að þjóna markmiðsgrein þessa frv. líka að frv. yrði frestað og það væri þá alla vega hægt að reyna að koma því þannig við að frv. sjálft þjónaði sínum eigin markmiðum. Það skyldi maður ætla að væri lágmarkið.

Enda þótt Alþýðusambandið og BSRB hafi bent á það og samið gríðarlega mikla og vel rökstudda umsögn til höfuðs þessu frv. heldur hæstv. félmrh. Páll Pétursson því fram í ræðu sinni í dag að forskriftin að lagasetningunni, grundvöllurinn að lagasetningunni sé ályktun frá sambandsstjórn ASÍ um félagslega húsnæðiskerfið frá 20. nóv. 1996.

Herra forseti. Það verður náttúrlega að segjast eins og er að það er engin hemja að hæstv. félmrh. sem er ekki hér sjáanlegur a.m.k., skuli voga sér að beita svona fyrir sig heilu samtökunum sem forskrift að þessari lagasetningu þrátt fyrir það að þau sömu samtök hafi lagt á það sérstaka áherslu hvar sem þau hafa komið því við í umsögnum og víðar annars staðar að þau eru í öllum meginatriðum andvíg þessari lagasetningu. Segja má að vott af sömu tilrauninni til þess að eigna verkalýðshreyfingunni frv. megi finna í viðtali sem ég vitnaði í áðan við hv. þm. Magnús Stefánsson sem var á Rás 2 í gær þar sem hann segir að það hafi verið lagt til í frv. þrjár hugmyndir um breytingar á félagslega kerfinu, þar á meðal þá breytingu sem þetta frv. fjallar um sem komi frá Alþýðusambandinu og það eru hugmyndir um viðbótarlánin. Það er allt rétt, herra forseti, sem hv. þm. segir en það er bara svo margt annað sem hann segir ekki og það er það sama sem hæstv. félmrh. kýs að gera ekki. Hann kýs að segja ekki frá mótmælunum, frá því fjölmarga sem hefur verið bent á að er beinlínis rangt frá öllum þeim röngu forsendum kýs hæstv. félmrh. að segja ekki frá. Hann vogar sér síðan að halda því fram í ræðu úr þessum stól að forskriftin af lagasetningunni, grundvöllurinn að henni sé ályktun sambandstjórnar ASÍ um félagslega húsnæðiskerfið frá 20. nóv. 1996.

Hann vogar sér líka að segja í ræðu í dag, herra forseti, að kannski hafi það verið af pólitískum ástæðum, kannski hafi það verið af áhrifum frá hv. stjórnarandstæðingum að afstaða ASÍ hefur breyst til málsins. Það er alveg með ólíkindum, herra forseti, að hæstv. félmrh. skuli leyfa sér að halda svona hlutum fram vegna þess að staðreyndin er sú að Alþýðusambandið hefur vissulega lagt það til og bent á það að félagslega íbúðakerfið þyrfti ákveðinnar lagfæringar við en það hefur ekki verið lagt til að félagslega húsnæðiskerfið sé lagt niður með manni og mús án þess að nokkur skapaður hlutur komi í staðinn, nokkur félagsleg úrræði fyrir tekjulægstu hópana. Það hefur aldrei verið lagt til af neinum samtökum launafólks á Íslandi, herra forseti. Það er bara beinlínis rangt að vera að eigna þeim á einhvern hátt þá lagasmíð sem hér er á ferðinni.

Ég vil að lokum, herra forseti, ítreka það einu sinni enn að verið er að leggja niður félagsleg úrræði húsnæðiskerfisins án þess að nokkur úrræði séu úthugsuð í staðinn fyrir tekjulægstu hópana. Frv. er óvönduð smíð og það mun hafa ýmsar afleiðingar í för með sér sem eru ekki enn allar fyrirséðar þrátt fyrir 40 brtt. Þær eru ekki allar fyrirséðar m.a. vegna þess að það er gert ráð fyrir 28 eða 34 reglugerðum. Menn eru ekki á einu máli um það hvað þær eru margar, ég hef ekki nennt að telja þær. En frv. með tugum reglugerðarheimilda sem nálgast það fljótlega að vera jafnmargar og sjálfar greinar frv. sem þarf 40 brtt. við til þess að það sé skiljanlegt. Slík smíði er slæm í sjálfu sér að ekki sé talað um hin pólitísku markmið að leggja niður hin félagslegu úrræði í húsnæðiskerfinu.

Ég vil því að lokum, herra forseti, lýsa allri ábyrgð á þessum ósköpum á hendur hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar og lýk hér með máli mínu.