Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 19:58:34 (6626)

1998-05-15 19:58:34# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[19:58]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti þetta ágæt ályktun hjá Alþb. og ég sé ekki betur en að mörgu leyti samræmist frv. þessari ályktun.

Þau fyrirtæki sem hv. þm. nefndi, þar sem sérstök klásúla var um starfsmennina, voru öll einkavædd. Þau voru öll háeffuð. Nú erum við ekki að einkavæða. Við erum ekki að háeffa. Því miður er ekki pláss fyrir alla starfsmenn. Það verða ekki verkefni hjá Íbúðalánasjóði fyrir alla núverandi starfsmenn Húsnæðisstofnunar og þess vegna var ekki hægt að slá því föstu í lagatexta. En eins og margoft hefur komið fram þá mun ég fara þess á leit við væntanlega stjórn Íbúðalánasjóðs að þeir starfsmenn sem hún telur að þurfi til Íbúðalánasjóðs verði valdir úr hópi núverandi starfsmanna, ágætra starfsmanna Húsnæðisstofnunar.

Ég stóð sérstaklega upp til þess að þakka skýrsluna um Stokkseyri úr upphafi ræðu hv. þm. Þarna kom nefnilega fram þingmaður sem vissi hvað hann var að segja. Hv. þm. hefur verið sveitarstjórnarmaður og þekkir málið. Það hefur brunnið á henni sjálfri. Ég dreg ekki í efa að nákvæmlega rétt hefur verið greint frá öllu saman.

[20:00]

Því þá verð ég að viðurkenna að það er rétt hjá henni að þetta frv. leysir ekki nema hluta af þeim vanda og kannski ekki nema lítinn hluta af vandanum. Auðvitað þarf þarna sértækar aðgerðir til að bjarga vandanum endanlega. Það er svolítið tilhlaup í bráðabirgðaákvæðinu um varasjóðinn, að nota hagnað af innleystum íbúðum til að greiða niður en það dugir ekki langt. Ég bind nokkrar vonir við 14. liðinn í byggðaáætluninni sem ég tel að geti komið þarna við. Að endingu þetta: Reglurnar sem hið félagslega kerfi er bundið eftir eru kolvitlausar.