Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:07:48 (6630)

1998-05-15 20:07:48# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, PHB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:07]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Mér finnst iðulega að hv. þm. gleymi því að allar bætur eru greiddar af einhverjum. Þær eru greiddar af skattgreiðendum og það er mjög mikilvægt að kerfið sem við byggjum upp sé hagkvæmt. Nú er það þannig að það kerfi sem við erum með hefur bæði hækkað verð á fasteignum og er stórgallað eins og hv. þm. gat um. Það hefur hækkað verð á félagslegum íbúðum, lækkað verð á öðrum eignum annarra borgara í sveitarfélögum úti um allt land og það hefur oft veitt ómaklegum styrki, þeim sem ekki þurfa styrkja við. En það sem breytingin felst aðallega í er að nú á að fara að borga þeim sem á að fá styrkinn beina greiðslu með húsaleigubótum og vaxtabótum. Það skýrir viðbrögð þeirra aðila sem hafa haft tekjur frá kerfinu og haft umsjón með íbúðunum, þ.e. milliliðina, sem hafa verið að byggja íbúðir með vaxtaniðurgreiðslu og leigja þær út með lágri leigu sem nú verður gert óþarft. Samkeppnin mun nefnilega stóraukast á húsaleigumarkaðinum þegar leigjandinn sjálfur fær styrkinn og getur farið að velja sér íbúðir úti um allt. Þetta er aðalástæðan fyrir því að ég styð þetta kerfi, að það eykur samkeppnina, það mun lækka verðið í heild sinni á markaðnum og gera fólki kleift að velja sér íbúðir þar sem það vill búa en ekki að það verði að búa á ákveðnum stöðum.