Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:09:30 (6631)

1998-05-15 20:09:30# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:09]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fólk, sem þarf á félagslegu kerfi að halda, mun alls ekki geta valið sér með þessu nýja kerfi hvar það vill búa, alls ekki. Í skýrslu sem ég fór yfir um búsetuþróun á Íslandi, rannsóknir á orsökum búferlaflutninga, kom það fram og ég get farið yfir það aftur, hvaða þættir það eru sem hafa lækkað fasteignaverðið, hv. þm. Pétur Blöndal. Það eru stjórnvaldsaðgerðir sem hafa orðið til þess að fasteignaverðið hefur lækkað, ekki að boðið hafi verið upp á svo og svo mikinn fjölda félagslegra íbúða sem hafi dregið niður annað fasteignaverð. Það er ekki þannig. Fyrst og fremst er um að ræða breytingar á atvinnuháttum. Það kemur t.d. fram í þessari skoðanakönnun sem var gerð meðal fólks úti á landsbyggðinni, sem við þurfum að horfa til alveg sérstaklega, og það eru sértækar aðgerðir og þær munu ekki duga. Það er kominn tími til að menn horfi út fyrir höfuðborgina þegar talað er um hagkvæmt félagslegt kerfi. Það er kominn tími til þess. Hér segir hverjir það eru sem flytja milli, fara nú aðallega hingað til höfuðborgarinnar og það eru þeir sem hafa lægst launin. Það er fiskverkunarfólkið og það eru bændur. Heldur þú að þetta fólk sé að flytja búferlum og fara til Reykjavíkur vegna þess að verð á fasteignum hafi lækkað svo rosalega út af félagslegu húsnæði? Nei, það er að fara vegna þess að búið er að setja á arfavitlaust kvótakerfi þar sem m.a. er verið að flytja alla vinnslu úr landi út á sjó og vegna þess að við erum að leggja landbúnaðinn niður. Allt í ljósi hvers, virðulegi hv. þm. Pétur Blöndal? Samkeppninar. Það er vegna þess að þetta orð, samkeppnin, ræður ferðinni í öllu og það er þetta orð og þessi stefna harðrar samkeppni sem er að gera það að verkum að landsbyggðin er að leggjast af og það hefur ekkert með það að gera hvort félagslega kerfið hafi þróast á þennan eða hinn háttinn. Það er bara búið að flæma fólk úr félagslega kerfinu til Reykjavíkur vegna þess að það er ekki atvinna handa því.