Húsnæðismál

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:11:58 (6632)

1998-05-15 20:11:58# 122. lþ. 128.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég var bara ekkert að ræða um búferlaflutninga utan af landi. Ég var bara ekkert að ræða um það (MF: Fólk veldi sér búsetu.) Hef ég orðið? Ég var ekkert að ræða um búferlaflutninga, ég var að tala um það að þegar fólki úti á landi býðst íbúð sem er miklu ódýrari í leigu með endurkaupsrétti sveitarfélagsins miðað við að kaupa sér íbúð og vera bundið af henni alla tíð. Þetta hefur lækkað verð á fasteignum. Fólk hefur ekki getað losnað við íbúðir sínar á Blönduósi og Vestfjörðum og víðar úti um allt land. Þetta hefur lækkað verð á öllum íbúðum og þetta hefur gert það að verkum að fólk hefur ekki þorað að fara út á land og fjárfesta þannig að félagslega kerfið hefur virkilega valdið því að borgarar þessara svæða eru verr settir. En það sem ég var að geta um er að þegar neytandinn sjálfur, þ.e. leigjandinn, fær húsaleigubætur eða vaxtabætur ræður hann hvort hann leigir hjá Félagsstofnun stúdenta sem er með mjög dýra leigu og hefur safnað miklum auð, það er um 1 milljarður sem Félagsstofnun stúdenta hefur safnað, 200 þús. kr. á hvern einasta stúdent. Þegar stúdentinn getur valið um hvort hann leigi á almennum markaði sem er bara ekkert dýrari en Félagsstofnun stúdenta og fær húsaleigubætur myndast samkeppni. Félagsstofnun stúdenta verður þá að reka íbúðir sínar ódýrar og keppa við almennan markað en það vantar að sjálfsögðu bæði tekjuskatt og eignarskatt inn í dæmið hjá þessum aðilum sem eru með niðurgreidd lán og geta boðið niðurgreidda leigu en það er verið að breyta því.