Ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:39:41 (6638)

1998-05-15 20:39:41# 122. lþ. 128.93 fundur 394#B ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps# (um fundarstjórn), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:39]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson kom fram í sjónvarpi í kvöld. Hann sagði að tryggja þyrfti eðlileg þingstörf en þar stæði stjórnarandstaðan í vegi. Hún kæmi í veg fyrir að Alþingi Íslendinga næði eðlilegum þroska.

Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson telur sig eflaust vera mjög þroskaðan mann og Sjálfstfl. telur hann eflaust líka vera mjög þroskaðan, og sama gildir sennilega um Framsfl. og hæstv. ráðherra úr þeim flokki. Hæstv. félmrh. telur Davíð Oddsson eflaust vera mjög þroskaðan ráðherra. Og hæstv. iðnrh. telur Davíð Oddsson hæstv. forsrh. eflaust vera mjög þroskaðan ráðherra vegna þess að mælikvarði Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh. Íslands, á þroska stjórnmálamanna og þroska stofnana lýðræðisþjóðfélagsins er að farið sé að hans vilja í einu og öllu.

Þetta eru vanstilltar yfirlýsingar og þetta eru andlýðræðislegar yfirlýsingar. Á Alþingi eru þingmenn stjórnarandstöðunnar að reyna að forða stórslysum í lagasmíð. Við erum að reyna að koma í veg fyrir að lög verði samþykkt sem hefðu það í för með sér að þúsundum láglaunafólks yrði vísað út á götuna. Við erum að reyna að koma í veg fyrir að auðlindir þjóðarinnar verði teknar af henni. Hæstv. forsrh. mun ekki slökkva á okkur með hótunum af þessu tagi, hvorki hér innan dyra né í þjóðfélaginu almennt. Við munum tala máli okkar af vaxandi þunga fram að næstu kosningum þegar kjósendum gefst tækifæri til að skipta um áhöfn í Stjórnarráðinu og hér innan dyra.