Ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:41:52 (6639)

1998-05-15 20:41:52# 122. lþ. 128.93 fundur 394#B ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps# (um fundarstjórn), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:41]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég læt mér í léttu rúmi liggja hótanir hæstv. forsrh. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann hefur talað svona um hið háa Alþingi. Ég minnist þess að hann hefur líkt því við óþægan krakkabekk í gagnfræðaskóla. Við þurfum að hafa ákveðna samúð með sálarlífi hæstv. forsrh. Dagarnir eru honum erfiðir, það eru kosningar fram undan og í kjördæmi hans blasir það við að Sjálfstfl. er að tapa heldur illilega. Ég hef fyllstu samúð þess vegna með því að hæstv. forsrh. er dálítið vanstilltur þessa daga.

Lýðræðið er auðvitað vandmeðfarið. Stjórnarandstaðan hefur haft rétt sinn til þess að ræða í þaula og mjög ítarlega þau mál sem fyrir liggja. Það vill svo til að þau frumvörp sem hafa hlotið mesta umræðu síðustu dægur og vikur eru öll gríðarlega viðamikil, þau skipta mjög miklu máli. Þar er tekist á um grundvallarafstöðu til mjög mikilvægra mála og þess vegna er ekkert skrýtið að stjórnarandstaðan notfæri sér þennan rétt. Hann er auðvitað af hennar hálfu vandmeðfarinn. En það er líka vandmeðfarið af stjórnarliðinu hvernig þeir nota ofurtök sín hér. Það hefur aldrei gerst frá því að ég kom hingað upp úr 1990 að stjórnarliðið hefur ekki einu sinni virt stjórnarandstöðuna viðlits. Ekki er tekið tillit til einnar einustu ábendingar sem varðar þau mikilvægu frumvörp sem hérna liggja fyrir og það er ekki einu sinni rætt við stjórnarandstöðuna hennar frómu og hógværu óskir um að fresta tilteknum málum. Það eru engar viðræður í gangi. Það er nýlunda í þessum sölum og ég verð því að segja, herra forseti, að það er ekkert skrýtið þó að stjórnarandstaðan taki sér þennan rétt sem hún hefur. Ég held að það væri mjög erfitt og rangt af hæstv. forsrh. að reyna að beita sér fyrir þessari breytingu vegna þess að þar er vegið að einum grundvallarrétti lýðræðisins.

En ég vek hins vegar eftirtekt á því að það skiptir engu máli hverju hæstv. forsrh. hótar. Hann hefur einfaldlega ekki þingstyrk til þess að koma þessu í gegnum þingið. Sé slíkt frv. sem hann er að tala um komið fram eftir 1. apríl þyrfti afbrigði og ég, a.m.k. fyrir mitt leyti og væntanlega öll stjórnarandstaðan, mundi greiða atkvæði gegn því að veita slíkt afbrigði. Hann getur því ekki komið þessu frv. í gegn núna og ekki heldur þó hann framlengi þingið eitthvað fram á sumar.

Ég held þess vegna, herra forseti, að æskilegast væri að hið háa embætti forseta reyndi með einhverjum hætti að ná niðurstöðu í samræðum milli stjórnar og stjórnarliða. Hins vegar hefur ekki tekist einu sinni að ná þeim viðræðum í gang og ég harma það alveg eins og ég harma þessar vanstilltu yfirlýsingar hæstv. forsrh.