Ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:45:44 (6641)

1998-05-15 20:45:44# 122. lþ. 128.93 fundur 394#B ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps# (um fundarstjórn), Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:45]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Forseti hugðist svara og vill gera það nú. Í fyrsta lagi þykir forseta ekki eðlilegt að þessi umræða fari fram að hæstv. forsrh. fjarstöddum, en hann er ekki viðstaddur hér í kvöld af ástæðum sem forseti hélt að ýmsum væru kunnar og vonandi allir skilja. (ÖJ: ... komið fram með svona grófar yfirlýsingar.) Þá getur forseti upplýst að hæstv. forsrh. er upptekinn vegna heimsóknar Margrétar Danadrottningar hingað til lands. Það er ástæðan.

Forseti vill taka fram, vegna orða sem hér hafa fallið, að það hefur lengi legið fyrir að þessi fjögur mál sem verið hafa til umræðu í þinginu síðustu 14 daga hefur ríkisstjórnin sett í forgangsröð. Út af fyrir sig á það ekki að koma neinum á óvart nú.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði hvort hæstv. forsrh. væri að tala fyrir hönd forseta Alþingis. Það er hann ekki að gera, það talar enginn annar fyrir hönd forseta Alþingis. Forseti talar fyrir sínar skoðanir sjálfur. Forseti vill geta þess að hæstv. forsrh. bar þá hugmynd sína, sem hann kom fram með í sjónvarpsviðtali núna, ekkert sérstaklega undir forseta, enda þarf hann ekki að gera það fremur en aðrir og hæstv. forsrh. svarar að sjálfsögðu sjálfur fyrir sínar skoðanir. Forseti getur ekki svarað því hvort knýja eigi fram slíkar breytingar, sem spurt var um, á þessu þingi. Það hefur ekkert sérstaklega verið rætt.

Forseti vill leiðrétta þann misskilning sem kom fram í máli hv. 9. þm. Reykv. að það þurfi tvo þriðju til þess að taka slíkt mál til umræðu. Slíkt þarf ekki. Það eru ákvæði í þingsköpum þess efnis að einfaldur meiri hluti nægi til þess að taka á dagskrá mál sem lögð hafa verið fram eftir 1. apríl, þannig að sá misskilningur sé leiðréttur. Forseti telur sig ekki þurfa að taka fleira fram og vonar að hann hafi svarað beinum spurningum sem til hans var beint.