Ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps

Föstudaginn 15. maí 1998, kl. 20:48:28 (6642)

1998-05-15 20:48:28# 122. lþ. 128.93 fundur 394#B ummæli forsætisráðherra í fréttatíma sjónvarps# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 122. lþ.

[20:48]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Nokkuð lengi hefur legið fyrir hver forgangsröð ríkisstjórnarinnar er. Okkur alþingismönnum er það fullkomlega ljóst hvaða mál ríkisstjórnin ætlar að setja á oddinn og jafnframt að hún hyggst afgreiða öll önnur mál sem hér komu inn yfir veturinn og áformað var að afgreiða. Þessi áform þekkjum við en það breytir því ekki hversu mikilvægt það er að stjórn þingsins ræði saman.

Herra forseti. Við vitum af hvaða ástæðum forsrh. er ekki hér og hefur ekki tök á að koma í kvöld, en ég vil láta það í ljós að honum var það fullkunnugt þegar hann ákvað að senda okkur í stjórnarandstöðunni tóninn, enn á ný í gegnum fjölmiðla, að hann mundi ekki verða hér ef viðbrögð yrðu við orðum hans nú í kvöld. Það er líka nokkuð sem ástæða er til að ræða við hæstv. forsrh.

Forsrh. er ekki forseti þingsins. Stundum held ég þó að forsrh. haldi að hann sé allt, líka forseti þingsins. Hann talaði um það í kvöld að sómi þingsins væri að veði. Ég held, virðulegi forseti, að það þurfi að leiða forsrh. í sannleikann um sóma þingsins. Ég fagna því að það hefur verið skýrt hér í kvöld að forseti þingsins á engan hlut í þessari yfirlýsingu sem barst okkur í sjónvarpinu í kvöld.