Beiðni um úttekt Ríkisendurskoðunar á málefnum Búnaðarbankans

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 10:31:38 (6648)

1998-05-16 10:31:38# 122. lþ. 129.92 fundur 396#B beiðni um úttekt Ríkisendurskoðunar á málefnum Búnaðarbankans# (aths. um störf þingsins), SvG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[10:31]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og kunnugt er er kannski ekki mjög margt að segja um störf þingsins. Þau eru í tómri vitleysu og svo er ríkisstjórninni fyrir að þakka. En ég ætla að nefna eitt annað atriði sem er það að fyrir nokkru skrifaði þingflokkur Alþb. og óháðra forsn. Alþingis og óskaði eftir því að Ríkisendurskoðun gerði sams konar eða hliðstæða úttekt á Búnaðarbankanum og Seðlabankanum og gerð hafði verið á Landsbankanum. Forsn. Alþingis féllst þegar í stað á þessa ósk og tilkynnti okkur það og erindi var sent til Ríkisendurskoðunar. Nú er ljóst að eitthvað mun eftir af þessu þingi og með hliðsjón af því held ég að æskilegt sé að fá um það upplýsingar hvenær skýrslan kemur hugsanlega frá Ríkisendurskoðun þannig að hún geti komið til umræðu. Ég vil inna forseta eftir því hvort honum er kunnugt um hvenær skýrslan kemur frá Ríkisendurskoðun með hliðsjón af því að við getum þá skipulagt þingstörfin þannig að skýrsla Ríkisendurskoðunar komi á dagskrá.