Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 15:41:48 (6663)

1998-05-16 15:41:48# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[15:41]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það hlakka fleiri en hv. þm. til næstu kosninga, það skal ég segja hv. þm. Eftir framgöngu stjórnarandstöðunnar núna verð ég að viðurkenna að tilhlökkun mín að hitta stjórnarandstöðuna í kosningabaráttu fyrir næstu þingkosningar er mikil. Ég fæ ekki séð að neinar mælingar bendi til þess að framganga stjórnarandstöðunnar sé að ná eyrum þjóðarinnar nema síður sé.

Hv. þm., hinn gamli fréttamaður, finnur að því að verið sé að ræða við fréttamenn úti í bæ en ekki þingið. Einhvern tíma hefði honum þótt það vera vel til fallið að rætt sé við hina merku menn, fréttamennina. Nú má það ekki lengur að forsrh. tali við fréttamennina. Ég hef ekki orðið var við annað en að hv. þm. sé nokkuð sleipur við það sjálfur að ræða við sína gömlu kollega þegar honum hentar.

Ég áskil mér rétt til þess, ef ég er um það spurður, að lýsa skoðunum mínum. Ég hef ekki beðið neinn fréttamann um að ræða við mig. Ég hef ekki haft samband við neinn fréttamiðil og beðið um að ræða við mig. En hér hefur fréttamaður, sem fylgist náið með þingstörfum, talið ástæðu til að spyrja forsrh. spurninga um afstöðu hans og ég varð við því að svara því í þinghúsinu. Finnst það reyndar sjálfsögð skylda mín að gera það þegar fréttamaðurinn víkur að mér með þessa hluti. Og geri það sannfærður og hvert það orð sem ég sagði þar stend ég við enda hefur ekkert af því sem ég sagði þar verið hrakið í þessum umræðum nú, nema síður sé.

Hv. þm. munu væntanlega í dag og á mánudaginn og á þriðjudaginn og á miðvikudaginn með framgöngu sinni undirstrika hvert einasta orð sem ég hef sagt. Þeir munu nota tíma sinn með framgöngu sinni til að undirstrika við þjóðina að hvert orð sem ég sagði var satt. Ég þarf ekki einu sinni að gera. Þið, háttvirtir vinir mínir í stjórnarandstöðunni, munuð sjá um það.