Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 15:43:38 (6664)

1998-05-16 15:43:38# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[15:43]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsrh. segist vera reiðubúinn að veita svör en svarar þó engum. Ég spurði hæstv. forsrh. hvern hann teldi vera tilkostnað þjóðarinnar við að sitja uppi með ríkisstjórn sem er að eyðileggja félagslega húsnæðiskerfið. Ég fæ engin svör við þessu. Ég vil líka benda á það að af hálfu ríkisstjórnar hans hefur verið haldið fram fullyrðingum, blekkingum sem eru mjög alvarlegs eðlis, án þess að við því fáist nokkrar skýringar. Hér kemur t.d. fram í skýrslu OECD, sem hefur verið dreift til þingheims, að þessar fyrirhuguðu breytingar á húsnæðiskerfinu séu fyrsta skref til að fela kerfið einkaaðilum, til að selja það einkaaðilum á markaði. Þessu hefur staðfastlega verið neitað af hæstv. félmrh. Halda menn að alþingismenn og stjórnarandstaðan vilji ekki ræða þessi mál? Halda menn að menn vilji ekki ræða þann alvarlega vanda sem blasir við láglaunafólki þegar kostur þess er þrengdur í húsnæðismálum og fyrirsjáanlegt er að þúsundum láglaunafjölskyldna verður vísað út á götuna? Þetta eru staðreyndir máls. Nema til komi meira fjármagn inn í kerfið. Og við fáum engin svör við þessu. Halda menn að ábyrg stjórnarandstaða vilji ekki fá svör við spurningum af þessu tagi? Hvers konar ábyrgðarleysi er þetta eiginlega?

Það er þetta sem vakir fyrir stjórnarandstæðingum í umræðunni um húsnæðismál og önnur frumvörp sem hafa komið fram; að ekki sé þröngvað í gegnum þingið lagasmíð sem hefur jafnslæmar afleiðingar og fyrirsjáanlegt er með þessa. Þetta er ástæðan fyrir því að við viljum fá botn í þessi mál. Það gengur ekki fyrir forsrh. landsins að svara út úr og vera með skæting af því tagi sem hann leyfir sér gagnvart þinginu.