Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 15:57:02 (6669)

1998-05-16 15:57:02# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, MF (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[15:57]

Margrét Frímannsdóttir (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég aðeins víkja að þeim orðum sem komu frá hæstv. forsrh. um að hér hefði verið áætlun um að störfum þingsins ætti að ljúka 8. maí og það væri rétt að þjóðin fengi að vita sannleikann um málþóf hv. stjórnarandstöðunnar. Það hefði verið rétt að hafa nokkur önnur sannleikskorn með í þeirri umræðu eins og það að hæstv. ríkisstjórn ákvað að leggja fram hér 40 mál sem átti að afgreiða á mjög stuttum tíma, allt of stuttum miðað við það að þarna er um mjög stór og viðamikil mál og stórpólitísk mál að ræða.

Hér var farið yfir þær klukkustundir sem hefðu farið í að ræða ýmis málefni og mismuninn þar á. Hæstv. forsrh. nefndi t.d. málið þjóðlendur sem hefur ekki fengið nema rúmar fimm klukkustundir. Þar var um mál að ræða sem nokkuð góð samstaða var um í vinnu nefndarinnar. Hin málin sem hér voru nefnd voru hins vegar stórpólitísk mál og stór ágreiningsmál.

Ég vil nú beina spurningu til hæstv. forseta: Á það að verða venja í þinginu að reikna út kostnað á hvern þingmann, ræðuhöld sem og annað? Ég óska þá eftir því að forsn. skoði um leið alla aðra kostnaðarþætti, svo sem hvað kosti að vinna hvert mál í nefnd, hvað störf nefndaritara kosti, sem vinna kannski fyrst og fremst --- því það er ákveðinn aðstöðumunur eins og allir þekkja --- fyrir stjórnarmeirihlutann og hvað sérfræðingarnir og starfsmenn ráðuneyta kosti, sem sitja að beiðni stjórnarmeirihluta marga, ef ekki flesta, fundi ýmissa nefnda til þess að svara þeim spurningum sem fram koma. Hvað kostar undirbúningurinn að frv. áður en það er lagt fram? Hvað kostar að semja framsöguræðuna og prenta hana og hvað kosta sérfræðingarnir sem sitja hér í hliðarherbergjum fyrir ráðuneytin á meðan málin eru rædd til þess að vinna fyrir hæstv. ráðherra? Hvað kosta allir þessir þættir? Og er þá ekki rétt að sundurliða það niður á hvern þann einstakling sem hlut á að máli?

Mér finnst það alveg með ólíkindum ef það á að fara að verða venja hér að reikna út kostnaðinn við ræðutíma þingmanna, án þess þó kannski að láta það fylgja með hver vinnan er á bak við hjá þeim þingmönnum sem hlut eiga að máli. Og það vita allir sem hér eru inni að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur líklega þekkingu á húsnæðismálunum langt umfram okkur mörg hin. (Gripið fram í: Er eðlilegt að tala í tíu tíma?) Það er eðlilegt að tala í tíu tíma ef viðkomandi hv. þm. telur að hún þurfi það langan tíma til þess að koma öllum sínum athugasemdum á framfæri. Við skulum þá reikna út fyrir þjóðina hvað það hefur kostað hana í heild, alveg frá því að byrjað var að semja frv., að leggja niður félagsleg úrræði í húsnæðiskerfinu.