Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 16:13:50 (6674)

1998-05-16 16:13:50# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[16:13]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vil aðeins bæta því við vegna þeirrar alvarlegu umræðu sem hefur farið fram að ég held að óhjákvæmilegt sé að það takist með einhverjum hætti þegar Alþingi heldur áfram störfum, hvort sem það verður nú eftir helgina eins og hæstv. forsrh. hefur ákveðið eða hyggst láta verða, eða síðar, að þá verði af hálfu forseta skapaðar aðstæður til að unnt sé að ræða stöðu Alþingis og löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu. Ég held að hér séu á ferðinni svo alvarlegir og stórir atburðir sem varði Alþingi sjálft, þingræðið og í raun og veru kjarnann í lýðræðinu í landinu svo miklu að óhjákvæmilegt sé að Alþingi taki sér tíma til að ræða þetta sjálft.

Ég fer þess vegna fram á það, herra forseti, að forseti hugleiði hvort ekki sé hægt að koma þessu við. Í trausti þess að það verði mögulegt á næstu dögum bið ég forseta um að strika mig út af mælendaskrá í dagskrármálinu sem er til umfjöllunar vegna þess að þær athugasemdir sem ég ætlaði að gera þar voru fyrst og fremst tengdar því viðfangsefni sem við höfum verið að ræða. Ég vil frekar, verði þess kostur, fá að ræða þær undir formlegum dagskrárlið sem Alþingi ákveður til þess að taka þetta mál fyrir.