Húsnæðismál

Laugardaginn 16. maí 1998, kl. 16:15:45 (6675)

1998-05-16 16:15:45# 122. lþ. 129.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 129. fundur, 122. lþ.

[16:15]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég átti það eitt erindi í stólinn að óska eftir því að ég yrði tekinn út af mælendaskrá í dagskrármálinu vegna þess að nauðsynlegt er að ræða rækilega hina alvarlegu stöðu milli þingsins og framkvæmdarvaldsins sem nú er komin upp og finna flöt á því máli. Ég held að mjög lítið annað sé hægt að ræða eins og sakir standa. Þegar hæstv. forsrh. er búinn að lýsa því yfir að hrammur hans stýri þinginu í smáatriðum hlýtur maður að haga sér í samræmi við það.

Samt sem áður vil ég nota tækifærið til að spyrja hæstv. forsrh., úr því að hann hefur ákveðið að hafa þingfund á mánudaginn, hvaða mál verður tekið fyrir, hvenær þingfundur hefst á mánudagsmorguninn, hvort hann geri ráð fyrir kvöldfundi á mánudag, þriðjudag og miðvikudag og hvaða mál hann vill afgreiða í næstu viku. Það er æskilegt fyrir okkur að hann skýri okkur frá því hvað þingviljinn, sem hann er kjarninn í eins og hann hefur sagt nokkrum sinnum, hugsar sér að gera í þessu máli.