Samráð um þingstörfin

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 11:02:29 (6680)

1998-05-18 11:02:29# 122. lþ. 130.92 fundur 399#B samráð um þingstörfin# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[11:02]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi fundarins gagnrýna aðdraganda hans. Við höfum lagt á það mikla áherslu við forseta að fram færu samtöl, að ekki væri boðuð atkvæðagreiðsla án samráðs milli forseta og þingflokksformanna. Nú gerðist það enn á ný að til þessa fundar og atkvæðagreiðslu var boðað með símtali frá skiptiborði í morgun.

Það var fremur vondur svipur á þessu, herra forseti, í kjölfar dæmalauss málflutnings forsrh. á laugardaginn. Hins vegar er það jákvætt að forseti hefur boðað á þessum morgni til fundar með þingflokksformönnum. Ég les úr þeim fundi að meiri hluti á Alþingi vilji greinilega samtöl og umræðu um þinghaldið fram undan og í ljósi þess hefur verið fallist á það af okkar hálfu að ganga til atkvæðagreiðslu og þrátt fyrir vondan svip á umræðu hér fyrir helgi, sem er mál sem við þurfum að ræða sérstaklega og ég minni á umræðu á laugardag um nauðsyn þess að hér verði tekin fagleg umræða um þingræðið gagnvart framkvæmdarvaldinu, treysti ég því að slík umræða fari fram áður en þinginu lýkur nú næstu daga en við munum ganga til þessarar atkvæðagreiðslu m.a. í ljósi þess að hér verði viðræður um framhald þingstarfa.