Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 11:07:17 (6683)

1998-05-18 11:07:17# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, KÁ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[11:07]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Það frv. sem er komið til atkvæða er flutt í fullkominni ósátt við verkalýðshreyfinguna í landinu en hún hefur innan vébanda sinna flest það fólk sem þarf á félagslegri aðstoð í húsnæðismálum að halda. Með þessu frv. er verið að auka kostnað þeirra sem eiga rétt á viðbótarlánum og einnig er verið að auka kostnað sveitarfélaganna í landinu.

Verði þetta frv. samþykkt er verið að vísa fjölda fjölskyldna út á leigumarkað sem er ekki til. Þetta frv. er í mörgum atriðum afar óljóst og mikil óvissa er um hvaða afleiðingar það muni hafa eða hvernig því verður fylgt eftir. Því tel ég rétt, hæstv. forseti, að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar og það unnið betur í sátt við þá aðila sem eiga mest undir því hvernig aðstoð í húsnæðismálum er háttað.