Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 11:09:18 (6685)

1998-05-18 11:09:18# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[11:09]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Stærstu samtök launafólks á Íslandi, ASÍ, BSRB, Kennarasamband Íslands, nær öll almannasamtök í landinu sem hafa með félagslegt húsnæði að gera, Búseti, Öryrkjabandalagið, Sjálfsbjörg, námsmannahreyfingin, húsnæðisnefndir allra stærstu sveitarfélaga landsins, allir þessir aðilar hafa óskað eftir því að frv. verði ekki samþykkt sem lög frá Alþingi í þeirri mynd sem það liggur nú fyrir heldur gefist mönnum tóm í sumar til að ígrunda málin betur enda er ljóst að margt er mjög óljóst í frv. Hins vegar er ljóst að þessi lög munu rýra kjör láglaunafólks, koma í veg fyrir að lágtekjufólk á Íslandi eignist eigið húsnæði sem er nokkuð sem fáir hefðu trúað fyrir fáeinum árum, að Sjálfstfl. mundi leggjast gegn sjálfseignarstefnunni en það gerir hann og það gerir hann án þess að tryggja valkosti á leigumarkaði í staðinn.

Við viljum að menn setjist yfir málin og reyni að komast að skynsamlegri niðurstöðu og réttlátari en hér er boðið upp á. Þess vegna leggjum við til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.