Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 11:18:01 (6692)

1998-05-18 11:18:01# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[11:18]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Lagagreinin sem við erum að greiða atkvæði um er svohljóðandi:

,,Tilgangur laga þessara er að stuðla að því með lánveitingum og skipulagi húsnæðismála að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og að fjármunum verði sérstaklega varið til þess að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum.``

Þetta eru eftirsóknarverð markmið og upp á þau gæti ég skrifað. En þegar þessi grein er skoðuð með hliðsjón af frv. í heild sinni kemur í ljós að lagagreinin er gróf öfugmæli og blekking gagnvart almenningi. Það er ekki verið að tryggja öryggi í húsnæðismálum eins og segir. Það er ekki gert ráð fyrir því að verja fjármunum sérstaklega til að auka --- takið eftir --- til að auka frá því sem nú er möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Þetta er blekking og blekkingar á ekki að samþykkja. Það á ekki að lögfesta blekkingar. Við eigum að lögfesta þessa lagagrein þegar fyrir henni er innstæða.