Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 11:19:55 (6694)

1998-05-18 11:19:55# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[11:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir það að eðlilegast hefði verið að fresta þessari atkvæðagreiðslu þannig að fleiri óbreyttir stjórnarþingmenn gætu komið til starfa sinna hér.

Að öðru leyti er það mitt mat á 1. gr. frv. að hún sé eða verði í besta falli gagnslaus en í versta falli, lesin saman við önnur ákvæði frv., boði hún það upphaf að endalokum félagslegra áherslna í húsnæðismálum sem þetta frv. auðvitað stendur fyrir.

Það er alveg ljóst að með því að leggja niður Byggingarsjóð verkamanna og félagslegt íbúðalánakerfi, húsnæðiskerfi, eru stjórnvöld að missa úr höndum sér það tæki sem hægt hefur verið að beita á undanförnum árum og áratugum til þess að veita þeim forgang sem mesta þörfina hafa fyrir aðstoð. Það verður ekki hægt í hinu markaðsvædda kerfi ríkisstjórnarinnar þar sem ,,herra markaður`` leggur alla að jöfnu.

Það er því alveg ljóst, herra forseti, að þetta frv. er fyrst og fremst árás á tekjulægsta fólkið í landinu, einstæðar mæður, námsmenn og aðra slíka sem hingað til hafa fengið forgang í hinu félagslega kerfi.