Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 11:35:25 (6706)

1998-05-18 11:35:25# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, JóhS (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[11:35]

Jóhanna Sigurðardóttir (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mjög eindregnar óskir hafa komið fram með mjög gildum rökum um að þessari atkvæðagreiðslu sé frestað.

(Forseti (ÓE): Hver eru rökin?)

Að hér vanti stjórnarliða og stjórnarandstaðan sem algerlega er andvíg þessu frv. sé sett í þá stöðu að þurfa að hjálpa til við að atkvæðagreiðslan geti gengið fram af því að stjórnarliðar hafa ekki þingstyrk til þess. Ég vil nefna það hér að ég var ein þeirra sem mælti gegn því við þingflokksformann minn, á þingflokksfundi hér áðan, að við mundum fara í þessa atkvæðagreiðslu. Það var ekki síst í ljósi þeirrar uppákomu sem varð hér á laugardaginn. Ég féllst þó á það í trausti þess að þingliðið hefði meiri hluta til þess að koma í gegn þessu frv. sem við erum algerlega andvíg. Ég ítreka mótmæli mín við því, herra forseti, að ég skuli þvinguð í atkvæðagreiðsluna undir þessum kringumstæðum. Enn og aftur spyr ég um það, herra forseti, hvort ekki sé hægt að fresta þessari atkvæðagreiðslu þar til fyrir liggur hvort þessir þrír stjórnarliðar, sem ekki hafa boðað fjarvist, geti verið við þessa atkvæðagreiðslu. Það er óviðunandi fyrir okkur í stjórnarandstöðunni að þurfa að taka þátt í þessari atkvæðagreiðslu við þessar aðstæður.