Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 12:05:46 (6710)

1998-05-18 12:05:46# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[12:05]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Hér er verið að búa til nýja stofnun og leggja aðra niður. Í þessu sambandi vil ég nefna tvennt: Starfsöryggi núverandi starfsfólks er ekki tryggt í samræmi við yfirlýsingar hæstv. félmrh. um að hann muni gera allt sem í hans valdi stendur til að tryggja starfsöryggið. Það getur hann gert með því að setja forgangsréttarákvæði í lagatextann og þessu verður að breyta áður en frv. er endanlega afgreitt frá Alþingi.

Hitt atriðið sem ég vildi leggja áherslu á er að hætta er á því að hér sé verið að stíga fyrsta skrefið til að taka húsnæðismálin algerlega undan forræði lýðræðislega kjörinna fulltrúa og fela þau fjármagnsmarkaðnum í samráði við OECD-skýrsluna sem var dreift í síðustu viku en í henni segir að ríkisstjórnin íslenska sé að gera breytingar á húsnæðiskerfinu í þá átt að einkavæða það. Í OECD-skýrslunni segir að væntanlega sé lítil ástæða til að halda þessari nýju stofnun í ríkiseign. Henni mætti breyta í húsnæðislánabanka sem væri hægt að selja einkageiranum.

Hér er verið að stíga skref sem betur væru óstigin.