Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 12:07:07 (6711)

1998-05-18 12:07:07# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[12:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Með stofnun svonefnds Íbúðalánasjóðs samkvæmt þessari grein er í reynd verið að leggja Byggingarsjóð verkamanna niður og þar með leggja niður það tæki sem stjórnvöld hafa haft til þess að aðstoða þá sem í mestri þörf eru fyrir stuðning við húsnæðisöflun með hagstæðum lánskjörum og með reglum um forgang þeirra. Þar með er verið að markaðsvæða algerlega húsnæðislánafyrirkomulagið og menn tapa þeim möguleika að beina aðstoðinni til sérstakra hópa sem hafa erfiðastar aðstæður til að leysa úr málum sínum sjálfir.

Það er þó viðbótarhneyksli, herra forseti, að þetta frv. sem flutt er af hæstv. félmrh. og þar með yfirmanni vinnumarkaðsmála í landinu skuli vera fyrsta einkavæðingarfrv. eða einkavinavæðingarfrv. af hálfu nokkurrar ríkisstjórnar þar sem ekki er minnst einu orði á réttindi starfsmanna við þá opinberu stofnun sem á í reynd að fara að leggja niður. Það er hæstv. félmrh. til alveg sérstakrar háðungar og er þá langt til jafnað.