Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 12:12:54 (6716)

1998-05-18 12:12:54# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[12:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í raun er það svo að þetta frv. gerir ráð fyrir nánast algeru einveldi hæstv. félmrh. Í því felast m.a. þær breytingar að félmrh. á nú að skipa einn fríhendis alla stjórn hins nýja Íbúðalánasjóðs en Alþingi kaus áður stjórn Húsnæðisstofnunar eins og kunnugt er.

Í viðbót við þetta hefur hæstv. ráðherra gífurlega rúmt reglugerðarvald samkvæmt þessu frv. þannig að annað eins hefur sennilega ekki sést í annan tíma og í þriðja lagi er svo í frv. hent út fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar þar sem þeir hafa átt aðild að málum í gegnum húsnæðisnefndir sveitarfélaga. Þegar allt er samanlagt, herra forseti, er hér á ferðinni ákaflega ólýðræðislegt fyrirkomulag, mikil valdasamþjöppun undir einum og sama manninum, hæstv. félmrh. Þetta er í stíl við það sem einkavæðingin hefur yfirleitt falið í sér á undanförnum árum að allt vald er fært í hendur eins pólitísks ráðherra.

Þessu mótmæli ég, herra forseti, og greiði atkvæði gegn þessari grein.