Húsnæðismál

Mánudaginn 18. maí 1998, kl. 12:20:11 (6721)

1998-05-18 12:20:11# 122. lþ. 130.1 fundur 507. mál: #A húsnæðismál# frv. 44/1998, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 130. fundur, 122. lþ.

[12:20]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Í þessari grein er kveðið á um að kerfið skuli markaðsvætt. Fjármagns skal aflað í gegnum markað, ekki með framlögum úr sameiginlegum sjóðum samfélagsins og enda þótt slíkt kunni að verða gert með tilvísun til annarra greina og með bráðabirgðaákvæðum, þá kemur hér fram hver hin raunverulega hugsun er sem að baki býr.

Í markaðsvæðingu kerfisins felst ekki sparnaður fyrir samfélagið og þetta er ávísun á auknar byrðar á þá sem koma til með að nýta sér kerfið. Þeir hins vegar fagna sem hagnast á fjármagni, háum vöxtum og viðskiptum með verðbréf og húsnæði enda er smám saman verið að færa valdið til þeirra. Það er verið að færa skattheimtuvaldið út á fjármagnsmarkaðinn. Þar bíður sveit manna fagnandi. Sérstaklega gleðst hún yfir að eiga svona góða ríkisstjórn, ríkisstjórn sem aldrei velkist í vafa um hvaða fólk það er sem á að vera í fyrirrúmi.